Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Orri Freyr Jóhannsson 1983-2024

Bálför í Neskirkju miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 15

Þú getur hlustað á ræðuna með því að nota tengilinn hér fyrir neðan og lesið textann líka.

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Orri Freyr Jóhannsson

27. desember 1983 – 7. mars 2024

Bálför frá Neskirkju

miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 15

kistulagt kl. 14

Fyrsta orðið, sem mér kemur í hug þegar ég stend hér og tala yfir Orra Frey, er orðið NEI.

Nei, hér vil ég ekki vera og þetta hafði mig aldrei órað fyrir, að ég ætti eftir að kveðja hann á miðjum aldri.

Nei, segi ég aftur. Við ættum auðvitað að deyja í réttri röð, það væri ídealið, að deyja eftir aldri, en þannig er lífið því miður ekki ætíð.

Nei, er orðið sem ég veit að hljómar í hjörtum okkar margra.

Og lífið bíður vissulega uppá mörg nei og margskonar sorg og myrka daga. Geðlæknir sem þekkti sálarlíf manns sem talinn er hafa verið eitt af mikilmennum liðinnar aldar, afhjúpaði fremst í bók sinni um geðlæknisfræði, að Winston Churchill (1874-1965), fv. forsætisráðherra Bretlands, hefði þjáðst af alvarlegu þunglyndi og einnig maníu. Hann var „bípólar“, eins og það er kallað, sveiflaðist á milli depurðar og oflætis. Churchill kallaði sjúkdóminn, „svarta hundinn.“ Var það tilviljun að Orra langaði lengi vel í svartan labrador?

Við þekkjum það líklega flest ef ekki öll að stundum getur verið hundur í okkur eins og sagt er. Við sveiflumst til en förum misdjúpt eða hátt.

Nú á tímum er talað um að hann eða hún sé á þessu eða hinu rófinu. Róf er einskonar skali eða kvarði. Þú veist örugglega hvar þú ert í stafrófinu. Ég heiti Örn og er aftast á því rófinu.

Svo erum við öll einhversstaðar á litrófinu. Augun þín hafa sinn lit, húðin og hárið einnig. Við erum öll á litrófinu.

En hvar erum við á geðrófinu, þessu rófi sem dreifir okkur um sig, eftir skapgerð og geði. Eitt er alveg ljóst, ekkert okkar er geðlaust. Við erum öll með geð og þar með á geðrófinu, erum rófafólk í margvíslegu tilliti.

Orri Freyr var á þessu rófi þar sem geðslagi manna er unnt að raða. Víddirnar voru stórar, bilið milli hins hæsta og dýpsta, gat verið stórt hjá honum Orra Frey.

Og nú er hann horfinn frá okkur og við sitjum hér harmþrungin og kveðjum góðan dreng og gáfaðan, sem megnaði ekki að lifa lengur. Og harmur okkar er stór. Harmur fjölskyldunnar stærstur, sársaukinn mestur. Með því að koma saman og sýna samkennd, skila samúð okkar til syrgjenda með þéttu handtaki og augnsambandi, veitum við styrk og afl. Nærvera vina er sem smyrsl, á sár sem mýkir og græðir. Sárin eru djúp en þau gróa um síðir en örin hverfa líklega aldrei.

Þegar ég hitti fólkið hans minntust þau hans fyrir ljúfmennsku og blíðu. Hann vissi margt og var vel greindur maður og Pála sagði að hann hefði oft rekið sig á gat í rökræðum. Orri átti í raun mörg lífsskeið en ólík. Hann var oft mótþróafullur og stífur og Pála segir hann hafa verið sinn stærsta kennara í lífinu. Orri eignaðist góða vini, bæði fyrr og undir það síðasta.

Þið eigið mikið verk fyrir höndum, kæru ástvinir Orra, en öll stór verkefni klárast með iðni við hið smáa. Þurrka má upp stjóra tjörn með teskeið einni, ef þolinmæði og þrautseigja eru með í liði.

Orri Freyr fæddist á Sauðárkróki 27. desember 1983. Hann lést á heimili sínu þann 7. mars síðastliðinn.

Móðir hans er Pála María Árnadóttir, (f. 25. júlí 1964) lyfjatæknir og maki hennar er Kristján Theodórsson, framkvæmdastjóri.

Faðir hans er Jóhann Freyr Aðalsteinsson, (f. 1. mars 1965) starfsmaður EFTA í Genf og maki hans er Gúa Hlífarsdóttir.

Systkini Orra Freys eru:

sammæðra, Bríet Ósk og Theodór Kristjánsbörn og

samfeðra, Bárður Jökull, Freyja María og Tómas Freyr Jóhannsbörn.

Fyrstu æviárin bjó Orri Freyr með móður sinni á Sauðárkróki en þau fluttu svo til Reykjavíkur 1986 þar sem hann bjó lengst af.

Á Króknum bjuggu þau hjá foreldrum hennar, þeim Árna Gunnarssyni og Elísabetu Svavarsdóttur, og var Orri Freyr alla tíð tengdur þeim sterkum böndum og átti hjá þeim sitt annað heimili, einnig eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Hann bjó nær alla tíð í Vesturbænum og lauk þar hefðbundinni skólagöngu. Hann fór í Kvennaskólann og lauk þaðan stúdentsprófi eftir að hafa gert hlé á námi sínu um skeið.

Orri Freyr stundaði ungur fótbolta með KR og æfði lengi keilu með sama félagi. Hann var meðal efnilegustu leikmanna landsins í keilu á unglingsárum. Árin 1996 og 1997 varð Orri Íslandsmeistari í 3. flokki í keilu (13 og 14 ára).

Ég fékk í hendur góðan texta frá vinum Orra sem ég vil endilega að þið fáið að heyra:

Minningar um Orra Frey

Það var árið sem Orri Freyr gekk í bekkinn okkar í Vesturbæjarskóla, í öðrum bekk. Frá þeim degi vissum við, Högni Haraldsson, Stefán Örn Einarsson, og Teitur Ársælsson, að vináttan okkar við hann yrði sérstök. Saman kláruðum við Hagaskóla og héldum sambandi allt til síðasta dags Orra þó að sambandið hafi minnkað hjá sumum okkar.

Orri var greindur strákur, með einstaka hæfileika í að kynnast fólki. Hann var forvitinn, fyndinn og glaðlegur, jafn vel sem barn. Á þessum árum voru Fóstbræður það fyndnasta sem Ísland hafði að bjóða, og Orri var alltaf til í grín og gaman. Við höfðum gaman af því að hringja í fólk með fyndin nöfn úr símaskránni og lékum okkur með alls kyns brandara óspart. Minnistætt er eitt sinn ì Stórholtinu þar sem hann sat með heimilissímann í kjöltunni og vorum við búnir að sigta út bændur utan að landi til að hringja í. Þar talaði Orri hátt og skýrt og sagðist vera frá næsta bæ og væri með mykjudreifara til sölu. Grínið gekk furðu vel enda Orri mælskur með mikinn og gamaldags orðaforða sem hentaði vel í þessar aðstæður. Svo kom afi Árni inn í herbergið þungur á brún, leit á símann og sagði “Orri Freyr þetta er ekki píanó”. Orri var góður nemandi þegar hann lagði sig fram, klár og mjög nákvæmur. Orri hafði jafnvel enn meiri hæfileika en hann sjálfur gerði sér grein fyrir. Hann hafði fína skriftarhæfileika, sem okkur hina skorti verulega upp á, og stundum stríddum við honum fyrir það, rétt eins og hann stríddi okkur.  Í keilu var hann snillingur, hann hafði áhuga á íþróttum, var alltaf frábær í þriggja stiga skotum, og hann elskaði að skipuleggja ferðir. Stundum skipulagði hann ferðir mánuðum fyrir brottför fyrir allan vinahópinn, teljandi niður dagana og gerði eftirvæntinguna jafnvel skemmtilegri en ferðina sjálfa. Við ferðuðumst um Ísland, gistum í tjöldum, sumarbústöðum, og tókum allt með okkur til að hafa það gott, sérstaklega til að hlusta á tónlist. Orri elskaði rafmagnstónlist, hip hop og sumar metal hljómsveitir. Án Orra og hans ferðahæfileika hefðum við líklega aldrei yfirgefið vesturbæ Reykjavíkur. Við ferðuðumst líka um heiminn, með mörgum ferðum til Benidorm þar sem við erum vissir um að allir á Spáni muna eftir okkur. Við vorum háværir, en sanngjarnir og vildum gera okkur grein fyrir öllu og stundum grínast og gera alla brjálaða, en á góðan hátt.

Orri var vinmargur og hafði oft djúpstæð áhrif á fólk í kringum sig enda sannfæringarkraftur hans mikill. Hann átti það til að snúa skoðunum fólks á hinum ýmsu málum í þveröfuga átt og jafnvel í heilan hring á endanum. Það átti ekki síst við um hans eigin skoðanir þegar ný þekking og upplýsingar voru teknar með í reikninginn. Orri var hnyttinn og gerði stundum grín að öðrum en þó lang mest að sjálfum sér. Roknahláturinn gat verið með emdemum smitandi. Sjálfshól og hégómi eru eiginleikar sem Orri var algjörlega laus við að bera. Ef hann varð vitni af þessum eiginleikum hjá öðrum gat kjánahrollurinn orðið svo mikill að hann neyddist til að kúppla sig út úr aðstæðum. 

 Orri, vinur okkar, þín verður sárt saknað.

Orri starfaði um nokkurra ára skeið sem vaktstjóri hjá Olís á Klöpp og vann síðar fjölbreytt störf hjá Íslandspósti.

Hann var mikill dýravinur og náði einstakri tengingu við þá málleysingja sem hann umgekkst.

Hann hafði gaman af því að ferðast til framandi landa og fór víða. Þá hafði hann mikinn áhuga á mismunandi menningarheimum og siðum.

Orri Freyr var óþrjótandi uppspretta alls kyns fróðleiks og var vel lesinn. Hann hafði áhuga á heimspeki sem og öðrum fræðigreinum, og var alltaf tilbúinn í umræður um hinar stóru spurningar lífsins.

Í umsögnum vina hans kemur margt fram. Hér eru nokkrir punktar:

Vel gefinn, sannur vinur, mikill páskastrákur, barngóður, duglegur, tryggur, hlédrægur, skemmtilegur, drepfyndinn, börn löðuðust að honum, rökfastur, en ekki maður margra orða, heiðarlegur, honum var aldrei kalt og vildi ekki úlpu á leikskólaárunum, honum líkaði skápurinn með góðgætinu hjá vinkonu mömmu sem hann kallaði „boðstólaskápinn“!

Fimm ára var hann á Mallorka með mömmu og vinkonu hennar. Hann var fljótur að átta sig á staðháttum. Eitt sinn var hann kominn niður og út í garð meðan vinkonurnar sátu úti á svölum, þá kallaði hann upp til þeirra:  „Stelpur, ég verð á barnum.“ Á barnum við laugina fékkst nefnilega ís. 

Meðferðarvinur sem hann kynntist á seinni árum, minnist hve hláturmildur hann var og svo var það hið óræða bros sem oft lék um varir hans – og svo sagði Orri við Una vin sinn: „Ég á bestu mömmu í heimi.“

Hann las verk þekktra fræðimanna á borð við Jung og Nietzsche, og glósaði mikið hjá sér. Hann las bækur í hillumetrum.

Í gamla daga voru frændurnir Orri og Össi, föðurbróðir hans sem er aðeins einu ári eldri, með ákveðið „ritual“ við að horfa á Stellu í orlofi, í hvert sinn sem þeir hittust. Myndin var alltaf jafn sprenghlægileg, í fyrsta sinn og líka því hundraðasta.

Og svo var það þegar Orri var í heimsókn hjá mér og ömmu Fríðu, þegar við bjuggum í Grindavík og ég var þar sóknarprestur. Orri var svo spurður þegar hann kom heim, hvað hann hefði upplifað og hvað amma og afi hefðu verið að gera. Þar var af ýmsu að taka. Amma sinnti heimahjúkrun og húsmóðurstörfum og afi prestsverkum og þessa helgina var útför í Grindavíkurkirkju og um það hafði Orri þau orð er heim kom að afi hefði verið „að kirkja gamla konu sem var í hvítri kistu.“

Ég má til með að minnast langömmu hans í föðurætt, Sigríðar Jónsdóttur, sem var einstök kona, góð og trúuð, sem elskaði börn og mannfólk. Hún lést þennan dag, 20. mars 2010. Blessuð sé minning hennar og annarra ástvina sem horfnir eru.

Stundum er talað um að látnir ástvinir taki á móti sínum. Árni móðurafi Orra var honum ætíð kær. Árni lést fyrir rúmu ári. Hann og langamma Sigga og fleiri taka án efa á móti, elsku Orra Frey.

Þá er vert að geta þess, að Kristján, stjúpfaðir, Orra Freys, hefur reynst honum ákaflega vel. Hin síðari árin hefur mest ábyrgð og umhyggja hvílt á þeim hjónum Pálu Maríu og Kristjáni.

Samband Orra og Jóa pabba var ætíð mjög gott. Hann heimsótti föðurfjölskyldu sína oft er þau bjuggu á Seyðisfirði og svo kom hann líka í nokkur skipti til þeirra í Genf og naut þess að heimsækja Sviss og meginlandið. Afar kært hefur ætíð verið með þeim feðgum og föðurfjölskyldu Orra.

Bæði hlátur og grátur geta vökvað augun og vonandi getum við bæði hlegið og grátið af því tilefni sem kallar okkur saman hér í dag. En útför er sorgarathöfn, en í henni hljóma sálmar eins og vera ber, sem vísa til handanverunnar, til himinsins, gefa von um að lífið sé stærra og meira en hið jarðneska. En dauðinn hefur ekki látið undan þrátt fyrir tækniframfarir og gervigreind, sem Færeyingar kalla „vitlíki“. Dauðinn hefur engu breytt. Hann nær allt of mörgum ungmennum og fólki á besta aldri, sem gefst upp í óreiðunni sem fylgir nútímanum, kröfunum, firringunni og trúleysinu og hinum eyðandi öflum sem tæra gildagrunninn.

Hlutverk kirkjunnar um aldir hefur verið að boða fólki von og trú í erfiðum og oft á tíðum, hræðilegum aðstæðum. Þjáning og dauði eru meðal stefja föstunnar sem senn er á enda. Næsti helgidagur er pálmasunnudagur og svo tekur kyrravikan við með skírdegi og föstudeginum langa og svo kemur „sigurhátíð sæl og blíð“ – páskarnir og páskavikan, með boðskap upprisunnar og sigurinn yfir dauðanum. Dauðinn er mesti óvinur okkar manna. Hann eirir engum. Krossinn hér á kórveggnum er auður því Kristur er upprisinn. Hann hefur sigrað dauðann og heitið okkur eilífu lífi. Vesturlönd byggja allar hugmyndir sínar um gott mannlíf og fagurt, á kristinni trú og von. Allt sem við teljum mikilvægast er þaðan komið.

Biblían er merkilegt rit. Hún er einskonar sýndarveruleiki sem vísar til hins eina sanna veruleika. Hún er margslungin bók og helstu bókmenntir veraldar verða aldrei skiljanlegar nema í ljósi Hinnar helgu bókar. Orri fékkst við að lesa Dostojevski sem er einn magnaðasti höfundur bókmenntasögunnar. Í bókum sínum glímdi hann við hin stóru stef kristninnar. Orri las bókina, Bræðurnir Karamazov, í bland við heimspeki og kristna trú. Hann las Tolstoy líka og horfði á hlaðvörp með frægum fyrirlesurum samtímans um listina að lifa á grunni góðra gilda.

Hann var trúaður maður. Hann var fyrsta barnið sem ég skírði á minni starfsævi sem prestur. Meðan hann dvaldi í Hlaðgerðarkoti, pældi hann mikið í kristinni trú og lét skírast á ný.

Hann þekkti Krist og bað til hans, trúði á frelsun hans og lækningu allra sinna meina. Barnaskírnin er sáttmáli Guðs og manns sem hinn fyrrnefndi svíkur aldrei enda þótt við svíkjum öll okkar heit, er við föllum hvert um annað og hrösum oft á lífsveginum. Barnaskírnin er ástarjátning Guðs sem enn gildir. Guð elskar þig og Guð elskar Orra Frey og ég tala í nútíð því Orri Freyr lifir í trúnni á Guð.

Ég byrjaði þessa ræðu á orðinu Nei! En nú minni ég á stærsta JÁ sem til er í veröldinni og það er JÁ Jesú Krists, hins upprisna frelsara, sem opnaði leiðina til himinsins heim. Guð segir já við þér og öllum mönnum, hverrar trúar sem þeir eru.

Og nú hefur Orri Freyr hlotið hvíld. „Svarti hundurinn“ geltir ekki lengur.

Síðustu 3-4 árin skiptust á skin og skúrir. Hann átti góð tímabil en svo urður dalirnir mjög djúpir og örvæntingin algjör. Stundum virtist hann vera á batavegi og á því góða tímabili kom vel í ljós hvers hann var í raun megnugur, en svo kom óttinn sem sótti að honum aftur og aftur. Hann gat engan veginn útskýrt þann ugg sem hann upplifði. En nú er því lokið. Hræðlan er horfin, en með allt of dýrri lausn.

En nú tekur við „nóttlaus voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín“ eins og Stephan G. orti í Vesturheimi um landið sitt sem hann unni. Spennan og oflætið eru horfin og „friður Guðs sem er æðri öllum skilningi“, eins og postulinn orðaði það, er yfir og allt um kring.

Við felum Orra Frey Jóhannsson, himni Guðs.

Norska sálmaskáldið Petter Dass, sem var samtímamaður séra Hallgríms Péturssonar, orti sálm sem Sigurbjörn Einarsson, biskup þýddi. Sálmurinn telst til höfuðverka norskrar kristni og er númer 1 í Norsku sálmabókinni og hljóðar svo á okkar tungu:

1 Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra

dýrka ber og veita lotning tæra.

Hver tunga, vera

skal vitni bera

að voldug eru

þín ráð og þér þakkir færa.

2 Guð er Guð þótt veröld væri eigi,

verður Guð þótt allt á jörðu deyi.

Þótt farist heimur

sem hjóm og eimur

mun heilagt streyma

nýtt líf um geim, Guðs á degi.

3 Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,

himinn, jörð og stjörnur munu víkja

en upp mun rísa

og ráð hans prísa,

hans ríki vísa

og ljósið lýsa og ríkja.

Líf Orra Freys heldur áfram í himni Guðs en við höldum áfram hér í heimi Guðs, heimi sem þarfnast boðskapar himinsins um kærleika, fyrirgefningu og frið, þarfnast handa þinna og minna, þarfnast fordómaleysis og greindar, sem sér í gegnum fals og lygar samtímans og ónýt hugmyndakerfi.

Við höfum verk að vinna. Lífið er gjöf Guðs og við skulum lifa því með Guði, í trú á hann og von um að öll él birti upp um síðir.

Við heyrum næst lag sem minnir á gleðina, „Horfðu ætíð á björtu hliðar lífsins“ – Always Look on the Bright Side of Life. Gerum það, en þó án þess að líta framhjá þeim dimmu, því annars lifum við í blekkingu. Þú málar ekki mynd með einu saman hvítu. Ljós og skuggar verða að kallast á til að lífið verði merkingarbært.

Góður Guð, styrki ykkur, kæru ástvinir:

elsku Pála María og Kristján, Bríet Ósk og Theodór;

elsku Jóhann Freyr og Gúa, Bárður Jökull, Freyja María og Tómas Freyr;

elsku amma Beta og elsku amma Fríða, skyldfólk og vinir.

Guð blessi minningu Orra Freys Jóhannssonar og Guð blessi okkur öll, sem enn erum á lífsveginum og höfum verk að vinna og lífs að njóta.

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons