Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Helgi Júlíusson
1945-2023
frá Ísafirði
Útför frá Fossvogskapellu
miðvikudaginn 12. júlí 2023

Minningarorðin geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.

Smelltu á hljóðskrána til að hlusta.
Á náttborðinu við dánarbeð Helga lá Nýja testamentið á grísku. Hann hafði verið að lesa á opnunni þar sem 7. kafla Jóhannesarguðspjalls lýkur og hinn 8. kafli hefst. Þar eru þessi orð 8. kafla í 12. versi:
Πάλιν οὖν αὐτοῖς ἐλάλησεν ὁ Ἰησοῦς λέγων, Ἐγώ εἰμι τὸ φῶς τοῦ κόσμου: ὁ ἀκολουθῶν ἐμοὶ οὐ μὴ περιπατήσῃ ἐν τῇ σκοτίᾳ, ἀλλ’ ἕξει τὸ φῶς τῆς ζωῆς.
“Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“
Ljósið er af eldi komið. Allt líf er af ljósinu. Sólin viðheldur lífinu á jörðu og eldgosin eru afurð sólarinnar, ljóssins. Guð er enn að skapa, alla daga skapar hann eitthvað nýtt.
Jarðeldar loga í nágrenni höfuðborgarinnar í þriðja sinn á tveimur árum. Skáldið Jónas Hallgrímsson orti um eldgos.
Við lestur ljóðsins „Fjallið Skjaldbreiður“ eftir Jónas Hallgrímsson (1807-1845) mætti ætla að skáldið hafi orðið vitni að eldgosi. Í ljóðinu segir meðal annars:
Titraði jökull, æstust eldar,
öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himnaranns;
eins og ryki mý eða mugga
margur gneisti um loftið fló;
dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó.
Belja rauðar blossa móður,
blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reynistóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu –
himnadrottinn einn það leit.
Þrátt fyrir þessa glæsilegu lýsingu á eldgosi sá Jónas aldrei eldgos með berum augum.
Mannshugurinn er magnað fyrirbæri. Hann getur séð það sem augun sáu aldrei. Hugurinn getur ferðast um heima og geima. Skáldin þekkja það frelsi sem fólgið er í skáldskapnum, þá vængi sem gera þeim kleift að fljúga um loftin blá og jafnvel inn í aðra heima og veraldir sem hvergi fyrirfinnast, nema í huga þess er vogar að hefja sig til flugs eins og eldfuglinn Fönix, sem í grískri og rómverskri goðafræði er guð sólarinnar.
Við komum hingað saman á þessum sólbjarta degi til að kveðja Helga Júlíusson, sem var gæddur góðum gáfum. Líklegt er að
í huga hans hafi opnast víddir sem flest okkar hafa aldrei kynnst.
Helgi fæddist á Ísafirði 14. október 1945. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík, 2. júlí 2023.
Foreldrar hans voru Júlíus Thorberg Helgason, rafvirkjameistari, f. 1921 d. 1983 og Katrín Arndal, hjúkrunarkona, f. 1920 d. 2007.
Systkini Helga eru:
– Sigríður Katrín f. 1948, maki Albert Geirsson
– Kjartan f. 1950 d. 1984, maki Gunnhildur Elíasdóttir – Kristín f. 1956, maki Hrólfur Ólafsson
– Haraldur f. 1964, maki Ingibjörg Einarsdóttir.
Helgi sleit barnsskónum á Ísafirði, gekk þar í skóla en lauk landsprófi frá Núpi í Dýrafirði. Hann fór síðan í Iðnskólann á Ísafirði og lauk þaðan prófi í rafvirkjun. Þá nam hann latínu og raungreinar við Edinborgarháskóla einn vetur. Eftir það fór Helgi til Háskólans í St. Andrews í Skotlandi og lagði þar stund á latínu og forngrísku í fjögur ár.
Helgi starfaði hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga sem unglingur og við rafvirkjun á námsárunum. Þá kenndi hann í stuttan tíma latínu við Menntaskólann á Ísafirði.
Hann greindist með erfiðan geðsjúkdóm 24 ára gamall og varð það til þess að starfsferill hans varð ekki langur.
Helgi stundaði dálítið þýðingar úr ýmsum tungumálum því hann var frábær málamaður. Hann hafði unun af lestri bókmennta og hlustaði mikið á sígilda tónlist, las um allt milli himins og jarðar og var því vel inní mörgu og gat talað um hvað sem var. Nútímavísindi voru honum einnig mikið áhugamál.
Ástvinir Helga hafa sent mér textabrot með minningum sem þeir báðu um að ég fléttaði hér inn í ræðuna.
Frá Júlíönu Haraldsdóttur, bróðurdóttur Helga.
Það voru forréttindi fyrir okkur systkinin að fá að kynnast Helga frænda svona vel þegar við vorum yngri ❤️ Man alltaf eftir því þegar hann var hjá okkur yfir jól og áramót þegar við vorum að alast upp og ég hafði sérstaklega gaman af því að heimsækja hann til að hnýsast í vítamínin hans og skoða skuggalega hákarlalýsið 😊 Helgi hefur alltaf verið áhugaverði skrítni frændinn sem snýtir sér voða hátt. Ég man líka eftir því þegar við heimsóttum hann í Reykjavík og hann gaf mér fuglabók úr stóra bókasafninu sem hann á. Það er ykkur mömmu og pabba að þakka að við fengum að kynnast honum og hann heppinn að hafa átt ykkur að alltaf ❤️
Ingibjörg Einarsdóttir, eiginkona Haraldar
Í gær fékk mágur minn hann Helgi hvíldina eftir erfið veikindi.
Hann gekk aðra stíga í lífinu en flestir gera þar sem hann fékk það verkefni að glíma við að vera með alvarlegan geðsjúkdóm sem getur haft gríðarlega hamlandi áhrif á þátttöku einstaklinga í samfélaginu.
Mér þótti hann ótrúlega áhugaverður einstaklingur, sjúkdómurinn gerði það að verkum að hann gat illa sýnt með látbragði og svipbrigðum tilfinningar sem hann auðvitað hafði samt.
Hann kunni mörg tungumál m.a. hebresku og las m.a. biblíuna á frummálinu nokkrum sinnum. Bækurnar hans voru hans líf og yndi. Hann mundi þær stundum utanbókar trúi ég. Við ræddum allskonar mál í gegnum árin og hann hafði mjög lúmskan húmor þannig að við hlógum líka saman.
Ég hafði mjög gaman af því að hann sagði blátt áfram það sem honum datt í hug hverju sinni, dæmi: hann kom alltaf vestur yfir jólin á meðan Katrín tengdamóðir mín lifði. Eitt skiptið vorum við að spjalla inni í stofu hjá henni, þá horfði hann á mig og sagði „Ingibjörg þú varst ekki svona feit fyrir síðustu jól!“ 🤣🤣 Ég átti bágt með að halda andlitinu og fara ekki að skellihlæja, en tókst að stynja upp með „alvörusvip“, „nei Helgi minn, það er alveg rétt athugað hjá þér, ég er búin að borða miklu meira á þessu ári en á því síðasta og þarna situr það bara.“ Hann fékk nú eitthvað orð í eyra frá móður sinni en ég blikkaði hann þegar hann varð vandræðalegur.
Það eru margar minningar sem hafa runnið í gegnum hugann og þær eru margar fyndnar af því að við náðum saman í gegnum húmor.
Aðrar eru af því að ég dáðist að því hvað einn mannshugur getur afrekað að kunna, stundum blandnar trega yfir því að honum hlotnaðist ekki að geta miðlað öllu sem hann vissi og kunni með fleirum en raun ber vitni.
En ég er glöð yfir þeirri trú að nú líði honum betur í sumarlandinu og ég trúi því að þar hafi orðið fagnaðarfundir ❤️
Katrín Kjartansdóttir Arndal, dóttir Kjartans og Gunnhildar
Í eitt skipti fékk Helgi far með mér frá Ísafirði til Reykjavíkur. Við lögðum af stað í blíðskaparveðri og Helgi náttúrulega glerfínn eins og vanalega í jakkafötum
Helga fannst mjög mikið atriði að hann missti ekki úr fréttatíma. Ég þorði ekki annað en að stilla útvarpið á Rás 1 í von um að það dytti inn á fréttatímunum og hafa í gangi alla leiðina svo ég myndi nú ekki gleyma mér.
Við brunuðum Djúpið án vandræða og fórum yfir Þorskafjarðarheiðina sem Helga þótt[i] jafn “hressandi” og mér enda malarvegir með tilheyrandi ryki og holum [og] þannig […] hristumst við sundur og saman. Ekkert bólaði enn á [að] við næðum útvarpinu, þannig [að] engar voru hádegisfréttirnar.
En ég ákvað að það minnsta sem ég gæti gert eftir þetta væri að stoppa í Bjarkalundi og gefa Helga eitthvað almennilegt að snæða.
Þar hittum við Óla sem var á sömu leið og við á mótorhjóli.
Við fáum þennan fína fisk og fréttirnar hljóma í græjunum í matsalnum, allt eins [og] best var á kosið.
En þá heyrast skruðningar frá bílastæðinu og þegar við lítum út sjáum við einhvern vera að bakka á mótorhjólið hans Óla og bruna svo í burtu.
Við höfðum strax samband við lögregluna [sem] kemur enda hjólið stórskemmt og ekki keyrsluhæft. Þá hefst mjög löng bið enda vorum við í umdæmi lögreglunnar á Patró og kom hún það[an].
Þarna var ég ekki viss hvernig óvissan færi [í] frænda minn en hann lék á als oddi og þegar kom í ljós að Óli þurfti að koma með okkur í bílnum þá krafðist hann þess að sitja í aftursætinu.
Við Helgi rifjuðum oft upp þessa ferð enda var hún eftirminnileg.
[…]
Hann sýndi ótrúlega þolinmæði fyrir okkur systkinunum þegar við vorum yngri Hann var mjög áhugaverður í okkar augum og við höfum örugglega stundum horft dónalega lengi á hann. Ein jólin ákvað hann samt að það væri skemmtilegt að kenna okkur að syngja jólasálm á latínu. Algjörlega óyfirstíganlegt verkefni hefði ég haldið en Helgi gafst ekki upp og á aðfangadag stóðum við fyrir framan jólatréð í okkar fínasta pússi og sungum hástöfum.
Skólasystir Helga frá Ísafirði – minningar frá barnaskólaárunum
Eitt af því sem ég man vel, var þegar Helgi tók sig til og fór að rökræða við kennarana, kom með spurningu sem þeir höfðu ekki svör við og hann stóð uppi sem sigurvegarinn. Þá var gaman þó sum okkar væru ekki alveg að skilja hvernig Helgi þorði þessu, en við vissum að hann væri svo klár!
Frá Halldóru, forstöðukonu Vinjar kom þessi texti sem Viðar H. Eiríksson, skráði:
Á langri göngu um lífsins veg hittum við fyrir fjölmargra einstaklinga, samferðafólk sem við lærum af
og eigum þess kost að tileinka- og eða læra af háttarlagi, og lífsmáta þess.
Af Helga Júlíussyni mátti læra ýmislegt svo sem hægversku, nægjusemi og hjálpsemi. Hjálpsemin fólst meðal annars í miðlun fróðleiks um allt milli himins og jarðar. Minni hans var svo gott að oft var fljótlegra að fá svör við ýmsu sem til umræðu var með því að spyrja Helga frekar en að fletta upp á netinu og þá einkum ef málefnið varðaði mannkynssögu tímabils hvort heldur sem var fyrir- eða eftir kristsburð.
Fróðleik sinn fékk hann með lestri fræðirita og fagurbókmennta svo sem leikrit og ljóð eftir William Shakespeare.
Það vann svo sannanlega með fróðleiksást hans hve mikill málamaður hann var, las sér til gagns á Latínu, Ensku og sjálfsögðu á Íslensku.
Nægjusemi hans kom glögglega fram í ferðalögum með Ferðafélaginu Víðsýn. Minnast má á 5 daga ferð sem farin var til borgarinnar Sitges á Spáni. Þangað ferðaðist hann í sínum virðulegu svörtu jakkafötum og hvítri skyrtu með eina fremur litla skjalatösku sem handfarangur, sem í var allt sem hann þurfti og ekki urðu ferðafélagar hans varir við að hann skorti nokkurn skapaðan hlut.
–
Hér lýkur lestri úr textum ættingja og vina um Helga.
Helgi var margbrotinn persónuleiki, stundum dálítið skrítinn en alltaf ofurklár. Einkennilegt að slíkt skuli hanga saman eins og tvær hliðar á sömu mynt. Í slíkum tilfellum fylgir gjarnan böggull skammrifi, eins og segir í máltækinu um dökkar hliðar mála. Oft er skammt á milli æðstu snilldar og sturlunar.
Í samtímanum heyrist oft talað um greiningu á einu og öðru. Mörg börn og fullorðnir, greinast nú með ofvirkni og athyglisbrest. Er það sjúkdómur? Er það neikvætt? Er það galli? Eða eru það sérstakir eiginleikar eða gáfur sem geta orðið til góðs og eflt sköpunargáfuna?
Ég hafði samband við vin hans, Garðar Sölva Helgason, en þeir kynntust í Túngötu 7, meðan Geðhjálp stóð fyrir starfi þar og svo voru þeir mikið saman á Vin á Hverfisgötu. Garðar Sölvi bauð Helga gjarnan í mat á föstudögum og sagði Helga gera sér greiða með því að mæta. Það þótti Helga skrítið en málið var nefnilega það að vinur hans hefði alls ekki eldað nema Helgi kæmi. Hvern föstudag sagði Helgi honum frá því sem hann hefði lesið í vikunni. Þeir fóru saman í ferðalag til Þýskalands og Bretlands og í báðum löndum talaði hann reiprennandi tungu heimamanna. Hann kunni einnig eitthvað í írsku og hrafl í rússnesku. Garðar segir Helga hafa verið besta mann sem hann hafi kynnst.
Ég man Helga frá bernsku minni á Ísafirði. Við vorum á sama tíma í Tónlistarskóla bæjarins. Hann lék á fiðlu og okkur nemendum fannst hann algjör snillingur. Við vorum saman í tónfræði, hann hefur þá verið 15/16 ára og ég 10/11 ára. Ragnar H. þrumaði yfir okkur tónfræðiheiti á ítölsku eða latínu. Helgi hélt áfram og þótti efnilegur en ég lagði frá mér bæði blokkflautu og fiðlu.
Ég man einnig foreldra hans, Katrínu og Júlíus eða Júlla, sem kenndur var við Neista, raftækjaverslun og verkstæði. Glaðsinna maður sem féll frá fyrir aldur fram. Þá man ég einnig eftir að hafa komið á verkstæðið hjá Helga Þorbergs, föðurafa Helga í Mjallargötunni. Þar kenndi margra grasa, skrúfur og íhlutir í öllum skúffum og kirnum og kallinn góðlegur við okkur krakkana eða púkana eins og við vorum gjarnan nefnd fyrir vestan.
Ég var beðinn um að færa starfsfólki á heimilinu Vin, þakkir fyrir allt það góða sem þar fer fram í þeirri bráðnauðsynlegu miðstöð, sem líf margra geðfatlaðra hverfist um, á Hverfisgötunni í Miðborginni. Þar eiga margir skjól og njóta samvista til að efla hugann og stæla andlegan þrótt og sækja sér gleði og hleðslu fyrir sálina með örvandi samskiptum í góðum og gefandi félagsskap. Sem betur fer var því forðað að Vin yrði lokað.
Hvað er geðveiki? Er snilli, mikil snilli, eða ofursnilli, geðveiki? Telst snilli ekki til gáfna? Og er orðið gáfa ekki komið af orðinu gjöf? Hvers vegna hafa slíkar stórar gáfur sínar dökku hliðar? Eru þess konar gáfur ekki sérstakir hæfileikar, ríkir hæfileikar? Teljast ekki margir svonefndir kvillar sem greinast á títtnefndu rófi til hæfileika? Öll erum við einhvers staðar á rófi, hægt er að raða okkur á einhvern stað í rófinu. Við þekkjum orðið stafróf. Fyrsti stafurinn í nafni þínu er einhvers staðar á því rófi. Litróf er annað hugtak og okkur má einnig raða á því rófi eftir háralit, augnlit, blæ húðlitar og fleiru. Við erum öll á einhverju rófi og svo erum við öll með geð og hvar er hægt að koma okkur fyrir á geðrófinu?
Mikilli snilli fylgir oft mikil þjáning. Snillingarnir eru eins og hátt fjall sem af fellur langur skuggi. Hæsta fjall heims, Everest, varpar meiri og stærri skugga en Esjan, þó myndarleg sé. Kaupstaðurinn Ísafjörður stendur á eyrinni í Skutulsfirði “í faðmi fjalla blárra.” Hinn stóri faðmur fjallanna varpar svo miklum skugga á bæinn, að vetri til, að þar sér ekki til sólar í þrjá mánuði.
“Sitt er hvort gæfa eða gjörvileikur”, segir í fornu máltæki sem merkir, að gæfa eða heppni annars vegar og hæfileiki eða styrkleiki hins vegar, fari sjaldan saman.
Nú er það ekki mitt að greina geðveiki, en í huga minn koma frásagnir Nýja testamentisins af fólki, sem átti í miklu hugarangri eða var haldið illum öndum, eins og það var kallað, sem róaðist og fann jafnvægi eftir að hafa mætt Jesú Kristi. Án efa hafði hann jákvæð áhrif á sjúka á sinni tíð og margir fengu bót meina sinna af þeim andlega krafti sem af honum stafaði. Bænin er vanmetin auðlind hjá mörgum. Bænin vinnur kraftaverk alla daga, hún getur róað okkur og styrkt, sama hvar á geðrófinu við erum hverju sinni.
Við Helgi ólumst upp á Ísafirði sem var einskonar smækkuð mynd af stórborg. Þar bjuggu allir saman, háir sem lágir, heilbrigðir og veikir, skrítnir og minna skrítnir, mjög gáfaðir og öðruvísi gáfaðir, geðveikir og minna geðveikir, allt fólk á einhvers konar rófi, þessu rófinu eða hinu, enda erum við öll skyld, við erum öll sömu ættar, eins og segir í Hinni helgu bók.
Miklar framfarir hafa átt sér stað í geðlækningum á liðnum áratugum. Ég man ráðaleysið í þeim málum þegar ég var barn, þegar fólk í geðrofi var lokað inni í herbergi í skúrunum á bak við gamla Elliheimilið á Ísafirði. Ég man eftir því að við krakkarnir á aldrinum 8-10 ára vorum að sumarkvöldi að leika okkur fyrir utan gluggann á þessu skelfilega herbergi og þar var kona sem vildi ræða við okkur í gegnum rifu á gluggunum sem voru varðir með rimlum. Við heyrðum líka um mann sem sagður var geymdur í búri á sveitabæ í næsta dal. Svona var nú ráðaleysið á þeim tímum. En svo voru líka í bænum þroskaheftir einstaklingar. Sumir þeirra stunduðu vinnu og tóku þátt í samfélaginu eins og aðrir. Aðgreiningin í samtímanum er kannski ekki svo góð eins og gjarnan er haldið, þegar börnum með sérþarfir er skipað í sérstök hólf og aðgreind frá meginmenginu.
Kona sagði frá því í útvarpi í gær að hún væri með hænu í svefnherberginu. Ástæðan er sú að hænan varð fyrir slysi og sauma þurfti sár á hálsi hennar. Þar með varð hænan minnimáttar í hópnum og konan varð að bjarga henni frá hinum hænunum og koma henni í skjól svo þær gogguðu ekki úr henni líftóruna. Dýrin ráðast gjarnan á minnimáttar. Við erum dýrategund – en við höfum eitt sem dýrin hafa ekki og það er siðvit. Og svo bætast ofan á siðvitið gáfur, sem gera okkur kleift að snúa uppá siðvitið, bjaga það og sveigja það til eftir okkar synduga, breyska eðli. Já, lífið er ekki einföld íþrótt! Orðið synd er komið af orðinu sundur og vísar til þess að missa marks, geiga í lífinu, ná ekki að lifa því á fullkominn hátt. Og þarna erum við öll eins inn við beinið, á sama rófinu og þörfnumst miskunnar og fyrirgefningar Guðs.
Við erum hér saman komin til að heiðra minningu Helga Júlíussonar og þakka fyrir lífið hans, sem eins og við vitum var ekki eintómur dans á rósum. Hann átti sínar góðu hliðar enda í erfðavísum hans margt gott og fagurt. Hann gekk sinn veg sem einkenndist af þrautum og þjáningum vegna skuggans sem fjallið hans varpaði á veginn. Hann naut þjónustu af ýmsu tagi af hálfu samfélagsins og það létti honum lífið. Þá gladdi hann marga með brosi sínu, gamansemi og gáfum. Hans er saknað og hér falla tár vegna þess sem hefði getað orðið en rættist ekki, því heilsan leyfði það ekki. En líf hans var fagurt og merkilegt á sinn hátt, gleymum því aldrei. Við grátum og söknum þess sem við elskum. Gráturinn er bróðir kærleikans.
Líf án mótlætis er ekkert líf. Þú málar ekki mynd með hvítri málningu einni saman. Ef engir skuggar eru í myndinni verður hún ekki að neinu. En svo er hitt, að dimmu litirnir taki ekki yfir allt léreft lífsins. Best er lífið þegar það er í senn sætt og súrt, þegar meðbyr og mótbyr takast á og fleyta okkur áfram á hafi lífsins.
Við þökkum fyrir líf Helga og felum hann þeim Guði sem alla elskar og allir eiga skjól hjá. Himinninn er tilvera sem við skiljum ekki því þar verðum við víst laus við lífsins sorgir og kvilla. Hvað bíður okkar að lífi loknu? spurði útvarpsmaður gamla og vitra biskupinn, Sigurbjörn Einarsson, fyrir mörgum árum. Og hann svaraði: Ég get ekki sagt þér hvað bíður okkar, en ég veit – Hver bíður okkar!
Skáldin hjálpa okkur að sjá út fyrir rammann, birta okkur það sem hugurinn einn getur ímyndað sér á sínu flugi í öðrum víddum. Skáldskapurinn sér hið stóra samhengi, sér út fyrir heima og geima, sér handanveruna, sér það sem kristin trú hefur ætíð boðað, að til sé lausn frá böli og þjáningu þessa heims. Lífið er skáldskapur, skáldskapur sem segir sannleikann.
Við felum Helga Júlíusson himni Guðs í trú, von og kærleika. Guð blessi minningu góðs drengs, sem hlotið hefur hvíld að loknu dagsverki sínu. Guð geymi hann og megi hann varðveita okkur sem enn erum á lífsveginum og gefa okkur náð til að lifa í kærleika til hvers annars, til lífsins og til Guðs sem er uppspretta ljóssins og hinnar dýpstu elsku.
Amen.
You must be logged in to post a comment.