
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Kristján Smith
1942-2024
Smelltu á tengilinn ef þú vilt hlusta:


Hlíð í Hrunamannahreppi
Ræðan:
Hver er saga okkar? Hver er saga þín og mín? Við eigum öll okkar sögu en í reynd er saga okkar ekki í eintölu, hún er til í mörgum útgáfum. Við munum sumt, en annað ekki og við næstu ritun sögunnar breytast minningarnar, þær sem voru á kafi í fyrstu tilraun, fljóta upp á yfirborðið í þeirri næstu og svo framvegis.
Vð þekkjum líka fullyrðinguna um að sigurvegarinn hverju sinni riti söguna og ráði efnistökum.
Hvað munum við? Og hver man okkur? Hvor tveggja spurninganna hefur í raun mörg svör. En svo má líka spyrja: Hver veit allt og man allt?
Kristin trú gerir ráð fyrir alvitund, huga sem veit allt, skilur allt, elskar allt.
Við kveðjum Kristján hér í þessari fögru kapellu með frábæru listaverki Leifs Breiðfjörð sem sýnir göngu Krists upp á Golgata. Hermenn fylgja honum með brugðin spjót og branda. Hann er krýndur með þyrnikórónu og leiddur til æðstu valda sögunnar, með háði og spotti og með því að vera negldur á trékross þar sem lífið var murkað úr honum hægt og bítandi – og opinberlega – til að hræða lýðinn og minna á hvar valdið lá á þeim tíma.
Kross er í eðli sínu þversögn, hann vísar upp og niður og út og suður. Hann er þversögn og sem slíkur hefur hann hjálpað heiminum að skilja þversagnir lífsins á dýpri hátt en nokkuð annað fyrirbrigði veraldarsögunnar.
Er það ekki hneyksli að grófur kross úr timbri skuli vera fegursta djásn sem heimurinn hefur eignast? Sýnir það ekki húmor almættisins að snúa öllu á haus fyrir okkur, láta okkur halda hitt og þetta og skella svo sannleikanum framan í okkur eins og kaldri vatnsgusu? Og okkur svelgist á, okkur bregður, við verðum forviða, hissa, undrandi, ráðvillt, full efa og spurninga.
Þannig er krossinn og verður um aldur og árþúsund, ekki hvaða kross sem er heldur KROSSINN á Golgata.
Lífið hefur sínar þversagnir. Lífið er krossganga, ferli hamingju og harma, vegferð sem skilar okkur að afgerandi gatnamótum sem vísa okkur inn í blindgötu þaðan sem enginn á afturkvæmt.
Við erum stödd á krossgötum þegar við kveðjum en við erum þó ekki komin á lokapunktinn, en hann Kristján hefur mætt þeim mærum sem bíða okkar allra.
Hann átti sína góðu daga og þekkti auðvitað öll veðrabrigði lífsins, sem fólk almennt talað, gengur í gegnum á lífsveginum.
Saga hans, er til með hans eigin orðum. Hún er ekki margra binda verk heldur einskonar smásaga.
Við skulum heyra söguna hans sem hann skildi eftir:
Sagan Mín
Ég, Kristján Smith (þekktur af flestum sem Diddi) fæddist 8. júlí 1942 á fæðingardeild Landspítala á Eiríksgötu. Æskuheimið mitt var á Eiríksgötu 11. Og ólst ég þar upp ásamt 3 systkinum, Ernu Smith (fædd 1937 – lést 2014), Sigurbjörgu Smith (fædd 1944) og Axel Smith (fæddur 1949 – lést 1988).
Barnaheimilið mitt var Grænaborg og róló á Freyjugötu. Árið 1947 rétt fyrir Heklugos fór ég í sveit að Presthúsum í Mýrdal 5 ára gamall hjá Ingveldi Tómasdóttur og Guðjóni sem voru sómafólk. Foreldrar mínir fóru til Danmerkur í sumarfrí og var ég þar í rúmar tvær vikur.
Eftir þetta sumar var ég þar í sveit næstu sumur þar á eftir fram til 13 ára í um 2 ½ mánuð á hverju sumri. Og eftir það næstu tvö til þrjú árin þar á eftir, þrjár vikur í senn.
Ég gekk í Austurbæjarskólann, Gaggó og Kvöldskóla KFUM og K.
Nú, um 11 ára aldur fékk ég vinnu hjá föður mínum við að einangra leiðslur í Hjúkrunarkvennaskólanum við Eiríksgötu þegar var verið að byggja hann og fékk ég smá laun fyrir og var mjög lukkulegur með það.
Um 13-14 ára var ég sendisveinn í Stálsmiðjunni h/f á hjóli, hjólaði út um allan bæ með gögn og var það mjög skemmtilegt starf.
Um 14-15 ára fór ég að vinna hjá föður mínum við pípulagnir og fór svo á samning hjá honum 16 ára þann 1. okt. 1958 og lauk honum 1. okt. 1962.
Sumarið 1959 tók ég mér frí frá pípulagningum og fór sem messagutti á Lagarfossi í tvo túra sem tóku tæpa tvo mánuði hvor og síðan á Tungufoss nokkrum mánuðum síðar í einn mánuð. Kom ég til fjölda landa í þeim ferðum.
Árið 1962 kynntist ég Margréti Hinriksdóttur og um ári seinna giftum við okkur. Fyrsta heimili okkar var í Granaskjóli og svo að Kleppsvegi 134 og eignuðumst við 2 börn sem eru Laufey Smith fædd 16. maí 1964 og Svanur Smith fæddur 16. júní 1967.
Þann 3. des. 1965 fékk ég sveinsprófið. Um vorið 1966 fórum við í frí til Akureyrar til systur Margrétar og fékk ég vinnu hjá mági Möggu á barnum í Sjallanum og var það mjög skemmtilegt, var ég þar í um 2 mánuði.
Eftir það fékk ég vinnu á barnum á Loftleiðum (Vínlandsbar) og var þar í um 5-6 mán.
Um haustið 1968 skildum við Margrét og og gengið var frá lögskilnaði 1969.
Og þann 24.9.1968 fékk ég Meistararéttindi í pípulögnum og vann við það í nokkur ár.
Um haustið 1959 gekk ég í skíðadeild Víkings og kynntist þar mörgum góðum félögum sem eru með enn í dag. Við fórum saman á böll hingað og þangað um landið og mikið á Hótel Sögu, Klúbbinn, Þórskaffi, Glaumbæ og fleiri staði og nutum þess að vera til.
Þann 3. jan. 1971 kynntist ég núverandi konu minni Hrefnu Ólafíu Arnkelsdóttur og eigum við strákinn Kristján Ólaf Smith sem fæddist 17. ágúst 1974 .
Árið 1972 keyptum við okkur kjallaraíbúð, óinnréttaða, að Marklandi 2 og innréttuðum við hana.
3 árum síðar fluttum við okkur í Seljaland 7.
Í janúar 1978 fórum við til Englands þar sem Hrefna kynnti sér bankastörf í 8 mánuði og eftir það fórum við í ferðalag um Evrópu með tengdaforeldrum mínum, dóttur og syni í um einn mánuð og enduðum við í Bergen með viðkomu í Færeyjum á leið til Íslands.
Og í Seljalandi bjuggum við þar til 1982. Snemma sama ár byggðum við okkur parhús að Markarvegi 14, sem við seldum síðan og keyptum á Eiríksgötu 11, 1998 og bjuggum þar til 2018 þar til við festum okkur íbúð að Mánatúni 1.
Árið 1973 fór ég að vinna í verslun Gunnars Ásgeirssonar að Suðurlandsbraut og var þar í tæp tvö ár. Eftir það vann ég við pípulagnir þar til 2. maí 1984 er ég réði mig í Húsasmiðjuna og vann þar í 25 ár.
Árið 1975 gekk ég í Kiwanis-hreyfinguna eftir lát föður míns sem var stofnandi Kiwanisklúbbsins Heklu.
Árið 1977 tók ég að mér þjónustustarf í Kiwanis-húsinu sem var í Brautarholti og var þar til 1981.
Árið 1975 skráði ég mig í Stangveiðifélag Reykjavíkur og er enn í því félagi og nokkrum árum síðar myndaðist veiðihópur með fjórum stöngum sem fór saman í nokkur ár í Hítará, alltaf í fyrstu viku júlí og voru þetta mjög skemmtilegar veiðiferðir.
Síðustu tvo áratugi hefur sumarhús sem ég byggði, Hlíð í Hrunamannahreppi, verið mitt helsta áhugamál og höfum við Hrefna eytt ómældum góðum tíma þar. Fyrstu árin þegar við bæði vorum að vinna, þá fórum við strax eftir vinnu á föstudögum og komum á sunnudagskvöldum og jafnvel á mánudagsmorgnum fyrir byrjun vinnudags en síðustu ár eftir að við hættum höfum við getað varið meiri og lengri tíma þar með syni okkar Krúsa.
Þetta er sagan hans Kristjáns. En svo eigið þið sögu sem hefur fleiri liti, önnur sjónarhorn.
Þegar ég sat með Hrefnu, Kristjáni Ólafi og Hrafnhildi þá heyrði ég orð eins og glaðlyndur, dró að sér fólk, fljótur að gleyma því sem var erfitt, handlaginn og sú gáfa sögð vera ættarfylgja. Hann var félagslyndur, hjálpsamur, hann ók um borgina og tæmdi bauka fyrir Hjartaheill sem hann vildi allt gera fyrir og hefði af þeim sökum viljað hafa söfnunarbauk við dyrnar hér í dag. Hann hafði ýmis mottó eins og ekkert vesen, gera hlutina, drífa í því.
Enginn getur skráð allar sínar minningar eða annarra. Maður málar mynd af landslagi sem er bara brot af veruleikanum og túlkar það á sinn hátt. Þannig er lífið. Enginn veit allt eða hefur allt, en milljónir manna trúa því að til sé hugur sem veit allt og skilur allt.
Saga, sögur, með margskonar litum, litum regnbogans, sem um aldir hefur verið fagurt tákn um elsku og er nú óspart notaður sem tákn um að elska alla. Auðvitað eigum við að elska allt fólk.
Öll erum við á einhverju rófi. Við erum á litrófinu, í regnboganum, sé litið til augna okkar og húðlitar. Við erum í stafrófinu því upphafsstafur nafns okkar á sinn stað á því rófi. Svo erum við öll á geðrófinu líka enda ekkert okkar án geðs.
Þessari rófa-þrenningu er hér haldið fram til að minna okkur á að við erum öll systkin í heimi sem á sér einn og sama uppruna, heimi sem er undursamlegt fyrirbrigði, fullur af fegurð, litum og formum, en líka hættum sem eru bæði til staðar í náttúrunni og líka sálinni.
Þjóðir heims eru nú á undarlegri vegferð sem eigi sér fyrir endann á. Margt fólk er ráðvillt og ringlað og finnur ekki lengur til neinna róta, er týnt og ringlað í hringekju tjáningarflóðs sem steymt er til okkar alla daga, alla nætur. Veðurkerfin, hæðirnar og lægðirnar, sem berast að huganum alla daga bera sum í sér krafta sem skemma og eyðileggja.
Og þá er spurning hvort einhver Örk geti borið okkur heil í gegnum þennan veðraham?
Krossinn og Örkin voru smíðuð úr timbri, lífrænu efni og hvort tveggja fyrirbrigðið telst til helstu tákna sem veröldin á.
Nýlega tókst konu nokkurri að finna smábroti af leirtöflu réttan stað í leirsteinspúzzli hjá Breska þjóðarsafninu. Þar kom í ljós ævafornt minni frá Babylóníu þar sem vísað er til fornrar grindar af skipsskrokki á háu fjalli fjarri Babylóníu. Skipsbrak á fjalli? Hvernig gat skip borist þangað?
Minnið um flóðið er til í fornum sögnum hjá fleiri en einni þjóð og mörgum öldum fyrir ritun textans um Nóa í Gamla testamentinu. Hamfarir hafa oft gerst í heiminum og einhvern tímann gerðist það – og kannski oftar en einu sinni – að fólk bjargaðist á skipi undan miklu vatnsflóði.
Það minni lifir m.a. í gyðingdómi og kristni, minnið um skipið sem bjargar. Þess vegna heitir meginhluti hverrar kirkju, kirkjuskip, þar sem minnt er á þá von sem þeir tveir smíðisgripir sem kross og kirkja eru, og kross og örk bera í sér, sem stór hluti mannkyns þekkir og milljónir hafa horft til um aldir og gera enn á krossgötum lífsins.
Við kveðjum Kristján Smith á þessum helga stað. Hann ber kristið fornafn og ættarnafnið vísar til smíða og svo var hann iðnaðarmaður og margt lék í höndum hans.
Saga okkar verður til jafnóðum með hverjum lífsdegi. Segja má að við smíðum ævi okkar og sögu með verkum og ákvörðunum daganna. Við smíðum okkur skilning, byggjum okku heimsmynd og hugarheim um tilgang lífsins. Í því verkefni er vert að gefa gaum að þeirri trú sem byggir sitt myndmál á efninu úr lífsins tré, trjáviðnum sem notaður var í Örkina og er enn notaður í kirkjubyggingar og krossinn, sem nú er sem betur fer einungis til sem tákn um von og líf.
Ég hóf þessu minningarorð á að tala um sögu, sögu okkar hvers og eins og svo kom saga Kristjáns.
Og nú heldur sagan áfram, hans í annarri vídd, en okkar hér á jörðu.
Góður Guð blessi minningu Kristjáns Smith, sem helgaður var himni Guðs í heilagri skírn, og vígður því hlutverki að bera elsku Guðs vitni, með tákni krossins á enni sér og brjósti.
Guð blessi einnig okkur, sem enn erum um borð í þeirri örk sem jörðin er, sem ferðast umhverfis sólina einu sinn á ári.
Örk og arkir!
Örk trúarinnar er enn á siglingu og þar er enn verið, víða um heim, að munstra fólk um borð!
Amen.
You must be logged in to post a comment.