Kistulagning og útför í kyrrþey frá Fossvogskapellu
mánudaginn 25. september 2023 kl. 10
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Hljóðupptaka af athöfnunum er neðar. Skoðaðu myndir og textann þar til komið er að skilum. Þar kveikir þú á upptökunni.


Andri Jón Heide, Þórey Ólafsdóttir, ásamt 2 af 3 börnum sínum, þeim Bjarka Steini og Hugrúnu Birnu.
Fjöslkyldan:
Andri Jón Heide
Þórey Ólafsdóttir
Bjarki Steinn Andrason 15 ára
Arnar Magnús Andrason 14 ára
Hugrun Birna Andradóttir 13 ára
Hundurinn Kofri
Prestur. Örn Bárður Jónsson
Organisti. Steingrímur Þórhallsson
Kistulagning með tónlist og lestri sálmsins Um dauðans óvissan tíma e. séra Hallgrím.
Útförin
Forspil
Bæn
Sálmur: Eigi stjörnum ofar
Ritning
Minning
Sálmur: Í bljúgri bæn
Bænir
Blessun
Rekum kastað í garði.
Upptakan er næst, hún tekur tæpar 30 mínútur. Athafnirar tvær, kistulagningin og útförin voru í einni samfellu og báða hér á upptökunni.
Hægt er að kveikja á henni fyrst og skruna svo niður á meðan hlustað er.
Inngangur . . .
Foreldrar Öldu voru Lárus Hall Alexandersson (1897-1995) og kona hans Borghildur Sigríður Guðjónsdóttir (1901-1995), bændur í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Lárus var ættaður frá Skarðsströnd á Vesturlandi en sveitin liggur á milli Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Borghildur var upprunnin á Vestfjörðum og fyrir tilviljun fann ég út að móðuramma mín og hún voru 5-menningar sem telst til skyldleika skv. gamalli hefð.
Alda naut ástríkis foreldra sinna en þau létust bæði öldruð sama árið 1995, hann fjórum dögum eftir 98 ára afmæli sitt, en hún 94a ára og fjórum og hálfum mánuði betur.
Alda fluttist ung til Reykjavíkur og vann ýmis störf sem verkakona, m.a. í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis eða KRON. Hún var matselja í Bólstaðarhlíð, en það orð var notað um konur, sem unnu við að elda mat. Þá vann hún um tíma á Grand Hotel og það var þar sem yfirkokkurinn fékk hana eitt sinn til að smakka á sósunni sinni. Hún gerði það og sagði að það vantaði uppá bragðið og sagði meistaranum hvað þyrfti að laga, sem hann gerði. Eftir það kom hún að matseldinni á hótelinu enda listakokkur sjálf. Hún hafði næmt auga fyrir hinu listræna í lífinu. Andri minnist þess þegar mamma fór með hann á listsýningar. Þau foru oft í Norræna húsið á laugardögum og fengu sér Drammenkökur og rækur með persillsaus.
Hún heimsótti listamenn og keypti verk eftir þá sem hún hengdi upp og seldi svo aftur ef svo bar undir og keypti ný.
Ég spurði Andra og Þóreyju um hennar karakter og þessi orð komu upp:
sjálfstæð,
þrjósk,
stöðug,
alltaf til staðar,
húmoristi,
athugul,
hún naut þess að vera til þjónustu,
ekki margra orða.
Síðasta lýsingin skýrir hvers vegna þessi athöfn er gerð í kyrrþey og án langrar ræðu um ævi hennar og störf. Fjölskyldan þekkir það allt mun betur en presturinn getur tjáð í stuttum minningarorðum.
Við erum hér til að kveðja og þakka fyrir líf sem lifað var af heilindum og í hógværð. Hún hefði ekki viljað láta berja í bumbur fyrir sjálfri sér og því er þessi athöfn einföld.
Faðir Andra Jóns var Paul Eberhard Heide, (1925-2003), úrsmiður og optiker fæddur í Þýskalandi 1925 en látinn í Reykjavík 2003. Blessuð sé minning hans.
(27. maí 1925 – 3. apríl 2003). Andri ólst alfarið upp hjá móður sinni.
Alda prjónaði kynstrin öll af ýmsum plöggum og handprjónaði peysur handa Andra. Hún sá líka um að klippa strák og kenndi honum að meta bókmenntir, listir og gæði. „Hún kenndi mér líka að trúa“, sagði Andri við mig.
Nú kveður einkasonur móður sína eftir langa sambúð og samvistir. Missir hans er mikill en lífið hér á jörð tekur enda, eins og allir vita. Í guðspjalli gærdagsins, sem var 16. sd. e. trinitatis eru þessi orð höfð eftir Jesú:
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“
Mamma kenndi mér að trúa, sagði Andri og það er líklega það besta sem móðir getur gefið barni sínu því trúin nær yfir hið stóra samhengi alls sem er. Hún brúar heima og geima, hérveru og handanveru, jörð og himinn, tíma og eilífð, jarðlíf og eilíft líf.
Dauðinn er óumflýjanlegur eins og við fengum að heyra í sálmi séra Hallgríms Péturssonar við kistulagninguna er ber yfirskriftina Um dauðans óvissan tíma. Flestir þekkja fyrsta versið, Allt eins og blómstrið eina. Stundum er sálmurinn kallaður Sálmurinn um blímið.
Dauðinn nær öllum í fylingu tímans en enginn veit nær hann kemur.
En það sem má lesa úr kennslu Jesú er að dauðinn er aðeins fótmál til annars lífs, hann er skil á milli heima. Við kveðjum í von um endurfundi í ríki Guðs sem hófst hjá okkur öllum í heilagri skírn og lýkur aldrei. Skírnin er sáttmáli Guðs og manns. Við skírum börn og þau eru þar með vígð eilífðinni með sáttmála á milli barns og almáttugs Guðs. Sáttmála ber að halda en svo er nú farið með okkur öll að við náum ekki að halda sáttmálann nema að hluta til. Hinn aðilinn, sjálfur skaparinn, bregst hins vegar aldrei. Það er fagnaðarerindi, gleðitíðindi. Guð gengur aldrei á bak orða sinna.
Gott er að þenkja þar um á þessari stund og styrkja samband sitt við Guð með því að lúta höfði og biðja til hans, fela okkur sjálf og allt sem okkar er í almáttugar hendur Guðs.
Líf fólks á Íslandi hefur ætíð verið hart. Séra Matthías Jochumsson reyndi margt á sinni löngu ævi, missti 2 fyrri konur sínar en sú 3ja lifði með honum fram á elliár. Hann upplifði m.a. hart hafísvor og nístandi kulda og orti þá mikinn og neikvæðan brag um lífið í landinu. Margt annað orti hann um trú og von og m.a. þennan nýárssálm:
1 Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
2 Sem Guðs son forðum gekk um kring
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.
3 Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.
4 Því hræðst þú ei þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.
5 Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.
6 Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.
7 Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf
þótt búum við hin ystu höf.
8 Vor sól og dagur, Herra hár,
sé heilög ásján þín í ár.
Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál,
í hendi þér er líf og sál.
T Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Christoph E.F. Weyse 1817 – Sb. 1871
Naar vi i største nød mon staae
Við kveðjum Öldu Lárusdóttur með virðingu og þökk. Hún hefur nú hlotið hvíld að loknu drjúgu og góðu dagsverki. Megi Guð blessa ykkur kæra fjölskylda,
Andri Jón, Þórey, Bjarki Steinn, Arnar Magnús og Hugrún Birna – og hundinn Kofra.
Blessuð sé minninng Öldu Lárusdóttur. Hún hvíli í friði og sem erfingi eilífs lífs í himni Guðs og eilífu ríki hans.
Í hendi Guðs er líf og sál.
Amen.
You must be logged in to post a comment.