Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Ragnheiður Drífa Steinþórsdóttir 1948-2024

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Ragnheiður Drífa Steinþórsdóttir

1948-2024

Bálför frá Neskirkju

mánudaginn 19. febrúar 2024 kl. 13

Hljóðupptaka og texti er hér fyrir neðan og sálmaskráin verður birt síðar.

„Við vit­um það með lífið, það endar bara á einn veg“ sagði herra Karl Sigurbjörnsson, biskup í viðtali við fjölmiðil, skömmu áður en hann lést. Og hann bætti svo við og sagði um það að veikjast og glíma við erfiðan sjúkdóm: „Hvers vegna ekki ég?“

Hann var alla tíð sterkur vitnisburður. Blessuð sé minning hans.

Já, hvers vegna ekki ég? Dauðinn bíður okkar allra og sú hugsun leiðir mann til að íhuga tímann, þetta furðulega fyrirbrigði, sem er nánast ómögulegt að skilja.

Ég er af sömu kynslóð og Drífa. Ég vaknaði upp einn morgun nýlega eftir góðan svefn og hugsaði: Ég hef bráðum sofið í 25 ár og vakað í 50! Ótrúleg er sú staðreynd að við sofum þriðja hluta ævinnar. Svefninn er mikilvægur og hann endurnærir okkur og heldur okkur ungum.

Ég man nafnið hennar Ragnheiðar Drífu Steinþórsdóttur, sem stjórnanda þáttarins, Lög unga fólksins. Líklega hlustaði ég mest á þáttinn á sjöunda áratugi liðinnar aldar áður en hún tók við þættinum en lengi vel hélt ég upp á þennan þátt.

Maður beið alla vikuna sem unglingur eftir þessum tæpa klukkutíma með vinsælustu lögum samtímans. Þá var allt skammtað hjá RÚV sem sá til þess að við yrðum ekki spillingu að bráð vegna of stórra skammta af vinsælum dægurlögum og til að uppfræða okkur var leikin klassísk tónlist tímunum saman til að jafna þetta út. Þetta væri nú kallað innræting eða eitthvað þaðan af verra nú á tímum!

Og nú er hún Drífa öll sem eitt sinn stýrði vinsælasta þætti unga fólksins.

Já, svona er tíminn.

Við erum saman komin hér í Neskirkju til að kveðja hana Drífu og þakka fyrir líf hennar. Við erum hér og nú.

Til forna skiptu menn tímanum í þrennt eins og við gerum reyndar enn, en þá voru notuð önnur hugtök: Urður, Verðandi og Skuld, nöfn skapanorna í norrænni goðafræði.

Urður er það sem þegar hefur verið og er því um þátíðina. Verðandi er um andrána, núið og svo er þetta undarlega orð um framtíðina. Hvernig datt fornmönnum í hug að nota orðið skuld um framtíðina? Skuldum við framtíðina eða skuldar einhver annar okkur framtíðina? Nei, þetta er ekki tengt sögninni að skulda heldur hugtakinu skal, það sem koma skal, það sem við skulum vænta, það er framtíðin sem fornmenn kölluðu Skuld.

Íslenskan geymir eitt lítið orð, agnarlítið orð, algjört smáorð og það er orðið – þá. Ég get t.a.m. sagt: Þá ég var ungur bjó ég úti á landi. Orðið „þá“ vísar sum sé til fortíðar, til þess sem á íslensku heitir þá-tíð. En svo getur þá líka vísað fram á veginn og unnt er að tjá sig og segja: Þá ég lýk lokaprófi í skólanum mun ég taka við skírteini úr hönd rektors. Þetta agnarlitla orð, nanóorð, þá, vísar bæði til fortíðar og framtíðar, til Urðar og Skuldar. Og við heyrðum áðan texta Páls postula um kærleikann og þar vísar hann til þeirrar stundar í framtíðinni, í eilífðinni, þá við fáum skilið allt.

Hann skrifaði:

„Nú er þekking mín í molum

en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.

En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,

en þeirra er kærleikurinn mestur.“

Umorða mætti texta postulans og segja:

Já, þetta er þá svona! Nú skil ég!

