


Örn Báður Jónsson
Minningarorð
+Kristinn Pálsson
1935-2023
byggingarverkamaður
Sólheimum 23, Reykjavík
Útför frá Langholtskirkju
föstudaginn 27. október 2023 kl.13
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði
Smelltu á tengilinn og þá byrjar upptakan með ræðunni:
Hvernig getum við haft áhrif á lífið og gert það bærilegra og skemmtilegra? Það getum við með ýmsu móti og m.a. með því að gefa lífinu lit með góðri lund og greind, sem kann að setja merkimiða á atburði lífsins og það sem mætir okkur á lífsveginum, gefa hlutum og umhverfi nafn.
Adam, fyrsti maðurinn, gaf dýrum og öðrum fyrirbrigðum nafn á sínum tíma. Hann var þar með fyrsti vísindamaður sögunnar. Mikilvægt er að skilgreina lífið og það sem fyrir augu ber hverju sinni.
Ég er viss um, að fólkið, sem skapaði sum örnefnin vestur í Ísafjarðardjúpi, hafi einmitt búið yfir skáldagáfu og fegurðarskyni, sem kemur fram í bæjarnöfnum eins og t.d. þessum: Kaldalón, Skjaldfönn, Tyrðilmýri og Unaðsdalur, en einmitt í Unaðsdal, fæddist Kristinn 30. ágúst 1935, sonur Páls Borgarssonar, sem fæddur var í Tyrðilmýri og Sigrúnar Sigurðardóttur, sem ólst upp í Strandasýslu. Kristinn á þrjár systur; Guðnýju, Júlíönu og Sigurðu.
Unaðsdalur! Nafnið er af mörgum talið fegursta bæjarnafn á Íslandi. Hugsið ykkur þetta nafn í harðbýlli sveit. Í Unaðsdal er skafl í túni sem ekki hverfur nema í bestu sumrum. Skaflinn var metinn til fjár og þinglýstur sem eign og hann vökvaði nefnilega túnin þegar sólbráðin lét af honum drjúpa yfir sumartímann.
Líf fólks í þessu landi fyrr á öldum var ótrúlegt basl. Svo kom tæknin og fólk flutti á mölina, eins og það heitir, þar sem útgerðir voru öflugar og næga vinnu að fá.
Fjölskylda Kristins flutti í Bolungavík 1940, eina elstu verstöð Íslands. Þar var mikill uppgangur alla síðustu öld. Þá var hann fimm ára og bjó þar þangað til hann flutti suður 1965, þrítugur að aldri.
Sem barn og unglingur lærði hann að vinna ýmis störf. Hann átti hænsni og nokkrar kindur sem barn og annaðist dýrin með gleði. Eggin fóru til mömmu sem bakaði kynstrin öll af kökum handa svöngum munnum. Sem unglingur vann hann í byggingarvinnu og við beitingar og var flinkur að festa agn á öngla línunnar. Hann var alla tíð verklaginn og vinnusamur og eftirsóttur til vinnu, var vel látinn og ekki spillti létt lund og gamansemi sem ætíð fylgdi honum.
Þau kynntust á balli, Ólöf Sigurðardóttir og Kristinn. Hún fæddist í Norðfirði 1943 en flutti til Reykjavíkur á fyrsta ári og ólst þar upp. Hún á fjögur systkini.
Kristinn ók Ólöfu heim að húsdyrum eftir ball og spurði hvort hún vildi ekki koma í bíó í vikunni. Hann vann á þeim tíma við beitingar og kunni greinilega líka að beita fyrir fagra konu. Þau fóru í bíó og þar með var framtíðin ráðin.
Þau áttu þá bæði barn fyrir hjónaband. Dóttir Ólafar er
Aðalbjörg Sigríður Magnúsdóttir, f. 1962 og sonur Kristins er, Páll Jóhann f. 1965.
Saman eignuðust þau svo,
Þórhildi f. 1967,
Guðna f. 1969,
Jónínu f. 1970 og
Trausta f. 1973.
Börnin eru því sex og ættbogi þeirra og þar með barnabörn Kristins og Ólafar eru 15, samtals 21 afkomandi og geri aðrir betur!
Í samtali mínu við Ólöfu og Guðna kom það fram hve barngóður Kristinn var, góður afi sem börnin hændust að og hann gaf sér tíma til að spjalla við og gantast með.
Þau hjónin bjuggu um tíma í Breiðholtinu, þá á Langholtsvegi og Efstasundi, uns þau keyptu íbúð að Sólheimum 23.
Lífið var mikil vinna og þau bæði dugleg. Hún starfaði lengi við ræstingar og önnur störf og hann lengst af í byggingarvinnu, við smíðar og járnabindingar og var eftirsóttur sem slíkur og ekki spillti að hann var glaðsinna og hláturmildur í samskiptum sínum við fólk.
Þau Ólöf og Kristinn voru samrýmd og á tímabili áttu þau tjaldvagn sem þau nýttu sér á sumrin og slóu tjaldi sínu oftast upp á Laugarvatni og í för voru gjarnan börnin og svo barnabörnin.
Kristinn var vel á sig kominn og náði góðum aldri en fyrir þremur árum fékk hann blóðtappa í heila, sem olli honum málstoli að hluta. En líkaminn var hraustur og hann var léttur á fæti alla tíð þar til fyrir tveimur vikum eða svo að hann fékk Covid. Uppúr því fékk hann hjartaáfall og lést á Landspítalanum 21. október s.l., rúmlega 88 ára.
Hann var alla tíð bjartsýnn og jákvæður og hafði gaman af að fara út með Ólöfu. Þau fóru oft á ball í gamla daga og dönsuðu á Broadway og í Hollywood og víðar.
Eftir að hann fékk blóðtappann fóru þau daglega saman á kaffihús, allt þar til fyrir tveimur vikum.
Lífið er vegferð, ferðalag í gegnum tímann, þetta undarlega fyrirbrigði sem enginn skilur í raun. Við lifum ætíð í núinu sem er bara andrá, andartak. Hið liðna hverfur eins og á færibandi og framtíðin kemur líka á bandi og á milli hins liðna og hins sem kemur, erum við í andránni, sem er bara brot úr sekúndu og ráðum engu um strauminn í fljóti tímans.
Og lífið er í bland unaður og streð, við erum stundum í lífsins unaðsdal en einnig í hinum og þessum kaldalónum.
Í lífinu skiptast á skin og skúrir og svo er lífið svo ótrúlega stutt, einkum þegar horft er til baka á efri árum. Hvað verður svo um okkur?
Við kveðjum Kristin hér í Langholtskirkju. Kirkjan hefur um aldir, haldið utan um líf fólks, frá vöggu til grafar. Ég fékk að sjá skírnarvottorð Kristins, sem gefið var út og ritað fagurri rithönd séra Þorsteins Jóhannessonar í Vatnsfirði. Það er dagsett 16. maí 1949 og líklega gefið út til að staðfesta fyrir ferminguna, að hann hafi verið skírður sem barn. Hann fæddist að Árbakka í Unaðsdal 30. ágúst 1935 og var skírður 27. október sama ár.
Skírnin er vígsla til kristinnar trúar, með fyrirheit um eilíft líf í himni Guðs. Hún er sáttmáli milli Guðs og manns. Skírðir einstaklingar eru aðilar að sáttmála tveggja, Guðs og manns. En lífið er nú einusinni þannig hjá okkur mannfólkinu að við getum ekki haldið þennan sáttmála án hrösunar og frávika. Hins vegar stendur Guð ætíð við sinn hluta sáttmálans og bregst engum, því hann elskar öll börn þessa heims og þráir að eiga samfélag við þau á lífsveginum á grundvelli skilyrðislauss kærkeika, sem heitir agape á grísku, en það er frummál Nýja testamentisins.
Og er það ekki dásamlegt til þess að hugsa, að einmitt á þessum sama degi, þegar Kristinn er jarðsunginn í Langholtskirkju í Reykjavík, var hann borinn til skírnar af elskandi foreldrum og skírður vestur í Djúpi, líklega í Unaðsdalskirkju, þennan dag fyrir 88 árum, sem þá bar uppá sunnudag, dag Drottins, en sunnudagur er upprisudagur Jesú Krists, sem með henni opnaði okkur leið til himinsins heim.
Vonin um upprisu og eilíft líf hefur verið fólki aflgjafi í daglegu striti og mótlæti jarðlífsins um aldir. Aðeins á einum stað í allri Biblíunni, er trúin skilgreind og það með þessum orðum:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb. 11.1)
Himinninn, sem fólk trúir og vonar á, er í reynd hinn fullkomni Unaðsdalur alheimsins.
Skírnarafmæli er mikilvægt og t.d. í Póllandi sem er kaþólskt land, heldur a.m.k. sumt fólk meir uppá skírnarafmæli sitt en fæðingardaginn.
Við erum börn Guðs og börn eilífðarinnar og það var staðfest í heilagri skírn. Hún er vígsla til eilífs lífs.
Í því samhengi, lífs og dauða, skírnar og upprisu til eilífs lífs, kveðjum við Kristin Pálsson og þökkum fyrir líf hans og störf og allt hið góða sem í honum bjó. Útför er eðli samkvæmt sorgarathöfn, en hún er um leið þakkarhátíð, til heiðurs því lífi sem lifað var, af dugnaði og eljusemi.
Miskunn Guðs eigum við öll vísa og í henni fyrirgefur hann okkur öll mistök og vanrækslur. Þannig er agape-kærleikur, skilyrðislaus elska Guðs.
Gott er að lifa í þeirri trú og unaðslegt að fá að kveðja í þeirri sömu trú og anda.
Guð blessi minningu Kristins Pálssonar, sem nú er á leið inn í hinn eilífa Unaðsdal, og Guð blessi þig um ókomna daga, þig og ykkur öll, sem enn eruð á lífsveginum.
Amen.
– – –
Heimildir: samtal við Ólöfu og Guðna son hennar og Kristins þriðjudaginn 24. okt.
Og innblástur fékk ég m.a. úr þessari grein:
Rúnar Helgi Vignisson um Unaðsdal:
You must be logged in to post a comment.