Minningarorð sem unnt er að lesa og hlýða á hér fyrir neðan.

Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Pálmi Ólafur Bjarnason
1948-2024
Bálför í kyrrþey í Bænhúsinu, Fossvogi
Jarðsett í Gufunesi
Guðspjallstexti:
Fuglar himinsins
Matteus 6.24-33
Vorið hefur leikið glæsilegan forleik sinn að sumri frá því um liðna helgi og sumarið sjálft opnar svo árlega sýningu sína á morgun, sumardaginn fyrsta – og þá verðum við öll einu ári eldri en við vorum, jafnvel þótt afmælisdagur okkar sé ekki fyrr en í haust eða á vetri komanda. Ég verð orðinn jafnmargra vetra á morgun og ég ætla að halda uppá í nóvember. Þannig voru ár fólks talin forðum, en þessi mælikvarði er nú á tímum aðeins notaður um stóðhesta og gæðinga – og í sjálfu sér ekki leiðum að líkjast í þeim efnum!
Svo mikil tíðindi voru það fyrir menn og skepnur forðum, að sumardagurinn fyrsti var einn helsti hátíðardagur ársins og fólk fékk eitthvað smálegt í sumargjöf hér áður fyrr. Og skáldið, Þorsteinn Gylfason orti:
Það kom söngfugl að sunnan.
Hann var sendur af þér.
Hann bar gullblað í goggi
sem var gjöf handa mér.
Lífið vaknar með sumri og söng.
Um hann Pálma Ólaf Bjarnason má segja að tónlistin hafi verið honum allt. Ungur heillaðist hann að tónlist og lék á píanó alla daga á sínum yngri árum og fram eftir öllu meðan hann gat.
Pálmi Ólafur fæddist 10. apríl 1948, en lést 18. apríl 2024 á Sóltúni. Hann bar nöfn afa sinna.
Foreldrar hans voru, Hólmfríður Sigrún Jóhanna Pálmadóttir, húsmóðir og saumakona, fædd 11.11.1923, látin 5.2.2008, og Bjarni Kristinn Ólafsson, rafvirkjameistari, fæddur 18.10.1914, látinn 7.2.1986.
Systkini Pálma eru:
Anna Karitas, 1951,
Kristinn, 1957
Sigurður, 1959
og
Bjarni 1964.
Pálmi var elstur systkina sinna og er nú kvaddur hér í Bænhúsinu við Fossvogskirkju, þar sem skógurinn er hvað fegurstur í henni Reykjavík og hýsir þúsundir söngfugla, sem syngja án aflást að sumri til yfir látnum og gleðja lifendur.
Hann var tápmikill strákur sem elskaði tónlist og lærði um tíma á píanó hjá Helgu Laxness.
Pálmi lék fimum fingrum eftir nótum og lifði sig inn í tónlist. Uppáhaldstónlistarmaður hans var ítalski söngvarinn Beniamino Gigli – en Pálmi var sjálfur söngelskur og ljóðrænn.
Upp úr fermingu urðu skil í lífi Pálma en þá fór að bera meir og meir á veikindum, sem hrjáðu hann svo alla ævi.
Hann dvaldi mest heima við og lék á píanóið, stundum þekkt verk, undur vel og næmlega, en svo líka endurteknar kakófóníur.
Er lífið ekki stundum þannig, heillandi hljómkviður og hávaði á víxl?
Tónlistin var heimurinn hans Pálma.
Hann safnaði upptökum af tónlist og fékk oft diska að gjöf með frægum verkum og flytjendum, en tók yfirleitt ekki sellófanið utan af diskunum, en geymdi þá bara óopnaða í safni sínu. Hann fór sínar leiðir.
Alla tíð var hann mjög nákvæmur og allt varð að vera í skorðum hjá honum, en hann kvartaði ekki yfir lífi sínu eða hlutunum yfirleitt.
Að setja sig í spor manns sem glímir við geðsjúkdóm er ekki auðvelt og við vitum að fordómar hafa til skammst tíma verið nokkrir í garð geðsjúkra.
Vinna þarf gegn slíkum hugsunarhætti. Gjarnan er sagt um geðsjúka einstaklinga að hann eða hún sé á þessu eða hinu rófinu.
Rófin eru mörg.
Við erum t.d. öll einhvers staðar í stafrófinu.
Ég er aftast enda heiti ég Örn.
Við erum líka öll á litrófinu.
Hver er litur augna þinna, húðar og hárs?
Og svo er það geðrófið.
Hvar erum við á því rófi?
Já, við erum nefnilega öll á geðrófinu.
Ekkert okkar er geðlaust. Gleymið því aldrei!
Við eigum því í vissum skilningi samleið með öllum á einn eða annan hátt. Öll erum við margrófafólk.
Við erum rófafólk!
Pálmi bjó yfir margs konar hæfileikum.
Hann var laghentur og stytti sér gjarnan stundir við að gera við útvarpstæki og hjálpaði fólki oft við að laga rafmagnstæki sín.
Stærðfræði og málfræði voru honum hugleikin og hann lagði stundum fyrir systkinabörn sín, ýmsar þrautir á þessum sviðum, lét þau fallbeygja orð og prófaði kunnáttu þeirra.
Hann var laglegur og glaðlyndur maður, brosið hans var fagurt. Blíður var hann einnig, góður og kurteis og gerði ekki miklar kröfur til annarra.
Hann bjó lengst af á Tómasarhaga 19 eða til 2008, en þá flutti hann á Rekagranda 10 eftir að móðir hans lést.
Hann átti þar góða nágranna en flutt svo á húkrunarheimilið Sóltún, en vildi nú helst fá að fara aftur heim á Rekagranda.
Pálmi ólst upp við söng og tónlist, faðir hans var músíkalskur og oft var sungið á bernskuheimili hans.
Hann og systkinin muna ferðir í sveitina til afa og ömmu í Skagafirði og þar var ætíð sungið og spilað að þeirrar sveitar sið.
Hann keyrði bíl um tíma og ók móður sinni oft til að sinna erindum sínum.
Hann lærði að spila tónlist af farsímanum og þar hitti hann oft fyrir, Beniamino Gigli, sem hann hélt mikið uppá.
Lagið La donna è mobile úr Rigoletto eftir Giuseppe Verdi, sem fyrrnefndur vinur Pálma söng manna best, verður leikið hér í lokin, lagið um konuna óútreiknanlegu, sem var og er ætíð sem fjöður í vindi og erfitt að höndla. Hún er kannski táknmynd lífsins, sem enginn nær fullkomnum tökum á, hvorki Pálmi – ég eða þú?
Erum við ekki öll á sama báti?
Hér er ekki flutt löng ræða um ævi hans, en honum gerð skil á hógværan hátt enda fór hann ekki um götur og torg sem stormsveipur. Hann lifði nægjusömu lífi og dvaldi löngum í heimi tónlistar.
Og erum við ekki heppin að hafa fæðst og fengið lífið að gjöf á þessari jörð, þar sem tónlistin heyrist og gleður eyru og hjörtu manna og málleysingja?
Já, hjörtun slá í takt, þau kunna tónlist og slá í brjóstkirkju þinni og minni, í helgidómi okkar, sem í elstu textum sem til eru á okkar tungu og eru í Íslensku hómilíubókinni – sem geymir stólræður presta til brúks í söfnuðum og var rituð um aldamótin 1200.
Þar er brjóstkirkjan nefnd og áheyrendur hvattir til að taka til í eigin brjóstkirkju og njóta lífsins á heilbrigðum nótum eins og kristnin boðar, trúin, sem mótað hefur Vesturlönd og nær alla veröldina og gefið okkur öll þau mikilvægu gildi og réttindi sem við teljum helg og viljum varðveita og verja.
Allt á það rætur í kristinni trú. Allt!
Samtíðin hefur verk að vinna, við þurfum öll að taka til í brjóstkirkjum okkar.
Og kirkjan hefur um aldir gert tónlistinni hátt undir höfði.
Tónlist er magnað fyrirbrigði. Hvergi í öllum alheiminum hafa fundist skilyrði fyrir tónlist nema hér á okkar dásamlegu jörð.
Hér er andrúmsloft þar sem eindir geta hreyfst og leikið sér og flutt hljóð.
Og svo eru hér menn og dýr með eyru sem geta numið hljóð.
Tónlist fyrirfinnst hvergi annars staðar í heiminum – hvergi, þótt leitað sé í öllum víddum og dýptum alheimsins!
Við austurríska tónskáldið Arnold Schoenberg, er 12-tóna tæknin oft kennd, sem hann birti á bók árið 1921.
Landi hans Joseph Matthias Hauer gaf út rit sitt, Tólftónalögmálið, tveimur árum áður, 1919, þar sem hann segir að það krefjist þess að allir 12 tónar hins krómatíska kerfis hljómi áður en nokkur nóta er endurtekin.
Hauer er sagður hafa fyrirlitið list sem tjáði tilfinninga-þrungnar hugmyndir, en trúði því hins vegar að lyfta þyrfti tónlist upp í æðra veldi, upp á hreint – ég sé nú bara nóbelsskáldið fyrir mér – andlegt svið, þar sem yfirskilvitlega tónlist ætti að semja á grundvelli ópersónulegra reglna. (Wikipedia og Veraldarvefurinn)
Söngfuglar eru taldir þekkja 12-tónakerfið og hljóðlaust leika rafeindir sér um atómið í mynstri sem er skylt því kerfi.
Stærðfræðin í þessu sambandi rímar við tónlistina eins og við þekkjum hana.
Tónlistin er í kjarna lífsins og hún er “yfir og allt um kring” á þessari jörð, sem er undursamleg sköpun.
Dýrin eru því ekki málleysingjar, eins og oft er sagt, því sum þeirra eru tónviss.
Fuglinn syngur um loftin blá og hvalurinn í hafdjúpunum tjáir sig með tónum, kýrin baular og leikur við “hvurn sinn fingur”, eins og Nóbelsskáldið orðaði það og ljónið öskrar á sléttum Afríku, en þó án þess að fylgja endilega skrifuðum nótum!
Söngfuglar syngja inn sumarið og þeir búa sér hreiður – og þegar ég ræddi þetta fyrr í vikunni í síma við son minn, sem býr á meginlandi Evrópu, og veit sitthvað um tónlist og fleiri fræði – sagði hann mér frá því er hann sá eitt sinn kráku kveðja vin sinn, með því að draga lífvana fuglinn í skjól undir tré, breiða yfir hann lauf og standa um stund við beð hans, hljóður en líka krunkandi.
Krákan telst líklega ekki til bestu söngfugla en hún kann að kveðja látna!
Hugsið ykkur!
Er lífið ekki undursamlegt?!
Og hér erum við við beð Pálma Ólafs og heyrum tónlist og hugsum um samhengi alls sem er. Við erum hluti af heild, sem er miklu stærri, miklu hærri, dýpri og lengri, en heili okkar nær að skilja og faðmur vits að fanga.
Lífið er allt í samhljómi og lýtur lögmálum skapara síns og Drottins, hver sem lífsskoðun okkar er.
Við erum hluti af stóru og miklu verki, við erum sem hljómur í voldugu listaverki, opus heitir það í eintöl, á latínu, en opera í fleirtölu.
Við erum opera almættisins í heimi tóna og hljóma.
Pálmi Ólafur hefur lokið sínum leik. Fingur hans ferðast ekki lengur fimir um nótnaborðið. Tónlistin sem hann lék heyrist ekki lengur, en hér í þessari veröld, í stærstu hljómleikahvelfingu alheimsins, mun tónlistin óma meðan jörðin heldur áfram að snúast í dansi sínum við sól og tungl, vetur, sumar, vor og haust.
Og nú er sumarið handan við hornið og hið eilífa sumar á sínum stað, sem nú umvefur Pálma Ólaf og mun svo faðma okkur öll í fyllingu tímans.
Upprisa Krists boðar eilíft sumar í annarri vídd – og ég trúi því að þar sé söngur og tónlist, sem tekur fram öllum opusum þessarar plánetu, svo fögur og yndisleg sem hún annars er, a.m.k. þegar best lætur -á sumrum með söng fugla himinsins, sem hvorki sá né uppskera, en njóta elsku föðurins himneska.:
Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ spurði Jesús er hann ræddi áhyggjur heimsins.
Guð blessi minningu Pálma Ólafs Bjarnasonar og Guð blessi þig, sem enn átt lífið í þessum ótrúlega ópusi sem alheimurinn er.
Guð geymi hann og þig, hér og nú – og um eilífð alla.
Amen.
—
Athöfnin verður með almennum söng, sálmabækur á staðnum.
Prestur leiðir sönginn.
• Forspil: Það kom söngfugl að sunnan e. Atla Heimi.
• Ávarp og sálmurinn Um dauðans óvissan tíma vers 1-9 leiklesinn (af 13 versum)
• Kistulagning, bæn og blessun yfir kistunni (sem verður lokuð)
• Lesin vers 10-13
• Orgelleikur
• Guðspjall Matteus 6 um fugla himinsins
• Sálmur: Hærra minn Guð til þín
• Minningarorð
• Bænir og Faðir vor
• Sálmversin: Nú legg ég augun aftur og Ég fel í forsjá þína.
• Moldun
• Sálmur: Ég lif’í Jesú nafni – lokaerindi sálmsins Allt eins og blómstrið, sem lesin var fyrr í athöfninni.
• Eftirspil: La donna è mobile
•
•
• Erfidrykkja á Reykjavík Natura áður Hótel Loftleiðir.
You must be logged in to post a comment.