Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Guðjón Kristján Benediktsson 1937-2023

Minningarorðin, texti og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan:

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Guðjón Kristján Benediktsson

1937-2023

húsasmíðameistari

Rúgakri 3, Garðabæ

Útför frá Vídalínskirkju

föstudaginn 21. júlí 2023 kl. 13

Jarðsett í Görðum

“Ef Drottinn byggir ekki húsið

erfiða smiðirnir til ónýtis.

Ef Drottinn verndar eigi borgina

vakir vörðurinn til ónýtis.”

(Davíðssálmur 127.1)

Guðjón var húsasmíðameistari og kom að byggingu margra húsa og að þessarar kirkju sem kennd er við Jón Vídalín, biskup, sem fæddist í Görðum á Álftanesi og ritaði mergjaðar ræður og varð fyrir bragðið annálaður kennimaður og prédikari.

Þeir voru handlagnir bræðurnir, hann og Óskar og áttu mörg handtökin í þessum helgidómi.

Trúna fengu þeir og systkinin í arf frá foreldrum sínum sem lifðu á orði Guðs og kveðskap séra Hallgríms Péturssonar, einkum Passíusálmunum.

“Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis.” Líkingamálið vísar til lífsins. Ef Drottinn er ekki með á lífsveginum í orði, bænum og tilbeiðslu, nær byggingin þ.e.a.s. lífið, ekki þeirri reisn, sem því var ætlað í upphafi.

Kristin trú er æðsta og fegursta kenning sem veröldin hefur eignast. Öll lífsgæðin sem heimurinn telur mikilvægust í dag eru í reynd komin úr kenningum Krists.

Við erum gæfufólk að hafa fæðst hér á landi og alist hér upp enda þótt sumarið í ár hafi verið lengi á leiðinni. Ég vil heldur hafa 13 gráður að sumarlagi en 50 og hafa aðgang að fersku og tæru vatni í sama gæðaflokki og í Vellankötlu á Þingvöllum þar sem vatnið hefur ferðast frá Langjökli í 500 ár og síast í hraunum eldgosa árþúsundanna. Og enn loga eldar í landinu. Landið er enn í mótun.

Guðjón Kristján Benediktsson fæddis 31.október 1937 og ólst upp í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp. Hann lést 13. júlí 2023.

Foreldrar hans voru Benedikt Halldórsson, verkamaður og Þórunn Pálína Borgey Guðjónsdóttir.

Systkini Guðjóns:

Guðbjörg Guðmundsdóttir,

Halldór G. Benediktsson,

Sigríður Þ. Benediktsdóttir og

Þóra S. Benediktsdóttir.

Með Guðjóni eru þau nú öll látin, þessi myndarlegu systkini. Blessuð sé minning þeirra, foreldra og horfinna ástvina.

Fósturbræður Guðjóns eru:

Jón Arinbjörn Ásgeirsson og Þórir B. Haraldsson.

Guðjón giftist Sæunni Steindórsdóttur árið 1961, þau skildu.

Börn þeirra:

Júlíana Sigurveig,

Heiðar Pétur,

Benedikt Rúnar og

Páll Borgar.

Þann 11. nóvember 1991 giftist Guðjón Sigrúnu Jónsdóttur og varð stjúpfaðir sonar hennar, Jóns Viðars Reynissonar.

Synir Guðjóns og Sigrúar eru:

Finnur Gauti og

Haukur Þór.

Nánari upplýsingar um fjölskylduna, maka barnanna og afkomendur verða birt með ræðunni á vefnum.  

Barnabarn hans og nafni, Guðjón Bjartur Benediktsson, sendir bestu kveðjur til allra ættingja og minnist afa með elsku og virðingu.

Einnig biður Anna Björg fyrrverandi tengdadóttir hans fyrir góða kveðju með þökk fyrir allt og allt.

Guðjón trúði á Guð og þau gildi sem hann sá best tryggð á miðju stjórnmálanna. Hann studdi alla góða viðleitni þar sem barist var fyrir því að þau sem minna mega sín, fái að lifa við mannsæmandi kjör og beri úr býtum það sem telst sanngjarnt. Guðjón hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og var mikill jafnaðarsinni.

Fjölskyldan sér á eftir góðum eiginmanni, föður, tengdaföður, afa, bróður, frænda. Við Guðjón vorum náfrændur, Guðmundur móðurafi minn og Benedikt faðir Guðjóns voru bræður, þannig að við erum af 2. og 3. lið.

Þegar ég bað Sigrúnu og börnin, að nefna það sem fyrst kom í huga þeirra um Guðjón, náði ég niður þessum orðum:

-bestur

-gæska

-blíðlyndur

-hjálpsamur

-fyndinn

-orðheppinn

-orðaleikir og útúrsnúningar

-aulabrandarar!

