Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Sigurður Thoroddsen 1940-2024

Minningarorð sem hægt er að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Sigurður Hákon Thoroddsen

arkitekt

1940-2024

Útför í kyrrþey frá Kapellunni í Fossvogi

þriðjudaginn í kyrruviku

26. mars 2024 kl. 13

Sálmaskráin er aftast í færslunni.

Leiðrétting!

Ein staðreyndarvilla slæddist inn í ræðuna þrátt fyrir yfirlestur kunnugra um ævi forfeðra hins látna og mæðra og hún er sú að Jón Thoroddsen var ekki prestur heldur sýslumaður á sínum tíma. Þetta var leiðrétt í texta en villan er eftir sem áður á hlóðupptökunni og er beðist velvirðingar á því.

Enski málarinn, William Blake (1757-1827), gerði fræga mynd þar sem Guð er í mannslíki og lítur niður með hringfara í hönd og mælir veröldina. Þetta er mynd af arkitekti alheimsins.

Eftir að heimurinn var gerður úr engu, eins og kristin trú hefur ætíð haldið fram og vísindin hafa nú viðurkennt með kenningunni um Miklahvell, getum við aðeins skapað úr efni, sem okkur er fengið í hendur í sköpunarverkinu sjálfu. Og allt sem við sköpum hefst með hugsun, hugmynd, sem síðar verður að veruleika. Hús sprettur ekki upp úr jörðinni af sjálfu sér. Það verður fyrst til í huga hönnuðar, arkitekts, sem bregður sér í hlutverk skapara ásamt iðnaðar- og tæknimönnum.

Við heyrðum áðan við kistulagninguna stef úr verkinu Finlandia eftir Síbelíus. Þessi undurfagri hluti verksins er kallaður “sálmurinn” í Finlandiu og í texta hans er það ljósið sem er von hinnar finnsku þjóðar, krafturinn sem breytir nótt í dag.

Íslenska skáldið Tómas Guðmundsson, orti sálm við umrætt tónverk þar sem upphafið hljóðar svo:

Vér treystum því sem hönd Guðs hefur skráð:

Í hverju fræi’ er var í kærleik sáð

býr fyrirheit um himnaríki’ á jörðu [. . .]

Fagurlega ort. Mikill og stór sannleikur, eins og meitlaður í stein með örfáum orðum. Hér er hugsunin að í hverju fræi megi finna elsku og einstaka hönnun. Þannig er það með góða arkitekta, iðnaðarmenn, skáld, listamenn og fleiri, sem leggja allt sitt í eigin sköpun.

Af einu litlu fræi vex lítið blóm, risafura og heilir skógar. Í fræinu býr forrit, sem ég hef ekki hugmynd um, hve mörg megabæti þarf til að skrá rafrænt.

Og hvað var skráð í erfðavísa okkar, hvers og eins, við getnað? Hvað var okkur ætlað að verða? Hvað er okkur ætlað? Og hvað tekur við þegar þessu lífi lýkur?

Í orðum skáldsins “býr fyrirheit um himnaríki´ á jörð” í hverju fræi, hverri frumu, hverri manneskju.

En lífið er flóknara, því maðurinn, sem Guð skapaði, hefur vikið af leið og þess vegna eru stríð og hryðjuverk framin í þessum heimi. Þar eru syndugir menn að baki og við sjálf erum sama eðlis og tilheyrum einni og sömu ætt. Það er dimm staðreynd, en minnir um leið á að við höfum val á hverju andartaki, við hverja ákvörðun, val um að vera samverkamenn Guðs eða andstæðingar hins góða, fagra og fullkomna. Við erum arkitektar eigin lífs, að því marki sem lífið er í okkar eigin höndum.

En svo rennur upp sá dagur, að við verðum ekki lengur í þeirri mynd, sem felst í því að vera lifandi og hugsandi fólk. Við deyjum öll í fyllingu tímans. Hvað tekur þá við? Um það hefur trúin ýmislegt að segja, en skilgreiningu á hugtakinu trú, er þó aðeins að finna í einu versi í Hinni helgu bók. Í Nýja testamentinu er bréf sem ætlað var Gyðingum eða Hebreum.

Þar segir:

“Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.” (Heb. 11.2)

Við trúum hvorki né vonum á það sem þegar er orðið heldur horfum við í trú og von til hins ókomna. Þess vegna verður trúin aldrei sönnuð, hvorki af guðfræðingum né öðrum fræðimönnum, hvorki af hugvísindum né af svonefndum raunvísindum. Við getum ekki sannað allt en við getum samt fjallað um það á vitrænan og fræðilegan hátt og reynt að skilja veruleikann.

Hugur þess sem við kveðjum hér í dag fékkst við margvíslega hluti en í lífsstarfinu fékkst hann einkum við það að teikna, hanna byggingar og skipuleggja hverfi. Sigurður Hákon Thoroddsen fékkst við að skapa hús og mannvirki sem aðrir byggðu.

Hann fæddist 17. apríl 1940 í Hafnarfirði en lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. mars 2024. Foreldrar hans voru (Jean) Valgard Thoroddsen, rafmagnsverkfræðingur og rafmagnsveitustjóri ríkisins, (f. 27.7. 1906, d. 10.6. 1978) og Marie Tuvnes, húsmóðir, (f. 8.7. 1912, d. 3.1. 1998).

Systkini Sigurðar eru:

Anna Margrét (f. 8.11. 1935),

Björn sem er látinn (f. 11.4. 1937, d. 22.4. 2021) og

Þórdís (f. 30.8. 1947).

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Sigrún M. Magnúsdóttir, ritari (f. 7.2. 1942).

Börn Sigurðar og Sigrúnar eru:

1) Magnús, bifreiðastjóri, dúklagninga- og veggfóðrunarmaður f. 17.8. 1963, eiginkona Jóhanna Beinteinsdóttir (f. 12.1. 1964), þeirra börn eru: Sigrún Svava (f. 9.3. 1985), Arnar Freyr (f. 28.4. 1989) og Hildur Björk (f. 3.12. 1993),

2) Anna Margrét, tannlæknir (f. 3.1. 1968), eiginmaður Ólafur Ólafsson (f. 28.5. 1967), börn þeirra eru Ásdís Margrét (f. 17.11. 1994), Ólafur Tómas (f. 12.12. 2002) og Anna Sigrún (f. 1.12. 2008) og

3) Valgarð, verkefnastjóri f. 10.4. 1973, eiginkona María Bragadóttir (f. 2.12. 1974), börn af fyrra hjónabandi með Bryndísi Bjarnadóttur (f. 26.8. 1972): Sigurður Bjarni (f. 8.7. 2001), Einar Logi (f. 14.9. 2005) og Brynjar (f. 17.10. 2008), stjúpbörn Valgarðs: Gabríel Daði (f. 10.3. 1999), Agnes Kristín (f. 10.12. 2009) og Alexander Atli (f. 10.12. 2009).

Langafabörn Sigurðar eru: Jenný Sara (f. 25.2. 2013), Sandra Dís (f. 31.3. 2019) og Magnús Þór (f. 13.3. 2020).

Sigurður fæddist á heimili foreldra sinna að Brekkugötu í Hafnarfirði en ólst upp frá frumbernsku að Suðurgötu 66, í húsi sem faðir hans byggði. Hann gekk í Flensborgarskóla og Menntaskólann í Reykjavík.

Hann flutti til Helsinki og nam arkitektúr við Tekniska högskolan í höfuðborginni, Helsingfors/Helsinki í Finnlandi 1960-1966.

Hann vann mikið við skipulag og hönnun hverfa hjá Skipulagi ríkisins sem nú ber heitið Skipulagsstofnun. Sigurður starfaði hjá stofnuninni frá 1967 til starfsloka 2007.

Þá rak hann eigin teiknistofu í Reykjavík frá 1967-1999.

Sigurður var alla tíð mikill áhugamaður um sitt fag og ferðaðist um heiminn í hópi arkitekta þar sem merkar byggingar voru skoðaðar.

Einnig starfaði Sigurður í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera, bæði innanlands og í alþjóða samstarfi um skipulagsmál. Meðal annars má þar nefna Skipulags- og byggingarnefnd varnarsvæða frá 1982.

Áhugamál Sigurðar voru alla tíð flug og flugvélar, frímerkjasöfnun og hin síðari ár garðrækt. Sigurður teiknaði og byggði sitt eigið hús sem hann bjó í til æviloka.

Ég hitti fólkið hans Sigurðar og við ræddum líf hans og störf, persónuleika hans, viðhorf og daglegt líf. Þar bar margt á góma. Sigurður hafði skarpan karakter og var ákveðinn og fastur fyrir.

Ég spurði Sigrúnu hvar þau hefðu kynnst og hún svaraði með brosi á vör, að það hefði nú verið á balli í Hafnarfirði. Nú hittist fólk og kynnist gjarnan rafrænt, á Netinu og í sumum tilfellum á svonefndum stefnumótasíðum. Ástin er eins og vatnið. Hún finnur sér ætíð farveg á hverjum tíma og stað. Og þau gengu í hjónaband og svo komu börnin.

Þau rifjuðu upp bíltúra út á flugvöll og í ísbúðina. Á þeim árum bjuggu mörg börn við reyk í bílum, en ísinn í lokin bætti upp þau óþægindi.

Svo fór Sigurður í sund, 4-5 sinnum í viku og sat í heita pottinum með fólki. Því er stundum haldið fram að öll heimsins vandamál séu leyst í pottinum. Eldfjallaorkan leysir úr læðingi pólitískar lausnir á öllum vandamálum. Ég þekki þetta af eigin raun. Alþingismenn ættu bara að sitja í pottunum með almenningi í byrjum hvers vinnudags og þar með lægju lausnir fyrir á öllum málum!

Rifjaðar voru upp sögur frá foreldrum Sigurðar, þeim Valgard og Marie, boðum þeirra á jólum og aðra daga. Þau áttu fagurt heimili og í veislum og jólaboðum var vel veitt. Valgard var slökkviliðsstjóri í Hafnarfirði og síðar rafmagnsveitustjóri og Marie kom með sína norsku siði og venjur á heimilið. Þau kynntust í Þrándheimi þegar Valgard var þar í verkfræðinámi, en hún var ættuð frá eynni Fröya eða Freyju, en þar þjónaði frændi minn sem prestur um tíma fyrir nokkrum árum, en íslenskir prestar hafa um árabil bætt úr prestaskorti þar í landi og vorum við flestir 24 sem þjónuðu þar fyrir 10 árum en hefur nú fækkað eitthvað.

Sonarsonur Valgards spilaði á spil með afa og átti, ef hann sigraði afa sinn, væta fingurgóm, stinga honum í öskubakka og setja punkt á nebbann á afa! Já, tiltækin voru margvísleg og verðlaun oft spaugsöm, sem verða gulls ígildi í minningunni, ekki hvað efni varðar heldur inntak.

Sigurður tók þátt í samkeppni um ýmis verkefni um ævina og hlaut t.d. 1. verðlaun fyrir hugmynd sína um miðbæ Kópavogs en sú hugmynd varð þó ekki að veruleika. Hann teiknaði sitt eigið hús og þau fluttu inni í það í september 1979 enda þótt margt væri ógert. Þetta var á þeim tíma þegar ungt fólk hlaut margt sína “manndómsvígslu í steinsteypu” eins og einn prófessora minna í guðfræðinni kallaði það, þegar fólk þurfti sjálft að byggja sína bústaði.

Hann valdi sér bifreiðar af kostgæfni, átti fjórar tegundir um ævina, VW-bjöllu, svo eina þrjá Volvoa, þá Audi, í tvígang og svo Toyota eftir það.

Magnús minnist þess er hann 16 ára fékk að prófa Bjölluna á lokuðu svæði við flugvöllinn og ók þar yfir liggjandi símastaur. Sigurður hló mikið og var mest hissa á hvað bíllinn þoldi!

Sigurður hafði lítinn áhuga á íþróttum þar til Valgarð sonur hans fór að gera það gott í handboltanum. Hann horfði svo á fótboltann í sjónvarpinu og þegar kynningarlagið heyrðist og Bjarni Fel birtist á skjánum, þá var komin beikonlykt í húsið og eggin tilbúin á pönnunni. Og enn þann dag í dag finnur Valgarð beikonlykt þegar hann heyrir lagið.

Dóttirin rifjar upp þegar hana langaði í ballett og tók sporin heima og uppskar hlátur pabba og þar með lauk fótafiminni og hún fór í fésin í staðinn þ.e.a.s. tannlækningar.

Dagarnir í skaphöfn hans voru stundum skýjaðir en auðvitað skein þar líka oft á tíðum sól í heiði. Hann átti fáa vini, en góða, var mikill spekúlant og naut þess að grúska, einkum í sögu og pólitík. Hann fylgdist ætíð með fréttum. Sigurður var góður maður og réttsýnn, en kröfuharður á umhverfi sitt og samferðafólk.

Valgard gamli, faðir hans, var ljúfur maður og hjá honum var stutt í almennilegheit, eins og sagt var. Faðir hans var Sigurður Thoroddsen, fyrsti menntaði verkfræðingurinn á Íslandi, landsverkfræðingur og síðar yfirkennari við Lærða skólann. Faðir hans var Jón Thoroddsen, sýslumaður að Leirá í Leirársveit, sem bjó við mikið basl og rak stórt heimili, en er helst minnst fyrir skáldskap sinn og bækur, sem segja má að þjóðin hafi lesið upp til agna, bækurnar Piltur og stúlka og Maður og kona eru meðal þekktustu verka hans.

