18. október 2024 – 75 ár frá fæðingu hans.

Ef þú vilt hlusta þá er upptakan hér og tekur tæpar 9 mínútur:
Mér er ljúft að minnast skólabróður míns og æskuvinar, Hauks Böðvarssonar, skipstjóra, á fæðingardegi hans 18. október 2024, þegar 75 ár eru liðin frá fæðingu hans.
Vinskapur okkar hófst um 12 ára aldurinn, en hann var einum fimm vikum eldri en ég (18. okt/23.nóv). Kunningsskapur var með foreldrum okkar.
Heimili okkar á þeim tíma, hans í Túngötunni og mitt í Sólgötu, skildu að sjúkrahústúnið og kirkugarðurinn. Gönguleiðin á milli húsanna var þó innan við þrjúhundruð metrar.
Ég hef rætt við sveitunga mína um bernsku þeirra á Ísafirði og flestir kannast við það, að fyrstu vinirnir komu frá heimilum sem voru í innan við eitthundrað metra radíus! En þegar komið var yfir 10 ára aldurinn og hærra, þá stækkaði þessi radíus – og stækkar reyndar enn!
Við fermdumst sinn hvorn sunnudaginn vorið 1963 og gáfum hvor öðrum gjafir. Ég man ekki hvað ég gaf honum en mamma mundi gjöfina frá Hauki, silfur manséttuhnappar og bindisnæla með krosstákni og geislum. Líklega fékk hann eitthvað álíka frá mér en gjafir af þessu tagi voru vinsælar á þeim árum.

Gæti trúað að þessi gjöf hafi verið keypt hjá úrsmiðnum sem verzlaði við hlið Iðunnar, móður Hauks og gekk undir nafninu, Þórður úri.
Líklega keypti ég svipaða gjöf þar handa Hauki. Hnappana nota ég gjarnan þegar ég klæðist prestaskyrtu og bindisnæluna við hátíðleg tækifæri.
Hér er minning sem gleymdist í fyrstu útgáfu færslunnar. Þegar við vorum nýfermdir, fengum við leyfi til að fara tveir saman með Esjunni frá Ísafirði og sigla austurleiðina og til Reykjavíkur. Komið var við í helstu höfnum á leiðinni en í sumum tilfellum var komið að landi að næturlagi og við misstum því af þeim stöðum meðan við sváfum. Við fórum svo í land í Höfuðborginni og ég man ekki hvernig við fórum þaðan og heim en líklega flugum við til Ísó.

Ferðin var eftirminnileg og ég skil eiginlega ekki hvernig við fengum foreldra okkar til að gefa okkur ferðaleyfi, svo ungum og óreyndum, sem við vorum þá.
Sumarið, árið áður en við urðum sextán, fór ég suður í Verzlunarskólann og nokkru síðar fór Haukur til Vestmannaeyja, þar sem hann lauk námi sem veitti honum skipstjórnarréttindi. Hann fór heim og sótti sjóinn stíft og fljótlega sem skipstjóri á rækjuveiðum.
Sem barn og unglingur var hann ætíð harðduglegur og áræðinn. Hann var ekki hávaxinn, en knár og þrautseigur. Ég man hvað ég dáðist að krafti hans í skíðabrekkunum heima, en þar hafði ég ekki roð við honum. Þá voru engar skíðalyftur en hann fór hratt upp hlíðarnar með göngu í plóg neðst og svo skágöngu efst og kom svo niður í svigi eða bruni með tilþrifum.
Minningin um fyrsta bílinn hans, hvítu VW-bjölluna, er skýr í huga mér, svo og plötuspilarinn, sem skrúfaður var fastur undir mælaborðið fyrir miðju en slíkar gersemar voru algjör nýjung og með sérstökum gormum til að varna því að spilarinn hristist á holóttum vegum því þá hefði nálin hlaupið fram og aftur og rispað plötuna.
45 snúninga plöturnar gengu út og inn í spilarann á leiðinni vestur, þegar ég fékk far með honum og Belgó systur hans, frá Reykjavík til Ísafjarðar, líklega vorið 1966. Þá var eitt lag sem gnæfði yfir öll önnur í bílnum, Silence is Golden með The Tremeloes. Lagið er rómantískt og grípandi og sló í gegn á heimsvísu og við unglingarnir kunnum vel að meta það og ekki síst Belgó systir (Bergljót), sem var nýtrúlofuð eða í það minnsta búin að kynnast honum Jóni Guðlaugi sínum Magnússyni úr Hafnarfirði, en þau voru bæði við nám í Samvinnuskólanum.
Eiríkur bróðir Hauks og Friðrik, yngri bróðir minn, eru jafnaldrar og vinskapur var með þeim á æskuárum og yngst er Kristín sem ég kynntist síðar. Fólkið hans Hauks heitins er allt gott, duglegt – og skemmtilegt!
Á liðnu sumri, lagði ég leið mína í kirkjugarðinn á Ísafirði með eina tvo tugi rósa og dreifði þeim á leiði ástvina, byrjaði hjá afa og ömmu, í báðum ættum mínum, loks frændfólki og kom svo í lokin að leiði foreldra Hauks, þeirra, Böðvars Sveinbjarnarsonar og Iðunnar Eiríksdóttur.
Á legstein þeirra hefur nafni Hauks verið bætt við, en hann hlaut vota gröf í Djúpinu þegar hann fórst með skipi sínu, Eiríki Finnssyni, í óveðri 25. febrúar 1980. Þótti mér vænt um að sjá nafnið hans meitlað í stein á leiði foreldra hans.
Grein um sjóslysin á Vestfjörðum 1980 má skoða á bak við tengilinn neðanmáls.
„Öllu er afmörkuð stund“ segir Prédikarinn í Gamla testamentinu. Læt fylgja upphaf 3ja kafla ritsins hér neðanmáls.
Blessuð sé minning míns kæra æskuvinar, Hauks Böðvarssonar.
Himinninn geymir hann og ástvini alla sem horfnir eru.
—
Prédikarinn 3.1-15
1Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
2Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
3að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
4að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
5að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
6að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
7að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
8að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
9Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
10 Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á.11 Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.
12 Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist.
13 En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.
14 Ég komst að raun um að allt sem Guð gerir stendur að eilífu, við það er engu að bæta og af því verður ekkert tekið. Guð hefur hagað því svo til þess að menn virtu hann.15 Það sem er, var fyrir löngu, og það sem verður, hefur verið fyrir löngu og Guð leitar aftur hins liðna.
https://www.legstadaleit.com/gullfaxi-is-594-eirikur-finnsson-is-26-visir-ba-44/
You must be logged in to post a comment.