Hann sá ætíð hið jákvæða, vildi að allir væru góðir saman, var umhyggjusamur og sífellt að spyrja frétta af börnum sínum og afkomendum.

Hann kynntist Sigrúnu í Þórscafé að vetri til, nokkrum árum eftir skilnaðinn.

Hann vildi skila Sigrúnu heim að dyrum með leigubíl en biðin eftir bíl varð löng svo þau röltu af stað í hálkunni. Sigrún hafði farið út að dansa, staðráðin í að finna sér góðan mann. Hún rann til á svelli á leiðinni heim, lenti á hnjánum og þar sem hún kraup sagði hún við Guðjón: „Fyrst ég er nú komin á skeljarnar viltu þá ekki bara giftast mér?“

Svona fundu þau nú hamingjuna saman! Þannig hófst ævintýri þeirra árið 1990.

Þau voru samheldin og gerðu allt til að halda hópnum sínum saman, fóru í ferðalög og héldu matarboð fyrir hjörðina. Þau áttu saman 33 góð ár og lifðu góðu lífi. Kærleikur þeirra til hvors annars sást langar leiðir. Guðjón sagði oft: „Ég elska þig á hverjum degi“ og bætti svo við, „ég elska þig mikið á hverjum degi.“ Og börnin af fyrra hjónabandi tala um hve vel Sigrún tók þeim öllum og þau og sonur hennar urðu samhent sem besti systkinahópur.

Guðjón vann alla tíð mikið. Hann fór að heiman úr Hnífsdal 18 ára og suður til að læra smíðar. Byrjaði að vinna hjá byggingarfélaginu Stapa, þar sem hann kynntist nýjungum í byggingartækni, sem nefndust skriðmót og þóttu bylting við byggingu háhýsa. Með slíkum skriðmótum byggðu hann og Óskar bróðir hans, ásamt á 5. tug iðnaðarmanna úr ýmsum iðngreinum, 48 íbúðir í blokkum uppá 8 hæðir í Ljósheimum 8-12. Í þá daga voru menn ekki með hjálma eða öryggislínur, en allt fór vel, enda voru þeir allir ungir og sprækir. Þarna eignaðist hann íbúð, ekki orðinn tvítugur. Það kom sér vel því hann var kominn með 4 börn nokkru síðar, þegar hann var 28 ára.

Hann var félagslyndur og var m.a. félagi í Kiwanisklúbbnum Jöfra. Hann var glaðlegur og með bjartan svip, unglegur fram eftir aldri. Þegar ég sá myndir af honum fullorðnum varð mér á orði við fjölskylduna að hann liti nú bara út eins og fermingardrengur!

Hann glímdi við hjartveiki í mörg ár og fór í stóra aðgerð 65 ára, en var við störf í fastri vinnu þangað til hann var 71 árs, en hætti samt aldrei í raun, var alltaf að.

Hann var minnugur og ættfróður, góður handverksmaður og hjálpaði börnunum að byggja og koma undir sig fótunum.

Þau hjónin ferðuðust víða og komu til a.m.k. 18 landa.

Þegar hann varð áttræður plataði fjölskyldan hann í

óvissuferð. Hann hélt, þegar hann kom í Flugstöðina, að

þau væru á leið til Tenerife, en það var þá Valencia á

meginlandi Spánar. Þegar þau svo komu upp í fríhöfnina biðu þar börn og barnabörn eftir þeim. Með í farangri var uppáhaldið hans: lambahryggur, rauðkál, grænar baunir og rababarasulta.

Eitt sinn er hann fór til Ameríku, vissi hann, sem betur fer, ekkert af því, að í handtösku hans var hangikjötslæri. Hann var bara sultuslakur er hann fór í gegnum tollinn í Ameríku og hafði ekki hugmynd um að hann væri að brjóta lög þar í landi.

Hann sagði börnunum að standa sig og var stoltur af því að þau hefðu öll “orðið fleyg” eins og hann orðaði það. Þau eru öll mannkostafólk, enda komin af góðu fólki og hafa hlotið gott veganesti fyrir lífið.

Að lifa sem manneskja, að lifa í sátt við Guð og menn, er gott markmið. Það tekst ekki alltaf, en ef út af ber, skiptir máli, að kunna að sættast og biðjast fyrirgefningar. Kristin trú kennir okkur kærleika, miskunn og það sem í dag er kallað sáttamiðlun. Sumir vilja aldrei sættast og tærast bara upp í ósætti eins og ryðgaðir togarar. Mikilvægt er að eiga sér lífsgrundvöll og vita hvar hamingjuleiðin liggur og að kunna að sættast.

Margir í nútímanum virðast vera áttlausir og vaðandi reyk í trúarefnum.

Allir trúa á eitthvað. Sérhver lífsgrunnur er í raun trú. Það sem fólk treystir á, er í raun lífsgrunnvöllur þess eða trú.

Hver er grunnur þinn? Á hvað treystir þú? Á hvað trúir þú?

Kristin trú er ekki trú á eitthvað í hvorugkyni, heldur á einhvern tiltekinn, á persónu, ákveðna persónu, en ekki hvað sem er. Auðvitað treystum við flest á okkur sjálf en gerum samt ekki sjálf okkur að trúargrundvelli og nafla alheimsins. Maðurinn er hjákátlegur sem guð, bæði sem einstaklingur og mannkyn.

Kristin trú er ekki í lausu lofti, ekki tímalaust ævintýri sem hefst á orðunum: “Einu sinni var.” Saga Hans sem er miðja trúar kristins fólks er persóna í tíma og rúmi, manneskjan Jesús Kristur, sem lifði og dó á tilteknum stað og tíma – og lifir enn í hjörtum þeirra, sem finnst leiðsögu-appið hans það besta sem veröldin hefur kynnst. Þar með er ekki loku fyrir það skotið að þau sem fylgja appinu geti ekki villst af leið. Við erum öll skjögrandi og kunnum ekki ætíð fótum okkar forráð. En fyrir trú náum við samt í mark í fyllingu tímans, með hjálp hans, sem hannaði appið með elsku sinni og gleði, dauða sínum og upprisu. Þau sem ekki trúa á Jesú hafa sín öpp og sína leiðsögn og megi þeim öllum farnast vel á lífsveginum með sínum innslögum í umræðu daganna.

Guðjón bjó að góðu uppeldi ástríkra foreldra. Þau Benedikt og Þórunn voru gott fólk, trúuð og heil í gegn. Þau kenndu börnum sínum bænir og vers. Sonur Guðjóns segir afa sinn hafa kunnað Passíusálmana alla og hlustað reglulega á útvarpsmessur og sungið með. Afi hjálpaði við heimilisstörfin þegar hann hafði tíma en lét það ekki á sig fá, að slíkt þótti nú ekki karlmannlegt. Elskan mótaði þau hjónin. Ég man eftir að hafa hitt þau og gleymi ekki brosi þeirra og elskusemi, sem skein úr augum og ómaði af orðum þeirra.

Orðin sem vitnað var til í upphafi ræðunnar eru svo sönn:

“Ef Drottinn byggir ekki húsið

erfiða smiðirnir til ónýtis.”

Gott er að eiga góðan og traustan lífsgrundvöll. Gildagrunnur Vesturlanda á allar sínar rætur í kristinni trú. Sögurnar sem Jesús sagði lifa enn meðal þeirra sem fá að heyra þær. Nú heyrast þessar sögur ekki eins víða og áður. Þær voru kenndar á heimilum, í skólum og kirkjum. En nú má trú vart nefnast á nafn í opinberu samhengi. Margir gera sér ekki grein fyrir því að lífsskoðanir, hverjar sem þær kunna að vera, eru ígildi trúar. Allt sem kennt er í skólum er gildishlaðið, allt sem þar er flutt er ígildi trúar, einhverskonar trúar. Allir eiga sér einhvern lífsgrundvöll sem skilgreina má sem trú jafnvel þótt sá grundvöllur byggi ekki á trú á handanverandi Guð, eins og það heitir og merkir bara á gamaldags máli, Guð á himnum. En ef við leyfum ekki að tala um Guð í skólum, en ausum þessi í stað yfir börnin allri annarri trú, líka trú sem er innihaldslítil, kennum hjátrú, trú á hvað sem er, trú á allt og ekkert, trú á stokka og steina, heiðindóm og hindurvitni. Er það í lagi á sama tíma og bannað er að nefna Guð eða Jesú á nafn? Unga kynslóðin virðist bara þekkja Jesú sem upphrópun á ensku: Djísus!

Hugum að þessu, kæru áheyrendur, gætum að því að klippa ekki á þráðinn að ofan eins og köngulóin sem var á yfirferð um vefinn sinn og mundi ekki hvaða tilgangi þráðurinn að ofan gengdi. Hún klippti því á þráðinn og þar með hrundi vefurinn.

Það er svo stutt síðan við komum inn í nútímann og hinn tæknivædda heim. En tæknin bjargar okkur ekki á dauðastundu. Þá dugar hvorki farsími né tölva. Þá dugar bænin ein og trúin á Guð, sem hefur birt okkur kærleika sinn í Kristi. Lærum af honum á lífsins vegi og kennum börnum okkar það sem gengnar kynslóðir töldu mikilvægast.

Guðjón Kristján Benediktsson ólst upp og lifði samkvæmt þeim gildum sem hér hafa verið rædd. Nafnið hans segir líka mikið. Guðjón merkir þann sem nýtur náðar Guðs. Kristján vísar til Krists og föðurnafn hans, Benedikt, merkir blessun Guðs. Megi það allt sem í nafni hans býr fylgja honum um eilífð. Sú var án efa bæn foreldra hans sem báru hann til skírnar og fólu hann Guði og eilífðinni er hann enn var ómálga barn.

Guð blessi minningu Guðjóns Kristjáns Benediktssonar og megi Guð blessa ykkur, eftirlifandi ástvini hans og styrkja okkur öll sem enn erum á lífsveginum.

Amen.

———

Nánari upplýsingar um ætt og uppruna, fjölskyldu og afmomendur, eins og þær birtust í Morgunblaðinum, útfarardaginn:

Guðjón Kristján Benediktsson fæddist 31. október 1937 og ólst upp í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp. Hann lést 13. júlí 2023.

Foreldrar Guðjóns voru Benedikt Halldórsson verkamaður, f. 19. maí 1904 í Miðhúsum í Ísafjarðardjúpi, d. 2. september 1980, og Þórunn Pálína Borgey Guðjónsdóttir, f. 5. október 1900 í Tungu í Fljótavík, d. 10. febrúar 1992. Systkini Guðjóns: Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 23. desember 1921, d. 13. október 2011, Halldór G. Benediktsson, f. 30. apríl 1930, d. 21. janúar 1967, Sigríður Þ. Benediktsdóttir, f. 4. október 1928, d. 13. febrúar 2015, Þóra S. Benediktsdóttir, f. 25. október 1931, d. 16. janúar 2022. Fósturbræður: Jón Aðalbjörn Ásgeirsson, f. 22. október 1938, og Þórir B. Haraldsson, f. 23. júní 1946.

Guðjón giftist Sæunni Steindórsdóttur, f. 11. maí 1940, þann 17. júní 1961, þau skildu, börn þeirra: 1) Júlíana Sigurveig, f. 4. ágúst 1959, maki Snorri Agnarsson, f. 30. des. 1955, börn þeirra: Margrét Hlín, f. 20. mars 1987, maki Guðrún Ólafsdóttir, f. 22. ágúst 1992, barn þeirra: Úlfrún Eir, f. 22. des. 2022, Agnar Óli, f. 3. maí 1990, maki Matthildur Lillý Valdimarsdóttir, f. 12. október 1999. 2) Heiðar Pétur, f. 24. júlí 1960, maki Guðrún Erla Ingvadóttir, f. 22. des. 1958, d. 14. apríl 2018, börn þeirra: Emma Guðrún, maki Jón Lorange, f. 6. maí 1991, barn þeirra Guðrún Erla, f. 30. nóvember 2020, Sæunn Sif, f. 27. september 1993. 3) Benedikt Rúnar, f. 16. október 1963, maki Alma Kristmannsdóttir, f. 24. maí 1963, börn: Guðjón Bjartur, f. 26. maí 1991 og Ísak Bjarmi, f. 30. ágúst 1997, maki Hugrún Ingólfsdóttir, f. 8. ágúst 1999, stjúpdóttir Marín Ósk Hafnadóttir, f. 12. maí 1986, maki Tómas Andri Einarsson, f. 30. janúar 1983. 4) Páll Borgar, f. 28. apríl 1966, maki Wattanee Boodudom, f. 9. apríl 1978, sonur hans og Bryndísar Karlsdóttur, f. 29. júlí 1968, skilin, Bjarki Þór Pálsson, f. 17. desember 1986, maki Erla Svansdóttir, f. 5. október 1993. Börn Páls og Önnu Bjargar Ingadóttur, f. 29. júlí 1965, skilin, Alexandra Ýrr, f. 27. júlí 1991, maki Eiríkur Sæmundsson, f. 16. ágúst 1984, börn þeirra Sæmundur Freyr, f. 25. janúar 2015, og Kristófer Páll, f. 9. júní 2018, Áróra Eir, f. 5. febrúar 1995, maki Hilmar Pálsson, f. 12. nóvember 1993, Jakob Borgar, f. 30. júní 2000, Júlía Rún, f. 19. janúar 2003.

Þann 11. nóvember 1991 giftist Guðjón Sigrúnu Jónsdóttur, f. 18. október 1959, börn þeirra: 1) Finnur Gauti, f. 7. apríl 1991, maki Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 7. ágúst 1994, börn þeirra Katla, f. 25. júlí 2019 og Eik, f. 19. júlí 2021. 2) Haukur Þór, f. 17. júlí 1994, maki Hrafnhildur Ólafsdóttir, f. 1. apríl 1994, barn þeirra Gabríel Snær, f. 1. apríl 2022. Stjúpsonur: Jón Viðar Reynisson, f. 18. október 1987. 

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 21. júlí 2023, kl. 13.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons