
Varð að aflýsa 5 af 7 guðsþjónustum vegn ófærðar á fjallvegum.
Örn Bárður Jónsson
Fyrirhugaðar voru guðsþjónustur í
Bíldudalskirkju, Tálknafjarðarkirkju og Patreksfjarðarkirkju kl. 18 kl. 21 kl. 23.
(Að auki var helgistund á hjúkrunarheimilinu HVest Patreksfirði kl. 13 en þar var aðeins flutt stutt hugvekja)
Aflýsa varð öllum guðsþjónustum nema á Patreksfirði.
Kórfólk mætti í kirkjuna á Bíldudal og söng og las jólaboðskapinn í prestsleysinu en ég hef ekki fengið frengir frá Talknafirði hvort helgistund var haldin þar af heimafólki.
En hér er hægt að lesa og hlusta á prédikunina:
Ræðan mín á jólanótt í Patreksfjarðarkirkju:
Það er ófært, í dag. Það er ófært!
Ég hringdi í Vegagerðina í dag og heyrði þessi orð: það er ófært!
Og hvernig eigum við þá að komast á milli staða?
Aðventan er liðin með sínu stefi um Hann sem kom eftir illfærum vegum heimsins, inn í heim í neyð og fjötrum. Aðventa merkir koma. Og nú eru jólin gengin í garð og hann sem við væntum er kominn. Hann kemur þegar við minnumst hans og rifjum upp fæðingarfrásögnina um Maríu og Jósef, sem fóru til að láta skrásetja sig í fyrstu slíkri aðgerð á tímum Kýreneusar landstjóra í Júdeu.
Við Íslendingar erum taldir eiga elsta manntal heillar þjóðar í heiminum. Í Þjóðskjalasafninu er þennan texta að finna: „Manntalið 1703 er líklega elsta manntal í heimi, sem enn er varðveitt, þar sem getið er allra þegna heillar þjóðar með nafni, aldri og stöðu. Það er einstök heimild um íslenskt þjóðfélag í upphafi 18. aldar.“
Hann sem skráður var með í Júdeu, Kristur, sjálfur Guð á jörðu, breytti veröldinni á róttækan hátt með boðskap sínum, lífi og dauða.
Hann kemur til okkar þar sem við bíðum hans, veðurteppt eða ekki. Hann kemur. Hann er kominn.
Ísland er líklega eina land veraldar sem ætíð hefur haft kristna íbúa. Fyrstu landnámsmennirnir voru írskir munkar að talið er og munkar voru að sjálfsögðu kristnir. Í hópi norrænu landnámsmannana voru heiðnir og kristnir menn og hinir síðarnefndu voru margir landnámsmenn á Vesturlandi og Vestfjörðum. Patreksfjörður ber þessari sögu vitni, en Patrekur, sem áður hét Maewyn Succat og átti Carpurnius og Conchessu að foreldrum, var fæddur á 5. öld og varð postuli Írlands og síðar þjóðardýrlingur Írlands, Heilagur Patrekur.
Trúin okkar á sér því djúpar rætur á Vestfjörðum.
Nú er víða ófærð á landinu og ekkert ferðaveður. Margir verða því að bíða átekta. Við eru rækilega minnt á það um þessar mundir að landið okkar er harðbýlt og allra veðra er von einmitt á þessum tíma árs, þegar sólin er að fikra sig upp á himinhvolfið aftur eftir vetrarsólhvörf.
Við finnum árlegan takt náttúrunnar á eigin skinni. Hér hefur fólk þraukað um aldir við gjörólíkan aðbúnað miðað við þann sem við þekkjum, sem nú lifum í hlýjum húsum, klædd skjólgóðum flíkum og komumst flestra okkar ferða á vélknúnum ökutækjum. Ísland krefst samt áfram þrautseigju af sínu fólki eins og forðum og hér í Vesturbyggð býr enn iðið fólk og duglegt.
Ég var nýkominn Vestur í nóvember og fór á íbúafund um atvinnuppbyggingu á Vestfjörðum þar sem m.a. kom fram hversu mikið Vestfirðingar leggja til samfélagsins umfram það sem ríkið lætur renna til baka til byggðanna hér. Vestfirðingar eru sko engir amlóðar í samanburði við aðra landshluta því þeir tróna á toppnum. Á fundinum var einnig rætt um samgöngur. Þær skipta Vestfirðinga miklu. Gefur á sjó í dag? Er fært á miðin? Kemst ég suður í dag? Kemst ég norður? Kemst ég heim?
Og einmitt nú á aðfangadagskvöld og sjálfri jólanóttinni vakna spurningar um færð og möguleika til ferðalaga.
Ég hef aflýst guðsþjónustum á morgun, jóladag í Sauðlauksdal, á Rauðasandi og Barðaströnd. Og ekki komst klerkur á sinni kerru á Bíldudal eða Tálknafjörð fyrr í kvöld. Og þeirri spurningu er ósvarað hvenær ég nái heim til að halda jól með ástvinum mínum syðra, sem komnir eru frá útlöndum til fagna jólunum hér?
Komumst við á milli staða, yfir heiðar og fjöll?
Eitt sinn hrópaði presturinn á Suðureyri við Súgandafjörð í páskamessu:
„Það er búið að opna! Það er búið að opna!“.
Þetta var áður en göngin voru grafin milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar. En þessa páskana var búið að moka heiðina.
„Það er búið að opna!“
Sú upphrópun var fagnaðarefni og svo er enn þegar við komumst leiðar okkar.
En svo er það spurningin um að komast yfir mærin miklu þegar við mætum skapadægri okkar allra. Verður leiðin þá lokuð eða opin?
Hver er hin hinsta og eilífa von sem mannkynið á, sú eina sem við getum treyst á í brotsjóum lífsins?
Boðskapur jólanna er sá, að búið sé að opna. Ófærðin er að baki. Þegar Jesús ræddi við lærisveina sína um örlög sín greinir Jóhannes postuli frá orðaskiptum Jesú og lærisveina hans í 13. og 14. kafla guðspjallsins:
„Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, hvert ferðu?“
Jesús svaraði: „Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer en síðar muntu fylgja mér.“
37 Pétur segir við hann: „Drottinn, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.“
38 Jesús svaraði: „Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.“ (Jóh 13)
Þá sagði Jesús þessi meitluðu orð:
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað?
3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh 14)
Það er búið að opna! Vegurinn er greiðfær. Við munum ná heim!
Í jólakveðju sem ég setti inn á vef minn er sálmur sem ég þýddi úr norsku fyrir 5 árum og ég kalla Jól á Norðurslóðum. Hann er um harðbýl héruð Norðurlanda, dugnað fólksins, þrautseigju og kjark í óverðrum og óblíðri náttúru a.m.k. á vetrum:
Send blessun og frið yfir fjörðinn,
fær blessun og ljós yfir lönd.
Og blessa þau eilífu orðin,
um vonir og útrétta hönd.
Vernda það góða þú gafst oss,
þann daginn oss bar hér að strönd,
gef oss að trúa og forð ́ oss að flækjast
í fátæktarbönd.
Vér horfðum oft grátandi’ í gaupnir,
en glæst er hin sterka trú,
nú karlarnir konunum jafnir,
í kærleiksverkum sem þú.
Nú bíður vor harðasta hríðin,
með harðfylgi náum vér heim,
þar ljósið lýsir og aðventutíðin,
með líkn frá Betlehem.
Guðs friður í djúpi, á fjalli,
svo farnist vel byggð og jörð,
Guðs friður í fjárhúsi’ og stalli,
yfir fannir og harðan svörð.
Þú sérð gegnum mæðu og myrkur,
þín miskunn nær út yfir jörð,
heimilin, fjörðinn, fjöllin og kirkjur
og fólkið – þína hjörð.
Lag og norskur texti: Trygve Hoff 1985.
Þýðing: Örn Bárður Jónsson, október 2019
Við lifum öll og tengjumst hinu stóra samhengi alls sem er.
Lífið á jörðinni hangir allt saman. Til þess að okkur líði vel
þurfum við að vera í góðum tengslum á þremur sviðum:
-Við okkur sjálf og mannlífið.
-Við náttúruna.
-Við Guð – hið stóra samhengi.
Við þurfum að komast af í samskiptum við annað
fólk, láta okkur þykja vænt um hvert annað, skynja
það að við erum í raun öll systkin í trúnni á Krist.
Við þurfum að læra að njóta náttúrunnar, skynja
samhengið í henni, hvernig jafnvægið er þar og við
mitt í því öllu. Þorskurinn í sjónum er skyldur okkur,
hinn guli, sem ber í sér sólarljósið, gulur á kviðnum
og gefur lýsið sem forðum lýsti upp myrkvuð kot og
enn gefur okkur birtu í sál og vinnur gegn
skammdegisdrunga, er afurð sjávaraflans sem
sjómennirnir okkar sækja.
Við þurfum að læra að lifa í samfélagi við Guð. Þar er
kirkjan mikilvæg leið, íhugun og bæn fyrir
samferðafólki, fyrir atvinnulífi, þjóðinni og heimi
öllum.
Innskot um börnin . . .
Við erum tengslafólk og þörfnumst opinna leiða á landi, sjó
og lofti – og ekki síst í hjarta og sál, opinnar leiðar milli
himins og jarðar.
Þannig náum við að lifa í samhljómi við tilgang okkar, mark
og mið, sem er himinn Guðs í fyllingu tímans.
Við eigum heima hér um tíma en
„En föðurland vort er á
himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú
Krists“, segir postulinn (Fil 3.20).
Það er búið að opna! ekki bara heiðar og vegi heldur veginn
til himinsins heim og jólaleiðin er alltaf opin, fyrir hverju
hjarta sem vill taka á móti gestinum besta.
Gleðileg jól, góð systkin í Kristi, gleðileg jól og farsælt
komandi ár. Þakka ykkur hlýjar móttökur hér í Vesturbyggð
og Guð styrki ykkur í lífsbaráttunni og huggi ykkur þegar þið
mætið sorg og missi. Biðjum fyrir þeim sem nú syrgja
horfinn ástvin, Áslaugu Traustadóttur, í Tálknafirði og öðrum
sem líða nauð. Stöndum með fólki sem grætur.
Jesús sagði við lærisveina sína:
„Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í
heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef
sigrað heiminn.“
Já, verum hughraust því sigurvegarinn sjálfur fer fyrir okkur,
hann sem opnað hefur leiðina heim, hann sem kom sem
barn á jólum.
Já, það ER búið að opna!
Guð blessi ykkur, kæru íbúar í Vesturbyggð, í bæjum og
sveitum, hann blessi ástvini ykkar og ættfólk allt, nú og um
alla framtíð.
Gleðileg jól!
You must be logged in to post a comment.