1948-2024

Bálför í kyrrþey frá Fossvogskapellu
mánudaginn 25. nóvember 2024 kl. 13
Ræðuna geturðu lesið og/eða hlustað á hér fyrir neðan.
RÆÐAN:
Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. (Sálmarnir 139:7-10)
Þennan texta las ég yfir móður Helgu er ég jarðsöng hana árið 2006. Þá sagði ég þessa sögu:
Ásthildur Ólafsdóttir, glímdi við spurningar um lífið og tilveruna fram á hinsta dag. Tilvistarspurningar voru henni hugleiknar. Ég hitti hana á líknardeildinni í Kópavogi nokkrum dögum fyrir andlát hennar. Hún var búin að bíða eftir prestinum sem verið hafði í útlöndum og skoðaði hann rannsakandi augum þegar hann loksins kom. Ég þekkti til fjölskyldu hennar, en ekki hana sjálfa, en mér er ljóst, eftir að hafa átt fund með ástvinum hennar, að hún hafi verið sjálfri sér lík til hinstu stundar. Hún vildi ræða við prest og þessi var að Vestan og það gerði útslagið.
Hún var ekkert að vorkenna sér en var þó sárþjáð, bar sig vel, var ögrandi í spurningum og vildi rökræða hlutina. Hún var að glíma við tilvist sína, trúna á Guð, lífið og dauðann. Hún vildi fá sannanir. Prestar geta ekki sannað neitt í trúarefnum en þeir geta kannski sannfært. Ég benti henni á að aðeins á einum stað í allri Biblíunni, þessari miklu og helgu trúarbók, á einum stað væri trúin rædd og skilgreind og þá með þessum orðum:
„Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)
Trúin verður skv. þessu aldrei sönnuð sem slík því hún byggir á von og trausti til þess sem ekki verður sannað. Að trúa er að treysta því að orð Guðs standi, að fyrirheit hans haldi og það verði sem lofað var. Við erum stöðugt að treysta í lífinu og komumst ekki af án þess að treysta. Ég treysti því að flugmaðurinn sem flýgur farþegavélinni sem ég ferðast með hafi flugmannspróf, sé heill á sönsum og ófullur. Ég treysti því að flugvirkinn vinni sína vinnu af heilindum og fagmennsku. Fólk treystir því að hárgreiðslumeistarinn rífi ekki í hárið á því, snoði það eða eitthvað annað verra. Við erum alltaf að treysta og trúa. En treystum við Guði? Treystum við vitnisburði sjónarvotta sem sáu Krist upprisinn, sáu að hann hafði sigrað dauðann? Treystum við boðskapi kirkjunnar sem hún hefur flutt mannkyni í tvö þúsund ár? Treystum við vitnisburði þeirra þúsunda Íslendinga sem lagt hafa líf sitt í hendur Guði í trú og trausti til fyrirheita hans?
„Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)
Svo mörg voru þau orð. En nú snúum við okkur að henni, Helgu Jakobsdóttur, sem fæddist í Reykjavík 5. ágúst 1948 og lést í Hafnarfirði 2. nóv. 2024.
Foreldrar hennar voru Ásthildur Ólafsdóttir, sem fædd var á Ísafirði 27. okt. 1931 og lést 11. feb. 2007 og Jakob Erlendsson, skrifstofustjóri, 1916–1970 en hún hafði ekkert samband við föður sinn í lifanda lífi.
Ásthildur, móðir hennar, lauk Barna- og Gagnfræðaskóla á Ísafirði. Hún stundaði nám í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík. Hún lærði hárgreiðslu á Ísafirði og stofnaði sína eigin hárgreiðslustofu á Hverfisgötu 42, Reykjavík árið 1942, sem hún rak fram undir 1970. Ásthildur sótti ýmis námskeið og ráðstefnur í iðn sinni innanlands sem utan. Hún starfaði síðan á Elliheimilinu Grund og hjá Lyfjaverslun ríkisins þar til hún hætti vegna aldurs.
Helga ólst upp hjá móður sinni og afa og ömmu, Ólafi Pálssyni, framkvæmdastjóra á Ísafirði, síðar lögg. endurskoðanda í Reykjavík, f. 29. janúar 1884, d. 12. des. 1971, og k.h. Helgu Björnsdóttur, ljósmóður á Ísafirði og síðar í Reykjavík, f. 3. okt. 1892, d. 13. sept. 1967. Þau bjuggu um tíma við Hverfisgötu, í Sindrahúsinu og síðar á Hagamel í Vesturbænum.
Sem barn var Helga í Landakotsskóla og Hagaskóla og tók próf frá svonefndri Verzlunardeild Hagaskóla, sem var hagnýtt nám er gagnaðist henni vel á lífsleiðinni. Hún nam einnig við „ungdomsskole“ í Danmörku um tíma.
Ung kynntist hún Birni Antonssyni, f. 1947 sem lærði flugvirkjun í Tulsa í Oklahóma. Um tíma bjuggu þau í NY og þar starfaði Björn við sína iðn. Séra Frank, sóknarprestur í Neskirkju, gaf þau saman en þess má geta að ég starfði með honum fyrstu 5 árin mín af þeim 15 sem ég þjónaði við Neskirkju. Þau voru í NY í 10 ár og komu heim 1977. Helga fór í nám í tækniteiknun og starfaði eftir það m.a. hjá Skipstjórafélaginu og svo Verkstjórafélaginu.
Dætur Helgu og Björns eru:
– Ásthildur f. 1974, hjúkrunarfræðingur, sambýlismaður hennar er Birgir Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur.
Dætur þeirra eru: Árný Björk, viðskiptastjóri hjá Artasan f. 16. sept. 1996, og Ásta Rakel, læknanemi, f. 7. okt. 2001.
Maki Árnýjar Bjarkar er Ármann Örn Vilbergsson málari og dætur þeirra og langömmudætur Helgu eru Ásthildur Yrsa fædd í janúar 2021 og óskírð Ármannsdóttir sem fæddist 10. október sl. og er því rúmlega 6 vikna. Sambýlismaður Ástu Rakelar er Viktor Máni Hilmarsson.
– Auðbjörg f. 1977, forstöðukona Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns (Gísla Korts Kristóferssonar) eru, Björn Kort f.17. febrúar 2003, Ágústa Kort f. 23. júlí 2007 og Helgi Kort f. 8. ágúst 2011.
Helga var ákveðin og stjórnsöm. Hún var með góðan húmor og á köflum svartan. Lærði margt í JC-hreyfingunni, vann ræðukeppnir og fleira.
Beinskeytt – sagði hlutina beint út eins og hún hugsaði þá, gat verið full hreinskilin. En svarti húmorinn hennar var aldrei langt undan. Hún tók hlutunum eins og þeir voru og var lítið að velta sér uppúr hlutum sem hún gat ekki breytt, sagði gjarnan „þetta er bara svona”.
Hún reyndi sitt besta og hennar leið til að sýna ást og væntumþykju var að gefa gjafir og prjóna á fólkið sitt. Enda var hún mjög flink í höndunum og prjónaverkin hennar koma enn að notum hjá barnabörnum og barnabarnabörnum. Hún var ekki amman sem stóð í bakstri enda eyddi hún ekki miklum tíma í eldhúsinu. Sagði gjarnan, af hverju að standa í bakstri þegar þetta fæst tilbúið út í búð? Sem er góð lýsing á henni, hún var ekki að hafa of mikið fyrir hlutunum þegar það var óþarfi – henni fannst gott að hvíla sig og hafa það notalegt og fá sér einn góðan “COFFEE”. Enda var gott að fá sér kaffi með ömmu og spjalla um allt og ekkert. Þá kenndi hún okkur barnabörnunum hvernig skal hafa alvöru kósýkvöld. Þá fannst henni gaman að vera aðeins menningarleg og hafði einstaklega gaman að því að fara á söfn, sýningar og tónleika og stundum fengu barnabörnin að upplifa slíka viðburði með henni.
Hún hafði mikla ánægju á að fylgjast með tísku og pældi mikið í hvernig hún var klædd. Hvert sem hún fór var hún vel til höfð með eldrauðar neglur og sennilega í nýjum skóm. Og ef hún var á leiðinni í flug, var hún tilbúin með sérstakt ferðadress, sem hún var búin að skoða vel og lengi á Netinu, enda voru það ekki fáar klukkustundir sem hún sat með iPadinn að skoða föt. Þá var amma einnig mjög framarlega í tækni og var “up to date” – þegar kom að nýjustu iPhone og iPad kynslóðunum.
Björn og Helga bjuggu 10 ár í NY og í um 30 ár í Aratúni 42 í Garðabæ, og svo frá 2007 að Kirkjuvöllum 9, Hafnarfirði.
Dómssunnudagur var í gær og ég segi ykkur aðeins frá þeim degi hér í lokin, því þema hans, dauðinn, dómurinn og eilífðin er fólki hugleikið um allan heim og innan allra trúarbragða.
—-
Síðasti hluti ræðunnar var fluttur blaðalaust og er því ekki ritaður hér en hann er á hljóðupptökunni á vefnum:
—-
Síðasti hluti ræðunnar var fluttur blaðalaust og er því ekki ritaður hér en hann er á hljóðupptökunni á vefnum:
You must be logged in to post a comment.