
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Ásgerður Hinrikka Annasdóttir
21. des. 1946 – 8. ágúst 2024
Útför frá Hafnarfjarðarkirkju
Jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði
Sálmaskráin er neðanmáls með myndum
Smelltu á tengilinn og þú getur hlustað. Lengd tæpar 16 mínútur.
Því má halda fram með nokkrum rökum að við Vestfirðingar séum ekki alveg eins og fólk er flest. Já, við erum sérstakt fólk sem mótast hefur í gegnum aldirnar í stórbrotnu og harðbýlu náttúruundri sem Vestfirðirnir eru.
Frá því ég flutti að heiman hafa fjöllin og heilu fjallgarðarnir, risavaxnir dómkirkjuturnar Óshlíðar og tindar fjallanna í Skutulsfirði og víðar, fylgt mér út um allan heim og hef ég nú víða farið. Fegurð heimahaganna býr í hjarta mér.
Landnámsmenn Vestfjarða voru 52 en ég nefni hér aðeins þrjú nöfn.
„ÞURÍÐUR SUNDAFYLLIR og VÖLU-STEINN, sonur hennar, námu Bolungarvík og bjuggu í Vatnsnesi.
HELGI HRÓLFSSON. Fann fjörð einn og hitti þar skutil í flæðarmáli. Það kallaði hann Skutilsfjörð.“
Þetta var dugmikið fólk sem kom á skipum sínum yfir úfið haf.
Skip!
Við erum stödd í kirkjuskipi. Kirkjur eru sem skip á hvolfi. Orðið kirkjuskip er til í mörgum tungumálum t.d. á ensku er orðið nave sem er stofninn í orðinu navy sem merkir sjóher. Kjölurinn snýr upp og vísar til himinsins. Þessi hugsun er vísun í Örkina hans Nóa, en sagan um hann geymir minni um flóð í Mið-Austurlöndum, sem er þekkt í fornum áletrunum bæði í Babýlóníu þar sem nú er Bagdad og víðar. Flóð eyddi bygguðum og fólki oftar en einu sinni í sögu mannkyns og það minni er hluti af hjálpræðissögu gyðinga og kristinna manna, minnið um Örkina, skipið sem bjargar á ögurstund og fleytir okkur yfir mæri lífs og dauða.
Dugmikið fólk hefur haldið Vestfjörðum í byggð í 1150 ár, sótt þar sjó í misjöfnum veðrum, borið björg í bú og landverkafólkið hefur einnig lagt hönd á plóg og aukið verðmæti aflans. Störfin í landi eru margvísleg. Þjóðfélagið er eins og stór vinnslusalur þar sem hver hönd skiptir máli.
Við kveðjum hér í dag konu sem skilað hefur sínu, eins og sagt er, og gert það með sóma. Hún var alla tíð dugmikil og kröftug kona.
Æviágrip:
Ásgerður Hinrikka Annasdóttir fæddist á Ísafirði 21. desember 1946. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 8. ágúst síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Annas Jónsson Kristmundsson (f. 25. október 1911, d. 15. september 1992) og Friðgerður Guðný Guðmundsdóttir, (f. 1. febrúar 1919, d. 24. júní 2009).
Systkini Ásgerðar Hinrikku eru:
Steinunn Sigríður Lovísa, f. 1941,
Vilhelm Sigurður, f. 1945, d. 2009,
Bergþóra, f. 1950,
Guðný Anna, f. 1951, d. 1952,
Sigmundur Jón, f. 1953,
drengur, f. 1954, d. 1954,
Guðný Anna, f. 1958 og
Dagný, f. 1961.
Ásgerður Hinrikka gekk í Barnaskólann á Ísafirði og síðan Gagnfræðaskólann á Ísafirði og spilaði á klarínett í lúðrasveit Tónlistarskólans. Fullorðin lærði hún svæðisbundna leiðsögn um Vestfirði hjá Leiðsöguskóla Íslands 1994.
Hinn 30. desember 1967 gengur þau í hjónaband, Ásgerður Hinrikka, og Ómar Guðbrandur Ellertsson, f. á Ísafirði 12. október 1947. Foreldrar hans voru Ellert Finnbogi Eiríksson (f. 17. október 1911, d. 13. ágúst 1983) og Ísól Fanney Guðbrandsdóttir (f. 11. mars 1912, d. 7. desember 2003). Þau fóru sem sagt til séra Sigurðar, daginn fyrir gamlársdag og létu pússa sig saman. Um var að ræða svokallaða sparimerkjagiftingu til þess að Ómar gæti klárað Sjómannaskólann. Algengt var í þá tíð og ekki síst meðal sjómanna, að ganga í hjónaband um áramót. Slíkt tók ekki marga mánuði að undirbúa með pöntun á sal og jafnvel veislutjaldi og sérstökum viðburðarstjórnanda, tónlistarfólki, sérprenti, skrauti, blístrum og öllu tilheyrandi. Ómar er nú sestur í helgan stein, en var farsæll skipstjóri á vestfirskum aflaskipum um árabil.
Börn Ásgerðar Hinrikku og Ómars eru þrjú.
1) Friðgerður Guðný, er elst f. 1. febrúar 1967, fjármálastjóri hjá Menntskólanum á Ísafirði, maki Gísli Jón Kristjánsson, f. 18. júlí 1962, þau eiga þrjá syni:
a) Ásgeir Hinrik, f. 1994, maki Alexandra Ríkharðsdóttir, f. 1996, synir þeirra eru Arnar Máni, f. 2022 og Emil Aron, f. 2024;
b) Gísli Jörgen, f. 1998, maki Dagný Björg Jónsdóttir, f. 1997, dóttir þeirra er Aldís Björg, f. 2021 og
c) Jón Ómar f. 2000.
2) Ísól Fanney f. 8. september 1969, verkefnastjóri hjá Sorpu, maki Friðjón Rúnar Sigurðsson, f. 7. ágúst 1968, framkvæmdastjóri, börn þeirra eru:
a) Anna Borg, f. 1994, maki Hrannar Darri Gunnarsson, f. 1993, dætur þeirra eru Lovísa Rún f. 2020 og Júlía Kristín f. 2023.
b) Sigurður Rúnar, f. 2002, maki Anna Glódís Erlendsdóttir, f. 2002 og
c) Kristín Heba f. 2006.
3) Ómar Freyr, f. 14. nóvember 1977, sölustjóri hjá Advania, maki Kristrún Helga Ólafsdóttir f. 29. október 1980, félagsráðgjafi, sonur þeirra er:
a) Ríkharður Helgi f. 2008.
Ásgerður Hinrikka ólst upp á Ísafirði og bjó þar lengst af þar til þau hjónin fluttu til Hafnarfjarðar árið 2015.
Ásgerður var kölluð Didda, hún var ekki skírð fyrr en hún var rúmlega 3 ára og þá með Bergþóru systur sinni. Ásgerður vildi eðlilega ekki láta halda á sér undir skírn og sagði að athöfn lokinni að hún héti „Ásgerður Hinrikka Didda skass.“ Það var svolítið lýsandi fyrir hana, hún var alltaf mjög ákveðin, gat verið hvöss og stjórnsöm.
Hún vann sem unglingur í rækju hjá Niðursuðuverksmiðjunni á Torfnesi, í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, á Mánakaffi, á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og síðar á leikskólanum við Hlíðarveg eftir að dæturnar fæddust. Þá vann hún um tíma í verzlun föður míns, Jóns Bárðarsonar, sem var til húsa í Gamla bakaríislengjunni í Aðalstræti. Þá segir Íslendingabók, sem lýgur afar sjaldan, að pabbi minn hafa verið fimmmenningur við þau bæði hjónin, Annas og Friðgerði og ég þar með skyldur Diddu í báðar ættir.
Fjölskyldu Ómars man ég einnig en hún bjó ekki langt frá verslunum föður míns þar sem ég hóf störf níu og hálfsárs og sendist oft með vörur heim til fjölskyldunnar í Aðalstræti.
Ásgerður Hinrikka var heimavinnandi eftir að hún eignaðist Ómar Frey, en árið 1987 fór hún að vinna sem ritari við Grunnskólann á Ísafirði og vann þar þangað til hún hætti að vinna árið 2011.
Didda var eins og alfræðiorðabók í grunnskólanum, þekkti nánast öll börn með nafni, vissi hverjir foreldrarnir voru og jafnvel símanúmerið líka.
Þau hjónin fóru alltaf mjög vel með, það var safnað fyrir hlutunum, engir yfirdrættir eða smálán. Þegar þau bjuggu á Hlíðarveginum vann Didda í nokkrar vikur á hálfri næturvakt í Rækjustöðinni til að safna sér fyrir hrærivél.
Minningarnar eru margar.
Didda var mikil útivistarkona. Hún gekk eitt árið upp á Macu Picchu í Perú ásamt Friðgerði dóttur sinni og voru þær fjóra daga á göngunni upp fjallið á þeim magnaða stað.
Þá fór hún í hestaferð með hópi fólks í kringum Drangajökul sumarið 2000. Hafði aldrei setið hest en lék sér að því að sitja hest í marga daga.
Ásgerður Hinrikka var félagslynd, var í saumaklúbbi, gönguhópi og var vinamörg í Grunnskólanum á Ísafirði, var virk í Oddfellow hreyfingunni í yfir 25 ár.
Ásgerður og Ómar voru dugleg að ferðast innanlands og utan, með börnin og síðan saman eftir að börnin voru farin að heiman. Þau fóru til margra heimsálfa, Suður Afríku, Kína, Jamaica, víða um Evrópu og nutu þess að ferðast. Þau fóru einnig í margar ferðir með alla sína afkomendur, bæði innanlands og utan. Hringinn í kringum landið sumarið 1974 með dæturnar á Volkswagen bjöllu. Hjónin reyktu bæði, með lokaða glugga, ekki mátti opna því þá kæmi rykið inn, þannig að dæturnar sáu lítið af landinu í þessari ferð.
Þegar hún var 66 ára fékk hún þá hugmynd að ganga á Straumnesfjall með dætrum sínum, tveimur barnabörnum og fleirum. Ísól man enn auma fætur í kjölfar göngunnar og að mamma hennar hafi vart blásið úr nös.
Þau nutu þess að fara saman í leikhús og á tónleika og voru alla tíð samrýmd og nutu lífsins þegar þau áttu stundir saman. Ómar rifjaði upp í mín eyru þegar hann var á sjó svo mánuðum skipti í 25 daga útilegum og átti svo fimm daga frí.
Kveðja hefur borist frá yfirmeistara, Rebekkustúkunnar Þóreyjar nr. 6, á Ísafirði, Helgu Birnu Jónsdóttur, en stúkufélagar votta aðstandendum Ásgerðar innilega samúð sína.
Einnig er hér flutt kveðja frá Hrafnistu Hafnarfirði. Þar segir: „Við minnumst elsku Ásgerðar vinkonu okkar sem öllum þótti vænt um og þökkum aðstandendum góða viðkynningu. Blessuð sé minning Ásgerðar Hinrikku.“
Guðný Anna Annasdóttir og fjölskylda í Danmörku, senda samúðarkveðjur til ykkar allra.
Vestfirðingar. Dugmikið fólk og djarft settist þar að og af þessu fólki erum við mörg komin í 30. eða 32. lið. Landnám Íslands er sagt hafa átt sér stað árið 874 eða fyrir 1150 árum sem er rétt rúmlega tíföld ævi öldungs sem nú lifir elstur Íslendinga á hjúkrunarheimilinu Eyri, Ísafirði og telur 106 ár. Og frá okkur og allt til kynslóðar Jesú Krists eru ekki nema 19 ævir hans. Í þessu samhengi eru aldir og árþúsund ekki svo langur tími. Og tíminn, þetta furðulega fyrirbrigði, heldur áfram að líða og við eigum aldrei nema andrána, þetta sekúndubrot á milli hins liðna og þess sem kemur. Til forna var talað um hinar þrjár víddir tímans. Þær nefndust Urður, Verðandi og Skuld. Urður vísar til þess sem þegar er orðið. Verðandin er andráin, núið og svo er framtíðin Skuld sem merkir að við höfum skyldur að uppfylla, skyldur við börnin okkar og komandi kynslóðir.
Og nú er Ásgerður Hinrikka horfin frá okkur, þessi dugmikla kona sem varð að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómi sem skerti minni hennar og skynjun.
Gott er að hvíla í þeirri trú að þótt við getum gleymt, gleymir Guð okkur aldrei. Þegar Jesús ræddi elsku Guðs og umhyggju líkti hann okkur við smáfugla og fyrst Guð gætti þeirra, skyldi hann ekki miklu fremur muna okkur.
Jesús sagði: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lk 12.6-7)
Didda sinnti sínum skyldum af dugnaði og festu meðan kraftar leyfðu.
Hennar jarðneski tími er liðinn og við tekur eilífðin. Rætt var um skip um Örkina um sjó og haf, tíma og eilífð.
Nú er Ásgerður Hinrikka komin um borð í það skip sem minnir á eilífðina, kirkjuskipið, sem ber hana yfir brim og bylgjur og til himinsins heim. Við sem sungum á Hernum á Ísafirði sem börn munum sönginn:
Mitt fley er svo lítið, en lögurinn stór,
mitt líf er í frelsarans hönd.
Og hann stýrir bátnum, þótt bylgjan sé há,
beint upp að himinsins strönd.
Og hann stýrir bátnum þótt bylgjan sé há,
beint upp að himinsins strönd.
Um eilífðina vitum við það eitt að Kristur er þar og verður. Við munum öll mæta okkar dómi þar, dómstóli sem dæma mun í kærleika, af miskunn og náð. Dómstóll götunnar mætir okkur ekki þar, sem betur fer, heldur eilíf og frelsandi elska Guðs, föður, sonar og heilags anda.
Guð blessi minningu Ásgerðar Hinrikku Annasdóttur og góður Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum.
Amen.


You must be logged in to post a comment.