Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Íslaug Aðalsteinsdóttir

1926-2023

Minningarorðin, texti og hljóðupptaka, er hér aðeins neðar.

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Íslaug Aðalsteinsdóttir

1926-2023

Útför frá Vídalínskirkju

fimmtudaginn 20. júlí 2023 kl. 13

Jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði

Skáldið Tómas Guðmundsson segist vera glaður í einu ljóða sinna, yfir að hafa fæðst á réttum tíma. Í ljóðinu um Anadyomene, sem hann sá stíga upp af öldunum eins og Venus á strönd Adríahafsins, segir hann meðal annarra orða:

En þó að sólin ljómi og leiftri á þúsund bárum

að liðnum þúsund árum,

og önnur kynslóð komi hér um síð,

þá skiptir það mig engu og ánægður þá sef ég,

fyrst einu sinni hef ég

að minnsta kosti fæðzt í tæka tíð.

Síðar í sama ljóði fagnar hann því ennfremur að tilheyra einu kynslóð veraldarsögunnar sem ekki er dáin! Og nú erum við í sömu sporum og skáldið er það uppgötvaði þá gleðilegu staðreynd.

Og þessi hugsun skáldsins um að hafa “fæðzt í tæka tíð“ rímar við orð úr Hinni helgu bók þar sem tíminn á ritunarmáli Nýja testamentisins er tjáður með tveimur grískum hugtökum, kronos og kairos. Hið fyrrnefnda vísar til hins mælanlega tíma en síðara hugtakið, til rétta tímans, eða fyllingar tímans.

“En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs.” (Gal 4.4-5)

Kristur fæddist inn í heim sem þróast hafði í kjölfar ríkis Alexanders mikla í Grikklandi og svo Rómaveldis, að siglingar voru skipulagðar á milli landa í ríkinu, eitt tungumál, gríska var opinbert mál – eins og enskan er nú – vegakerfi var þróað og einnig póstsamgöngur. Unnt var að senda bréf hvert sem var innan ríkisins á 1. öld. Samgöngu- og póstmál lögðu grunn að útbreiðslu kristinnar trúar og gilda, sem breyttu heiminum og sköpuðu þau lífsskilyrði, sem við búum við í dag í Evrópu og flestir jarðarbúar vilja deila með okkur. Öll þau gæði, sem við metum mest, eru af rót kristinna kenninga um manngildi, réttlæti, sannleika og jöfnuð. Full ástæða er til að rifja þetta upp nú þegar yngri kynslóðir landsins virðast ekki lengur þekkja rætur menningar okkar og þeirra gilda sem mikilvægust eru talin í heiminum.

Íslaug fæddist líka á réttum tíma eins og við öll – og á réttum stað. Hún fæddist á Ísafirði, 25. mars 1926, í bæ sem var meðal öflugustu kaupstaða landsins. Þar risu á bernskuárum hennar glæsilegar byggingar, teiknaðar af fremstu arkitektum landsins. Þau sem eiga rætur vestra eru stolt af uppruna sínum. Í mars, fæðingarmánuði hennar, er farið að birta í bænum, en fjöllin blá skerma af sólarljósið á Eyrinni frá því undir lok nóvember og fram að 25. janúar, þegar hún nær að skína yfir kirkjugarðinn og í Sólgötuna sem þverar Eyrina. Þá halda flestir Ísfirðingar sólarkaffi, hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Foreldrar hennar voru Sigríður Ísaksdóttir, saumakona og húsmóðir á Ísafirði og Aðalsteinn Friðfinnsson, verslunarmaður í Reykjavík.

Hún giftist Jóhanni Gunnari Björnssyni, sem var fæddur 1928 en lést 1999, (f.15.10.28, d.06.02.99) deildarstjóra hjá Pósti og síma í Reykjavík. Foreldrar hans voru: Elísabet Einarsdóttir (Long) húsmóðir í Súðavík og Björn Jóhannsson, skólastjóri í Súðavík og kennari. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði.

Íslaug ólst upp í Silfurgötu 12, Ísafirði, hjá móður sinni og fósturföður, Valdimari Valdimarssyni, sjómanni. Systkini Íslaugar voru:

Erla, húsmóðir,

Kristján Ísak, aðalbókari hjá Sýsluskrifstofu Akureyrar og

Elvar, stýrimaður.

Öll látin.

Móðir Íslaugar dó ung úr krabbameini, en þá var Íslaug flutt til Reykjavíkur og fjölskyldan tvístraðist.

Systkini hennar, börn Aðalsteins og Sólveigar Helgadóttur eru:

Gunnar vélstjóri,

Ragnar hæstaréttarlögmaður í Reykjavík,

Unnur starfsmaður Flugleiða í Reykjavík og

Ása hjúkrunarfræðingur í Reykjavík.

Gunnar og Unnur eru látin.

Einkadóttir Íslaugar er Sigríður Jóhannsdóttir, f. 05.10.48, sonur hennar er Björn Jóhannsson, hótel- og veitingamaður, börn hans og Maríu Eugeniu Aleman, eru Ísabella Náttsól, 13 ára og Jóhann Ísak, 4ra ára.

Ég las viðtöl við Íslaugu úr dagblöðum og grein úr tímariti og þar kennir margra grasa. Hún tók þátt í miklu ævintýri á sviði samgöngumála og tengingar Íslands við umheiminn og var sannarlega fædd í fyllingu tímans, í kairos, á réttum tíma.

Hún lýsir því, þegar hún vann hjá Þorleifi Guðmundssyni fyrir vestan og svo Loftleiðaævintýrinu, undir forystu Alfreðs Elíassonar, Kristins Olsen og Sigurðar Ólafssonar, þegar fyrirtækið hóf að fljúga til Ísafjarðar. Þar var erfitt að lenda á Pollinum vegna sviptivinda milli hárra fjallanna. Flug til Vestmannaeyja hófst á sama tíma.

Loftleiðir hófu síðar að fljúga til útlanda og Íslaug tók þátt í þessu ævintýri næstu áratugi sem lykilstarfsmaður í farþegaskráningu í Reykjavík, öflug kona, greind og glæsileg.

Á nokkrum myndum sem ég sá og teknar voru á skrifstofum Loftleiða sést hún oftar en ekki í stórum hópi karla. Íslaug var á margan hátt á undan sinni samtíð þegar fjöldi kvenna var heimavinnandi. Hún lét um sig muna, var kona með sjálfstraust og reynslu sem nýttist í störfum þar og síðar í eigin reksti í ferðaþjónustunni.

Ísland tengdist umheiminum á alveg nýjan hátt með fluginu, því fyrir þessa byltingu í samgöngumálum komst fólk ekki milli landa nema með skipum. Og enda þótt Ísafjörður hafi tengst öðrum landshlutum með flugsamgöngum fyrir miðja síðustu öld, var bærinn ekki í vegasambandi við landið fyrr en 1959, þegar svonefnd suðurleið var opnuð um vesturfirðina og Barðaströnd og áfram suður. Ég man vel þessi skil í sögu fæðingarbæjar míns.

Íslaug upplifði því það sem ung kona, að fæðingarbær hennar tengdist landinu í gegnum flug með nýjum hætti og svo síðar þegar loftleiðir milli Íslands og annarra landa opnuðust með langdrægari og stærri flugvélum.

Eftir árin hjá Loftleiðum, veitti Íslaug Ferðamiðstöðinni forstöðu í þó nokkur ár, en keypti síðar Ferðaskrifstofu Reykjavíkur ásamt Sigríði, dóttur sinni og rak hana til ársins 2002, er hún hætti störfum.

Íslaug og Jóhann voru bæði góðir kokkar og gestgjafar. Þau störfuðu bæði við greinar þar sem unnið var að því að koma á tengslum milli manna og þjóða, hann hjá Pósti og síma og hún hjá Loftleiðum.

Lýsing Íslaugar á ævintýrinu öllu er stórmerkileg heimild um veröld sem var þegar 33 orð komust um strenginn á mínútu milli Íslands og Bandaríkjanna, með bestu tækni þess tíma og tölvur fylltu heilu salina. Farsíminn í vösum okkar og veskjum er margfalt öflugri en þessar risatölvur fortíðar.

Íslaug ferðaðist víða um heim í tengslum við störf sín hjá Loftleiðum og þeim ferðaskrifstofum sem hún veitti forstöðu og einnig í fríum með Jóhanni, dóttur sinni og vinum.

Einkadóttirin segir: “Hún var yndisleg mamma, amma og langamma sem fylgdist vel með uppvexti og þroska barnabarnsins og barnabarnanna til síðasta dags.”

Og nú er tíminn liðinn, bæði kronos og kairos, stundaglasið tæmt í hinum efnislega heimi, sem enn er í þróun og á fullri ferð. Mannkynið hefur heimsótt tunglið oftar en einu sinni, gervihnettir sveima yfir jörðu og tengja farsímana okkar saman eins og speglar en það var vísindaskáldið, Arthur C. Clarke, sem kom með speglahugmyndina, sem vísindin svo framkvæmdu. Allar framfarir hefjast með skáldskap, í draumi, sem síðar verður að veruleika.

Ævintýrin halda áfram. Lífið er ævintýri en það sem mestu skiptir er að hugmyndafræði kristninnar byggir ekki á ævintýri sem byrjar á orðunum: “Einu sinni var…“ heldur var mesta hugmyndafræðilega breytingin sú að barn fæddist í Betlehem sem breytti heiminum. Kristur fæddist á dögum Ágústusar keisara, “þá er Kýreneus var landstjóri á Sýrlandi.” Jesús var í senn guð og maður, fæddur á tilteknum tíma og stað, í sögulegu samhengi, en ekki skáldsagnapersóna í ævintýri. Hann lifir og gefur enn von og fyrirheit um að lífið sé stærra og meira en jarðlífið eitt, svo spennandi og ævintýralegt sem það kann annars að vera.

Lífið er undur, lífið er gjöf og það kemur úr hendi skaparans sem gætir þess áfram um ókomna tíð og einnig í þeim heimi þar sem tíminn mælir ekki lengur aldir, ár eða daga.

Við felum Íslaugu Aðalsteinsdóttur þessu samhengi trúar og vonar og þökkum fyrir líf hennar, bros og útgeislun, hæfileika og hæfni til að komast af í heimi mikilla breytinga og þátttöku í stórum ævintýrum. Hún var einstök mannkostakona.

Blessuð sé minning hennar og megi Guð blessa okkur og leiða sem enn erum á lífsveginum.

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons