Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Jón Þorgeir Hallgrímsson 1931-2023

Bálför frá Neskirkju föstudaginn 1. des. 2023

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Jón Þorgeir Hallgrímsson

Yfirlæknir, lektor og dósent við læknadeild HÍ og kennari við Ljósmæðraskóla Íslands. Gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum.

f. 20. ágúst 1931

d. 21. nóvember 2023

Hægt er að hlusta og lesa hér fyrir neðan. Sálmaskráin er aftast í færslunni.

Jón Þorgeir Hallgrímsson var eftirminnilegur maður, svipmikill, augun skörp og nærveran sterk. Ég kynntist honum í Nesklúbbnum þar sem hann lék golf í góðra vina hópi. Mér fannst hann ætíð vera eins og konungur ljónanna meðal félaga sinna þar – The Lion King! Þeir eru nú sumir horfnir og allir aðrir lifandi menn í þessari veröld, karlar og konur, nálgast lokaflötina á velli lífsins.

Hann lifði merka tíma, sá þjóð sína rísa úr fátækt og upplifði ótrúlegar framfarir á sinni starfsævi.

Jón fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1931 og lifði góða daga og varð 92ja ára að aldri er hann lést á heimili sínu, Sléttuvegi 17, í Reykjavík hinn 21. nóvember s.l.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Margrét Ingiríður Jónsdóttir, talsímavörður, (f. 20.8.1909, d. 4.3. 1984), og Tómas Hallgrímsson Tómasson, bankaritari, (f. 9.8. 1894, d. 21.3 1967). Systkini Jóns eru Ísak Guðmundur, læknir, f. 4.7. 1935, og Kristín Ingiríður, lyfjatæknir f. 6.2. 1941.

Um hann hafa margir kollegar sagt að hann hafi verið farsæll í starfi. Það er góð einkunn og mikið lán að vera farsæl manneskja. Farsældin er að hluta til fólgin í því að kunna að vinna úr atvikum lífsins, takast á við áskoranir, sigrast á erfiðleikum og gefast aldrei upp.

Lífið er samvinna Guðs og manns og næst komumst við persónu Guðs í Kristi sem var í senn túlkandi lögmálsins þ.e.a.s. laga Gyðinga, læknir sjúkra og bað fyrir fólki og heimi, hann var því í senn lögfræðingur, læknir og prestur.

Stephan G. Stephansson, sem flutti til Vesturheims og kynntist þar harðri lífsbaráttu, og kallaði sig Baslhagmennið, var leitandi efasemdarmaður og hugsuður. Hann orti margt og m.a. þessa lýsandi vísu um baslið í lífi sínu sem margir kunna:

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Og þessi hlutverk skáldsins speglast í Háskóla Íslands sem

“var stofnaður 17. júní árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og fyrstu 29 árin var hann til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Við stofnun Háskóla Íslands voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn sameinaðir og mynduðu hver sína deild skólans . . . “

Háskólaárið 1911-1912 voru nemendur einungis 45 og þar af ein kona”.

Margt hefur breyst frá stofnun HÍ og nú skipta nemendur þúsundum og konur í meirihluta.

Landspítalinn tók til starfa 1930 ári áður en Jón fæddist og hornsteinn var lagður að aðalbyggingu HÍ 1936 þegar Jón var 5 ára.

Það voru auðvitað forréttindi að fæðast og alast upp í henni Reykjavík. Jón var réttur maður á réttum tíma. Arkitektinn, Guðjón Samúelsson, teiknaði inn þrjár steinsúlur yfir anddyri Háskólans, sem eru eins og öndvegissúlur og þær tákna hinar þrjár fornu námsgreinar: guðfræði, læknisfræði og lögfræði.

Og í dag, 1. desember, fögnum við fullveldi Íslands! Til hamingju, Ísland!

Lífið er barátta og við höfum séð hvernig þjóðin hefur unnið sig úr allsleysi til velmegunar á liðinni öld. Lífið tekur á, en verkefnið er að sigrast á mótlætinu og komast í land þótt á móti blási. Það vissi fólk á fyrri hluta liðinnar aldar og það þekkti Jón Þorgeir, sem óx úr grasi hér í nágrenninu.

Foreldrar hans bjuggu að Reykjavíkurvegi 1, í Skerjafirði, en húsið sem í hafði verið Pósthúsið, stóð áður þar sem Hótel Borg reis. Þar fæddust þau systkinin þrjú. Vegna flugvallarins var húsið flutt inn á Brúnaveg og stendur þar enn. Gantast var með að systkinin hefðu öll komið með póstinum!

Síðustu jólin í Skerjafirðinum var Tómas pabbi þeirra á Vífilsstöðum vegna berkla. Þau heimsóttu hann um jólaleitið – og eiginlega til að kveðja hann. Ísak, bróðir Jóns, hafði á orði að í þeirri heimsókn, hafi afi Tom, eins og hann var kallaður, ekki verið þess megnugur að tala, en engu að síður braggaðist hann nokkuð eftir þetta, en náði þó aldrei fullri heilsu. Á þessum árum var húsnæðisskortur í Reykjavík og um tíma var fjölskyldan á vergangi. Þá var mikils virði að eiga gott bakland. Afi Jóns Þorgeirs, Jón Magnússon yfirfiskmats- og útgerðarmaður og kona hans, Ingibjörg amma áttu hús á Vesturvallagötu 6, sem hét Lindarbrekka. Á baklóð Lindarbrekku var pakkhús sem þau innréttuðu fyrir fjölskylduna. Þarna er Jón Þorgeir stálpaður drengur og með félaga sínum lagði hann til heimilisins með því að selja bökur og kókósbollur. Kókósbollur voru alltaf hans uppáhalds sælgæti.

Bræðurnir hjálpuðu til heima. Jón var látinn vaska upp, en Ísaki fannst það mikil upphefð þegar hann fékk að þerra það sem ekki var brothætt. Í stofunni hjá ömmu, Ástu Júlíu, var forláta ruggustóll. Hjá henni lærðu þeir bænir. Jón sá um Faðir vorið, en Ísak, Ó, Jesú, bróðir besti, sem er sex erindi og átti Ísak það til að sofna í ruggustól ömmu áður en hann gat klárað versin.

Jorri, eins og hann var oft kallaður, ólst upp á vonaröld, þegar fólkið í landinu lét sig dreyma um bjarta framtíð, lýðveldi, togara, verksmiðjur, fleira fólk til að þjóna þjóðfélaginu með margskonar menntun.

Jón kvæntist Steingerði Þórisdóttur 14. júní 1952. Hún var fædd 9.2. 1935 og lést 12.3. 2015. Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Sveinsdóttir, húsmóðir, (f. 1.2. 1911, d. 3.12. 2002), og Þórir Kjartansson, lögfræðingur, (f. 6.6. 1909, d. 12.6. 1974).

Börn Steingerðar og Jóns eru:

1. Ingibjörg Þóra, hjúkrunarfræðingur, f. 8.12. 1952. Dóttir hennar og fv. eiginmanns, Kristjáns Víkingssonar, læknis, (f. 26.6. 1949, d. 21.1. 1982), er Steingerður Gná og hún á þrjú börn. Seinni eiginmaður Ingibjargar var Hörður Þorvaldsson, bifvélavirkjameistari, (f. 12.11. 1942, d. 4.1. 2011). Börn þeirra eru Hörn, hún á tvö börn og Þorgeir Orri, sem á tvö börn.

2. Steinunn Guðný, bráða- og heimilislæknir, f. 18.9. 1956. Eiginmaður hennar er Frosti F. Jóhannsson þjóðháttafræðingur og fv. framkvæmdastjóri, f. 27.4. 1952. Börn þeirra eru Hallgrímur Snær, sem á eitt barn, Þorgerður Drífa, sem á þrjú börn og Kristrún Mjöll, sem á tvö börn.

3. Margrét Ingiríður, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 13.3. 1959. Eiginmaður hennar er Kristján Erik Kristjánsson, húsasmíðameistari, (f. 19.4. 1958). Börn þeirra eru Jón Þorgeir, sem á eitt barn, Kjartan Darri, sem á tvö börn og Kristín Erla Lína, sem á tvö börn.

4. Þórir, lögfræðingur og húsamálari, f. 1.10. 1963. Eiginkona hans er Rannveig Ingibjörg Thejll, stuðningsfulltrúi, (f. 16.11. 1965). Sonur þeirra er Magnús Birnir. Dóttir Þóris og fv. sambýliskonu, Friðgerðar Ebbu Sturludóttur, bókara, (f. 4.7. 1965), er Steingerður Sonja.

5. Tómas, viðskiptafræðingur, f. 1.10. 1963. Fv. eiginkona hans er Gyða Árnadóttir, deildarstjóri, f. 15.10. 1966. Synir þeirra eru Valgeir, sem á eitt barn og Styrmir, sem á tvö börn.

Stúlkurnar fæddust allar á Bræðraborgarstíg 1 en drengirnir í Svíþjóð.

Borist hefur kveðja:

Þorgeir Orri Harðarson, dóttursonur Jóns og Ásdís kona hans ásamt börnum, senda hugheilar kveðjur frá Svíþjóð.

Jorri vakti athygli, hvar sem hann fór. Hann var sjarmerandi karakter, en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hann var fróðleiksbrunnur um land og þjóð, listir og sögu og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar. Vegna uppruna síns og uppvaxtar var hann í senn borgari og alþýðumaður. Hann spilaði golf og stundaði reglulega líkamsrækt. Hann leitaði víða fróðleiks. Hann var maður hefða, nægjusamur, en kunni líka að njóta lífsins lystisemda.

Jón var mikill sögumaður og naut þess að segja frá liðnum tíma. 

Á námsárunum var hann háseti á togaranum Fylki og svo á hvalveiðibátum. Sem ungur maður hjálpaði hann til hjá Sveini afa Steingerðar á Bræðraborgarstígnum, sem rak Sveinsbakarí af myndugleik og sagði Jón síðar að þar hafi hann verið “tekinn í bakaríið”.

Jón og systkini hans voru send í sveit í Vestur-Landeyjunum sem hafði mótandi áhrif á þau. Sveitin var í huga hans mannbætandi og efldi tengsl við lífið sjálft, við menn og skepnur, veður og vinda, sól og sumar. Þegar hann, Reykjavíkurdrengurinn, kom fyrst í sveitina var hann spurður: Hvað viltu borða? Hann svaraði hiklaust: Kótilettur! En fólkið í sveitinni hafði ekki hugmynd um hvað í veröldinni það væri!

Jón Þorgeir lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1951 og embættisprófi í læknisfræði frá Há­skóla Íslands 1959. Hann fór í sér­nám til Dan­merkur og Svíþjóðar og varð sérfræðing­ur í kven­sjúk­dóm­um og fæðing­ar­hjálp 1966.

Eft­ir heimkomu úr sér­fræðinámi hóf hann störf á fæðing­ar- og kvensjúkdómadeild Land­spít­al­ans, var síðar yfirlæknir sömu deildar og sviðsstjóri kvenlækningasviðs. Þá vann hann á Leit­ar­stöð Krabba­meinsfé­lags Íslands um árabil og var einn frumkvöðla í forvörnum krabbameina kvenna. Hann var lektor og síðan dósent í fæðingar- og kvensjúkdómafræðum við læknadeild Háskóla Íslands. Einnig var hann kennari við Ljós­mæðraskóla Íslands.

Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa. Hann var m.a. formaður Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, sat í stjórn Félags Nor­rænna kven­sjúk­dóma­lækna, var forseti Norrænu krabbameinssamtakanna, sat í læknaráði Landspítalans og var formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Íslands.

Á menntaskólaárum barnanna fengu þau og félagar þeirra far í skólann með honum, oftast á Dodge-inum en stundum á Skóda, því það var á leið hans til vinnu. Eitt sinn teppti öskubíll götuna þegar hann ók þeim á Skódanum. Hann bað karlana vinsamlega að færa bílinn því hann væri læknir og aðgerð biði hans á sjúkrahúsinu. Þeir bara brostu og hreyfðu sig hvergi: Ha, ha, læknir á Skóda, sagði einn þeirra, nei glætan! En Jón var nefnilega ekki mikill efnishyggjumaður og skammaðist sín ekkert fyrir að aka á Skódanum.

Jón og Steingerður bjuggu í Svíþjóð í sex ár og tengdust öðrum læknafjölskyldum vináttuböndum sem aldrei rofnuðu. Börnin eiga góðar minningar frá Svíþjóðarárunum. Eftir heimkomuna þegar þau voru búin að koma sér vel fyrir í Búlandinu ferðuðust þau mikið og nutu lífsins. Í Búlandi var oft glatt á hjalla, fjölskylduboð og veislur með vinum, þar sem skálað var og sungið, iðulega undir píanóleik.

En það urðu straumhvörf í lífi fjölskyldunnar þegar Steingerður veiktist skyndilega árið 1993 og varð aldrei söm eftir það. Hún lamaðist og margt breyttist í hennar færni, en hún hélt þó málinu.

Steingerður hafði átt annríka daga á stóru heimili, en á þessum tíma voru börnin flogin úr hreiðrinu og hún farin að njóta tómstunda og félagsstarfa, fór m.a. að spila golf eins og Jón og var virk í Oddfellowreglunni. 

Jón sinnti henni vel alla tíð og vitjaði hennar daglega eftir að hún þurfti hjúkrunar við í Skógarbæ. Hún kom vikulega heim þar sem fjölskyldan hittist og naut samveru. 

Eftirlifandi sambýliskona Jóns Þorgeirs er Guðrún Gyða Sveinsdóttir, ferðaráðgjafi, f. 20.3. 1943. Foreldrar hennar voru hjónin séra Sveinn Ögmundsson, f. 20.5. 1897, d. 1.10. 1979 og Dagbjört Gísladóttir, f. 19.5. 1915, d. 3.4. 2006.

Gyða starfaði lengst af sem ferðaráðgjafi hjá flugfélögum og ferðaskrifstofum og reynsla hennar kom sér vel þegar skipuleggja átti ferðir. Gyða smitaðist af golfbakteríunni og fóru þau Jón oft í golfferðir, ferðuðust víða og skoðuðu fjarlæg lönd. Þau áttu mörg sameiginleg áhugamál og það fór ekki fram hjá neinum að þau nutu sín saman. Börnin hafa átt margar góðar stundir með þeim. Síðustu misserin, þegar úthald og þrek Jóns fór minnkandi, stóð hún þétt við hlið hans og var stoð hans og stytta. Fyrir það eru börn Jóns ævinlega þakklát.

Jón kynntist golfíþróttinni á Svíþjóðarárunum og var virkur meðlimur í Nesklúbbnum. Já, golf er merkileg íþrótt sem þjálfar hug og hönd, fínhreyfingar, jafnvægi, sjón, hjarta og lungu, sérstaklega á þeim 18 holum sem leiknar eru, en svo er það hin 19. þar sem litið er yfir farinn veg og tiltekin gerð af lyftingum stundaðar! Ekki meir um það!

Ég hef áður minnst á það við útför eins af golffélögum Jóns, að golf væri líklega kristilegust allra íþrótta. Í golfi skiptir nefnilega máli að slá beint og fallega, að ná að losna við slæs og húkk og komast að holunni í sem allra fæstum höggum. En það er nú verkurinn, því slæs og húkk er einn meginkvilli allra manna, hvort sem þeir spila golf eður ei. Í Nýja testamentinu er talað um syndina og á frummáli þess, grísku, er syndin tjáð með orðinu hamartia sem merkir geigun. Við húkkum öll og slæsum, sláum feilhögg í lífinu, en náum samt að klára hringinn hverju sinni. Í fótboltanum brenna menn af í vítaspyrnu og sama á við um handbolta og körfu. Og golfið hefur svo þessar dásamlegu jafnræðislausn sem heitir forgjöf, sem er í raun ómöguleg þýðing á enska orðinu handicap eða fötlun. Forgjöf er ætlað að stuðla að því að þeir sem minna kunna geti leikið með hinum betri og notið þess. Annað væri synd. Forgjöf er auðvitað ekkert annað en fyrirgefning synda, fyrirgefning á klaufaskap, húkki, slæsi og fleiri kvillum. Já, við erum nefnilega öll náskyld!

Í lífinu mæta okkur ýmsar ógnir og þess vegna þörfnumst við hjálpar á lífsveginum. Lífið og samfélagið þarfnast menntaðs fólks svo vísað sé til grunndeilda HÍ – þarfnast lífið nú sem fyrr, lækna og lögfræðinga, en líka kirkju og presta – því iðkun trúar er þjálfun í að lifa vel og í farsæld, því hin kristnu gildi og trúin á Guð og hið góða, eru undirstaða þjóðfélagsins, grundvöllur Vestrænna lýðræðisríkja. Öll þau mannréttindi, sem við viljum standa vörð um, eru af einum og sama meiði, kristinni trú, komin frá Honum, sem var í senn læknir, lögspekingur, prestur.

Jón var stálminnugur alla tíð en sjónin farin að daprast hin síðari ár, en hann fylgdist ávallt vel með. Þegar hann var hættur að geta horft á fréttaveitur, golf og snóker í sjónvarpinu, hlustaði hann á skáldsögur, ævisögur og viðtalsþætti, varð það uppáhalds dægradvöl hans.

Jón var skemmtilegur maður og eftirminnilegur. Hann talaði ekki illa um nokkurn mann og kvartaði aldrei. Á gleðistundum sagði hann gjarnan: “John Brown beautiful har det så gott”. Hann kunni sko að “hygge seg” eins og danskurinn segir.

Hann er hér kvaddur af fjölmenni. Jón var í senn læknir, lögfræðingur og prestur, skv. túlkun minni, kunni sitt fag, þekkti grunngildi samfélagsins og mótaði fólkið sitt af því góða sem vestræn lýðræðisþjóðfélög standa fyrir. Og við öll sem erum foreldrar höfum verið læknar, lögfræðingar og prestar, með því að kenna þeim að lifa.

Tónlistin lyfti honum í himinhæðir. Öll fegurð á sér fyrirmynd í handanverunni eins og heimspekingurinn Platón ræddi á sínum tíma. Vísindin halda því fram að hvergi í alheiminum séu skilyrði fyrir myndun hljóðs nema á þessari agnarlitlu jörð sem við byggjum. Hvergi annars staðar fyrirfinnst tónlist!

Alheimurinn er ógnarstór, en utan hans, utan efnisheimsins, er himinninn og Guð, því Guð getur ekki verið hluti af efnisheiminum, sem hann skapaði sjálfur. Vísindin geta ekki útskýrt hvernig efnisheimurinn varð til úr engu. Trúin gerir það með sínum hætti og höfundur sköpunarsögu Biblíunnar skynjaði það fyrir a.m.k. 2500 árum, án þekkingar á Hubbel-sjónaukanum, geimferðum eða vísindum nútímans, að ljósið væri forsenda alls og lagði því Guði sjálfum orð í munn, er hann ritaði fyrstu setningar 1. Mósebókar, Genesis:

Þá sagði Guð: „Verði ljós.“
Og það varð ljós.

Einn mesti trúvarnarmaður liðinnar aldar, breska skáldið og rithöfundurinn, C.S. Lewis sagði m.a.:

Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi komið upp, ekki v.þ.a. ég sjái sólina, heldur af því að hún sýnir mér allt annað.

Allt sem þú sérð er sólinni að þakka.

Kristindómurinn er eins og sólin, hann er túlkunarlykill að lífinu. Þessu vil ég koma til skila, einkum til ungu kynslóðarinnar, sem þarf að þekkja hið stóra samhengi alls sem er.

Til að viðhalda þeirri þekkingu, þurfum við áfram vel menntað fólk, lækna, lögfræðinga, presta og á fleiri sviðum, fólk með gott hjartalag og skarpan og hlýjan hug, til þess að halda heiminum á réttu róli kærleika og friðar, jöfnuðar og réttlætis.

Guð blessi minningu Jóns Þorgeirs og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum og mundar kylfur lífsins með öllum þínum húkkum og slæsum. Megi hann leiða þig allt til síðustu grænu flatar þessa lífs og inn í himininn sjálfan þar sem gleðin ríkir – og tónlistin!

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons