Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Sigríður Ólafsdóttir 1934-2024

Örn Bárður Jónsson Minningarorð
+Sigríður Ólafsdóttir
1934-2024


Útför frá Langholtskirkju mánudaginn 21. október 2024 kl. 13 Jarðsett í Gufunesi


Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.


Jesús sagði: Þér eruð ljós heimsins … Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. (Matt 5)


Sagt er að lífið sé guðsgjöf og við getum sagt að það að fæðast og takast á við lífið sé undursamlegt verkefni en ekki vandalaust. Hvers vegna urðum við til? Hvers vegna hlaut ég vinninginn og varð til? Hvers vegna varðst þú til?


Hinar hugsanlegu og mögulegu manneskjur, sem aldrei urðu til, vegna þess að rétta fruman fann ekki rétta eggið, eru svo mörgum sinnum fleiri, stjarnfræðilega fleiri, en þau sem urðu til. Er það tilviljun? Ég trúi því ekki að neitt líf sem skapað hefur verið, sé tilviljun, en aðdragandinn að því að barn verður til getur falið í sér margvíslegar tilviljanir. Eða hvað? Eru kannski engar tilviljanir til í þessum efnum? Við tökum kannski ekki eftir því að við erum leidd í gegnum lífið að minna eða meira leyti. Guð vakir yfir hverri manneskju, lífs og liðinni.


Lífið er fullt af gátum. Við urðum til, lærðum að matast og brosa, hlæja og gráta, skríða, staulast og ganga. Við eignuðumst skó, mörg pör af skóm. Heimagerð skæði hurfu fyrir innfluttum skóm á Íslandi rétt áður en hún Sigríður fæddist. Ég nefni þetta hér til fræðslu fyrir okkur öll og ekki síst fyrir þeim ungu sem ganga í merkjaskóm sem voru jafnvel pantaðir á netinu og komu heim að dyrum án þess að farið væri í verzlun. Heimurinn hefur breyzt mikið frá því hún Sigríður leit dagsins ljós. Sagt er að tímarnir breytist og mennirnir með. Það kann að vera satt að sumu leyti en mennirnir hafa sáralítið ef nokkuð breyzt í mörg þúsund ár. Við erum samskonar fólk og Kristur ræddi við í sólbökuðum sveitum Palestínu fyrir tvöþúsund árum, fólk eins og við, sálarlífið hið sama. Fólk varð ástfangið og festi ráð sitt eins og nú. Börn urðu til enda þótt fólk gengi í kuflum og sandölum en ekki Nike-skóm og ættu ekki farsíma.

Kristur leiðbeindi fólki forðum daga í Palestínu og Rómaveldi og hann hefur gert það hér á landi í þúsund ár og einnig hér í Langholtskirkju í áratugi.


Sigríður Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1934.


Hún var dóttir hjónanna Ólafs Pálssonar, sundkennara, (f. 16. október 1898, d. 23. janúar 1981) og Jústu Sigurðardóttur, húsmóður, (f. 19. júlí 1901, d. 23. ágúst 1995).


Hún lézt á Hrafnistu í Laugarási 25. september 2024.


Sigríður var elst þriggja systkina. Næstur henni var Páll sem er látinn (f. 29. nóvember 1935, d. 19. febrúar 2022) og svo Helga (f. 23. janúar 1940) sem lifir systkini sín


Þann 25. desember 1958 giftist Sigríður, Einari Birni Sigvaldasyni, f. 10. ágúst 1916, d. 17. október 1996.


Þau eignuðust saman fimm börn. Þau eru:
1) Einar Þórketill f. 1. febrúar 1959, eiginkona hans er Sigríður Emilía Eiríksdóttir og börn þeirra eru:
a) Eiríkur Björn, sambýliskona hans er Anna Karen Þórisdóttir,

b) Karítas Rós, unnusti hennar er Ómar Örn Ómarsson og 3 af 12

c) Einar Baldur og eiginkona hans er Sandra Rún Sigurðardóttir.

Barnabörn Einars og Emilíu eru ellefu.

2) Ólöf f. 3. júlí1960, d. 23. júní 2015, tæplega 55 ára að aldri.


Börn Ólafar og Hannesar Haraldssonar eru:

a) Sigríður, eiginmaður David Lower og

b) Haraldur Einar, eiginkona Bryndís Jóna Sveinbjarnardóttir.

Barnabörn Ólafar eru sex.

3) Karítas f. 26. ágúst 1963, d. 28. maí 1964, aðeins átta mánaða.

4) Sigvaldi Sveinbjörn f. 31. janúar1965, eiginkona hans er Heiðdís Sigurðardóttir. Synir þeirra eru

a) Þórður Karl og eiginkona hans er Stella Bryndís Guðbjörnsdóttir og

b) Erlingur og unnusti hans er David Brooks. Barnabörn Sigvalda og Heiðdísar eru tvö.

5) Ólafur Jarl f. 11. ágúst 1969, eiginkona hans er Jarinya Einarsson. Ólafur á þrjú börn:

a) Ragnheiði,

b) Anton Nathan og

c) Ísak Nóa.

Barnabörn Ólafs Jarls eru tvö.

Að missa barn, að ekki sé nú talað um að missa tvo afkomendur, er erfið lífsreynsla. Sigríður bar harm sinn oftast í hljóði en á fæðingardögum dætranna, Ólafar og Karitasar, átti hún erfitt með að fela sorgartárin.


Aðeins meira um foreldra Sigríðar sem bjuggu í Laugarnesinu. Meðfram sundkennslunni höfðu þau kindur, kýr og hesta og einnig refi.


Á næstu grösum við æskuheimili Sigríðar bjó frændfólk hennar á Bjargi og að Hringsjá og var mikill og góður samgangur milli heimilanna.


Sigríður og Ásta Erlings, frænka hennar á Bjargi, voru samrýmdar og höfðu báðar yndi af sundi og syntu oft í sjónum við Köllunarklett og stálust a.m.k. einu sinni til að synda út í Viðey!


Eftir skyldunámið fór Sigríður að vinna fyrir sér og einhver sumur var hún kaupakona í sveit og fór m.a. eitt sumar að vinna hjá frænda sínum alla leið á Höfn í Hornafirði.


Hún var sístarfandi, útsjónarsöm og dugleg. Vinnustaðir verða ekki taldir upp hér aðrir en Hrafnista þar sem hún starfaði árum saman, lengst af við umönnun.

Sigríður var fríð kona, eins og myndirnar í sálmaskránni sýna. Hún festi þó ekki ráð sitt fyrr en hún var orðin 25 ára en þá hafði hún unnið á nokkrum bæjum í sveit.


Sigríður og Einar stofnuðu heimili og bjuggu fyrst á Bergstaðastræti í Reykjavík, fluttu síðar í Ljósheima og þaðan á Laugarnesveginn þar sem þau bjuggu, allt þar til Einar lést árið 1996.


Einar hafði ungur lært pípulagnir í Reykjavík og hljóðfærasmíði í Danmörku og stundaði harmonikkuleik á sínum yngri árum. Hann kom oft fram við ýmis tækifæri ásamt Eiríki blinda sem svo var nefndur og bjó í Hveragerði. Þeir ferðuðust víða og tróðu upp.


Á seinni árum starfaði hann m.a. hjá Vatnsveitu Reykjavíkur, við verslunarstörf og eftirlit með virkjunarframkvæmdum á vegum Landsvirkjunar og þótti afar góður fulltrúi fyrirtækisins í samningaumleitunum við bændur og landeigendur.


Sigríður var einkar umhyggjusöm amma og alltaf með faðminn tilbúinn fyrir barnabörnin og seinna langömmubörnin. Henni var mjög umhugað um að allir hefðu nóg að bíta og brenna og töfraði fram kræsingar þegar gesti bar að garði. Hún var gjafmild á mat og umhyggju eins og fram kemur í kveðju sem ég var beðinn að koma hér á framfæri frá Kristínu Halldórsdóttur í Svíþjóð:

”Ég vil senda hlýjar samúðarkveðjur til sona hennar Sóu, þeirra Einars, Sigvalda og Ólafs og fjölskyldna þeirra. Ég minnist hennar sem fallegrar konu, yzt sem innst, með sitt hlýja og vinalega viðmót.”


Sigríður tók virkan þátt í safnaðarstarfi hér í Langholtskirkju á þeim árum þegar séra Árelíus og séra Sigurður Haukur, þjónuðu hér, ólíkir menn en báðir þekktir og vinsælir prestar. Í safnaðarheimilinu sem þjónaði sem kirkja fyrstu árin þar til þessi helgidómur var byggður, var jafnan mikil starfsemi af ýmsu tagi. Kirkjan er m.a. þekkt fyrir einstakt starf Jóns heitins Stefánssonar, organista, sem hóf störf hér sem unglingur og starfaði hér alla ævi ásamt konu sinni Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, söngkonu. Menningarstarfið í Langholtskirkju hafði mjög mikil áhrif í hverfinu, um alla Reykjavík og víðar.


Í safnaðarheimilinu fóru fram margar skírnir, hjónavígslur og útfarir. Veitingar voru reiddar fram við ýmis tækifæri, einkum erfidrykkjur og þar trónaði gjarnan á hlaðborði myndarleg kransaterta sem Sigríður bakaði og skreytti með sínum listræna hætti.

Um tíma vann hún á símanum hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins sem var og hét.


Hún var umvafin stórum vinkvennahópi hér í hverfinu þegar hún bjó í Ljósheimunum.


Skömmu eftir að Sigríður varð ekkja flutti hún í Æsufell í Breiðholti og undi þar hag sínum vel. Á meðan heilsan leyfði, fór hún í gönguferðir í hverfinu og heimsótti hún þá gjarnan mæðgurnar Guðríði og Ingu sem bjuggu í göngufæri, en Guðríður var bróðurdóttir Einars manns hennar.


Þá fór hún í sólarlandaferð til Spánar með Sigrúnu tengdamóður elsta sonar síns og þær skelltu sér líka í dagsferð til Grænlands. Það spillti ekki fyrir samskiptum að þær bjuggu báðar í Æsufellinu og því stutt að fara á milli í kaffisopa og spjall. Árið 2008 fór Sigríður svo til Krítar með stórum hópi afkomenda og Páli bróður sínum, Þuríði konu hans og hluta af þeirra afkomendum.


Sigríður lagði mikið upp úr því að vera sjálfstæð og vonaði heitt að geta búið á eigin heimili þar til yfir lyki en vegna þverrandi heilsu dvaldi hún á Vífilsstöðum og svo Hrafnistu síðustu árin.

Sigríður var félagsvera, húmoristi og svo var hún hagmælt og kunni ætíð að svara fyrir sig og átti það til að stinga ærlega upp í fólk. Hún kenndi strákunum sínum að bjarga sér og að svara fyrir sig og máta andstæðinginn ef svo bæri við og hann væri óréttlátur. Hún sótti ætíð í „aksjón“, sögðu strákarnir við mig. Hún kenndi þeim líka að taka þátt í þörfum heimilisins, sendi þá um hverfið með egg og tómata, ekki til að kasta í mótmælum (!) heldur til að selja í blokkunum.


Hún hafði yndi af að fylgjast með afkomendum sínum af miklum áhuga og gleði. Að sinna börnunum veitti henni mikla gleði og svo hafði hún mjög gaman af að gantast við þau og sprella enda ætíð stutt í húmorinn hjá henni.


Hér er texti með minningum tveggja barnabarna, þeirra Sirrýjar og Halla, sem segir margt um ömmu Sóu:


Sirrý: ég man þegar ég var lítil og gisti hjá ykkur afa á Laugarnesveginum. Mér leið svo vel hjá þér, amma mín, og ef ég varð hrædd eða leið eitthvað illa læddist ég alltaf upp í rúm til þín. Þú hélst utan um mig þangað til ég sofnaði en ég þurfti að vera farin í mitt rúm áður en afi vaknaði. Ég á einn náttkjól af þér sem ég nota enn þann dag í dag. Þegar ég fer í hann finn ég fyrir örygginu sem ég fann alltaf þegar ég var með þér.

Halli: ég man þegar við fórum í rútu norður til Akureyrar. Það var mjög vont veður og við vorum meira en sólarhring á leiðinni. Það var auðvitað engin verslun nálægt en ég var orðinn svangur. Og þú elsku amma, þú dóst ekki ráðalaus og dróst poka af hvítkáli upp úr töskunni. Mér leist nú ekkert alltof vel á það en lét mig auðvitað hafa það. Það reyndist alveg ágætt, allavega svona í minningunni.


Við systkinin munum líka mjög vel eftir því þegar þið Helga frænka sátuð klukkutímum saman í eldhúsinu á Laugarnesveginum á spjalli um allt og ekkert. En megrunarkúrar voru oft umræðuefnið sem okkur fannst afar fyndið. Svo laumaðist þú oft til að gefa okkur pening í glærum poka en afi mátti alls ekki vita af því. Þá tókst þú á það ráð að senda okkur út, opnaði svo gluggann og lést peningapokann detta niður til okkar og við gátum hlaupið í Raggasjoppu að kaupa okkur bland í poka. Oft sastu líka í eldhúsinu að leggja kapal og þá var gaman að sitja í tröppunum og hlusta á þig tala við sjálfa þig. Þú sagðir okkur líka margar sögur og ein sem var þér sérstaklega minnisstæð var þegar þú varst lítil og dast og hruflaðir á þér hnéð. Þá kom að þér breskur hermaður, seildist í vasa sinn og gaf þér súkkulaðimola sem var afar sérstakt því þá var ekki til súkkulaði hér.

Þitt stærsta áhyggjuefni var að fólk væri ekki að borða nóg og við munum eftir að hafa borðað mikið hjá þér, sérstaklega af eggjum. Þú varst alltaf svo góð við okkur og varst okkur afar mikilvæg því þú varst mikill klettur í okkar lífi.


Fagrar minningar barnabarna sem sýna okkur glöggt hve tengsl kynslóðanna eru dýrmæt.


Seinustu misserin dofnaði lífslöngunin hjá Sigríði enda æviárin orðin mörg og þannig er það nú að við endumst ekki á jörðu hér nema takmarkaðan tíma. Í Davíðssálmum sem eru um 2500 ára gamlir segir á einum stað:


Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrasta hnossið er mæða og hégómi,
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt. (Sl 90.10)


Þá eins og nú gat fólk vænst þess að lifa svo lengi sem segir í Hinni helgu bók en svo hefur læknavísindunum tekist að gera fleirum kleift en forðum að ná enn hærri aldri nú á síðari tímum.

Og nú er jarðneskur tími Sigríðar á enda runninn, tímaglasið tæmt og eilífðin bíður. Dauðinn er endalok en skv. kristinni upprisutrú er hann ekki endirinn!


Kristur reis upp frá dauðum eftir hræðilegan dauða á krossi. Hann lifir og ríkir! Hann er sá eini sem við getum sett von okkar á í lífi jafnt sem dauða.


Við þökkum fyrir líf Sigríðar og felum hana miskunn Guðs og eilífri elsku.


Blessuð sé minning hennar og megi Guð blessa ykkur, afkomendur hennar og ástvini á ferðum ykkar um lífsveginn og leiða okkur öll í fyllingu tímans inn í himin sinn.


Heimurinn þarfnast meira ljóss og í því sambandi er gott að muna, að við erum kölluð til að vera ljós heimsins, eða með öðrum orðum, að gera hann að sönnum Ljósheimum.


Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons