Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Þórunn Ellertsdóttir 1944-2024

Texti og hljóðupptaka eru hér aðeins neðar.

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Þórunn Ellertsdóttir

1944-2024

fv. húsmóðir og verkstjóri

Útför í kyrrþey í Kapellu Fossvogskirkju

föstudaginn 27. september 2024 kl. 10

Viltu lesa? Viltu hlusta? Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan.

Við kveðjum hér konu sem fædd var í nýstofnuðu lýðveldi 4. ágúst 1944.

Sem Ísfirðingur, fæddur seint á sama áratugi, man ég foreldra hennar og syskini, duglegt fólk og hressilegt.

Foreldrar hennar voru Ellert Finnbogi Eiríksson (17. okt. 1911 – 13. ágúst 1983), sjómaður og matsveinn, á Ísafirði, síðast búsettur í Keflavík og Ísól Fanney Guðbrandsdóttir, f. í Vestmannaeyjum (11. mars 1912 – 7. des. 2003), húsmóðir og verkakona.

Börn þeirra:

Sigrún (20. júní 1937 – 22. sept. 2010),

Erla (3. apríl 1941),

Þórunn (4. ágúst 1944 – 6. sept. 2024),

Ómar Guðbrandur (12. okt. 1947) og

Eiríkur (3. feb. 1952).

Þórunn, sem var oftast kölluð Tóta af fjölskyldu og vinum, giftist Jóni Bjarnari Sigvaldasyni, skipstjóra (f. 5. des. 1941 – d. 16. sept. 2023) sem er látinn. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru:

1. Sif Jónsdóttur, nuddari (20. des. 1964 – 1. jan. 2015), var gift Guðmundi Ármanni Eggertssyni, stálsmiði og tækniteiknara (11. des. 1965 – 13. nóv. 2017). Þau eru bæði látin. Börn þeirra eru: Katrín Ósk og Arnar Jón, sem á unnustu, Ragnheiði Dís.

2. Ellert Jónsson, verktaki (f. 8. sept. 1966), kvæntur Kolbrúnu Björk Snorradóttur, húsmóður (f. 6. mars 1968). Börn þeirra: Karen, Eyþór og Bjarki. Karen er gift Steinari Árna Nikulássyni og eiga þau 3 börn: Kristján Bjarna, Hafstein Árna og Guðrúnu Auði.

3. Bjarnar Jónsson (f. 1979) kvæntur Noreen Jónsson (f.1979), þau búa í Danmörku.

Íslendingabók segir föður minn Jón og Ellert hafa verið fimmmenninga en menn teljast víst frændur í fimmta lið. Fjölskyldan bjó ekki langt frá verzlun föður míns þar sem ég hóf störf níu og hálfsárs. Af og til kom ég sem sendill með vörur til Fanneyjar en Ellert, var nú oftast á sjó og við krakkarnir sáum nú sjómennina ekki oft því þeir fóru eldsnemma í róður og komu oft ekki í land fyrr en að kvöldi.

Foreldrar Þórunnar, fæddust á öld vélvæðingar, en ömmur hennar og afar þekktu aðeins árabáta í bernsku, en lifðu það að kynnast vélvæðingu á efri árum. Þess má geta að fyrsta vél landsins var sett í bát á Ísafirði, í mb. Stanley árið 1902.

Ég er þessa dagana að hlusta á hljóðbækur með frásögn Theodórs Friðrikssonar, Í VERUM. Hann var fæddur árið 1876 og því af kynslóð forfeðra hennar og mæðra. Móðir Ellerts var Elín Elísabet, fædd 1878 og móðuramma Tótu, Þórunn, sem hún hét eftir, var fædd 1871.

Theodór lýsir því hvernig hann, sem fátækur en sterkur og vel byggður maður, fer um allt land fótgangandi, eða á skíðum að vetrarlagi, á ferðum milli bæja þar sem hann réð sig í kaupavinnu eða í verstöðvar, þar sem skipsrúm var að finna. Hann lýsir lífi sjómanna á árabátum og svo þegar vélar koma í báta í byrjun síðustu aldar. Maður verður eiginlega orðlaus við að hlusta á hvað fólk þurfti að leggja á sig forðum daga.

Og hér erum við, afkomendur þessa fólks, sem sá Ísland rísa úr örbirgð og komast til álna. Við sem nú lifum höfum í reynd upplifað mestu tækniframfarir veraldarsögunnar. Okkur hefur tekist að kaupa okkur frá flestu striti, með því t.d. að nota bíla og vélar, en verðum svo að kaupa okkur strit í líkamsræktarstöðvum til að halda líkamanum við! Já, undarleg er nú mannskepnan!

Þórunn var meðal fyrstu lýðveldisbarna þessa lands og hún lét um sig muna með dugnaði og elju. Hún bjó yfir góðu og ljúfu geðslagi, var jákvæð og dugleg til allra verka.

Tóta byrjaði ung að vinna í fiski á Ísafirði, eins og flestir jafnaldrar hennar og seinna í Ísbirninum í Reykjavík, þar sem hún var m.a. trúnaðarmaður verkafólks og verkstjóri. Þá vann hún um tíma í skóbúð í Reykjavík. Hún kom víðar við sögu í fiskverkun bæði í Reykjavík og á Suðurnesjum.

Hún hugsaði vel um börnin sín alla tíð og sinnti móður sinni vel bæði á Ísafirði og fyrir sunnan.

Þá var hún ekta sjómannskona sem varð að sjá um allt enda hafði hún fengið rækilega þjálfun hjá mömmu sinni. Tóta vann hálfan daginn meðan börnin voru ung. Eftir að hún flutti suður vann hún m.a. hjá HF í Keflavík og Sjöstjörnunni. Hún var kappsfull í vinnu og náði oft góðum bónus.

Tóta var lagleg kona og ætíð glaðleg og vel til höfð.

En svo varð hún fyrir heilablæðingu aðeins 44 ára gömul, sem skerti heilsu hennar til muna. Minnið varð skert og stundum þegar Ellert sonur hennar kom í heimsókn, var hann Ómar bróðir og hún spurði hann um hvernig Didda hefði það! En hún var ætíð glöð og þakklát.

Hún náði því að verða áttræð og þá fögnuðu ástvinir með henni.

Þau Þórunn og Jón skildu, en síðar hóf hún sambúð með Guðmundi Ingvari Jónssyni, eftir að þau höfðu þekkst í fjögur ár. Þau keyptu saman íbúð á Seltjarnarnesi. En eftir áfallið sem Tóta varð fyrir, breyttust forsendur allar, en Guðmundur hefur ætíð sýnt henni ræktarsemi og heimsótt hana á afmælum og um jól. Fyrir þá elskusemi alla þakkar fjölskyldan Guðmundi Ingvari kærlega fyrir.

Og auðvitað vakna spurningar um réttlæti í þessum heimi. Hvers vegna verður sumt fólk fyrir heilsubresti á besta aldri og af hverju deyr fólk í bernsku eða á unglingsárum og verður aldrei fullorðið?

Gátur lífsins eru margar.

Ein af perlum heimsbókmenntanna er Jobsbók í Gamla testamentinu. Job er lýst í upphafi ritsins með þessum orðum:

1 Einu sinni var maður í Úslandi sem Job hét. Hann var ráðvandur og réttlátur, óttaðist Guð og forðaðist illt.

Job var ríkur og það töldu menn til blessunar, en hann varð fyrir því að missa nánast allt nema eigið líf. Bókin er um þá spurningu, hvers vegna góðir menn verða fyrir áföllum.

Frægar eru ræður vina Jobs sem komu að honum sjúkum og í kör og héldu yfir honum tölur um að hann hlyti nú að hafa gert eitthvað af sér fyrst hann hefði orðið fyrir svona miklum skaða og heilsubresti. En Job varðist fimlega.

Vinirnir komust í fyllingu tímans að raun um að þeir höfðu rangt fyrir sér og sagan endar á þessum orðum:

12 Drottinn blessaði síðari æviár Jobs meira en hin fyrri. . . 16 Eftir þetta lifði Job í hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn í fjóra ættliði. 17 Og Job dó gamall og saddur lífdaga.

Sagan um Job, er saga um að við getum orðið fyrir missi og mótlæti, heilsubresti og hörmum, þó allt leiki í lyndi. Tilvistarspurningar sem þær sem Jobsbók reynir að svara, hafa fylgt mannkyni frá örófi alda.

Hvað segir prestur við útfarir barna og unglinga, sem missa lífið vegna sjúkdóma eða slys, eða falla fyrir vopnum? Þá er fátt að segja nema að vísa í vonina, sem Jesús Kristur hefur gefið þessum heimi. Hann hvetur okkur til að horfa fram á veginn og upp til himinsins heim.

Já, heim! Við erum borgarar himinsins og erum á leið þangað. Dauðinn er vissulega ákveðin endalok en hann er ekki endirinn.

Í liðinni viku þýddi ég grein úr ensku og staðfærði, en hún fjallar um dauðann og eilífðina.

Í 1. Mósebók, fyrsta riti Biblíunnar, höfum við mynd af heimi sem skapaður er góður, án þjáningar eða sársauka, en við lifum núna í heimi þar sem þjáning er hluti af lífinu. Kristnir menn eru ekki undanþegnir – eins og allir aðrir erum við háð hörmungum, sjúkdómum og dauða. Páll talar um að líkami okkar sé eins og leirkrúsir eða jarðneskar tjaldbúðir (2. Korintubréf 4. og 5. kafli). Í senn erum við viðkvæm og ekki varanleg. Hvernig ættum við að bregðast við þegar við þjáumst af sjúkdómum eða sorg? Við getum einbeitt okkur að þjáningunni, leyft okkur að sigrast á sársauka hennar og örvæntingu.

En kristin trú kallar okkur til að líta upp, horfa til Jesú (Hebreabréfið 12:2,3), til hinnar eilífu vonar, sem bíður okkar, og missa ekki móðinn (2. Korintubréf 4:16-18). Ekkert getur aðskilið okkur frá kærleika Guðs (Rómverjabréfið 8:31-39), ekki einu sinni sársauki sorgar og missis. Guð er með okkur, elskar okkur, gengur með okkur í miðri þjáningunni (Davíðssálmur 22 og 23).

Sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni vísar okkur í átt að nýjum himni og nýrri jörð Guðs, þar sem dauði og sorg, grátur og sársauki, verða ekki framar til (Opinberunarbókin 21:1-4). Ringulreið, sorg og jafnvel reiði, sem við finnum fyrir í sorginni, verða ekki hluti af nýju lífi okkar í himneskri návist Guðs.

Mitt í sorginni getur okkur liðið eins og við séum komin aftur að krossinum, samt sem áður gefur kristin trú okkur von og fullvissu um að þetta sé ekki endirinn. Fyrir milligöngu Jesú lofar Guð okkur lífi umfram jarðneska reynslu.

Þetta er von okkar í hörðum heimi. Við útfarir eru gjarnan sungnir sálmar, því þeir vísa ætíð fram á veginn og til himinsins heim.

Horfum þangað.

Þetta líf er aðeins byrjunin.

Við kveðjum Þórunni Ellertsdóttur og þökkum fyrir líf hennar og störf, eljusemi í meðlæti og þolinmæði í mótlæti.

Blessuð sé minning Þórunnar Ellertsdóttur – og megi Guð leiða okkur sem enn erum á lífsveginum, inn í himin sinn og eilífa gleði.

Amen

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons