Bálför frá Neskirkju, föstudaginn 24. nóv. kl. 13
Unnt er að lesa minningarorðin og hlusta á athöfnina alla á hljóðupptökunni. Ræðan hefst á mínútu 29:50



Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Steingerður Gunnarsdóttir
1936-2023
Bálför frá Neskirkju
föstudaginn 24. nóvember 2023 kl. 13
kistulagt kl. 11:45
Nú er sólin horfin um sinn úr Skutulsfirði þar sem Ísafjarðarbær kúrir á Eyrinni með hamrastál á tvær hliðar. Mér verður hugsað heim um þessar mundir, heim til Ísafjarðar. Já, Ísafjörður, fæðingarstaður minn, er og verður alltaf „heim“ í mínum huga, svo sterk eru ítök staðarins. Og nú er sólin horfin í bili í bænum fagra. Og þegar hún mun aftur ná að skína yfir Nónhornið og senda geisla sína á Eyrarfjallið og fer svo í hænufetum niður hlíðina og nær loks að skína yfir grafir hinna látnu og kirkju Krists, þá verður fagnað hinn 25. janúar n.k., þegar sólin skín í Sólgötunni, hvort sem til hennar sést þá eður ei. Því víð trúum öll á sólina.
Steingerður fæddist og ólst upp í Sólgötunni og sleit þar barnsskónum. Hún átti yndislega foreldra, Maríu Helgadóttur, talsímavörð og Gunnar Þorstein Þorsteinsson, klæðskera, hann var fæddur 1910 en lést langt fyrir aldur fram árið 1953 og var öllum harmdauði. María móðir þeirra var fædd 1914 og lést 2002 og hafði þá verið ekkja í tæpa hálfa öld.
Dætur Maríu og Gunnars eru:
Helga Þórdís, fædd 1935, dáin 2022. Steingerður 1936 og Sigrún, fædd 1947.
Blessuð sé minning þeirra sem horfin eru.
Ég man þær mæðgur í Sólgötu 4, en ég fæddist og ólst upp í húsinu númer 8 og tala nú yfir moldum Steingerðar, sem var barnapían mín í frumbernsku og ók mér um Sólgötuna í vagni.
Á milli heimila okkar var garðurinn sem tilheyrir Hrannargötu 9 sem náði út að Sólgötu og svo Bíórústirnar, sem voru aðal leikvöllur okkar barnanna. Bíóið áttu Helgi Guðbjartsson, kaupmaður, afi Steingerðar og Matthías Sveinsson, rakarameistari og kaupmaður, en það var jafnframt leikhús og þar stigu margir fremstu leikarar þjóðarinnar á svið á sínum tíma, áður en Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950. Ísafjörður var og er mikill menningarbær. Fyrir löngu er búið að ryðja bíórústirnar og koma þar fyrir bílastæði. Bíóið brann árið 1930.
Steingerður var rösk og dugleg, tók þátt í íþróttum, var öflugur liðsmaður í handbolta og góð skíðakona. Hún var glæsileg og virðuleg kona og sem stúlka vakti hún athygli fyrir fegurð, dugnað og fágun. Ísfirðingar af hennar kynslóð hafa sagt í mín eyru að flestir strákar hafi verið skotnir í henni. Ungur og sprækur maður, kallaður Bói Sig, eignaðist fegurðardísina Steingerði Gunnarsdóttur.
Hinn 12. febrúar 1955 gengu þau í hjónaband Steingerður og Jón Karl Sigurðsson, en hann var rúmum 4 árum eldri en hún, f. 1932, d. 2019.
Börn Steingerðar og Jóns Karl eru:
1) Ragnhildur, f. 1953, sem lést fyrr á þessu ári. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Ingvar Einarsson, f. 1948. Börn:
a) Steingerður, eiginmaður Einar Sverrir Sigurðarson. Börn: Daníel Freyr, Elísabet Líf, Ingvar Sverrir og Halldór Sverrir.
b) Einar Bergur, eiginkona Kristrún Frostadóttir. Börn María Herdís og Ragnhildur Steinunn.
c) Dóttir Ingvars, Guðbjörg Kristín, móðir Ásgerður Halldórsdóttir.
2) Gunnar Þorsteinn, f. 1955, eiginkona Helle Lund Jensen. Börn:
a) Bragi, sem er látinn.
b) Kristín Bjargey Lund.
3) Sigurður Hjálmar, f.1959, d. 1996, eiginkona Ólöf Davíðsdóttir. Barn: Jón Karl, móðir hans er Unnur Óttarsdóttir. Eiginkona Jóns Karls er Vala Pálmadóttir. Börn: Pálmi Sigurður og Unnur Lóa.
4) Þórdís, f. 1966, eiginmaður Sindre Støer.
Börn: a) Bergljót sem á Sigve, f. 2023 b) Ragnhild og c) Vigdís.
Myndarlegur hópur og ömmu sinni afar kær. Á sínum yngri árum vann hún um tíma í klæðskerabúð Einars og Kristjáns og svo tóku við ár barneigna og uppeldis.
Auk þess ráku þau hjónin verslun og bílaleigu á Ísafirði.
Þau fluttu til Noregs árið 1978 og starfaði hún þar við ýmis störf m.a. í verslun og banka. Þau bjuggu í Noregi til haustsins 2018 þegar þau fluttu heim til Íslands.
Hvar sem þau bjuggu áttu þau fallegt heimili. Í Osló bjuggu þau í Bærum sem þykir fínt hverfi og áttu þar hús með glæsilegum garði, þar sem fjölskyldan og ekki síst barnabörnin nutu þess að dvelja bæði að sumri og vetri. Jón Karl stýrði þjónustu Flugfélagsins í Osló. Þau áttu svo sitt annað heimili í Suður-Þýskalandi þar sem þau dvöldu löngum stundum í samvistum við góða vini, Gerald og Karítas Häsler.
Síðasta heimili Steingerðar var á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ, þar sem hún naut einstakrar umönnunar sem hér er þakkað fyrir. Þar lést hún 3. nóvember 2023.
Börnin eiga góðar minningar af foreldrum sínum og barnabörnin af afa og ömmu. Í samtölum við fjölskylduna rifjuðust upp ótal samverustundir við ýmis tækifæri, þau spiluðu saman Yatsý og fleiri spil. Öll fjölskyldan var mikið fyrir vetraríþróttir og Sigurður heitinn, Siggi Bóa, líklega besti skíðamaður sem þjóðin hefur átt. Brekkurnar í Stórurðinni, uppi á Seljalandsdal og svo í Noregi gáfu ótal möguleika til útivistar.
Slæmt þykir mér að árin fimm frá 2014-19 sem ég þjónaði sem prestur í Noregi vissi ég ekki að Gunnar var nágranni minn og ég kom stundum í bæinn þar sem hann og fjölskyldan búa og svo voru Steingerður og Jón Karl í Bærum fram til 2018.
Börnin rifja upp sjoppurekstur Jóns Karls og Steingerðar á Ísafirði, þar sem djúkboxið var með sínum fjörugu lögum og grænu frostpinnarnir seldust í bílförmum og svo var rekin bílaleiga og alls konar þjónusta.
Steingerður var listamaður í höndunum og hafði næmt auga fyrir hönnun fata og saumaði allt á börnin og úr höndum hennar spratt flottasti skíðafatnaður á börnin, jakkar og kápur og allt sem þarfir og tískan kröfðust. Hún hannaði upp úr blöðum og allt lék í höndum hennar. Á Noregsárunum iðkaði hún líka mikla handavinnu og stundaði útiveru og auðvitað gönguskíði á veturna. Í Noregi naut hún þess að fara í búðir og „sjoppa“, eins og það heitir þar.
Þau Jón Karl hugsuðu mikið um heilsuna, borðuðu hollan mat og héldu því sama að börnum sínum. Þau voru langt á undan sinni samtíð á mörgum sviðum í þeim efnum og voru farin að borða engifer, túrmerik og hvítlauk í miklu magni, löngu á undan flestum öðrum. Heilsan var ætíð í fyrirrúmi.
Í Noregi tók hún strætó í vinnuna en gekk til baka og þá upp „löngubrekku“ sem hún kallaði svo. Það gat reynt á því hún hafði brotnað illa á fæti á skíðum á sínum yngri árum, sem greri skakkt og var síðar brotið upp hér heima og reynt að laga.
Steingerður vann ætíð bæði heima og utan heimilis við hannyrðastörf á Ísafirði og um tíma var hún vefari hjá Margréti Bjarnadóttur, konu Guðmundar Bárðarsonar, en hún lést langt um aldur fram.
Handavinnan var henni í blóð borin því bæði Þórdís amma og Þorsteinn afi voru handverksfólk og ráku klæðskeraverkstæði, og Gunnar faðir hennar líka menntaður klæðskeri. Þordís prjónaði sjöl sem eru til á söfnum víða um land og Ríkharður Jónsson, listamaður, teiknaði eitt sinn mynd fyrir hana sem hún svo saumaði út.
Gunnar Bóa minnist þess að hann þræddi nálar fyrir Ella „litla“ sem vann á verkstæði Þorsteins klæðskera, en þá var sjón Ella farin að daprast. Hann þræddi um 15 nálar sem dugðu þar til Elli hafði bitið úr hverri og einni og fékk svo nýjar þræddar hjá stráksa. Sum ykkar munið e.t.v. tehetturnar hans Ella, sem urður með skærari og skærari litum eftir því sem sjón hans dapraðist.
Til er ljóð á ensku þar sem lífinu er líkt við myndvefnað. Í ljóðinu er það Guð sem vefur og stýrir vefstólnum en við, mannfólkið sjáum ekki myndina nema á röngunni, því við erum undir stólnum og horfum upp. Þar eru lausir endar, bæði dimmir og skærir litir, en myndin virkar óskýr og við skiljum ekki samhengið, en allt er samt í hendi Drottins. Ég fékk vin minn og kollega, sr. Jón Ragnarsson, til að snúa þessum enska sálmi yfir á íslensku af þessu tilefni hér. Textinn er góður til íhugunar og aukins innsæis, um örlög okkar, von og trú.
Af Guði er ævi mín ofin,
allt litrófið, mynstur, blær.
Hans iðja er aldrei rofin
og einn hann vefinn slær.
Ég sorgar og þrauta þræði
þykist oft dapur sjá,
en hann sér á borðin bæði,
ég bara neðanfrá.
Vefstóls mun dynur dvína
þá dúkur er fullofinn.
Hann breiða mun sundur sýna
mér sjálfur lífsrefil minn.
Andstæður margar mynda
mynstrin í ævinnar vef,
gullið í glitofnum linda
glóir við sortadökk stef.
Allt þekkir hann, elskar og annast,
ekkert fær þeli hans breytt.
Það farsælast finn ég og sannast,
á forsjón hans get ég mig reitt.
JR. 2023
Trúin boðar að lífið sé þegið úr hendi skapandi hugar sem allt elskar og allt verndar, þegar okkur á efsta degi birtist loks vefmyndin skír og tær. Þá munum við skilja mynd lífsins, bæði bjarta liti og skugga, og sjá hvernig allt hangir saman.
Þetta er í annað sinn á þessu ári sem við söfnumst saman til að kveðja í sömu fjölskyldu, fyrst Ragnhildi og svo móður hennar Steingerði.
Hann sem engum gleymir, hann sem man allt, er að baki öllu – og það sem skiptir mestu. Hugur hans gleymir engum og geymir allt – hugur elsku, fyrirgefningar, náðar og miskunnar – elsku sem á frummáli Nýja testamentisins heitir agape sem merkir skilyrðislaus elska, ást sem setur engin skilyrði, heldur er hún takmarkalaus og óheft. Við getum e.t.v. komist næst því hér í þessu jarðlífi að skilja dýpt agape-elskunnar út frá kærleika og fórnfýsi móður og föður.
Lengst náði þessi elska Guðs í dauða Jesú Krists á krossinum. Krossinn er dýpsta og merkilegasta tákn sem heimurinn á, mótsagnarkenndur og magnaður, því þar tókust á ljós og myrkur, ást og hatur, opinn faðmur og harðlæst afskiptaleysi, skilningur og skilningsleysi, umhyggja og tómlæti. Þar var dauðinn sjálfur lagður að velli.
Upprisutrúin hefur haft áhrif á þennan heim í tvöþúsund ár. Hún hefur lagt grunninn að velferð Vesturlanda og heimsins alls. Eingyðistrú gyðinga og kristinna manna er líklega magnaðasta hugmyndafræði og sú róttækasta, sem heimurinn hefur eignast, myndin af einum skapara himins og jarðar, sem starfar í kærleika og miskunn.
Þaðan höfum við öll okkar bestu gildi og viðmið. Þessum gildum er nú hætt við að verða uppblæstri að bráð, vegna andvaraleysis. Prófessor Jón Helgason, (1899-1986) þýðandi, ljóðskáld, fræðimaður og forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar orti:
Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja.
Þráðurinn er einn, hinn helgi, gullni þráður, allt frá krossinum á Golgata til okkar daga. Spinnum hann saman með skapara okkar og undirbúum þannig hin miklu skil sem bíða okkar allra.
Guð blessi minningu þeirra mæðgna, Steingerðar Gunnarsdóttur og Ranghildar Jónsdóttur og ástvinanna allra, sem forðum kvöddu – og góður Guð blessi þig – sem enn situr undir vefstóli lífsins.
Amen.
– – –
Formáli minningarorða sem birtur var í Morgunblaðinu, útfarardaginn. Þar eru nánari upplýsingar með ártölum og fleiru sem ekki komu fram í ræðunni.
Steingerður Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði 9. desember 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ 3. nóvember 2023.
Foreldrar hennar voru María Helgadóttir talsímavörður, fædd 25. september 1914, dáin 22. mars 2002 og Gunnar Þorsteinn Þorsteinsson klæðskeri, fæddur 11. september 1910, dáinn 4. júní 1953. Eldri systir Steingerðar var Helga Þórdís, fædd 1935, dáin 2022. Yngri systir hennar er Sigrún, fædd 1947.
Hinn 12. febrúar 1955 giftist Steingerður Jóni Karli Sigurðssyni f. 11. apríl 1932, d. 27. apríl 2019. Foreldrar hans voru Sigurður Bjarnason, f. 12. maí 1903, d. 2. júlí 1985, og Jóna Þorbergsdóttir, f. 12. júlí 1907, d. 4. mars 1984.
Börn Steingerðar og Jóns Karls eru: 1) Ragnhildur, f. 28. desember 1953, d. 26. apríl 2023, eiginmaður Ingvar Einarsson, f. 1948. Börn: a) Steingerður, f. 1974, eiginmaður Einar Sverrir Sigurðarson, f. 1973. Börn: Daníel Freyr, f. 1994, Elísabet Líf, f. 1999, Ingvar Sverrir, f. 2005, og Halldór Sverrir, f. 2013. b) Einar Bergur, f. 1983, eiginkona Kristrún Frostadóttir, f. 1988. Börn María Herdís, f. 2019, Ragnhildur Steinunn, f. 2023. c) Dóttir Ingvars Guðbjörg Kristín, f. 1969, móðir Ásgerður Halldórsdóttir. 2) Gunnar Þorsteinn, f. 31. mars 1955, eiginkona Helle Lund Jensen, f. 1966. Börn: a) Bragi, f. 1976, d. 1998. b) Kristín Bjargey Lund, f. 1992. 3) Sigurður Hjálmar, f. 27. mars 1959, d. 6. maí 1996, eiginkona Ólöf Davíðsdóttir, f. 1956. Barn Jón Karl, f. 1983, móðir hans er Unnur Óttarsdóttir, eiginkona Vala Pálmadóttir, f. 1982. Börn Pálmi Sigurður, f. 2018 og Unnur Lóa, f. 2019. 4) Þórdís, f. 8. júní 1966, eiginmaður Sindre Støer, f. 1962. Börn: a) Bergljót, f. 1990, eiginmaður Fredrik Rönnemo, f. 1988. Barn Sigve, f. 2023. b) Ragnhild, f. 1994. c) Vigdís, f. 1995.
Steingerður vann við ýmis verslunar- og hannyrðarstörf á sínum yngri árum. Auk þess rak hún verslun og bílaleigu á Ísafirði með manni sínum Jóni Karli. Hún fluttist til Noregs með Jóni Karli árið 1978 og starfaði hún þar við ýmis störf í verslun og banka. Þau hjónin bjuggu í Noregi til haustsins 2018 þegar þau fluttu heim til Íslands. Steingerður var alla tíð mjög listfeng og handverk lék í höndunum á henni. Hvort sem það voru föt sem hún saumaði á börnin sín eða peysur sem hún prjónaði á sjálfa sig, þá var iðulega eftir því tekið hve fallegar flíkurnar voru. Steingerður og Jón Karl bjuggu sér fallegt heimili í Osló með sérlega glæsilegum garði þar sem fjölskyldan og ekki síst barnabörnin nutu þess að dvelja bæði að sumri og vetri. Þau áttu einnig sitt annað heimili í Suður Þýskalandi þar sem þau dvöldu löngum stundum í samvistum við góða vini. Síðasta heimili Steingerðar var á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ þar sem hún naut einstakrar umönnunar.
Útför fer fram frá Neskirkju í dag 24. nóvember kl. 13.
You must be logged in to post a comment.