Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Haraldur Schiöth Haraldsson 1940-2024

Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson

Okkar bíður allra að verða minnst af samferðafólki í fyllingu tímans. Við erum öll á sömu vegferð, á sama vegi, á sömu leið. Þannig er nú lífið.

Lífið snýst að mestu um tengsl. Breski vísindamaðurinn, McGilchrist, hefur sagt að við þurfum að gefa gaum að þremur tengslasviðum á leið okkar um lífsveginn, ef við ætlum að lifa góðu og merkingarbæru lífi. Þessi þrjú svið eru:

Mannfólkið, Náttúran og Almættið:

1. Við þurfum að komast af með okkur sjálf, einnig í samskiptum okkar við annað fólk og samfélagið.

2. Við þurfum tengsl við náttúruna og að skynja að við erum af henni komin og erum og verðum háð henni um aldur og ævi. Af jörðu erum við komin og að jörðu verðum við aftur.

3. Við þurfum að rækta vitundarsamband okkar við æðri mátt, við hið stærsta, við það sem flestir kalla Guð og er að baki tilverunni allri.

Séum við í góðum málum á þessum þremur mikilvægu sviðum lífsins, þá hefur það jákvæð áhrif á heilsu okkar, ekki bara andlega heilsu heldur og líkamlega, segir fyrrnefndur vísindamaður, sem er menntaður á sviði læknisfræði, heimspeki, bókmenntafræði og líffræði.

Við komum hér saman til að kveðja Harald Schiöth Haraldsson og þakka fyrir líf hans og störf.

Haraldur fæddist í Reykjavík 21. september 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri þann 19. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru Haraldur Magnússon f.1914 – d.1983 og Guðrún Lárusdóttir f. 1904 – d.1991.

Systkini Haralds eru Elfar Schiöth Haraldsson f.1933 – d.1991 og Elsa Schiöth Haraldsdóttir f. 1943.

Eiginkona Haralds var Erna María Ludvigsdóttir f. 1947 – d. 2009.

Sonur Ernu og kjörsonur Haralds er Pétur Albert Haraldsson f. 1963, giftur Berglindi Johansen og eiga þau dæturnar Kristjönu, Karólínu og Ernu Katrínu.

Börn Haralds og Ernu Maríu eru:

a) Unnur María Haraldsdóttir f. 1968, gift Helga Bjarnasyni, sonur þeirra er Arnór Bjarni. Sonur Helga frá fyrra sambandi er Árni Freyr.

b) Haraldur Ludvig Haraldsson f. 1978, er trúlofaður Huldu Geirsdóttur. Dóttir Haralds Ludvigs frá fyrra sambandi er Viktoría María. Hulda á tvær dætur frá fyrra sambandi; Magdalenu og Amalíu.

Haraldur gekk í Vélstjóraskólann í Reykjavík og starfaði sem vélstjóri um tíma. Hann starfaði hjá heildversluninni Globus um árabil, fyrst sem sölumaður og síðar sem sölustjóri.
Haraldur stofnaði síðan sitt eigið fyrirtæki, H. Haraldsson heildverslun sem hann rak í um 20 ár. Síðustu árin starfaði Haraldur sem húsvörður hjá Atlanta flugfélaginu og einnig sem rútubílstjóri hjá Hópbílum.

Hann flutti til Akureyrar 2017 og bjó síðustu 9 mánuðina á Hjúkrunarheimilinu Hlíð.

Þegar ég hitti börnin hans bað ég þau að nefna orð sem lýstu honum. Lýsingarorðin létu ekki á sér standa:

Pabbi var:

– hjálpsamur

– glaður

– stríðinn

– jákvæður

– gat ekki setið kyrr, alltaf að!

– á elliheimilinu fyrir norðan var hann upptekinn af „að hjálpa þessu gamla fólki“!

– bjó yfir léttleika

– átti fáa góða pabbabrandara sem voru óspart notaðir út frá reglunni, gæði en ekki magn!

Haraldur lést 19. ágúst s.l. degi eftir dánardag Ernu Maríu sem var 18. ágúst 2009. Og svo gengu þau í hjónaband á sínum tíma, 20. ágúst 1966!

Þau áttu saman góða daga, voru dugleg og seig að koma sér áfram og svo höfðu þau alla tíð gaman af að dansa. Liðin eru 15 ár frá andláti Ernu Maríu. Blessuð sé minning hennar.

Þá er það einnig sérstakt að Elvar bróðir Haralds og Guðrún móðir þeirra létust með dags millibili, hann 22. apríl og hún 23. apríl 1999. Spyrja má hvort þetta séu tilviljanir eða ekki?

Haraldur lærði margt af lífinu. Léttleiki og skörp eftirtekt gögnuðust honum vel og eftir hefðbundna skólagöngu stundaði hann ýmis störf eins og fyrr er getið.

Harry var handlaginn enda vélstjóri að mennt og kunni lag á öllu og kenndi börnum sínum að bjarga sér við allar hugsanlegar aðstæður. Hann var útsjónarsamur og lausnamiðaður. Oft smíðaði hann sín eigin verkfæri.

Hann gerði upp marga bíla og var skapandi í þeim efnum, keypti gjarnan notaða bíla af Sölunefnd varnarliðseigna sem var og hét og kom köggum og minni bílum í betra stand, notaði eða seldi.

Hann stundaði sjó um tíma og lenti í því, að bátur sem hann var munstraður á, brann – og komst hann naumlega út um lúgu á bátnum og bjargaðist. Það var erfið reynsla sálarlega.

Unnur segist hafa lært dugnað af pabba, að vera ætíð til taks og með þjónustulund. Haraldur mótaði börnin öll með sínum persónuleika, gleði og bjartsýni.

Ungur gekk Haraldur í Frímúrararegluna.

Í bréfi til Glitnisbræðra frá stjórnanda stúkunnar vegna andláts Haralds segir:

Bróðir Haraldur Schiöth Haraldsson lést þann 19. ágúst síðastliðinn. Hann gekk í Glitni 5. mars 1975 og hlaut X. stig 5. desember 2013.

Bróðir Haraldur var búsettur á Akureyri hin seinni ár og flutti sig því yfir til St. Jóh. stúkunnar Rúnar á Akureyri þann 24. júní 2018.  

Br. Haraldur gegndi embætti vara söngstjóra í Glitni á árunum 1977 – 1988 og vara söngstjóri í St. Jóh. stúkunni Iðunni 2013 – 2018.

Hann var sæmdur heiðursmerki Glitnis 14. janúar 2014 og 40 ára starfsaldursmerki Reglunnar 3. maí 2023.

Það sem dró Harry norður var að Unnur María og fjölskylda búa þar og hann valdi að vera nær þeim.

Harry hafði brennandi áhuga á mótorhjólum og eftir að Erna dó gerðist hann meðlimur í félagsskap frímúrarabræðra sem eiga mótórhjól og ber heitið Bifhjólaklúbburinn Fenrir. Með félögum sínum í Fenri hjólaði hann víða á björtum sumardögum, en svo átti hann á yngri árum gullfallegan bát um tíma sem smíðaður var úr mahoní sem telst eðalviður og eftir að hann flutti norður eignaðist hann árabát með utanborðsmótor og kajak.

Að búa við ströndina og geta horft á hafið skipta skapi og litum er eitt af því marga sem gerir landið okkar svo heillandi.

Haraldur var líka hjólreiðamaður – eins og presturinn, sem hér stendur og kom á hjólhesti sínum úr Miðbænum til þessarar athafnar hér í Bústaðakirkju!

Þegar ég hitti Harald á fundum í Reglunni, var hann ætíð hress og kátur og gjarnan með gamansemi á vörum.

Hann var músíkalskur og lék á píanó og söng í Frímúrarakórnum um árabil.

Hann kynntist henni Ernu sinni á dansgólfinu á Borginni, en dansinn var ætíð hans líf og yndi og þegar hann var kominn inn á Hlíð fyrir norðan urðu „stelpurnar“ þar fljótar að finna í honum frábæran dansfélaga.

Hann hélt ætíð í sinn hressileika og börnin segja að hann hafa verið yndislegur og hjálpsamur „tilfinningabangsi.“

Við njótum góðrar stundar hér í Bústaðakirkju, er við kveðjum góðan dreng. Frændsystkini Ernu Maríu heitinnar, Sigrún og Páll Óskar Hjálmtýsbörn, en feður þeirra voru bræður, syngja af sinni alkunnu snilld og Jónas Þórir, Glitnisbróðir, leikur tónlist með sínum fimu fingrum, br. Örnólfur leikur á selló og svo er presturinn einnig Glitnisbróðir og bræður okkar úr Glitni standa heiðursvörð hér í dag.

Betra getur þetta eiginlega ekki verið! Dagurinn er bjartur og svalur. Gætu þau lýsingarorð ekki líka átt við um hann Harald? Bjartur og svalur.

Hann hefur lokið ævi sinni hér í þessum heimi og hans bíður eilífðin sem við fáum ekki að vita neitt um fyrr en við mætum henni sjálf. Samt höfum við lifað í henni, en þó ekki í öllum víddum hennar, tel ég, því þær hljóta að vera stærri og meiri en við skynjum hér í þessum heimi tímans.

Það er svo merkilegt með lífið, að um það verða að gilda leyndardómar og hulin svið, því ef við vissum allt, yrði lífið óbærilegt.

Ég nefndi í inngangi ræðunnar sviðin þrjú sem svo mikilvægt er að rækta, kærleikann til samferðafólksins, til náttúrunnar og Guðs.

Frímúrarareglan er mannræktarfélag sem beinir sjónum sinna manna, að þeim sjálfum, hið innra – og svo að hinu ytra, náttúrunni og loks að Honum sem smíðað hefur þessa veröld, Höfuðsmiðnum.

Það er merkilegt að hugsa til þess að maðurinn, sem skrifaði sköpunarsöguna fremst í Biblíunni, skuli hafa gert sér grein fyrir því að ljósið væri uppspretta alls. Þetta hafa vísindin sagt um tvö þúsund árum á eftir skáldinu, sem skrifaði hina merku sögu, með kenningu sinni um Miklahvell. Sköpunarsagan er lofgjörð skálds sem setti hana á papýrus fyrir margt löngu, óður um tilveruna og hún er hugvitsamlega samin og röð atburða sögunnar er einmitt í anda þess sem síðar hefur verið sett fram af vísindamönnum.

Vitundin um að til sé hugur æðri öllu, sem starfi í kærleika, hefur fært okkur bestu þjóðfélög veraldar í gegnum kenningar Krists, sem kenndi okkur að elska alla, allt fólk, án tillits til húðlitar eða kyns, stéttar eða stöðu. Sú hugmynd ein að við séum öll sama eðlis – og systkini að auki – er fögur – og þeirri vitund þarf að halda á lofti og rækta þegar við leitumst við að tengjast sviðunum þremur: Mannlífinu, Náttúrunni og Himninum.

Þessar áherslur koma fram með sínum hætti í elstu stjórnarskrá veraldar, þeirri Bandarísku, og því er við hæfi hér í þessari útför frímúrarabróður, að nefna að hluti þess hóps stjórnmálamanna, sem settu saman Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna árið 1776, sem leiddi svo til ritunar Stjórnarskrárinnar, sem var samþykkt 17. september 1787, var skipaður frímúrurum að hluta til. Nefna má Benjamin Franklin og George Washington í því sambandi. Hópur þeirra sem rituðu þessi merku skjöl, lögðu lóð sín á vogarskálar mannréttinda og hugmynda um frelsi einstaklinga og réttlátt þjóðskipulag á þeim tíma. Verk þeirra kveikti síðar ljós frelsis og mannréttinda víða í heiminum.

Þetta var nú innskot um þátt frímúrara í merkum framförum í veröldinni. Áhrif íslenskra bræðra í lífi Haralds voru talsverð. Án efa mótuðust lífsskoðanir hans af starfinu með bræðrunum bæði hér í Reykjavík og á Akureyri. Það voru þeir Árni Gestsson í Glóbus og Lúðvík Leópold Hjálmtýsson, tengdafaðir Haralds, sem voru meðmælendur hans við inntökuna í Regluna. Þátttaka hans þar í gegnum árin byggði ofan á þá trú sem boðuð er í skírn og fermingu.

Við kveðjum hann hér í dag af virðingu og með þökk. Hann mun áfram lifa í minningum okkar og í himni Guðs sem hann var vígður til í heilagri skírn.

Guð blessi minningu góðs drengs, Haralds Schiöth Haraldssonar og góður Guð blessi okkur öll, sem enn erum á lífsveginum:

í mannlífinu, náttúrunni – og einnig í elsku Guðs!

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons