Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson
Unnt er að lesa ræðuna og hlusta á hljóðupptöku hér fyrir neðan. Kveðjur sem bárust eru neðst í textanum en voru ekki hluti ræðunnar.

leikkona, leiklistarkennari, leikstjóri,
markaðs-, skrifstofu- og framkvæmdastjóri
og fleira og fleira
Skógarseli 43, Reykjavík
Bálför frá Neskirkju
þriðjudaginn 7. nóvember 2023 kl. 15
Ritningarlestrar í athöfninni:
Matt 5.1-12 Sæluboðanirnar (sjá neðanmáls)
Jóh. 14.1-6 “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” (siá neðanmáls)


Hvernig er unnt að skilgreina þetta líf? Um aldir hefur það verið stundað að skilgreina lífið og þá duga líklega hugvísindin best, listin og skáldskapurinn. Bókin, sem í þessu húsi er í öndvegi, er heilt bókasafn, með fjöldann allan af myndasögum um lífið. Jesús kenndi í dæmisögum og Gamla testamentið geymir eina mikilvægustu túlkunarlykla mannkyns í smásögum, örsögum eins og t.d. sköpunarsögunni, sem er lofgjörð felld inn í 7 daga ramma, sem höfundurinn valdi sér sem sniðmát. Slíkar sögur detta ekki niður af himnum, en skáldin fá þaðan innblástur. Svo er önnur saga um Adam og Evu í Eden þar sem þau uppgötva nekt sína og varnarleysi gagnvart því sem skekur þessa veröld og einkum það sem kalla má breyskleika mannanna sjálfra, brotalömina í þeim, sem á máli Nýja testamentisins er hamartia, geigun. Umrædd saga er svo vel samin með orðum að hún verður að litlu málverki í huga okkar. Hún er táknsaga, skrifuð af skáldi, sem hafði líklega átt í stælum við kerlu sína, sinnt óþægum börnum og átt í erjum við systkin sín. Hvers vegna er lífið eins og það er? Og hann skrifar um það sögu, málar mynd með orðum.
Að segja sögur, það er mannanna skemmtan og leið til að skilja veruleikann. Það er lífsins leikhús.
Hefurðu hugleitt hve mikið undur stafrófið okkar er? Það telur 32 bókstafi, þar af eru 6 broddstafir. Með þessum táknum getum við sagt allt og hugsað allt með því að velja stafi eins og kubba úr Legó-setti og raða saman á óteljandi vegu. Og þessir 32 stafir fylla allar bækur okkar frá upphafi ritunarsögu Íslendinga og allt til þessa dags. Öll bókasöfnin, allar greinarnar á Netinu og færslurnar á samfélagsmiðlunum, eru ekkert annað en mismunandi gáfuleg röðun á þessum 32 táknum. Og þannig er þessum minningarorðum mínum raðað saman úr 32 táknum.
Svaný valdi leikhúsið sem vettvang enda frægt leiklistarfólk í ætt hennar. Hvað sagði frægasta leikskáld veraldar, Shakespeare, um lífið? Skakgeir eins og ég kalla hann á okkar ástkæra, lætur Jakob segja í verkinu – Sem yður þóknast – eftirfarandi:
Öll veröldin er leiksvið,
og aðeins leikarar hver karl og kona,
þau fara og koma á sínum setta tíma,
og sérhver breytir oft um gervi,
og leikur sjö þætti sinnar eigin ævi.
(Helgi Hálfdanarson, Leikrit I, II. þáttur, 7. svið, s. 230, Heimskringla, MCMLVI).
Þannig hljóðar túlkunin um lífið í þýðingu Helga Hálfdanarsonar og hefur bæst við í stafrófsmengið stóra í heiminum, sem túlkun á veruleikanum. Texti Skakgeirs frá Avon, gæti svo vel sómt sér í hvaða bók sem er. Hann er í það minnsta á pari við margar myndlíkingar Biblíunnar.
“Það er leikur að læra” er lítil myndlíking sem við sungum sem börn. Lífið er leikur og við erum öll á STÓRA sviðinu.
Svaný var leikari – og líka margt fleira – og hún lék á sviði leikhúsa sem teljast auðvitað öll til hinna litlu sviða í samanburði við hið eiginlega stóra svið, lífið sjálft. Og á hinu stóra sviði voru lögð hlutverk á herðar henni, sem hún hafði ekkert val um. Hún axlaði í tvígang óvænt hlutverk í harmleik, er hún missti móður sína 10 ára og föður sinn er hún var 17. Engin miskunn þar af lífsins hendi fremur en hjá Adam og Evu hverra augu opnuðust í smásögunni um Edensrann. Sorgin opnaði augun, kenndi henni margt um eigið sálarlíf og um það hvernig fólk aktar í þeim aðstæðum sem mótleikarar syrgjandans og bregðast við í miðjum harmleik.
En henni Svaný var ekki fisjað saman. Hún átti rætur í norðlensku dugnaðarfólki í báðar ættir.
Svanhildur fæddist í Reykjavík 8. mars 1950. Foreldrar hennar voru Jóhannes Halldórsson, skipstjóri, f. 1906 – d. 1967, rétt rúmlega sextugur, frá Sundi í Höfðahverfi og kona hans Margrét Pálsdóttir, húsfreyja, f. 1915, d. 1960, þá nýorðin 45 ára, dóttir Páls Bergssonar og Svanhildar Jörundsdóttur frá Syðstabæ í Hrísey. Langafi hennar var hinn víðfrægi Hákarla-Jörundur sem til eru margar sögur um. Eftir honum er haft: „Maður verður aldrei fátækur af því sem maður gefur.“ Hún hafði ætíð sterkar taugar til Hríseyjar og var ættrækin og stolt af uppruna sínum. Eitt sinn er Jakob, sonur hennar kom til Hríseyjar, hitti hann Árna Tryggvason, leikara, sem bauð hann velkominn sem „erfingjann af Hrísey“ Jakob ættaður þaðan í báðar ættir.
Ég kynntist Svaný í Verzlunarskólanum á árunum 1965-69. Þar lék hún ávallt á als oddi og lét engan bilbug á sér finna enda þótt hún hefði hafið nám móðurlaus og misst föður sinn um vorið er hún var í 2. bekk og hálfnuð með Verzló. Við skólasystkinin kunnum fæst að umgangast sorg og í kringum allt slíkt var bara látið sem ekkert hefði í skorist. Þannig er nú mannkynið oft að það stingur bara höfðinu í sandinn. En auðvitað sýndu vinkonur henni og nemendur sem stóðu henni næst, vinarhug og væntumþykju. Nítján ára, eignaðist hún svo sitt fyrsta barn, Ellý, á sjúkrahúsinu á Akureyri, sem hún vegna aðstæðna sinna, gaf til ættleiðingar til Húsavíkur.
Syrgjandinn varð að halda áfram og leysa úr lífinu, að mesu leyti uppá eigin spýtur og auðvitað með hjálp systkina og ættingja. Það sem hún lærði af sorginni og í Verzló gagnaðist henni alla tíð því hún varð að standa á eigin fótum, hún lærði á fjármál og bókhald og ég sá hana hressa á gömlu myndskeiði á Netinu nú í aðdraganda útfarar þar sem hún kynnti sig stolt sem fjármálastjóra í auglýsingu Gráa hersins sem minnir á visku hinna eldri. Já, það er nú eiginlega lítið að marka fólk fyrr en uppúr sextugu eins og dæmin sanna! Má maður ekki segja þetta á gamalsaldri?
Svaný bjó svo sannarlega yfir visku og lífsreynslu sem óx með hverju árinu og sumt í þeim banka var einungis unnt að afla á harmamiðum. Forfaðir hennar réri á hákarlamið en hún fékk það hlutverk að róa á harmamið en auðvitað líka hamingjumiðin þar sem allir vilja fiska!
Hún mætti örlögum sínum af æðruleysi, vissi að hverju stefndi og sagði við okkur Tryggva á Lansanum, þegar hann leiddi umræðuna varfærnislega að því, sem í vændum væri: Hvernig viltu hafa athöfnina? Hún horfði á okkur báða og sagði svo æðrulaus: “Viljið þið ekki bara ráða því?” Sex dögum síðar slokknaði öndin í brjósti hennar. Tryggvi hafði verið við hlið hennar daga og nætur og börnin, tengdabörn, barnabörn og vinir, vitjuðu hennar.
Hún andaðist, á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, sunnudaginn 29. október þar sem hún naut faglegrar hjúkrunar. Sá drottinsdagur var undurfagur. Það var logn og lágir geislar sólar vörpuðu sérstakri birtu á hauður og haf. Þannig var veðrið seinustu vikurnar sem hún lifði. Borgin böðuð í undurfagurri birtu og kyrrð yfir öllu. Gulir litir frá lágfleygri sól ríkjandi yfir fjallahringnum og húsunum í Borginni, litur skyldur þeim sem var ríkjandi í brúðarkjólnum hennar eins og sést á myndinni í sálmaskránni. Litur sólar!
Hún unni náttúrunni og lét sér annt landið. Tryggvi skrifaði mér og sagði:
“Við Svaný höfum alltaf haft mikið yndi af því að ferðast um landið og ekki síst um hálendið. Við höfum brölt um allar trissur, m.a. Arnarvatnsheiði, Fjallabaksleiðir og Gæsavatnaleið, oft í samfylgd góðra ferðafélaga. Því er ég að skrifa þetta að ég setti á fóninn geisladisk sem við spiluðum gjarnan þegar byggðum sleppti og víðáttur óbyggðanna blöstu við, þ.e. – Clapton Chronicles – þar sem m.a. er að finna lögin – Tears in Heaven – sem hann samdi í minningu kornungs sonar síns sem fórst af slysförum og lagið – Before You Accuse Me – og mörg fleiri frábær númer.”
Tónlist var þeim kær og Svaný hafði góða rödd til tals og söngs. Við sáum hana í sjónvarpi árlega á myndskeiði við Stjórnarráðshúsið á fyrsta Kvennafrídaginn 1975, þar sem hún söng baráttusöngva með stelpunum, með skuplu yfir höfði og ljósa hárið flæðandi um axlir sem rammaði vel inn fegurð hennar. Og söng af hjartans list og ákefð: „Já, ég þori, get og vil!“
Hún lagði sín lóð á vogarskálar þess að skólinn SÁL sem stendur fyrir – Samtök áhugafólks um leiklistarnám – var stofnaður, sem var mikilvægt framlag ungs fólks sem vildi bæta úr því ástandi að ekkert formlegt leiklistarnám var í boði. Samtökin létu til sína taka árið 1972 og allt til þess að Alþingi samþykkti lög um Leiklistarskóla Íslands í maí 1975 en þá lauk starfi SÁL eðli máls samkvæmt. Svaný átti stóran þátt í því að halda rekstri skólans gangandi.
Fyrst skólinn var ekki til þá tók hún málin í sínar hendur og stofnaði hann sjálf enda hjálpar Guð þeim sem hjálpa sér sjálfir.
Innskot. Söngur:
Að hjálpast að
(Lag / texti: Spilverk þjóðanna)
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.
Heilagt stendur skrifað á blað.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir,
ein lítil býfluga afsannar það.
Guð hjálpar þeim sem hjálpast að.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.
Heilagt stendur skrifað á blað.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir,
ein lítil býfluga afsannar það.
Guð hjálpar þeim sem hjálpast að.
[af plötunni Spilverk þjóðanna – Götuskór]
Nýlega sá ég á Netinu tilvísun í orð og visku mannfræðingsins, Margareth Mead (1901-1978). Kjarninn í þeirri færslu var að hún hafi sagt að upphaf siðmenningar væri ekki að fólk lærði að smíða sér verkfæri og vopn. Nei, hún vísaði til mjaðmarbeins sem fundist hafði, bein sem hafði brotnað og gróið. Hún sagði þetta bein vitna um upphaf siðmenningar, nefnilega það að sá eða sú sem brotnaði hlaut hjúkrun og umhyggju til að komast aftur á fætur. Þar með hófst siðmenningin! Með samhjálpinni sem sungið var um hér rétt í þessu.
Svanhildur var yngst þriggja systkina en þau eru Sigurlaug Jóhannesdóttir, f. 24. september 1945, gift Hrafni Hallgrímssyni, f. 13. september 1938 og Jóhannes Jóhannesson, f. 2. september 1947, d. 19. október 1997, kvæntur Ólafíu Björk Davíðsdóttur, f. 21. maí 1951.
Hún giftist 20. nóvember 1971 eftirlifandi eiginmanni sínum, Tryggva Jakobssyni, f. 19. apríl 1950. Foreldrar hans voru Jakob Tryggvason, organisti við Akureyrarkirkju, f. 31. janúar 1907, d. 13. mars 1999 og kona hans, Unnur Tryggvadóttir húsfreyja, f. 27. desember 1907, d. 24. maí 1987. Tryggi og Svaný kynntust á Akureyri er þau léku bæði í Lýsiströtu.
Þau fluttu suður 1971. Tryggvi fór í nám í HÍ og svo fluttu þau aftur norður 1978.
Svaný var ætið vel tekið af fjölskyldu Tryggva, og hún sagði um hana að ef hún hefði hætt með Tryggva hefði hún flutt heim til tengdó!
„Við vorum heppin að kynnast“ sagðir Tryggvi, „og að eiga saman 52 ár.“
Börn Svanhildar eru:
1) Elín Ólafsdóttir, f. 18. ágúst 1969 (kjörforeldrar Elínar voru Ólafur Erlendsson og Helen Hannesdóttir), maki Hjálmar Skarphéðinsson, f. 8. október 1969. Börn: Dagur, Eva og Orri.
2) Jakob Tryggvason, f. 20. júní 1972, maki Svanfríður Ingjaldsdóttir, f. 16. júní 1975. Börn: Tryggvi Páll og Sigrún Inga.
3) Jóhannes Tryggvason, f. 18. júní 1976, maki Ólöf Helga Jakobsdóttir, f. 20. apríl 1983. Börn: Svanhildur, Sölvi og Valgerður Jakobína.
Elín þekkti móður sína alla tíð og hafði samband við móðurfjölskyldu sína og segir að sér hafi ætíð verið tekið vel af öllum. Þegar Svaný tók þá ákvörðun að gefa hana frá sér, voru sterkustu rökin þessi: „Mitt barn á að eiga bæði mömmu og pabba.“ Og allt tólkst það vel.
Þau Tryggvi áttu saman góða daga og nutu lífsins saman með strákunum. Jósi rifjaði upp er hann var úti á landi með mömmu sem var að leikstýra í Borgarfirði og svo um hávetur í Bolungavík. Þegar að frumsýningu kom flaug Tryggi vestur á Ísafjörð á rellunni sinni. Úlfar var með í för og strákarnir í aftursætinu. Það þurfti nefnilega að koma nýjum leðurstígvélum til leikstjórans fyrir kvöldið. Svo var bara tekið strikið aftur suður.
Svaný var fjölhæf. Hún var listræn og hög, prjónaði, saumaði og málaði. Hún var orkumikil og vildi gjarnan brjótast út úr boxinu, eins og sagt er. Hún var baráttukona, dugnaðarforkur. Elín sagði þegar ég sat með fjölskyldunni við undirbúning athafnarinnar: „Það var svo gaman að eiga mömmu sem var hippi.“ Og þegar hún fór sjálf í Verzló eins og mamma, fékk hún lánaða muni, róstótt föt og Lennon-gleraugu, úr safni Svanýar. Þá var einnig á það minnst að þegar dóttir Jósa var skírð og hlaut nafnið Svanhildur Jóhannesdóttir, þá voru ekki leikin lög úr söngleiknum Tónafóð, heldur hófst „táraflóð“ hjá ömmunni.
Svanhildur kom víða við í störfum sínum á lífsleiðinni. Hlutverkin voru mörg á stóra sviðinu og á breiðu rófi lita og tilfinninga. Hún var ákaflega listræn, málaði myndir, samdi leikrit og sögur sem hún hafði þó alltaf fyrir sig. Umhverfis- og jafnréttismál voru henni hugleikin og fylgdist hún vel með því sem fram fór í þeim málaflokkum. Svo lögðu þau hjónin sitt af mörkum í náttúruvernd með störfum sínum sem landverðir í Herðubreiðarlindum, Öskju og í Skaftafellli í ein 6 sumur sem fjölskyldan á góðar minningar um. Strákarnir eiga sterkar minningar frá þessum árum.
Hún var bókmenntakona, las alla tíð mikið og fjölskyldan segir að hún hafi verið algjör „hámlesari“. Hún var hláturmild og skemmtileg og brann fyrir mörgum góðum málefnum og þar voru jafnréttismálin efst á baugi.
Daginn eftir að ég hitti Svaný á Landspítalanum, fylgdist hún með Kvennaverkfallinu 24. okt. sl. í fréttum, en hún hafði verið virk fyrir rúmri hálfri öld, þegar konur söfnuðust saman á Arnarhóli til hins sögulega fundar, til eigin eflingar og vitundarvakningar fyrir þjóðina um mikilvægi kvenna og þeirra störf, gáfur og hæfileika og framlag til menningar, lista og atvinnulífs.
Dagurinn í ár var einstakur. Yfir landinu ríkti fegurðin ein. Konurnar sýndu samstöðu og slógu öll fyrri met. Hlutverkin sem hún lék og starfaði í, höfðu borið árangur. Hún fékk að reyna að heilbrigðar hugsjónir, byggðar á réttlæti og sannleika, skapa nýja framtíð.
Sæl eru þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þau munu södd verða.
„Já, ég þori, get og vil!“
Að fá að sjá árangur erfiðis og baráttu sinnar veitir ómælda ánægju. Í Hebreabréfinu í NT er talað um fólk sem vonaði. Þar segir:
“Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.”
Já, við erum gestir hér í heimi og gistum öll á Hótel Jörð, meðan við leikum á stóra sviðinu. Hvernig gengur okkur á sviðinu? Erum við eitthvað í líkingu við það sem Skakgeir lét Makbeð segja:
„Sljór farandskuggi er lífið, leikari sem fremur kæki á fjölunum um stund og þagnar síðan: það er ævintýri þulið af bjána, fullt af mögli og muldri, og merkir ekkert.“
(Leikrit III, Helgi Hálfdanarson, Heimskringla, MCMLXIV, s.202).
Full dimm þykir mér nú þessi túlkun á lífinu sem okkur finnst mörgum svo skemmtilegt flesta daga, sé því lifað í trú og von á æðri gildi, von um að lífið geti skánað, að bardagarnir fyrir réttlæti og sannleika beri árangur og baslið líði undir lok. Viljum við!? Þorum við!?
Við erum gestir á þessari jörð og þurfum að gæta hennar meðan við njótum lífsins í gleði þess og sorgum. Og nú þegar við kveðjum Svanhildi er gott að minna sig á sæluboðið úr Fjallræðu Jesú:
Sæl eruð þið sem nú syrgið því að þið munuð hugguð verða.
Því hefur Kristur lofað.
Göngum áfram um stóra sviðið í þeirri trú og von – og þegar tjaldinu verður svipt frá á lokasýningu minni og þinni, þá munu þessi orð postulans rætast:
„Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.“
Viljum við!? Þorum við!?
Stóra sviðið bíður okkar. Þar falla sýningar aldrei niður og ætíð fullt hús.
Gangi okkur öllum vel á stóra sviðinu og mættum við öll vinna sigra – og að lokum – hinn eina sanna leiksigur lífsins, okkar Opus Finale, í verkinu, Upprisan!
Amen.
Elísabet Bjarklind skólasystir Svanhildar úr SÁL skólanum biður fyrir kveðjur sína, Helgu Hjörvar og Hildar Helgason, kennurum í skólanum. Einnig frá Sigurbirni Jónssyni, en þau hafa því miður ekki tök á því að vera viðstödd athöfnina.
– – –
Innilegar samúðarkveðjur voru fluttar frá fjarstöddum síðar í athöfninni:
Frá Helgu Hjörvar og Hilde Helgason, kennurum í SÁL-skólanum. einnig fra Sigurbirni Jónssyni, en þau höfðu ekki tök á að vera viðstödd athöfnina.
Frá Nönnu Ingibjörgu Jónsdóttur, sem glímir við veikindi og komst því ekki.
Frá Viðari Eggertssyni go Sveini Kjartanssyni, sem eru staddir í Singapúr.
Ritningarlestur:
Upphaf fjallræðunnar úr Matteusarguðspjalli 5. kafla
1 Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2 Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Guðspjallið Jóhannes 14.
Vegurinn, sannleikurinn, lífið
1 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.
You must be logged in to post a comment.