
Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson
Texti og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan og sálmaskráin öll fyrir neðan textann.
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Anna Guðrún Hannesdóttir Scheving
1936-2024
Útför frá Neskirkju
föstudaginn 3. maí 2024 kl.13
Jarðsett í Gufunesi
Hvernig er unnt að skilja þetta undur sem lífið er? Hugsið ykkur þessa gjöf sem okkur var færð. Gjöfin varð til við getnað. Þá var nánast allt ákveðið nema það sem síðar varð í uppeldi foreldra sem völdu hitt og þetta fyrir barnið sitt og svo kom vilji barnsins sjálfs sem fór að velja leiðir og taka ákvarðanir.
Við getnað var augnlitur þinn ákveðinn, hár og húð, hjarta, lifur og lungu, vöðvar og sinar, æðar og svo heili með minni og sköpunargáfu.
Og svo lýkur þessu lífi á þeim tíma sem enginn getur sagt fyrir um, nema sá sem allt veit.
Og nú erum við hér saman í Neskirkju til að kveðja hana Önnu Guðrúnu og þakka fyrir lífið hennar. Ég kynntist henni þegar ég jarðsöng Georg og þá sá ég hve gott og fjölbreytt líf þau höfðu átt saman í gagnkvæmri elsku og virðingu. Fyrir 17 árum vorum við saman hér og kvöddum Georg. Hún saknaði hans ætíð, saknaði góðu daganna þegar hann kom af sjónum, með gjafir og góðgerðir. Þá puntaði hún sig og gerði fína, klæddi sig í sterka liti og setti á varir sínar réttan lit. Fingurnir skörtuðu naglalakki í stíl, fagurt skart glitraði á örmum og hálsi. Þá var gaman að lifa og dansa.
Anna Guðrún, húsmóðir fæddist í Reykjavík 19. janúar 1936, dóttir Auðbjargar Úndínu Sigurðardóttur frá Arnarfirði, (f. 5. ágúst 1903, d. 19. desember 1972), og Hannesar Péturs Sigurlaugssonar, (f. 29. júlí 1899, frá Ísafirði). Hannes faðir Önnu Guðrúnar fórst með norska togaranum Borgund í mars 1941.
Systir Önnu Guðrúnar var Guðbjörg María Hannesdóttir, (f. 14. febrúar 1932, d. 4. febrúar 2011), sem bjó á heimili móður og stjúpföður.
Anna Guðrún var sex mánaða gefin til fósturs til heiðurshjónanna, Jóhönnu Guðnýjar Pálsdóttur, (f. 14. september 1892, d. 19. febrúar 1983), frá Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði, og Jóns Elíasar Brynjólfssonar, (f. 5. febrúar 1891, d. 18. maí 1980), frá Mosvöllum í Önundarfirði.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið. Anna Guðrún varð þeirra dóttir og með þeirra ættartengsl alla tíð.
Fjölskyldan bjó í nokkur ár á Flateyri við Önundarfjörð, svo á Bergþórugötu 16 í Reykjavík en lengst af í Austurkoti, Faxaskjóli í Vesturbæ Reykjavíkur.
Anna Guðrún giftist 5. september 1959, Georg Stefánssyni Scheving, skipstjóra hjá Sambandinu, SÍS, f. 26. mars 1937, d. 27. ágúst 2007. Anna Guðrún og Georg bjuggu alla tíð í Reykjavík.
Börn Önnu Guðrúnar og Georgs eru:
1) Jóhanna G. Scheving, f. 18. október 1959. Börn Jóhönnu og Knúts E. Knudsen, (f. 17. maí 1958), eru:
a) Katrín, (f. 2. desember 1980), gift Júlíusi Inga Júlíussyni, (f. 14. nóvember 1980), synir þeirra eru
Viktor Árni, (f. 10. desember 2004), kærasta hans er Aþena Mist Óskarsdóttir, (f. 21. febrúar 2005),
og Kristófer Logi, ( f. 17. febrúar 2007).
b) Einar, (f. 24.12. 1985).
Börn Jóhönnu og Vilbergs Margeirssonar, f. 5. júlí 1967, eru:
a) Sigríður Elín Vilbergsdóttir,( f. 5. janúar 1996) og
b) Georg Margeir Vilbergsson, f. 15. maí 2001.
2) Stefán Sigurður Georgsson, f. 7. apríl 1963, d. 17. júní 2023, var kvæntur Stefaníu Unnarsdóttur, (f. 3. febrúar 1973), þau skildu. Dóttir þeirra er
Birta Kristín Stefánsdóttir, (f. 20. júlí 1997).
3) Berglind Scheving, f. 19. desember 1970, gift Sigurbirni St. Vilhjálmssyni, (f. 13. ágúst 1971). Dóttir þeirra er Anna Guðný Scheving Sigurbjörnsdóttir, (f. 12. mars 1991), gift Einari Má Eggertssyni, (f. 21. desember 1987).
Georg Stefánsson Scheving var sonur hjónanna Stefáns Árnasonar Scheving, bankamanns á Seyðisfirði, (f. 23. ágúst 1898, d. 1. nóvember 1963), og Sigríðar Ragnhildar Haraldsdóttur, húsmóður frá Seyðisfirði, (f. 3. desember 1900, d. 10. júní 1990). Bjuggu hjónin í Brekku, Seyðisfirði, og eignuðust þau sjö börn.
Anna minntist oft á unglingsárin. Hún var í Gaggó Vest, sem var í risinu í JL húsinu og þar var fjör í frískum hópi unglinga.
Það var oft langur gangur frá Austurkoti niður í bæ eða í skólann og þurfti oft að klofa snjóinn til að komast leiðar sinnar og sækja aðföng fyrir heimilið. Enginn sími var í Austurkoti á þessum árum. Anna fór oft út á Vegamót, þar sem mamma hennar Úndína bjó og að heimsækja systur sína, því það var samband á milli þeirra og vissi hún alla tíð af þeirri tengingu að hún væri fósturdóttir Jóhönnu og Jóns. Anna og Úndína blóðmóðir hennar voru mjög líkar og voru í sambandi því stutt er á milli Faxaskjóls og Vegamóta við Seltjarnarnes.
Þegar Anna er um tvítugt lagði hún upp í ferð með Gullfossi til Englands á vit ævintýranna. Hún hafði ráðið sig sem starfsstúlku hjá þeim hjónum Svövu Zoega og Eric Greenfield í London. Anna átti ljúfar minningar frá því ári sem hún var hjá þeim hjónum og hélst vinskapur við fjölskylduna og Zoega-fjölskylduna hér á landi í mörg ár.
Svo tók lífið við hér heima á Íslandi.
Anna vann í Feldinum og líkaði vel. Hún hafði brennandi áhuga á leiklist og fór því í nám hjá Ævari Kvaran sem rak skóla á því sviði. Þar kynntist Anna mörgum leiklistarnemum.
Svo var það útilegan örlagaríka. Anna og vinkona hennar fóru í Atlavík í Hallormsstaðaskógi sumarið 1958. Þar voru tveir bræður frá Seyðisfirði og var annar bróðirinn mjög svo hjálplegur við að tjalda fyrir þær. Þar var Georg mættur í útilegu ásamt Garðari tvíburabróður sínum sem hér kveður mágkonu sína í dag. Atlavík í Hallormsstaðakógi var alltaf í hjarta þeirra hjóna, en þau gengu í hjónaband 5. september 1959 og dóttirin Jóhanna leit dagsins ljós rúmum mánuði síðar! Lagið þeirra, Í Hallormsstaðaskógi, sem ætíð vakti með þeim góðar minningar, verður leikið sem eftirspil þegar kista Önnu verður borin úr kirkju.
Georg fór í Stýrimannaskólann og Anna út að vinna. Hann lauk náminu og fór á sjóinn undir fána SÍS og þau fluttu á Urðarstíg í Þingholtunum og þar fæðist Stefán 7. apríl 1963.
Georg var á sjónum hjá Skipadeild Sambandsins, í marga mánuði oft á þessum árum og öll ábyrgð heimilisins og fjölskyldunnar á herðum Önnu. Ekki þýddi að ræða viðkvæm fjölskyldumál í gegnum loftskeytastöðina þar sem allir gátu hlustað, svo það var bara létt spjall um daginn, veginn og veðrið, og svo persónuleg mál undir rós.
Anna fór með Georg í lengri og styttri siglingar um heimsins höf.
Sigga föðuramma barnanna var hjá þeim Jóhönnu og Stefáni á meðan.
Anna flutti með börnin í Goðatún í Garðabæ og svo hringdi hún í gegnum loftskeytastöðina til að segja Georgi hvert hann ætti að koma þegar hann kæmi í land! Þetta var sjómannslíf og Anna ekta sjómannskona. Þau fluttu svo í Vesturbæinn í íbúð að Meistaravöllum 31 og bjuggu þar í nokkur ár og 1969 fluttu svo á Háaleitisbrautina og ári síðar fæddist Berglind. Þar leið systkinunum einkar vel. Georg var áfram hjá Sambandinu í strand- og millilandasiglingum og Anna heimavinnandi húsmóðir, og alltaf til staðar fyrir börnin. Anna var þeim sem klettur. Hún var huggari þeirra og leiðbeinandi, kenndi þeim góða siði og hvatti þau til að ná settu marki. Hún hjálpaði þeim við heimanámið og studdi sín fjörugu börn í hvívetna.
Á sumrin í den var farið á Skodanum í ökuferðir austur fyrir fjall og útilegur og síðar einnig á Vauxhall Vivunni, hringinn um landið. Þá var A-tjaldið í tísku og gjarnan tjaldað í kjarri við lækjarprænu.
Á þessum árum varð Anna virk í Kvenfélaginu Hrönn sem er félagsskapur eiginkvenna skipstjóra og stýrimanna á farskipum, og var hún í félaginu frá 1974 og sótti fundi einu sinni í mánuði. Hún naut þess að vera í félagsskap. Kvenfélagið Hrönn færði sjómönnum jólapakka, sem ekki voru heima um jól. Farið var með gjafirnar um borð fyrir síðasta túr fyrir jól. Georg fékk oft jólapakka frá Hrönn þegar hann og áhöfn hans voru ekki heima um jól. Anna sleppti ekki fundi nema hún kæmist alls ekki. Hún sótti fundina í hálfa öld, en treysti sér ekki í ár. Í Hrönn eignaðist hún góðar vinkonur.
Anna og Georg fluttu á Otrateig 44, 1980. Það fjölgaði í fjölskyldunni í gegnum árin, barnabörnin fæddust eitt af öðru og svo fengu þau sér hund. Það voru ætíð annir hjá henni Önnu.
Georg greindist með Parkinson 1997, 60 ára. Það var mikið högg fyrir hjónin sem ætluðu að eiga góð ár saman því það styttist í ævikvöldið. Við tóku erfið ár, en bjartsýni og jákvæðni var þeirra mark og mið. Anna og Georg seldu íbúðina á Otrateigi og fluttu á Grandaveg 47 í Reykjavík árið 1999 þar sem útsýnið er fagurt og hægt að telja skipin daga og nætur sem sigla inn og út Sundin blá.
Þegar heilsu Georgs hrakaði fékk hann inni á Droplaugarstöðum, og dvaldi þar til yfir lauk. Anna heimsótti mann sinn daglega og systkinin voru mjög dugleg og fjölskyldur þeirra og barnabörn að fara til Georgs.
Georg lést í ágúst 2007, sjötugur að aldri. Hann var jarðsunginn 5. september það ár á 46. brúðkaupsdegi þeirra hjóna, héðan frá Neskirkju, þar sem þau gengu í hjónaband 5. sept. 1959. Neskirkja var þeirra kirkja. Anna syrgði Georg alla tíð. Og nú er hún sjálf kvödd hér í Neskirkju.
Anna hafði ríka kímnigáfu, var hnyttin og snögg í tilsvörum og fljót að sjá lausnir á hverjum vanda.
Í ágúst 2022 greindist Stefán með krabbamein á lokastigi. Það var mikið áfall. Fjölskyldan sló um hann skjaldborg og studdi hann eftir bestu getu. Um sama leyti kom annað áfall. Anna greindist sjálf með krabbamein sem virtist hafa búið um sig árum saman. Þá tóku við rannsóknir hjá þeim báðum og svo fór að heilsu Stefáns hrakaði en hann náði samt að halda upp á sextugs afmælið sitt. Eftir það hrakaði honum og hann lést 17. júní 2023 á líknardeildinni á Landakoti.
Að missa soninn var Önnu mikið áfall og heilsu hennar hrakaði. Hún fór í hvíldarinnlögn á líknardeildinni í tvær vikur í febrúar sl. og aftur lagðist hún þar inn undir lok mars sl. Spítaladvölin var ekki löng. Hún lést að kvöldi 16. apríl s.l., tveim dögum eftir að lífslokameðferð hafði hafist.
Anna lætur eftir sig þakkláta afkomendur, ættingja og vini. Hún hefur lokið sínu dagsverki með sóma.
Lífið er verkefni sem krefst mikils af okkur og það að vera foreldri felur í sér mikla ábyrgð því með uppeldi barna okkar mótum við framtíð þessa lands. Mestu skiptir að börnin eignist traustan lífsgrundvöll, hafi fast land undir fótum og fái andlega leiðsögn í gegnum brimöldur ævinnar. Þessi grunnur er lagður í heilagri skírn og svo fermingu og svo eru það bænirnar hennar mömmu og hans pabba, bænir ömmu og afa sem gefa frið og styrk.
Vesturlönd eiga öll sín gildi, öll sín mannréttindi, allt það besta sem þjóðfélög þeirra telja mikilvægt, að þakka kristinni trú.
Kristin trú er ekki kenningakerfi, ekki heimspekistefna, en hún felst í samfélagi við persónu. Hún er eins og vinátta, eins og ástarsamband. Hún er á persónulegum nótum. Kristin trú er vinátta við Jesú Krist, sem elskar alla, karla og konur, börn og fullorðna, heila og slasaða, færa og hamlaða – alla!
Elskan er grundvallarafl tilverunnar, aflið sem Guð kom fyrir í erfðavísum okkar, aflið sem gerir okkur hæf til að elska aðra, til að fjölga okkur og viðhalda mannkyninu, aflið sem gerir okkur líka kleift að komast í gegnum sorg og söknuð, afl sem mætir dauðanum í trú á uppsprettu elskunnar, afl sem mætir skapara sínum og sameinast honum áfram í annarri vídd.
Guð hefur aldrei yfirgefið þig eða mig og mun aldrei gera, en við höfum öll yfirgefið Guð, sem grátið hefur okkur öll á þeim stundum, sem við villtumst af leið í leit að tilgangi lífsins en fundum ekki.
Maður hét Ágústínus, sem var leitandi ungur maður undir lok 4. aldar og á byrjun hinnar fimmtu. Hann átti trúaða móður, sem bað fyrir honum og eftir að hafa lifað í vellystingum og óhófi með öllu því sem fylgdi, þá fann hann Guð í Jesú Kristi. Hann hafði þetta að segja um samband sitt við Guð:
„Mikill ert þú, Drottinn, og dásamur næsta. Þú hefur skapað oss handa þér og hjarta vort er órótt, uns það hvílir í þér.“ (Heil. Ágústínus: Speki Ágústínusar kirkjuföður).
Og enn hafa orð hans áhrif á fólk sem hann ritaði fyrir meir en einu-og-hálfu árþúsundi. „… hjarta vort er órótt, uns það hvílir í þér.“
Lífið snýst um að elska, elska Guð og náungann. Og þetta vissi hún Anna og hún kenndi börnum sínum og barnabörnum að biðja. Þegar þau gistu hjá henni sofnuðu þau með krossins tákn á enni og bjósti, signd af ömmu og falin Guði. Það var gott að gista hjá ömmu og finna þann frið „sem er æðri öllum skilningi“ og varðveitir hjörtu okkar og hugsanir í Kristi (Filippíbréfið 4.7).
Anna var tónelsk og gat leikið á harmóníum og gítar. Hún kunni vísur og var sjálf hagmælt. Tveir langömmustrákar, 17 og 19 ára, elskuðu að hlusta á hana segja sögur. Gleðin fékk á sig sérstakan blæ þegar hún sagði frá gömlu, góðu dögunum.
Hún stytti sér oft stundir við útsaum og handavinnu, enda er fátt betra í lífinu, en að búa eitthvað til með höndunum og minnir okkur á að hvíla farsíma og skjái og nota hendurnar í að búa til eitthvað fagurt, nota hug og hönd til listsköpunar, því við erum sköpuð í mynd skaparans sjálfs og erum þar með skaparar sjálf.
Og nú heyrist röddin hennar ekki lengur og þið fáið ekki að finna knúsið hennar, sjáið ekki blikið í augum hennar og brosið sem geislaði elsku og væntumþykju en þið eigið þetta allt í minningum ykkar og það er fjársjóður sem enginn getur frá ykkur tekið.
Ömmustelpa skrifaði:
Það mun enginn fylla í þín fótspor. Þú varst hjarta fjölskyldunnar, límið sem hélt okkur saman. Þú vissir ekkert betra en að hafa allan hópinn þinn saman og það hvað við fjölskyldan vorum dugleg að hittast, vera saman og halda uppá hlutina saman sl. tvö ár, eru ómetanlegar minningar í dag. Oft horfðirðu yfir hópinn þinn og sagðir sposk á svip “þetta er allt okkur afa að kenna” – það verður því að þakka fyrir áhrifaríka ferð austur í Atlavík sumarið 1958, þar sem þið kræktuð í hvort annað.
[…]
Í dag vildi ég óska þess að hafa haft meiri þolinmæði í allt sem þú reyndir að kenna mér í eldhúsinu og í handavinnu. En þú kenndir mér þó að meta handavinnuna, bæði verk mín og annarra.
[…]
… sjalið sem ég er að prjóna handa þér, mun ég klára og nota sjálf.
Stundirnar okkar voru ófáar, ég gat alltaf hlaupið upp til ykkar afa, hvort sem það var til að fá knús, vera í pössun, næla mér í eitthvað matarkyns eða til að skríða upp í rúm til þín eða á milli ykkar afa þegar hann var í landi. Þegar við barnabörnin gistum hjá ykkur þá fórstu með kvöldbæn með okkur.
Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir þinni.
Lokaorð:
Þetta eru mestu verðmæti lífsins, elskan sem við gefum og þiggjum. Lífið gaf Önnu Guðrúnu og nú hefur hún lokið sínu lífsverki og hlotið hvíld. Ástvinir sakna og syrgja vegna þess að sú sem við kveðjum var eftirminnileg og góð manneskja sem leitaðist við að vera öðrum ljós.
Hún er horfin inn í ljósið sem margir hafa lýst sem upplifað hafa dauða sinn en snúið til baka af einhverjum orsökum. Þetta fólk sá allt ljós við enda ganga.
Jóhannes postuli Jesú ritaði um ljósið og sagði m.a.:
„5 Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ 6 Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. 7 En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.“ (1. Jóhannesarbréf 1.5)
Lifum í ljósinu með Jesú Kristi og leitumst við að vera öðrum ljós.
Guð blessi minningu Önnu Guðrúnar Hannesdóttur Scheving og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum og nýtur ljóssins. Amen.


You must be logged in to post a comment.