Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Erla Bjarnadóttir 1946-2024

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Í dag, í upphafi vetrar, kveðjum við Erlu Bjarnadóttur.

Hún kveður nú einstakt og gjöfult líf.

Lífið er margslungið undur og það er mikið lán að hafa fæðst og þegið lífið að gjöf.

Gamla máltækið, „Hver er sinnar gæfu smiður“ er enn í gildi, þótt gæfan sé nú ögn flóknara fyrirbrigði en svo að hún sé einungis í höndum hvers og eins okkar.

Við ráðum miklu um framvindu okkar á lífsveginum, en þar eru ótal aðrir áhrifaþættir.

Við lifum í samfélagi, í samhengi með öðrum.

Ástin og þráin eru afl í brjósti sérhverrar manneskju og fleiri þættir fléttast einnig inn í líf okkar og ákvarðanir á degi hverjum. Hvaðan kom okkur kærleikur, í heimi efnis og umbrota? Sannleikur? Réttlæti? Hvaðan er það allt sem máli skiptir? Heimspekin og guðfræðin gefa því öllu æðra heimilisfang.

Við lifum merkilega tíma og ekki þá fyrstu sem teljast slíkir.

Við sem erum af sömu kynslóð og Erla, eigum það sameiginlegt að hafa fengið byltingu í fangið, ekki pólitíska, heldur menningarlega byltingu ungu kynslóðarinnar. Og við tókum henni fagnandi. Að vera unglingur og upplifa breska Bítla, Rollinga og Kinksara og ameríska Stranddrengi frá Kaliforníu, svo aðeins örfáir áhrifavaldar séu nefndir, er eitthvað sem er í raun ólýsanlegt ævintýri. Foreldrar okkar fengu þetta aldrei í æð eins og við sem vorum fædd á „réttum tíma“, sem ég leyfi mér að nefna svo.

Borgarskáldið, Tómas Guðmundsson, var eitt sinn í sólinni á Ítalíu og varð svo uppnuminn af birtu og fegurð lífsins á ströndinni og ávölum línum sólbakaðrar konu. Hann yrkir. Í fyrsta versi segir hann:

Sólskinið á ströndinni sindraði og glóði,

og sólin rann og flóði

um glaðar bárur gullinn óraveg.

Þá steigst þú upp af öldunun, ó, Anadyomene,

og aldrei – note bene –

varð ungur maður ástfangnari en ég.

Og lokaversið hljóðar svo:

En þó að sólin ljómi og leiftri á þúsund bárum

að liðnum þúsund árum,

og önnur kynslóð komi hér um síð,

þá skiptir það mig engu og ánægður þá sef ég,

fyrst einu sinni hef ég

að minnsta kosti fæðzt í tæka tíð.

Við sem getum talið okkur af Bítlakynslóðinni erum án nokkurs vafa, allflest sama sinnis um að við nutum þeirrar gæfu að hafa „fæðzt í tæka tíð.“ Og sama gildir reyndar um þau öll sem upplifað hafa eitthvað stórt í lífi sínu, orðið ástfangin, heilluð af jákvæðum straumum samtíma síns. Þau fæddust öll á réttum tíma og þar með eru við öll hamingjunnar börn.

Svo fagnar skáldið því líka í sama ljóði, að við sem lifum, séum eina kynslóð veraldarsögunnar, sem ekki er dáin!

Erla var 16 ára þegar Bítlarnir slógu í gegn. Hún var fulltrúi hinnar ungu kynslóðar þess tíma sem sá veröldina í nýju ljósi. Hún tók því öllu fagnandi en var um leið minnt á alvöru lífsins, þegar hún nýorðin sautján, var orðin móðir. Á innan við fimm árum voru börnin orðin þrjú!

En hún fór í gegnum lífið með stæl – og flesta daga á háum hælum!

Við leiðarlok gerum við upp líf látinna.

Bókhald er víðar fært en á skrifstofum bókara og endurskoðenda.

Við lítum yfir farinn veg og stemmum af dálkana í bókhaldinu. Mannssálin er sköpuð með þann dásamlega eiginleika, sem sér til þess að hið jákvæða fljóti upp á yfirborðið. Þannig virkar elskan og miskunnin á lífsveginum. Hið góða sigrar alltaf þegar upp er staðið.

Ávallt þykir mér það merkilegt að gera upp líf fólks við útför og hef þá lífssýn að líf sérhvers einstaklings sem lokið hefur lífsgöngunni, hafi verið einstakt og merkilegt.

Erla Bjarnadóttir

Erla fæddist 25. október 1946 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans 15. október síðastliðinn. Foreldrar Erlu voru Jóhanna Vilhelmína Haraldsdóttir f. 1914, d. 2005 og Bjarni Bjarnason, lögfræðingur, f. 1913, d. 1979. Móðurforeldrar hennar voru: Haraldur Árnason, stórkaupmaður í Haraldarbúð í Reykjavík, (f. 1886, d. 1949), og Arndís Bartels Árnason, húsmóðir (f. 1886, d. 1950). Föðurforeldrar hennar voru, Guðlaug Magnúsdóttir, húsfreyja og maður hennar Bjarni Jónsson frá Vogi, alþingismaður, grískudósent og rithöfundur.

Systkini Erlu eru:

1) Helga f. 1941,

2) Arndís f. 1942, d. 1945,

3) Þóra f. 1945 og

4) Haraldur Ágúst f. 1950.

Erla var gift Hreiðari Svavarssyni, veitingamanni, f. 1943, d. 2007.

Börn þeirra eru:

1) Arndís, f. 1963, gift Haleem Dabedoub, þau skildu, sonur þeirra er Adam,

2) Smári f. 1964, d. 2022, kvæntur Margréti Ástu Guðjónsdóttur, þau skildu, börn þeirra eru Anna Lind, Halldóra Rannveig, Hreiðar og Guðjón,

3) Sverrir, f. 1968, kvæntur Margréti Ragnarsdóttur, börn þeirra eru Ragnar Steinn, Erla og Dagur.

Erla ólst upp í miðbæ Reykjavíkur, að Túngötu 16, utan nokkur æskuár á Siglufirði. Hún lauk landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1962. Á námsárunum vann hún hjá sælgætisgerðinni Víkingi en að loknu landsprófi lá leiðin á Landssímann og í Háskólabíó.

Erla hóf sambúð með Hreiðari árið 1963 og fimm árum síðar voru börnin orðin þrjú.

Hreiðar og Erla kynntust á þjónaballi í Silfurtunglinu og síðasta ballið sem þau sóttu saman var svo í Gullhömrum. Lífið er stundum dans á rósum og að ná bæði silfri og gulli er góður árangur.

Þau voru ætíð ástfangin og áttu saman mörg góð ár.

Erla og Hreiðar stóðu að mestu í eigin rekstri og lengst af í veitingageiranum en ráku einnig bílaleigu um tíma.

Erla starfaði sem barþjónn í Hábæ og síðar við rekstur, þjónustu og matreiðslu í Smiðjukaffi og Pizzusmiðjunni í átján ár eða allt til ársins 1994. Börnin hjálpuðu líka til í rekstrinum og lærðu að vinna og standa sig. Hún treysti þeim ætíð og sagði við þau: Vertu þú sjálf/ur.

Barnabörnunum fannst amma vera bezta barnapían og var oft beðin um að passa. Barnabörnin töluðu alltaf um að fara í ömmuhús, og fregnir bárust af því að hún gerði besta „appelsínugula fiskinn“ – fisk í raspi – og bæri fram kassalaga pizzur!

Þegar hún var spurð af börnum sínum um að gæta barnabarnanna svarði hún ætíð á óbeinan hátt: Við hljótum að geta bjargað því.

Fjölskyldan öll fór nokkrum sinnum saman til Spánar, bæði Mallorca og Kanaríeyja á áttunda áratugnum.

Erla varð ritari landsbókavarðar upp úr aldamótum og var að störfum í Þjóðarbókhlöðunni þar til hún fór á eftirlaun árið 2016.

Erla hafði gott vald á íslenzku og tók stundum að sér verkefni við prófarkalestur. Börn og barnabörn fengu hana oft til að lesa yfir ritgerðir og skólaverkefni og svo voru flestir leiðréttir ef þeir töluðu ekki rétt mál. Spyrja má: Hvernig nær maður valdi á íslensku? Svarið er einfalt: Með því að lesa alvöru bókmenntir og tína arfa úr málbeði sínu.

Ástvinir Erlu lýsa henni sem duglegri konu og góðri vinkonu vina sinna. Hún var alla tíð skvísa í sér, gekk á pinnahælum sem inniskóm í Þjóðarbókhlöðunni en áður hafði hún unnið með manni sínum í 17 ár í veitingarekstrinum. Þjónustustörf eru oft vanmetin en gott er að minnast orða Jesú, þegar sumir vina hans vildu fá sérstaka viðurkenningu. Markús guðspjallamaður segir frá:

En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. (Mk. 10.42-43)

Erla var góðum gáfum gædd og hafði góða málkennd. Hún var gamansöm og prakkari í sér.

Hún mætti sínum örlögum óhrædd og með reisn og var sátt við Guð og menn. Hún var spurð í veikindum sínum: Þarf ég að hnippa í einhvern fyrir þig áður en þú kveður? Nei, svaraði Erla. Hún var ekki ósátt við neinn.

Hún tók virkan þátt í starfi Oddfellowreglunnar og systur hennar standa heiðursvörð yfir henni hér í dag.

Skáldkonan Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891-1972), sem tók sér skáldanafnið Erla, orti margt fagurt, m.a. þessa heilræðavísu:

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Bakki margra þungur er.

Treystu því, að þér á herðar

þyngri byrði’ ei varpað er

en þú hefur afl að bera.

Orka blundar næg í þér.

Og hér er önnur:

Þerrðu kinnar þess er grætur

þvoðu kaun hins særða manns.

Sendu inn í sérhvert hjarta

sólargeisla kærleikans.

Vertu sanngjarn. Vertu mildur.

Vægðu þeim sem mót þér braut.

Bið þinn Guð um hreinna hjarta,

hjálp í lífsins vanda og þraut.

Ég flyt ykkur kveðju:

Kæru ættingjar og vinir. Við Anna Sóley eigum ekki heimangengt en sendum okkar sárustu saknaðar- og samúðarkveðjur til ykkar allra og megi mátturinn og dýrðin hvaða augum sem á það er litið leiða ykkur þessi erfiðu skref. Minningin lifir, Haraldur Ágúst.

Kveðja frá Helgu Nínu mágkonu og Inga en þau eru stödd erlendis.

Þá skrifaði mér barnabarn Erlu, sem býr erlendis:

Í dag verður jörðuð amma mín Erla Bjarnadóttir og við fjölskyldan eigum ekki heimangengt frá Svíþjóð. Mig langar að biðja þig að koma á framfæri kærum kveðjum frá okkur fjölskyldunni.

Kveðja

Anna Lind Kristjánsdóttir

Kveðja frá frænkum Erlu, þeim Helgu Björgu og Arnljótu Eysteinsdætrum.

Komið er að leiðarlokum. Í sálmi eftir séra Valdimar Briem segir:

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem – Sb. 1886)

Góður Guð blessi minningu Erlu Bjarnadóttur og megi hann leiða okkur öll sem enn erum á lífsveginum.

Amen

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons