


Unnt er að lesa og hlusta á ræðuna hér fyrir neðan:
og hér er ennfremur myndband frá athöfninni sem virkar í takmarkaðan tíma.
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Þröstur Marzellíusson
1937-2023
Útför frá Ísafjarðarkirkju
laugardaginn 12. ágúst 2023 kl. 14
Við kveðjum hér í dag Þröst Marzellíusson og þökkum fyrir líf hans og störf og það sem einkenndi persónu hans og verk á lífsveginum. Veðrið er eins og best verður á kosið, alvöru Ísafjarðarlogn og sólskin.
Þröstur var einkar laghentur maður, skapari af Guðs náð. Eftir hann liggur gott og fagurt handverk, ótal hlutir, sem margir voru á sinn hátt hrein listaverk. Hann gerði ríkar kröfur til sín og þeirra er hann leit til með í störfum sínum og kenndi og lagði metnað sinn í sérhvert verk og kenndi lærlingum sínum að gera hið sama.
Nú heyrast ekki lengur hamarshöggin sem bárust milli fjallanna forðum daga þegar hendur þeirra er unnu við skipasmíðar í Neðsta og í Torfnesi, mótuðu tré og málma í samhentu sköpunarstarfi sínu, er þeir byggðu báta og skip.
„Föðurland vort hálft er hafið“, segir í þekktum sjómannasálmi og til þess að yrkja hafið þurfti skip og hugrakka menn í áhafnir sem lögðu til krafta sína og gáfur til að færa björg í bú og auð til framkvæmda og framfara. Atvinnulífið hefur þróast og breyst og nýjar greinar haslað sér völl sem engan óraði fyrir, sé litið aftur í tímann. Nýlegt dæmi héðan frá Ísafirði, úr næsta nágrenni kirkjunnar, um mikinn árangur af vísinda- og tæknistarfi, ber vott um að þegar hugur og hönd vinna saman í skapandi ferli, þá gerast kraftaverk og undur. Við, mannfólkið, erum að skapa eitthvað alla daga.
Þröstur fæddist 16. september 1937. Hann lést á heimili sínu á Hlíf 27. júlí 2023.
Foreldrar hans voru Marzellíus Bernharðsson (1896-1977) og Alberta Albertsdóttir (1899-1987).
Systkini hans voru í aldursröð:
Jónína Jóhanna,
Stefanía Áslaug,
Kristján Sveinn, þessi þrjú voru hálfsystkini Þrastar, börn Albertu og Kristjáns Sveins, sem fórst með vélbátnum Rask 1924.
Alberta giftist síðan Marzellíusi sem gekk börnum hennar í föðurstað og þau eignuðust saman ellefu börn. Nöfn þeirra í aldursröð eru:
Guðmundur Jón Dan,
Kristín,
Sigríður Guðný, dó í æsku,
Helga Þuríður,
Kristinn, dó í æsku,
Högni,
Bettý,
Sigurður Magni og
Messíanna.
Nú lifir Högni einn af þessum stóra hópi.
Þröstur ólst að miklu leyti upp á Ingjaldssandi fram að skólaaldri og fermingu og naut dvalarinnar í sveitinni hjá Guðmundi föðurbróður sínum og fjölskyldu hans.
Þröstur lauk framhaldsskólanámi við Iðnskóla Ísafjarðar í járnsmíði og bætti við réttindanámi í stálskipasmíði 1967 í Ringkøbing í Danmörku.
Hann starfaði sem yfirverkstjóri skipasmíðastöðvar föður síns til 1977 þegar hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem sérhæfði sig í járnsmíði og vélaviðgerðum.
Þröstur giftist Þórunni Jónsdóttur árið 1960. Þau skildu árið 1968.
Börn þeirra eru:
Þórir sem lést 2015,
Sigríður og
Dagný.
Þröstur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Halldóru Magnúsdóttur 1971. Hann gekk Haraldi syni hennar í föðurstað.
Þröstur var Ísfirðingur í húð og hár og bjó öll sín fullorðinsár þar, reyndar með stuttum stoppum í Danmörku og Hafnarfirði. Hann starfaði ötullega með Oddfellowreglunni á Ísafirði og var vinmargur.
Hann naut þess alla tíð að handfjatla verkfæri sín, tæki og tól, sem hann notaði í sköpunarstarfi sínu.
Svo stundaði hann golf með traustum félögum í áraraðir. Fjölskyldan skipaði stóran sess hjá Þresti og hann fylgdist vel með fólkinu sínu og átti í góðu og reglulegu sambandi við þau.
Ég hef átt samtöl við börnin hans og nokkra Ísfirðinga sem þekktu hann og svo man ég hann sjálfur frá því ég ólst upp hér frá miðri öldinni sem leið og fram á 7. áratuginn.
Ég hitti Þröst hér á Ísafirði fyrir 2 árum. Hann gaf mér mynd sem ég lét fylgja handkerru úr verslun föður míns er ég afhenti Byggðasafninu. Svo hringdi hann í mig í fyrra og leitaði ráða með gamla golfkerru. Hann hafði mjög gaman af að leika golf og ég sagði krökkunum hans að það væri ekkert skrítið því golf væri kristilegasta íþrótt sem til væri og að það lægi í því að golfið hefur sérstakar reglur sem þeir kylfingar kalla forgjöf, sem er auðvitað algjört rangnefni. Nafnið forgjöf nær ekki því sem í raun gerist í golfi. Forgjöfin er ekkert annað en fyrirgefning á klaufaskap.
Þröstur var glaðsinna maður. Stutt var ætíð í bros og glens eins og sjá má á myndunum í sálmaskránni. Hann var vænn maður með mjúkt hjarta. Þið þekktuð hann öll og munið hans ljúfu persónu.
Hann hafði brennandi áhuga á allri tækni og var mikið fyrir tæki og tól. Hann fylgdist vel með í tækninni, lærði á nýja síma og önnur tól, fékk aðstoð við að koma greiðslukortum í símann og ökuskírteininu líka og svo fannst honum skondið þegar nýji bíllinn minnti hann á, í langkeyrslu um Djúpið, að nú væri kominn tími til að fá sér kaffi! Já, tæknin vakir yfir okkur og sumum finnst nú stundum nóg um. Græjur og grúsk voru hans yndi. Hann vildi læra allt strax og helst vera búinn að því í gær.
Hann átti mörg áhugamál, tók urmul af myndum um ævina, lærði á photoshop-forritið og færði m.a. videómyndir inn á geisladiska. Mikilvægt er að fólk tapi aldrei forvitni bernskunnar og lönguninni til að læra eitthvað nýtt. Virkni á efri árum bætir lífið og lengir.
Hann hafði átt stóran þátt í að breyta skipasmíðunum hér í bæ úr tré í stál og hafði sótt sér viðbótarmenntun til Danmerkur í því sambandi. Hann var snillingur í rafsuðu og meðferð málma en færði sig yfir í tré í tómstundum sínum á efri árum og skapaði margt fallegt í rennibekknum. Er það ekki ögn skondið að hann hafi farið úr stáli í tré í skipasmíðum og svo til baka í tréð í tómstundum sínum á efri árum? Lífinu er stundum líkt við hringferli eins og t.d. í máltækinu „tvisvar verður gamall maður barn.“
Hann kunni á eldinn og hvernig hann gat mýkt málma og opnað nýjar víddir í sköpunarstarfinu. Þið sjáið þetta á einni af myndum í sálmaskránni. Fyrir árþúsundum lærði maðurinn að beisla eldinn og enn erum við að, því það er eldurinn sem knýr skip og flugvélar og allar hitaveitur landsins ef dýpst er skyggnst.
Svo notaði hann sýrur eins og þeim er tamt sem vinna með málma. Hann nýtti sýru til að æta málma og gerði það af listfengi. Hann smíðaði margskonar hluti og í sumum tilfellum minnismerki. Börnin nefndu verk sem hann smíðaði og er á Þingeyrarflugvelli. Og verkin voru mörg um ævina, sem hann vann eftir pöntun eða skapði úr eigin hugarheimi. Hann gerði marga krossa á leiði og sjást þeir nú víða um land því aðrir hagleiksmenn hafa kunnað að meta hönnun Þrastar og handverk en án þess þó að Þröstur kærði hugverkastuld!
Giftingarhringana hans og Halldóru hannaði Þröstur og svo fóru samskonar hringar að sjást á allt öðrum fingrum í tímans rás.
Hann hannaði einnig stærri verk eins og t.d. skæralyftuna sem hann smíðaði og notaði er hann reisti húsið og hélt við, sem hann byggði í Sundstræti 32.
Eitt sinn renndi hann þrjár kúlur fyrir Nonna Bjarna, æskuvin sinn, sem áttu að vera eftir nákvæmu máli og ítarlegum fyrirmælum. Þröstur spurði hvort hann ætlaði að hengja þær neðan í gardínur. Nei, svo var ekki því Nonni ætlað kúlurnar í eitt af sínum bestu töfrabrögðum. Þeir hlógu mikið þegar Nonni sýndi æskuvini sínum töfrana.
Þegar breytingar urðu í skipasmíðastöðinni og leiðir skyldu með honum og öðrum ættingjum, stofnaði hann fyrirtækið Þröstur Marzellíusson ehf. Þau skil sátu lengi í honum og honum sárnaði viðskilnaðurinn. Glæstu tímabili í skipasmíðum á Ísafirði var þar með lokið.
Sjaldan féll honum verk úr hendi og lék á als oddi í hvert sinn sem hann kom í smiðjuna og hafði tólin og tækin við hendina. Halli minnist þess er hann hellti eitt sinn mikilli amoníaksýru á gólfið í smiðjunni þar sem hann var að æta málm. Af því gat skapast hætta og því varaði hann strákana við og sagði eitthvað á þessa leið, í ritskoðun prestsins: „Ef ykkur fer að svíða milli fóta þá skuluð þið bara hlaupa út, en ef þið pissið á ykkur þá er það orðið of seint!“
Halldóra og Þröstur áttu góða sambúð. Hún hafði starfað sem kennari um árabil og kenndi m.a. íslensku áður en hún gegndi störfum á Fræðsluskrifstofu Vestfjarða. Með vinnu sinni sá hún svo um bókhaldið í fyrirtækinu þeirra, þar til Haraldur tók við smiðjunni í Ásgarði sem er í húsinu sem áður nefndist Pétursborg. Fyrir ofan húsið þar plantaði hann fjölda trjáa til að binda jarðveginn og draga úr vatnsaga úr hlíðinni og tókst vel til. Þar er nú þéttur skógur.
Samband Þrastar og Halldóru var afar gott. Þröstur hefur hugsað vel um hana hin síðari misserin í veikindum hennar. Hann hefur einnig sýnt öðrum íbúum á Hlíf mikla elskusemi. Eftir að hann komst að því að hóstamixtúara sem hann hafði keypt svínvirkaði, prófaði hann hana á konu nokkurri á Hlíf og sami árangur kom í ljós og svo fór að hann keypti mixtúru handa flestum ef ekki öllum konunum á Hlíf. Svona var Þröstur, hjálpandi fólki með bros á vör. Fólkið á Hlíf og víðar í bænum saknar Þrastar sem var alltaf að gera einhver góðverk.
Hlíf er fagurt nafn og þar sameinuðust þeir bræðurnir á ný eftir langt samstarf á sínum tíma hjá föður þeirra.
Hér kveður hann fjöldi manns og einnig flyt ég ykkur kveðjur nokkurra fjarstaddra:
– Ragnheiður Hulda Davíðson ekkja Þóris sendir kveðju sína og dóttur þeirra, Huldu.
– Ólöf Erna sendir kveðjur og innilegar samúðarkveðjur sínar og afastrákanna, Emils Arnar og Viktors Helga, sem hún segir að muni alltaf geyma minningu afa Þrastar í hjartanu.
– Kveðja hefur borist til ástvina Þrastar, frá Hofsós-ingunum hennar Bettýar.
– Bára mágkona Þrastar sendir sínar samúðarkveðjur og þakkir fyrir allt gott.
– Kveðja frá Nonna Bjarna, Jóni Aðalbirni Bjarnasyni og konu hans Lilju og einnig frá systur Jóns, Guðrúnu eða Dúdú, sem býr í Bandaríkjunum. Þau þakka af öllu hjarta sambúðina á Horninu forðum daga, sem aldrei bar skugga á og minningarnar góðu sem yljað hafa þeim allt lífið. Þau tvö og Högni bróðir Þrastar eru þau einu af svonefndum Hornapúkum sem eftir lifa af 24 börnum fjölskyldnanna tveggja.
– Kveðja alla leið frá Tælandi frá Kristjáni Sveinbjörnssyni, frænda Þrastar, sem þar býr.
Bátar og bryggjur, skekktur og skip, tryllur og togarar, íshús og rækjuverksmiðjur, smiðjur af ýmstu tagi og tvær skipasmíðastöðvar.
Ísafjörður geymir merka atvinnu- og menningarsögu. Bernskuminningar okkar, sem hér höfum alist upp og slitið barnsskónum, eru margar.
Við erum stödd í Ísafjarðarkirkju. Hönnun hennar skírskotar m.a. til bylgjuhreyfinga hafsins sem þökin túlka. Öldurnar vísa til þess að Kristur kallaði lærisveina sína að hluta til úr hópi fiskimanna og svo kyrrði hann vind og sjó sem þekkt er um allan heim. Öll bestu lönd veraldar, löndin sem flóttamenn sækjast eftir að komast til, eru öll mótuð af kristinni trú og gildum. Öll! Það segir okkur, sem nú lifum, hve mikilvægur arfurinn er sem við eigum að ávaxta og skila til komandi kynslóða. Mér er ekki örgrannt um að við höfum slakað helst til mikið á í þeim efnum á nýrri öld.
Þess ber að geta að Þröstur var fenginn til þess að smíða handriðin í þessu fagra húsi og allt er sneri að hans iðn.
Ég kom að Galíleuvatninu (einnig kallað Geneseretvatn) í Ísrael í fyrsta sinn í maí s.l. og messaði á bökkum vatnsins í nágrenni við vörina þar sem Pétur ýtti sínu fleyi á flot. Þeir voru fleiri, sjómennirnir, sem yfirgáfu bátana og slóust í för með Frelsaranum sem þeir höfðu áður séð kenna á og við ströndinni og stundum úr bátum þeirra.
Kirkjum er gjarnan líkt við skip. Fyrir því er gömul hefð að kalla meginhluta hverrar kirkju, kirkjuskip. Á ensku heitir það “nave” og af því kemur orði “navy” sem merkir sjóher. Á norsku er til orðið “kirkeskip” og á þýsku “Kirchenschiff”. Ég þjónaði sem prestur í Noregi í 5 ár, langt inni í landi. Í sumum sveitakirkjum var hangandi líkan af báti eða skútu, þótt engir sjómenn byggju á svæðinu. Sami siður er við lýði í mörgum löndum, að hafa líkan af báti eða skipi yfir miðgangi kirkju. Og hvers vegna skyldi það nú vera?
Jú, kirkjunni er líkt við örkina hans Nóa, sem bjargaði mönnum og dýrum og sagt er frá í Gamla testamentinu. Flóð- og hamfarasögur hafa fundist í fornum textum fleiri þjóða en Gyðinga og því má telja víst að heimsbyggðin hafi upplifað mikið flóð einhvern tímann í fyrndinni. En samlíkingin við örkina nær lengra því kirkjan er skipið sem stefnir til himinsins og ber okkur með sér.
Við vorum munstruð á þetta skip í heilagri skírn. Ég man það þegar ég var ungur og vann við endurskoðun og gerði upp bókhald og þurfti stundum að skipta afla úr róðrum skipa og þurfti þá að fara í skrár hjá sýslumanni til að fá staðfest hverjir hefðu verið munstraðir um boð í þessum eða hinum róðrinum. Þeir einir sem höfðu sannanlega verið um borð fengu sinn hlut, sín laun. Við erum munstruð á þetta skip eilífðarinnar, kirkjuna, en ekki á einhvern dárafleka, sem velkist um í ölduróti og hafvillum um alla eilífð og nær aldrei landi. Nei, við erum um borð í skipinu með honum sem kyrrði bæði vind og sjó og gerði fátæka sjómenn og verkamenn að frægustu persónum veraldarsögunnar.
Við, börnin á Ísafirði, af minni kynslóð, drukkum í okkur hinn kristna arf í barnaguðsþjónustum hjá séra Sigurði í gömlu kirkjunni á þessum helga stað, í barnastarfi í Salem, í skólum bæjarins, hjá skátunum, í stúkustarfi og á Hernum þar sem við sungum:
Mitt fley er svo lítið en lögur svo stór,
mitt líf er í Frelsarans hönd.
En Hann stýrir bátnum, þótt bylgjan sé há,
beint upp að himinsins strönd.
En Hann stýrir bátnum, þótt bylgjan sé há,
beint upp að himinsins strönd.
Trúin og vonin beina huga okkar að hinu stærra samhengi og þessi litli barnasöngur minnir á að það skiptir máli að við séum munstruð á öruggt fley. Trúin og vonin sjá lengra en allt annað og þau eru í sama flokki og skáldskapurinn, sem líka sér lengra, sér út fyrir rammann, út fyrir boxið og megnar að sjá það sem mannleg augu fá ekki séð og hugurinn fær ekki skilið. Það er svo margt sem heilinn skilur ekki en hjartað veit og trúir.
Við þekkjum orðið brjóstvit. Í elstu bók sem þekkt er á íslenskri tungu, Íslensku hómilíubókinni, sem geymir stólræður presta frá 11. öld, er brjóstvitið kallað brjóstkirkja, helgidómur hjartans, stöðin sem tengir okkur við handanveruna, himininn sjálfan og hið stóra samhengi alls sem er.
Trúin og vonin hjálpa okkur að sjá lengra, að sjá handanveruna, vona á himininn og það sem við tekur að jarðlífi loknu. Trúin og vonin gegna sama hlutverki og skáldskapurinn sem beinir sjónum okkar lengra en hversdagurinn nær, hjálpar okkur að komast yfir þær hindranir sem mæta okkur á lífsveginum og sjá allt í nýju og bjartara ljósi.
Bátarnir og skipin sem byggð voru hér á Ísafirði forðum var ýtt úr vör. Ég man sjósetningu nokkurra þeirra. Það var mikilfengleg sjón að sjá sköpunarverk smiðanna kyssa sjóinn og lognið á Pollinum. Þessi skip sjósettu þeir, Þröstur og félagar, í góðri trú og von. Sum skipanna urðu happafley en önnur tók hafið. Við sjósetjum margt á lífsleiðinni og bindum vonir okkar við hitt og þetta. Sumu farnast vel en annað mistekst. Segja má að við sjósetjum börnin okkar þegar þau fara að heiman í von og trú um að þeim muni farnast vel. Lífið er nefnilega þannig að því er útilokað að lifa án trúar og vonar, að ógleymdum kærleikanum. Og þegar að kveðjustund kemur þá eru það einu hugtökin sem skipta máli, trú, von og kærleikur.
Í þeim anda kveðjum við Þröst Marzellíusson með þakklæti í huga. Hann var eftirminnilegur maður og setti svip á umhverfi sitt. Og nú ýtir hann úr vör í hinsta sinn og tekur stefnuna heim.
Í sjómannasálminum, „Ég er á langferð“ segir í niðurlagi hans:
Þá hinsti garðurinn úti er
ég eygi land fyrir stöfnum
og eftir sólfáðum sæ mig ber
að sælum, blælygnum höfnum.
Og ótal klukkur ég heyri hringja
og hersing ljósengla Drottins syngja:
„Velkominn hingað heim til vor!“
Lát akker falla! Ég er í höfn.
Ég er með frelsara mínum.
Far vel, þú æðandi dimma dröfn,
vor Drottinn bregst eigi sínum.
Á meðan akker í ægi falla
ég alla vinina heyri kalla
sem fyrri urðu hingað heim.
(Nýja Sálmabókin 774.5-6)
Nú leggur Þröstur úr vör með því skipi sem hann var munstraður á sem barn í heilagri skírn.
Guð blessi minningu hans og Guð blessi þig og varðveiti sem enn ert á lífsveginum.
Amen.
You must be logged in to post a comment.