Sigurður var ræðinn og tjáði sig um margt. Hann ritaði greinar um skipulagsmál og birti í Morgunblaðinu, en á hann runnu nú tvær grímur varðandi flokkinn í Hruninu og í kjölfar þess fór hann að tjá sig á vefmiðlinum Eyjunni.

Hann hafði yndi af ferðalögum bæði hér heima og úti í heimi.

Barnabörnin voru honum kær og hann sat gjarnan með þau í fangi sér og spurði oft um þeirra hagi.

Sigurður er jarðsunginn hér í dag í kyrrþey að eigin ósk.

Skáldið Tómas talaði um fræ kærleikans í upphafi síns sálms, en heldur svo áfram með hugsun um frið. Heyrum allt versið:

Vér treystum því sem hönd Guðs hefur skráð:

Í hverju fræi’ er var í kærleik sáð

býr fyrirheit um himnaríki’ á jörðu.

Hver heilög bæn á vísa Drottins náð.

Og hví skal þá ei ógn og hatri hafna

ef hjálp og miskunn blasir öllum við

í trú sem ein má þúsund þjóðum safna

til þjónustu við sannleik, ást og frið?

Sálmabók Þjóðkirkjunnar 2022, nr. 694

Lokaorðin, hugsunin um að safna megi þjóðum til helgrar þjónustu, við “sannleik, ást og frið”, virðist fjarri því að rætast ef við dveljum við ástand heimsins nú, já, einmitt nú á tímum, þegar menn berast á banaspjót á mörgum stöðum í heiminum.

Veröldin þarfnast að heyra meir um elsku Guðs, sem býr í hverju fræi og um það hvernig hann forritaði heiminn og stefndi honum á veg sannleika, ástar og friðar.

Kirkjan hefur sáð þeim boðskap í tvöþúsund ár, í þeirri trú og von, að fagrar hugsanir og heilar, séu sem fræ, er falla í mold og verði að fögrum gróðri sem nærir, gleður og skýlir í lífsins veðrum og vindum. Orð trúarinnar duga ein þegar læknavísindi og umhyggja hjúkrunarstétta megna ei meir og við horfumst í augu við dauða ástvinar og sorgina í sinni hráu og köldu mynd.

Og svo eigum við öll eftir að deyja.

Um það má segja margt en það sem langafabarn Sigurðar sagði, er djúp speki eins og í ljóði skáldsins, í Biblíunnni og af munni margra af helstu heimspekingum veraldar:

“Afi er farinn í blómið.”

Í 1. Mósebók er sagt frá Adam og Evu í aldingarðinum og brottrekstri þeirra þaðan:

Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta

þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar

því af henni ertu tekinn.

Því að mold ert þú

og til moldar skaltu aftur hverfa.

Langafabarnið hefur umorðað dýpstu speki Hinnar helgu bókar, með því að segja:

“Afi er farinn í blómið.”

Við hverfum aftur til moldar, erum lögð þar sem fræ í von um upprisu og eilíft líf.

Í þeirri trú er gott að kveðja. Ennfremur er gott að lifa í þeirri trú, einkum þegar á móti blæs. Þá skulum við muna að við erum eins og blómin sem séra Hallgrímur orti um, er hann sagði í sínum magnaða sálmi:

Allt eins og blómstrið eina … á snöggu augabragði afskorið verður fljótt …

Lokaversið tjáir svo hina hinstu von og trú og það syngjum við í lokin.

Guð blessi minningu Sigurðar Hákonar Thoroddsen og góður Guð blessi þig, sem enn ert á lífsveginum og varðveiti þig, meðal lífsblómanna, hér og í eilífðinni.

Amen.

—-

Andlátið verður auglýst daginn eftir útförina.

Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi,

Sigurður H. Thoroddsen

arkitekt Grjótaseli 21, Reykjavík

lést á Landspítalanum Fossvogi aðfararnótt föstudagsins 15. mars. Útförin hefur verið gerð í kyrrþey að ósk hins látna.

Sigrún M. Magnúsdóttir

Magnús Thoroddsen Jóhanna Beinteinsdóttir

Anna Margrét Thoroddsen Ólafur Ólafsson

Valgarð Thoroddsen María Bragadóttir

Barnabörn og barnabarnabörn.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons