Minningarorð
+Bryndís Klara
2007-2024
dóttir
Iðunnar Eiríksdóttur og Birgis Karls Óskarssonar
Minningarorðin eru hér fyrir neðan, bæði texti og hljóðupptaka og sálmaskráin er svo neðst.

„Þér eruð ljós heimsins“, sagði Jesús við fylgjendur sína.
Hún Bryndís Klara var ljóssins barn, fögur og tær, fínleg og sterk í senn, eins og nafnið hennar ber með sér. Bryndís sem vísar til brynju sem er vörn og Klara sem merkir hin skæra og bjarta.
Hún bar þó ekki málmbrynju fremur en aðrir dauðlegir menn, en hún bar í sér andlega brynju, vernd himinsins, sem bjargar frá öllu illu og það er trúin á Jesú Krist og Heilagan anda hans.
Trú og von eru skyld hugtök, kvenkynsorð, frænkur sem gera okkur ódauðleg, þegar litið er til hins stóra samhengis. Trú og von. Enginn getur lifað án trúar og vonar.
Dauðinn í þeirri mynd, sem við hér horfumst í augu við í andláti Bryndísar Klöru, er hryllileg staðreynd, óskiljanlegur atburður, þar sem hið illa og fáránlega varð að eldi sem olli óbærilegum harmi í hug og hjarta okkar allra. Sjálfur á ég erfitt með að fella ekki tár á þessari stundu.
Heimurinn er ekki saklaus Paradís, eins og sagan um Adam og Evu tjáir. Sú saga er táknsaga, íhugun viturs rithöfundar, sem spyr sig hvers vegna hið góða villist af leið. Táknmynd hins illa í sögunni er höggormur. Sagan um Adam og Evu er skýringarfrásögn, sem við getum t.d. notað til að skilja hvers vegna dásamlegar uppfinningar mannsandans eins og stafrófið og prentlistin, útvarp og sjónvarp, alnetið og gervigreindin, hafa allar verið heimsóttar af höggormi, sem lýgur og spillir og misnotar uppfinningar mannsandans.
Samfélagsmiðlarnir, sem við notum langflest ef ekki öll, eru Paradísir með ávöxtum og trjám, en þar skríða höggormar, sem vilja tæla okkur til illra hugsana og verka. Þess vegna þurfum við að vera á verði, með brynju en líka klöru eða heiðríkju hugans. Við þurfum að læra að umgangast höggorma heimsins og láta þá ekki ná tökum á huga okkar, vera á verði og halla okkur ætíð að ljósinu bjarta.
Hið illa hefur ráðist inn í líf okkar og varnirnar dugðu ekki, en birtan og ljósið ríkja og lýsa í dimmu sorgar og harms.
Og svo eru það minningarnar ykkar, kæru foreldrar og fjölskylda og ykkar líka, kæru skólasystkin og vinir hennar úr Verzló.
Og hér stend ég, gamall Verzlingur og fv. forseti Nemendafélagsins, sem varð ekki endurskoðandi, þrátt fyrir menntun á því sviði, heldur prestur, sem naut þess heiðurs að fá að skíra Bryndísi Klöru sem reifabarn og vígja hana þar með himninum og eilífðinni, vera viðstaddur þegar hún var klædd brynjunni andlegu, sem ber í sér fyrirheit um vernd fyrir illskunni og tryggir eilíft líf í ljósinu hjá Drottni, í ljósi og skærri „klöru-birtu“ hans.
Ég hitti hana fyrir rúmum mánuði þegar ég skírði lítinn frænda hennar og þá var skírn hennar sjálfrar rifjuð upp. Og hún brosti með fögru spékoppunum sínum þegar ég tók utan um hana og gladdist yfir að sjá skírnarbarnið mitt komið á unglingsár og vera orðið að glæsilegri ungri stúlku.
Og nú erum við prestar hér, ég og séra Guðni Már, sem fermdi hana og var með henni og mörgum ykkar í frábæru æskulýðsstarfi kirkjunnar og sjúkrahúspresturinn, séra Hjördís Perla sem ásamt Guðna Má hefur veitt fjölskyldunni ómetanlegan stuðning og hjálp með elsku sinni og einlægri trú. Þá ber að þakka Ryan, hjúkrunarmanni á vettvangi, læknum og starfsfólki sjúkrahússins fyrir öll þeirra góðu verk, lögreglu og öðrum sem tengjast málinu vegna starfa sinna. Samúð einstaklinga og samhygð þjóðar veitir styrk og hjálp í harminum þar sem við erum öll hluthafar.
Bryndís Klara Birgisdóttir fæddist í Reykjavík 2. febrúar 2007. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 30. ágúst 2024.
Foreldrar Bryndísar Klöru eru Iðunn Eiríksdóttir, viðskiptafræðingur og Birgir Karl Óskarsson, lögg. endurskoðandi. Systir Bryndísar Klöru er Vigdís Edda grunnskólanemi.
Foreldrar Iðunnar eru Halldóra Jónsdóttir, fv. fulltrúi og Eiríkur Böðvarsson fv. framkvæmdastjóri. Foreldrar Birgis eru Ragnheiður Ingunn Magnúsdóttir, fv. kennari og Óskar Þór Karlsson, fv. framkvæmdastjóri.
Systkini Iðunnar eru Haukur Eiríksson sérfræðingur hjá Orkuveitunni, Jón Ólafur Eiríksson kennari og Aldís Braga Eiríksdóttir verkfræðingur.
Systir Birgis er Anna Bryndís Óskarsdóttir taugalæknir, hálfsystir hans sammæðra er Kristín Stefánsdóttir skrifstofustjóri og hálfbróðir hans samfeðra er Vilmundur Óskarsson sjómaður.
Bryndís Klara ólst upp í Salahverfi í Kópavogi og var allt sitt grunnskólanám í Salaskóla. Hún var á 2. ári í Verzlunarskóla Íslands er hún lést. Hún hafði mikinn áhuga á íþróttum og stundaði fimleika með Gerplu í mörg ár. Hún æfði einnig knattspyrnu hjá Breiðabliki í mörg ár og þótti efnilegur fótboltakappi. Hún var mjög skapandi í hugsun, hæfileikarík í matargerð og bakstri, og hafði mikinn áhuga á hönnun og hannyrðum. Bryndís var afburðanemandi alla sína skólagöngu og var á náttúrufræðibraut við Verslunarskóla Íslands en hún hugði á læknanám að loknu framhaldsskólanámi sínu. Samhliða náminu vann hún í hlutastarfi hjá Dominos í Hafnarfirði og var einnig í sumarstarfi á leikskóla.
Bryndís Klara bjó yfir mögum kostum, sem ekki verður lýst hér, enda yrði ég þá að tala fram á kvöld. Í minningargreinum og færslum á samfélagsmiðlum birtast hins vegar margir af hennar óteljandi kostum í lýsingum ættingja og vina. Guð blessi það allt sem þið hafið sagt og ritað. Orð ykkar hugga og styrkja.
Andlát Bryndísar Klöru hefur haft gríðarleg áhrif á þjóðfélagið. Íþróttaleikir hafa haldið minningu með því að stöðva leik á 17. mínútu. Fólk hefur komið saman og minnst hennar víða, fjölmiðlar hafa fjallað um lát hennar og kallað til sérfræðinga að ræða málið.
Í þessu ferli hafa margir tjáð sig. Á minningarstund í Lindakirkju var flutt dýrmæt tjáning og skilaboð frá foreldrum Bryndísar Klöru, sem og æskuvinkonum hennar úr Salaskóla, en þær mættu í bleiku, uppáhaldslitnum hennar og lásu þessi orð:
,,Við viljum byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir að koma til að sýna stuðning og minnast Bryndísar. Fyrir þá sem þekkja okkur ekki þá erum við æskuvinkonur Bryndísar.
. . .
Þegar við hugsum um Bryndísi er það fyrsta sem okkur dettur í hug hvað hún var hress, skemmtileg, brosmild og góð manneskja en aðallega hvað hún var ótrúlega fyndin.
. . .
Bryndís var mjög ástríðufull, þegar hún fann sér eitthvað sem hún elskaði þá ELSKAÐI hún það. […] Hún setti alltaf alla aðra í fyrsta sæti og var alltaf til staðar fyrir okkur. Hún var ótrúlega traust og góð vinkona og hún lífgaði alltaf upp á daginn með fallega brosinu sínu og sætu spékoppunum sínum.
. . .
Þetta hræðilega atvik sem átti sér stað hefur haft áhrif á alla. Bryndís er hetja og mun bjarga mörgum mannslífum í framtíðinni. Við þurfum öll að passa upp á að dauði Bryndísar verði til þess að það verði gert átak í málefnum barna og unglinga til þess að eitthvað þessu líkt gerist aldrei aftur. Verum góð hvert við annað og hjálpumst að að gera heiminn að stað sem leyfir þessu ekki að gerast.
Þessi tími sem við höfðum elsku Bryndísi hjá okkur var ómetanlega dýrmætur og við munum aldrei gleyma henni.
. . .
Það hefur ekki sekúnda liðið þar sem við hugsum ekki til þín en þótt þú sért farin munum við aldrei gleyma þér og þú munt alltaf lifa í hjarta okkar. Orð geta ekki lýst hversu mikið þín verður saknað. Guð mun taka vel á móti þér uppi í himnaríki. Hvíldu í friði elsku Bryndís.“
Kærar þakkir til ykkar, kæru vinkonur Bryndísar Klöru.
Nýlega hlustaði ég á breskan geðlækni, sem jafnframt er menntaður í bókmenntafræði, heimspeki og sérfræðingur í taugakerfi manna, tala um tengsl okkar í lífinu. Hann talaði um þrjú svið sem skipta máli fyrir bæði andlega heilsu okkar og líkamlega. Inntakið í tjáningu hans um tengslin má orða svo:
Í fyrsta lagi, þurfum við öll að vera í góðu sambandi við okkur sjálf og annað fólk þ.e.a.s. við samfélagið, hið mannlega.
Í öðru lagi, þurfum við að finna til tengsla við náttúruna og fegurð hennar.
Og í þriðja lagi, þurfum við að rækta samband okkar við hið æðsta, hið heilaga, við Guð sem er upphaf alls sem er.
Guð verður hvorki sannaður né afsannaður. Til þess duga engin vísindi, enda er hann stærri og meiri en allt og sprengir huga og skynjun allra manna. Trúaður og trúlaus verða því hvor um sig að lifa í sinni trú. Við þrífumst ekki án leyndardóma, án sviða sem verða aldrei skilin til botns, enda yrði lífið óbærilegt ef við vissum allt. Heimspekingurinn Gottlieb Lessing sagði að leitin að sannleikanum væri dýrmætari en að eignast hann.
Enginn einstaklingur hefur haft meiri áhrif á heiminn en Kristur. Öll þau gildi sem við Vesturlandabúar höfum íhugað og ræktað og notað til að leggja grunn að bestu þjóðfélögum í heimi, eru til okkar komin úr gyðingdómi og kristni, annarsvegar, og grískri heimspeki hins vegar.
Allt sem við viljum standa vörð um er í raun komið úr Hugsanafljótinu, svonefnda.
[Grein höfundar frá 2019 um Hugsanafljótið og fleira: https://ornbardur.com/2019/01/07/kirkja-og-kristni-i-olgusjo/%5D
Við höfum lært að elska náungann og veita honum réttindi og þar með okkur sjálfum með því að sækja í Fjallræðu Krists og aðra tjáningu hans.
Elskan kemur ekki af sjálfu sér. Hún er nefnilega í grunni sínum ákvörðun en ekki tilfinning.
Þess vegna sagði Jesús:
Elska skaltu náungann eins og sjálfa/n þig. Hann sagði ekki:
Elskaðu náungann þegar þú ert í stuði, þegar þér líður vel, þegar þú ert sammála honum!
Elska Jesú, er alltaf frumkvæð, próaktíf, eins og það heitir á erlendum málum, próaktíf en ekki reaktíf. Þetta kemur skýrt fram í Gullnu reglunni:
„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. (Mt 7.12).
Hvað getum við gert?
Dauði Bryndísar Klöru hefur vakið þjóðina til vitundar um að nú þurfi að taka til hendinni og vinna gegn ofbeldi. Við skulum vona að sú bylgja vari sem lengst.
Nú ætla ég að ímynda mér furðulegar aðstæður. Ef í borg eða bæ fyndist vatnsleiðsla með eitruðu vatni, þá mundu yfirvöld, án nokkurs vafa, skrúfa fyrir vatnið tafarlaust. Og því spyr ég: Hvað ætla yfirvöld að gera í sambandi við það flóð ranghugmynda og hættulegs áróðurs í sumum samfélagsmiðlum, sem smjúga inn í hugarheim fólks sem eitur er veldur skaða og í sumum tilfellum algjörum ranghugmyndum? Og svo eru félagslegu vandamálin, sem eru af ólíkum toga og lama einstaklinga og bækla hug og sál. Við getum ekki haldið áfram okkar taumlausa dansi í kringum drasl og hégóma. Sönn hamingja verður aldrei grundvölluð nema á hinu andlega sviði.
Við höfum glaðst yfir því um langa hríð að vera vopnlaus þjóð, en nú er sumir unglingar og jafnvel eldri einstaklingar, farnir að vopnast hver gegn öðrum!
Lítil stúlka í Ameríku skrifaði jólasveininum eitt sinn bréf og sagði:
Kæri jólasveinn.
Ég er með stórkostlega hugmynd.
Þegar þú heimsækir öll húsin í bænum um jólin, gætir þú tekið allar byssurnar sem eru þar og sett í pokann þinn og falið þær á Norðurpólnum, því þá getur enginn drepið annan í heiminum.
Þakka þér fyrir.
Já, lausnir barna eru oft þær allra bestu því börn reynast oft dýpstu heimspekingar veraldar.
Hvernig væri að gera átak og fá unga fólkið til að skila vopnum sínum, ekki til að geyma þau á Norðurpólnum, heldur skila þeim í hendur lögreglunnar til förgunar?
Þjóðin þarfnast vitundarvakningar á mörgum sviðum!
Kirkjan hefur verið með fólki um aldir á stundum gleði og sorgar.
Kirkjan þjónar öllum og spyr ekki um stétt eða stöðu þegar þú leitar til hennar. Hún mætir fólki án skilyrða.
Skírnin hennar Bryndísar Klöru skiptir máli. Hún var vígð ljósinu, kölluð til að bera það út meðal manna og hún var vígð himninum og eilífðinni. Guð er ekki bundinn af skírninni, en hann hefur kallað okkur til að skíra fólk vegna sálgæslunnar sem í henni er fólgin á lífsveginum.
Og nú er jarðneskt líf Bryndísar Klöru á enda runnið, svo stutt, en svo fagurt og gefandi. Hún mun lifa í hjörtum okkar og aldrei gleymast. Öll eigum við minningar um horfna ástvini sem lifa með okkur í hug og hjarta.
Guð hefur þekkt okkur frá því áður en heimurinn varð til. Þá vissi hann af þeim möguleika að við, hvert og eitt, yrðum til í heimi tímans, fyrir tilstuðlan stefnumóts eggs og frumu. Við duttum í lukkupottinn og urðum til og erum til!
Njótum þess meðan dagur er og látum gott af okkur leiða. Gerum heiminn betri og náum aftur vopnum okkar í baráttunni við hið illa. Þar notum við ekki hníf heldur líf – í kærleika, miskunn, fyrirgefningu og umburðarlyndi.
Bryndís Klara hættir aldrei að vera til, enda þótt hún sé horfin af þessum heimi, því hún var og er barn Guðs og borgari himinsins, með vegabréf skírnar og fermingar í sínu andlega hjarta, sem ei laskaðist þrátt fyrir allt. Guð geymir hana og elskar eins og hann hefur gert frá örófi alda og mun gera um alla eilífð.
Vilt þú vera í sama hópi og hún og allar þær milljónir sem treyst hafa á Guð í lífi og dauða? Vertu þá á bandi elskunnar. Við skulum öll slást í för með ástinni, með elskunni, með kærleikanum, sem sigrar allt. Það geta allar manneskjur gert, hverrar trúar sem þær eru.
Guð geymi ykkur, elsku Birgir Karl og Iðunn og Vigdís systir.
Samúð tugþúsunda einstaklinga um allt land er með ykkur í dag og verður áfram.
Guð styrki ykkur, afar og ömmur: Halldóra og Eiríkur, Ragnheiður Ingunn og Óskar Þór. Og ykkur ömmu- og afasystkini, frændur og frænkur – okkur öll!
Og nú tala ég beint til þín, kæri áheyrandi:
Guð geymi þig á vegi elskunnar, Guð blessi lífsgöngu þína, „útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu“ (Sl. 121)
Höldum ótrauð áfram!
Bryndís Klara var „ljós heimsins“ meðan hún lifði og ljósið hennar lifir áfram með okkur í minningunum. Við erum einnig ljós heimsins skv. orðum Jesú Krists – lifum sem slík!
Myrkrið flýr ljósið! Myrkrið fær aldrei sigrað ljósið!
Lifum í ljósinu!
Amen.







You must be logged in to post a comment.