Í ljóði sínu My Back Pages fer Bob Dylan yfir ýmsar breytingar sem hann hefur upplifað á ævi sinni. Hugmyndir sem hann hafði forðum, misstu innihald sitt og nýjar tóku við, lífið er margslungnara en hann hélt á sínum yngri árum og er í sífelldri breytingu. Í viðlaginu eftir hvert vers segir skáldið:

Ah, but I was so much older then,

I’m younger than that now.

Sem mætti þýða svo:

Æ, en ég var miklu eldri þá,

er yngri en það nú.

Þessi orðaleikur virkar einkar vel, þar sem snúið er uppá fortíð og nútíð, á þáið og núið og sá sem einu sinni var ungur og óreyndur er nú enn yngri og þroskaðri!

Hvernig þróast líf mitt og þitt. „Lífið er eins og konfektkassi“, sagði Forest Gump í samnefndri kvikmynd, „þú veist aldrei hvað þú færð.“

Og í óvissu lífsins er gott að nærast á trú og von. Þess vegna eru sungnir sálmar við útfarir vegna þess að í sálmum er viðfangsefnið eilífðin. Þeir hafa annað innihald en flestur ef ekki allur annar kveðskapur. Sálmarnir beina sjónum okkar til himinsins, til eilífðarinnar, til hinnar eilífu æsku og því eru sálmar kirkjunnar hin eiginlegu „Lög unga fólksins“ svo ég tengi nú við líf hennar Drífu.

Við skulum horfa til himinsins heim þegar við minnumst hennar og syngja sálma um von og trú, um nýja tilveru í himni Guðs um leið og við fáum að heyra margt annað fallegt í söng og tónum.

Ragnheiður Drífa Steinþórsdóttir fæddist á Stokkseyri 3. janúar 1948. Hún lést 20. janúar 2024 á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Dagbjört Sigurðardóttir á Stokkseyri, f. 3.9. 1924, , d. 23.8. 2005 og Steinþór Jasonarson frá Vorsabæ í Flóa, f. 5.8. 1911, d. 24.8. 1955.

Seinni maður Dagbjartar var Ágúst Guðbrandsson, f. 1.8. 1921, d. 13.11. 2005.

Drífa var önnur í röð átta systkina en þau eru auk hennar Hólmfríður, Kristín og Jason, börn Steinþórs, og Guðbrandur Stígur, Guðríður Bjarney, nú látin, Sigríður Inga og Dagrún Mjöll, börn Ágústar.

Drífa fluttist unglingur til Ingvars Sigurðarsonar, móðurbróður síns í Reykjavík og tók landspróf í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar.

Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu 16 ára gömul, fyrst á innheimtudeild, varð síðar aðalgjaldkeri og vann að kjaramálum af hálfu starfsmanna. Jafnhliða þeim störfum sá hún um óskalagaþáttinn Lög unga fólksins frá 1971 til 1977.

Hún sótti lýðháskóla í Noregi veturinn 1967 til 1968 og dvaldi í Kaupmannahöfn sumarið 1968.

Hún giftist Sverri Eðvaldssyni, raftæknifræðingi, f. 8.5. 1952, d. 14.12. 2023. Börn þeirra eru:

1) Dagbjört Lára, lífeindafræðingur, f. 2.12. 1974, d. 28.12. 2019, maki: David Charles Kempf, f. 1966. Þau skildu. Sonur þeirra er Daniel Michael, f. 7.8. 1994. Sambýliskona hans í San Diego, Kaliforníu er Shakara Thompson, f. 2. nóvember 1994. Dóttir þeirra er Nova, f. 20. febrúar 2022. 

2) Björgvin Daði, rafiðnfræðingur, f. 6.1. 1978, maki: Helena Ketilsdóttir, f. 1975. Synir þeirra eru Hrannar Þór Rósarson, f. 18.2. 1997 og Heiðmar Örn, f. 11.7. 2006.

Drífa og Sverrir fluttust til Noregs 1977 en sneru heim um sjö árum síðar og skildu um svipað leyti. Sverrir lést í desember s.l. og var jarðsunginn í Noregi þar sem hann hefur búið árum saman.

Drífa starfaði á fjármálaskrifstofu Ríkisútvarpsins til 1994 þegar hún lét af störfum vegna andlegra veikinda.

Seinni eiginmaður Drífu er Logi Hjartarson, um langt skeið starfsmaður Álversins í Straumsvík, f. 19.9. 1962. Þau Drífa kynntust fyrst á geðdeild Landspítalans, hófu sambúð sumarið 1993 og gengu í hjónaband í Stokkseyrarkirkju 3. september aldamótaárið 2000. Þau bjuggu lengst af í Vesturbæ Reykjavíkur og áttu saman ástríka og góða tíma um þriggja áratuga skeið. Styrkur beggja gerði sambandið svo gott sem raun ber vitni. Þau styrktu hvort annað og Logi sagðist hafa heillast að þessari konu sem var svo stór og réttlát, skapstór og skemmtileg. Hún hafði mikil áhrif á alla sem henni kynntust og það hélt til hinstu stundar. Þekking beggja og sameiginleg lífsreynsla virkaði á báða bóga. Líf þeirra var gott og gefandi. En um leið má segja að Drífa hafi barist hetjulega við sjúkdóm sinn. Hún var skapmikil og öflug kona. Föðurmissir og glíman við lífsaðstæður efldu hana og gáfu þroska.

Björgvin, sonur hennar, sagði mér í spjalli að móðir hans hefði svo sannarlega verið hrókur alls fagnaðar á sínum yngri árum og áður en bera tók á veikindum hennar en hún hélt sínum karaktereinkennum alla tíð. Hún var fyndin og skemmtileg, öflug móðir sem sinnti sínu uppeldishlutverki af einlægni. Hún ól okkur börnin upp til að verða sjálfstæð. Hún var orðheppin, klár og greind og samband hennar og Loga var fagurt, að sögn Björgvins.

Hún hafði ríka réttlætiskennd og lét í sér heyra í fjölmiðlum m.a. um málefni geðsjúkra.

Og nú er tíminn hennar liðinn, jarðneski tíminn og þá hefst eilífðin, sem við vonum flest að muni opnast upp fyrir okkur í fyllingu tímans eða ÞÁ, eins og postulinn orðar það.

Minningarnar eru margar og hún og Logi áttu saman góð ár. Drífa var góðum gáfum gædd, var duglegur námsmaður. Hún gætti barna á sumrin frá því hún var 9 ára. Hún lærði að vinna og bera ábyrgð. Hún ólst upp fyrir austan fjall þar til hún fór í Gaggó Vest og bjó þá hjá, Ingvari Sigurðarsyni, föðurbróður sínum og Imbu konu hans. Síðar hóf hún nám við Öldungadeildina við MH og tók þar margar einingar. Hún nam við lýðháskóla í Noregi og svo vann hún á skrifstofu Ríkisútvarpsins eins og fyrr var getið.

Logi sagði við mig að hún hefði hreinlega bjargað lífi sínu. Þau áttu vel saman og voru elsk að hvort öðru. Þau bjuggu saman í yfir 30 ár. Logi er sonur Nönnu Þorláksdóttur og Hjartar Torfasonar og systkini hans eru Torfi og Margrét.

Drífa er hér kvödd með virðingu og þökk.

Kveðja hefur borist frá Helgu Sóleyju Torfadóttur, Höllu Thorlacius og Sveinbirni Þórkelssyni. 

Útför er í senn sorgarathöfn og þakkarhátíð. Við munum hittast í erfidrykkju í safnaðarheimilinu þegar kistan hefur verið borin út eftir þessa bálfararathöfn. Duftker hennar verður jarðsett síðar.

Í erfinu gefst tækifæri fyrir nánustu aðstandendur og aðra að hittast, syrgjendur geta skilað samúð með handtaki og augnsambandi og sýnt hluttekningu sem er svo mikilvægt á lífsveginum. Útför er mikilvæg athöfn og við erum lánsöm að hér á landi hefur þróast hefð við að kveðja fólk með virðingu, þökk og geislum gleði sem blandast í sorgarferlið og lýsa upp dimmuna. Drífa er héðan kvödd af hjörð Drottins, hinni síungu hjörð, sem á fyrirheitin um eilíft líf og kveður með andlegum lögum unga fólksins og biður henni blessunar um alla eilífð.

Guð blessi minningu Ragnheiðar Drífu Steinþórsdóttur og góður Guð leiði okkur og styrki sem enn erum á lífsveginum.

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons