Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Halldóra Pálsdóttir
1925-2023
húsmóðir, útlærð í hattasaumi/hönnun
og svæðanuddari
Útförin frá Fossvogskirkju
þriðjudaginn 12. september 2023 kl. 13:00

Hér fyrir neðan getur þú lesið minningarorðin og einnig hlustað á hljóðupptöku af ræðunni.


Hvað skilur fólk eftir sig þegar það deyr? Þeirri spurningu minni er jafnan svarað, í það minnsta að hluta til, þegar ég sest niður með ástvinum til að undirbúa útför. Slík stund er ætíð merkileg upplifun. Minningarnar streyma fram. Fólk brosir og viknar við, þegar best lætur, rifjar upp það sem efst er í huga. Slík stund með ástvinum er tími uppskeru þar sem í ljós kemur hvað látin manneskja skilur efir sig af góðum minningum og verkum.
Í Davíðssálmum er vísað til akuryrkju þar sem fólk sáir í von um uppskeru:
“Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.”
(Sálmarnir 137.6)
Nú horfið þið yfir uppskeruna af lífi Halldóru, eiginkonu, móður, tengdamóður, ömmu og langmömmu – frænku og vinkonu!
Óvænt hafði Halldóra kvatt þetta líf þegar fjölskyldan bjóst til þess að gleðjast af góðu tilefni, níræðisafmæli eiginmannsins og nýlegu brúðkaupi sonar síns, en þá veiktust þau bæði, Hörður og hún, og lögðust inn á sjúkrahús og þaðan átti Halldóra ekki afturkvæmt.
Halldóra fæddist á Hvanneyri í Borgarfirði 16. nóvember 1935 og lést 2. september s.l.
Foreldrar hennar voru Sigríður Halldórsdóttir (1914-1956) og Páll S. Þorkelsson (1906-1987).
Í minningagrein Gunnars Bjarnasonar, vinar Páls, segir m.a.:
“Páll var Vestfirðingur, fæddur á Þúfum í Vatnsfirði, sonur hjónanna Petrínu Bjarnadóttur og Þorkels Guðmundssonar. Systkinin frá Þúfum voru ellefu fædd, þrjú dóu í bernsku, eftirlifandi nú eru Arndís, Halldóra, Ingunn og Gunnar. Öll voru þau atgervisfólk, farsæl og vel látin, samfundaglöð og söngvin, sérstaklega minnist ég þegar þeir bræður, Páll og Guðmundur, köfuðu djúpt í bassanum.
Páll stundaði nám á Hvanneyri árin 1927 til 1929. Halldór skólastjóri vandaði val starfsfólks síns og byggðist hans búskaparfarsæld ekki minnst á mannþekkingarhæfi leika hans. Páll var ráðinn ársmaður á Hvanneyri strax að námi loknu og var þar til dauðadags Halldórs 1936. Hann var bílstjóri staðarins, enda þarfnaðist bú og skóli mikilla flutninga á aðföngum og afurðum, en Halldór seldi vikulega til Reykjavíkur margskonar matvæli. Þegar til Reykjavikur kom réðist Páll starfsmaður hjá Dósaverksmiðjunni við Rauðará, en árið 1944 hóf hann störf hjá bifreiðaverkstæði Ræsis og vann lengi við bílasprautun, sem var eitt vandasamasta verk, sem á slíkum stað var unnið á þeim tíma. Hann skipti ekki oftar um vinnustað.
Árið 1937 kvæntist hann Sigríði, dóttur Halldórs skólastjóra, hinni ágætustu konu. Hún lést 2. nóv. 1956. Þau eignuðust 2 börn, Tryggva, sem dó á bezta aldri, og Halldóru . . . “
Gaman er að fá að lesa þessi fallegu orð Gunnars Bjarnasonar, um foreldra Halldóru, en Svava Halldórsdóttir, kona Gunnars, var móðursystir hennar og reyndist bæði Halldóru og börnum hennar afar vel þegar Halldóra missti móður sína á besta aldri.
Sonur Svövu og Gunnars, séra Halldór fv. sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum, kistulagði frænku sína og nöfnu í gær og átti einstaka stund með fjölskyldunni, sem hún þakkar af heilum hug, en hann og Halldóra voru alla tíð mjög náin.
Eftirlifandi eiginmaður Halldóru er Hörður Adolphsson (1933), húsasmíðameistari, sem byggt hefur fjölda húsa í áranna rás. Hann byggði húsið frá grunni þar sem þau hjónin bjuggu sér fagurt heimili að Eikjuvogi 15 í Reykjavík þar sem þau hafa búið árum saman og allt til þessa dags. Þau voru glæsileg hjón og áttu barnaláni að fagna.
Börn þeirra eru:
Sigríður Þórhalla Harðardóttir (1956), maki Stefán Örn Ingvarsson,
Erna Harðardóttir (1959), maki Jón Magnús Sigurðsson,
Ívar Harðarson (1962), maki Valgerður Jónsdóttir,
Einar Páll Harðarson (1963), maki Gyða Steinsdóttir,
Hörður Harðarson (1969), maki Vaka Þórisdóttir
og
Svava Björg Harðardóttir (1972), maki Skarphéðinn Eiríksson.
Barnabörnin eru 19 og langömmubörnin 14.
Halldóra var glæsileg kona með sterka útgeislun. Hún var “best í heimi” segja börnin. Hún hafði yndi af að vera vel klædd og til höfð og fór í hárgreiðslu til Svövu vikulega.
Hún lagði allt í hjónabandið, heimilið og börnin, hjálpaði þeim við lærdóminn, uppörvaði þau og hvatti og lagði þar með góðan grunn að lífi þeirra. Hún var gamansöm og glettin og lék sér að því að setja saman vísur af öllum hugsanlegum tilefnum eins og t.d. þessa í minningu föður síns:
Heiðarleiki var hans háttur
háan aldur bar hann vel
Heiminn kvaddi í skyndi sáttur
sæll til náðar Guðs hann fer.
Og um tengdamóður sína:
Guð þig geymi, sælt þig dreymi
englar vaki við þér taki
Til þín streymi í kærleiksheimi
kraftur ljóssins þér yfir sveimi
Kæra Guðrún við kveðjum hljóðir
hvíl í friði kærleiksmóðir.
Börnin rifjuðu upp lífsbaráttuna sem var hörð á köflum. Kynslóð foreldra þeirra þurfti að hafa mikið fyrir lífinu, byrja að búa þröngt, leigja, kaupa og kaupa aftur og síðan að byggja. Þegar Halldóra átti von á syninum Herði, bjuggu þau í húsi nokkru í borginni. Hörður ók leigubíl um kvöld og helgar til að drýgja tekjurnar. Þá voru engir farsímar en þau komu sér saman um að hún mundi draga rúllugardínuna niður þegar hann ætti að koma til að keyra hana á fæðingardeildina. Og viti menn! Eftir nokkra öryggisrúnta um hverfið, á milli túra með kúnna, var gardínan á umsömdum stað og þá þurfti Hörður að haska sér og tryggja öryggi eiginkonu og barns í móðurkviði. Skemmtileg saga um lífið og það hvernig fólk bjargaði sér forðum.
Halldóra var hattakona með stæl og hún sneið efni og saumaði á börnin. Brúðarkjólar dætrana urðu til í listrænum höndum hennar og ennfremur skírnarkjóll fjölskyldunnar. Hún saumaði kápur á stelpurnar og föt á dúkkurnar þegar þær voru litlar og handa barnabörnunum líka. Hún saumaði líka jakkaföt á strákana.
Hún gekki í allt. Þau muna þegar hún veggfóðraði herbergin þeirra þegar tími var kominn á nýtt munstur og liti. Heimilið var eins og 5 stjörnu hótel, allar máltíðir heimagerðar, hver einasti réttur, kökur og sætabrauð. Bananakakan var svo vinsæl að vinkonur stelpnanna spurðu hvort hún yrði ekki örugglega á borðum er þær komu í heimsókn. Lambalærið var vinsælast á sunnudögum og ætíð spurði hún sig hvort ekki væri örugglega nóg handa öllum. Á jólum var það Ananasfrómas sem setti punktinn yfir i-ið.
Hún hændi að sér börn og var dýrkuð og dáð af sínum eigin. Hún var alltaf til staðar fyrir þau. Hún hafði næmt auga fyrir fegurð sem hún sá í smáum hlutum, t.d. steinum og svo var hún mikið fyrir blóm. Garðurinn var til fyrirmyndar og þar naut hún lífsins í sól og sumri.
Hún hafði sterka réttlætiskennd, var trúuð og kærleiksrík, fann til fegurðar lífsins og hugsað ætíð um hag annarra.
Hún átti yndislegar vinkonur, sem sumar eru fallnar frá, og hélt sú vinátta til hinstu stundar. Hún var ætíð mikill vinur vina sinna.
Börninn segja að foreldrar þeirra hafi haldið því að þeim að vera sjálfstæð, standa á eigin fótum, og ver góðar manneskjur. Það er gott og hollt veganesti fyrir lífið. Hún gerði ekki mikið úr því sem miður fór eins og t.d. þegar Ívar ók í gegnum bílskúrshurðina heima og sagði: Ég hef nú bara séð svona atriði í Fred Flintstone myndum!
Yngsta barnið, prinsessan Svava, sá að mestu um snyrtivörur mömmu. Hún keypti sama varalitinn handa henni í 30 ár: Vegas Volt – og sá um að greiða henni vikulega.
Halldóra hafði ótrúlega gott minni og hringdi ætíð í alla á afmælum, í börnin sín, tengdabörn og barnabörn, heillaóskakort voru alltaf komnir í póstkassa viðkomandi á réttum tíma.
Hún notaði ekki farsíma og þess vegna urðu dæturnar allar að hafa heimasíma uppá gamla móðinn. Segir það mikið um samband þeirra mæðgna sem var sko alls ekki þráðlaust heldur tengt með línu og bundið fast!
Samband systranna var og er gott og þegar þær tóku til hendinn á æskuheimilinu skiptu þær með sér verkum, ein sópaði, önnur vaskaði upp og sú þriðja þerraði. Strákarnir sáu um að helluleggja og hirða garðinn.
Makar barnanna voru í hávegum hafðir hjá Halldóru.
Þau hjónin Hörður og Dóra voru alla tíð rómantísk og oft kom hann við í Brauðbæ og kíkti oft óvænt heim í pásu frá leigubílaakstrinum að kvöldi eða næturlagi og kom með smörrebröd og trakteraði eiginkonuna. Ástin blómstraði!
Hún gaf Herði oft góð ráð eins og í þessari vísu sem endar með kvenlegri beiðni:
Með aldrinum kemur viskudómur
sem þú verður að læra og heyra
Fallegri orð og betri rómur
rómantík ást og fleira.
Og svo kom einnig þessi góða ósk til hans:
Leiki við þig blíður blær
og bjarta framtíð þína
Sá er Guði gengur nær
nærir sál og visku sína.
Hún hafði næmt eyra og sagði oft við börnin í gamansömum tóni: “Ég heyri ef þið reynið að læðast í kökuboxið.”
Og í tengslum við góðar smákökur þá koma mér í hug hin fleygu orð úr kvikmyndinni einstöku um Forest Gump þar sem hann setur fram sína lífsspeki: “Lífið er eins og konfektkassi. Þú veist aldrei hvað þú munt fá!”
Í ykkar tilfelli hafið þið öll verið heppin. Þið hafið eignast góða forldra, þið tilheyrið góðum systkinahópi, hafið eignast góða maka og börn og lífið hefur fært ykkur gleði. En auðvitað er lífið ekki bara dans á róðum. Það vissi Halldóra og þess gegna trúði hún á andlega hjálp og heitar hendur sem hún beitti öðrum til blessunar og góðs. Hún var trúuð og minnti börnin á mikilvægi trúar eins og td. þessum vísum til barna sinna:
Blessun Guðs þér fylgi nú
gæfa, gleði og gengi
Í dag þú játaðir kristna trú
megir þú lifa lengi.
Haltu fast um sannleikann
haltu fast um kærleikann
Haltu fast um lífsblóm þitt
þá verndar Guð þig barnið mitt.
Þetta eru aðeins dæmi um þá miklu elsku sem hún bar til allra sinna barna.
Nú er hún horfin frá okkur með gleði sína og glæsileika, bros og hlýju. Hún skilur eftir sig góðar minningar og hlýjar, sem munu verma ykkur öllum um ókomna tíð.
Við biðjum Herði blessunar og góðra dag.
Dóttir hennar setti saman texta um mömmu sem ég flyt hér að lokum.
Himnarnir opnast, inn stígur þú
Með ljósið þitt blíða og kærleikstrú
Verndi þig englar himninum á
því þú ert það besta,
sem nokkur mun fá
Bestu mömmu ég valdi mér
far þú í friði, ég mun fylgja þér
Bros þitt og hlýja ylja mér
Hvert sem ég kem, hef ég þig með
Ég kveð þig besta Mamma
og þína fallegu trú
sem lifir í hjarta mínu, framvegis nú
Englarnir brosa og taka við þér
Sárt er að sakna þess sem horfið er
Takk fyrir allt, ég geymi með mér
Minningar sem lifa,
eitthvað sem aldrei fer.
Þín Elskandi dóttir, Svava Björg.
Ég flyt ykkur samúðarkveðju Adolphs Guðmundssonar, systursonar Harðar og Theodóru Ólafsdóttur, konu hans, á Seyðisfirði, sem ekki áttu heimangengt, en þar var snjór niður í miðjar hlíðar í gær, sem hefur þó hopað um stund.
Þá flyt ég hér kæra kveðju frá Svölu Björk Arnardóttur, sem býr í Lúxemborg – vinkonu Svövu Bjargar – sem biður fyrir innilegar samúðarkveðjur til hennar og ástvina allra.
Við kveðjum Halldóru á björtum og fögrum haustdegi, höldum þessa útför saman sem um leið er þakkarhátíð fyrir það líf sem við kveðjum og söknum.
Í upphafi ræðunnar vitnaði ég í haustuppskeru og fögnuð. Við skulum heyra orðin úr Davíðssálmum aftur:
“Grátandi fara menn
g bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.”
(Sálmarnir 137.6)
Lífið er dásamlegt í öllum sínum fjölbreytileika, með tárum og sorg, erfiði og hvíld. Lífið er verkefni og með okkur í lífsbaráttunni er elskandi hugur Guðs sem allt hefur skapað og allt elskar.
Gott er að mega trúa því að við séum í almáttugri hendi Drottins, alla daga, allt til enda – og reyndar lengur – um eilífð alla!
Við þökkum fyrir líf Halldóru Pálsdóttur og biðjum algóðan Guð að blessa hana og varðveita og megi hinn sami fylgja okkur öllum sem enn erum á lífsveginum.
Amen.
You must be logged in to post a comment.