


Guðspjallstexti:
„Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“Matt. 20.28
Hún Maríanna Elísa Franzdóttir mundi tímana tvenna. Árin sem hún lifði á 20. öldinni voru viðburðarík, einkum æskuárin. Hún fæddist 18. júní 1927 í Weimar í Þýskalandi. Faðir hennar var Franz Ludwig Metzner, dr. jur. ritstjóri í Essen (1895-1970) og Marianne Metzner (1901-1998), dóttir Viktors Moser, læknis í Weimar og Marianne Moser f. Mirus. Eftir grunnskólanám gekk hún í Menntaskóla, Oberschule für Mädchen, Weimar 1944-45. Hún lauk námi við hjúkrunarkvennaskóla Sophienhaus, Weimar 1948. Þá tók við eitt ár í þjálfun. Hún hóf störf sem hjúkrunarfræðingur hjá Þýska rauða krossinum, Deutches Rotes Kreuz, 2. maí 1949 til 31. mars 1951. Þá hjá Allgemeines Krankenhaus, Hamburg-Bergedorf 1955-1958 en þá kom hún til Íslands til starfa á Elliheimilinu Grund, 2. okt. 1958 og vann þar fram til marsmánaðar 1961. Þá fór hún lengra vestur um haf til starfa á The Bronx Hospital í New York frá mars 1961 til júní 1962, svo á Boulevard Hospital í NY október 1962 til maí 1963 er hún kom til baka til Íslands og hóf störf á öldrunardeild Landspítalans í Hátúni 10B frá nóvember 1975 eftir að hafa verið heima meðan Helga óx úr grasi og vann þar til desember 1996 og síðan á Landakoti frá janúar 1997 til desember 2000 eftir að öldrunardeildin í Hátúni sameinaðist Landakoti.
Eftir að hún kom til Íslands 1958 fór hún á námskeið í íslensku í Miðbæjarskólanum og þar var ungur kennari sem var í afleysingu og þau kynntust og komust að því að þau voru nágrannar, hún á Blómvallagötu og hann á Ljósvallagötu. Þau gengu saman til og frá skólanum sem leiddi til þess að þau felldu hugi saman. Maríanna Elísa og Stefán Már Ingólfsson, gengu í hjónaband 16. júní 1963. Stefán Már var menntaður með BA gráðu í tungumálum, lengst af kennari við Verzlunarskóla Íslands. Stefán Már var fæddur 16. febrúar 1932, sonur Ingólfs Jónssonar, innheimtumanns í Reykjavík og Marenar Böðvarsdóttur. Hann lést 2021.
Dóttir þeirra er Helga María, f. 2. maí 1964, sem starfar hjá Íslandspósti, áður Pósti og síma. Eiginkona hennar er Edda Levy, f. 9. mars 1947, fv. hjúkrunarritari sem starfaði einnig lengi í Danmörku. Synir þeirra eru tvíburarnir, Stefán Már Levy Helguson og Ástvaldur Þór Levy Helguson fæddir 22. júlí 2008.
Maríanna var mér sem móðir, segir Edda, tengdadóttir hennar, og bætir við að hún hafi sýnt sér og öðru fólki nær og fjær mikla elskusemi og velvild alla tíð.
Ég man Maríönnu Elísu frá árunum 15 sem ég þjónaði við Neskirkju. Hún kom oft til messu og tók þátt í dagskrá fyrir eldri borgara á vegum safnaðarins. Ég man brosið hennar og skær augun er hún heilsaði kurteislega. Ég komst að því að hún væri gift Stefáni Má, sem kenndi mér þýsku í Verzló og hún skilaði stundum kveðju frá honum og til baka frá mér, en í Verzló var lögð rík áhersla á tungumál, sem þóttu mikilvægust í viðskiptum við Evrópu – dönsku, ensku og þýsku. Stefán var þolinmóður kennari og skipti aldrei skapi enda þótt áhugi nemenda og athygli væri ekki ætíð í hæstum hæðum.
Maríanna kom til starfa hér á landi og nýtti krafta sína og gáfur í þágu sjúkra. Hún var alla tíð mikill Þjóðverji í sér, stolt af uppruna sínum og ætterni. Hún lifði tímana tvenna, var 12 ára er Hitler hóf Fyrri heimsstyrjöldina með innrásinni í Pólland. Árin eftir það þekkjum við af sögunni, ár átaka og mikilla hörmunga fyrir Þjóðverja og alla Evrópu og í reynd heiminn allan enda stríðið nefnt Heimsstyrjöldin síðari.
Merkilegt hvernig álfan okkar engdist og þjáðist á liðinni öld vegna vondra hugmyndafræðilegra stefna sem tókust á og kostuðu tugi milljónir manna lífið.
Maríanna var í námi síðasta ár stríðsins og vann svo við hjúkrun í Þýskalandi til 1955. Með ótrúlegum dugnaði komst þýska þjóðin upp úr niðurlægingu sinni og reis upp til forystu í Evrópu í því mikla samstarfi þjóðanna, sem við köllum Evrópusambandið, og varð til uppúr viðleitni þjóðanna til að vinna saman á sviði viðskipta og menningar.
Ég nefndi hugmyndafræðastrauma sem settu Evrópu á annan endann á liðinni öld. Annars vegar var um að ræða nazismann sem byggði í raun á heiðnum hugmyndumHá um vald og yfirburði hinna sterku og kúgun hinna veiku, djöfullegar hugmyndir um lífið og heiminn og svo kommúnismann sem var í raun og er afsprengi kristninnar, einkum boðskap Jesú kristallast í réttlæti til handa kúguðum.
Kommúnisminn tók þessa hugmyndafræði, varpaði Guði og Kristi fyrir borð, og æddi áfram í ofsa sínum, þar sem menn töldu sig geta tekið réttlætið sjálft og efstan dóm í eigin hendur og með handafli og ofbeldi komið á veraldlegu sæluríki. Þegar menn ætla að boða eilíf gildi Guðsríkisins með bjögun og bölvun, með handafli og ofbeldi, er óhjákvæmilegt að allt fari fjandans til. Rússarnir náðu hluta Þýskalands í stríðinu og tóku m.a. hús fjölskyldu Maríönnu Elísu.
Framangreinda túlkun mína á helstefnunum tveimur byggi ég á kenningum eftir, Tom Holland, sagnfræðing og rithöfund, frá Bretlandi, sem ræddi þessi mál nýlega er hann hélt fyrirlestur fyrir fullu húsi fræðimanna í Rúmeníu og gerði grein fyrir því hvernig hann ólst upp hjá kristinni móður í ensku biskupakirkjunni en guðlausum föður, missti trúna sem ungur maður, en fann hana aftur með rannsóknum sínum á áhrifum kristninnar á heiminn.
Kjarninn í fyrirlestri hans er, að allt hið besta sem við njótum á Vesturlöndum, er úr kristni komið. Þess vegna streyma flóttamenn til Evrópu, hinnar kristnu álfu.
Unga kynslóðin mætti gjarnan átta sig betur á mikilvægi kristinnar trúar fyrir heiminn og reyndar sum hin fullorðnu líka hverra lífslampar virðast nú gefa frá sér þverrandi birtu.
Nóg um heimsmálin og trúardeyfð í bili!
Maríanna var lífsreynd og góð manneskja. Edda þakkar fyrir allar Þýskalandsferðirnar sem þær Helga fóru með henni í mörg sumur. Mikil hlýja og væntumþykja var milli Maríönnu og Helgu og töluðust þær nær daglega við eða hittust alla tíð.
Maríanna og Stefán bjuggu lengi vel á Hagamel 18 og svo Kaplaskjólsvegi 27 og 55 og undir það síðasta bjó hún í Sóleyjarrima í Grafarvogi.
Bróðir Maríönnu, Günter Metzner, f. 1938, lifir systur sína. Hann býr í Duisburg og hefur starfað sem enskukennari og aðstoðarskólastjóri. Hann kom oft til Íslands í gegnum árin, ferðaðist mikið um landið og bjó þá hjá systur sinni. Mikill kærleikur var á milli þeirra en því miður getur hann ekki kvatt systur sína hér í dag.
Hún kynntist stríðinu og fór svo til New York og fannst borgin yndisleg og frelsið sem þar ríkti í samanburði við erfiðleikana í kjölfar stríðsins í Evrópu. Hún vissi hvað hjálparstarf var mikilvægt og hún lét verk sín tala í þeim málum. Hún rétti öðrum hálparhönd og sá til þess að lagt væri inn reglulegt framlag frá henni til hjálparstarfs. Hún styrkti til að mynda tvö börn í Bolivíu til margra ára, dreng og stúlku.
Árlega bauð hún þýskum vinkonum heim til sín í eggjalitun, ávallt laugardaginn fyrir páska í u.þ.b. 60 ár og síðast nú í ár heima hjá Helgu og Eddu og aldrei bar þar skugga á þessar samkomur. Húsið stóð opið og þær komu er áttu heimangengt hverju sinni. Og auðvitað snerust þessar samkomur ekki bara um eggjalitun heldur líka kaffi og spjall. Svo heltist úr hópnum eftir því sem árunum fjölgaði en þær eru ennþá að. Mikilvægt var það henni og vinkonum hennar að halda í hefðir og sýna hver annarri ræktarsemi. Nokkrar þeirra fylgja vinkonu sinni til hinstu hvílu hér í dag og heiðra minningu hennar.
Hún hélt ætíð uppá afmæli Stefáns Más til að geta boðið fólki heim en lét það nú vera að fagna eigin afmæli með veisluhöldum. Þannig sýndi hún í verki að hún lifið til að þjóna og gefa af sér. Þannig innti hún af hendi sína guðsþjónustu í daglegu lífi eins og margir hafa gert og gera enn, bæði konur og karlar. Reyndar finnst mér sú hugsun fara dvínandi að fólk eigi að þjóna lífinu. Alltof margir vilja bara fá ávextina af lífinu en finnst orðið að þjóna niðurlægjandi og því er búið að breyta sögninni að þjóna með því að taka nafnorð og gera úr því sögnina að þjónusta sem ég, Nota Bene, nota aldrei í máli mínu, enda finnst mér sögnin sú vera hálfgert skrípi í máli voru. Enginn þarf að skammast sín fyrir það að vera þjónn og þjóna náunga sínum og lífinu sjálfu. Þar er Kristur okkar æðsta fyrirmynd.
Þau hjónin, Maríanna og Stefán, voru góðum hæfileikum gædd og nutu lífsins saman og töluðu ætíð þýsku heima. Hún hafði yndi af klassískri tónlist og þar voru óperur Verdis ofarlega á vinsældalistanum. Sálmarnir sem sungnir eru hér í dag yfir henni, valdi hún til flutnings yfir moldum Stefáns Más og því eru þeir flestir fluttir hér aftur í dag. Við breyttum Ave Maríu Schuberts í Ave Maríu Kaldalóns en hún hélt mjög uppá þá síðarnefndu og svo skiptum við út einum sálmi og settum inn, þýska sálminn, Nun ruhen alle Wälder, Nú fjöll og byggðir blunda, eftir Paul Gerhardt 1647 í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, úr Sb. 1886. Lagið er eftir Heinrich Isaac sem var tónskáld frá Niðurlöndum um 1495. Þessi sálmur hefur verið og er sunginn yfir moldum margra Þjóðverja um aldir.
Þegar hún og fjölskyldan heimsóttu Þýskaland var ætíð farið í óperuhús. Móðir hennar, Marianne, náði háum aldri og var tæplega 97 ára en hún lést 1998.
Maríanna hélt í þýskar hefðir allt sitt líf. Hún var mótuð af dúpri og sterkri menningu sinnar menntuðu þjóðar. Kristin gildi voru henni í blóð borin. Hún var trúuð og íhugaði það á unglingsaldri að ganga í klaustur. Hún sótti reglulega kirkju hér á landi. Neskirkja varð hennar trúarlega heimili. Þar sótti hún helgihald og félagsstarf undir stjórn prestanna, söng í Neskórnum um árabil og vann með frænku minni Hrefnu Tynes til margra ára í safnaðarstarfi. Séra Frank M. Halldórsson, sóknarprestur var í miklu uppáhaldi hjá henni og hann heimsótti hana oft á efri árum og fylgir henni til grafar í dag. Hún fylgdist ætíð vel með öllu í þjóðfélaginu, las Morgunblaðið og vildi alla ævi vita hvað var að gerast í því þjóðfélagi sem hún lifði í.
Og nú hefur þessi mæta kona lokið lífsstarfi sínu og köllun. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 27. júní s.l. eftir viðburðaríka ævi þar sem hún fékk að reyna upphefð og hrun sinnar eigin þjóðar og upprisu úr ösku styrjaldar og velmegun Evrópu eftir að skuldir stríðsins voru greiddar fyrir dugnað hennar eigin þjóðar og með stuðningi Bandamanna. Ísland varð hennar heimili stóran hluta ævi hennar og hér leið henni vel.
Við þurfum öll að læra að meta auðinn sem fólginn er í því fólki sem hingað kemur og nemur land með menntun sína, hæfileika og vilja til að leggja lífinu lið í landinu. Útlendingar af öllum þjóðum sem hingað koma með ólíkan húðlit og menntun eru auðlind sem eigi má vanmeta. Tökum vel á móti því fólki sem vill setjast að í landi okkar. Í aðfaraorðum tillögu Stjórnlagaráðs, að nýrri stjórnarskrá frá 2011, segir m.a.:
“Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.”
Við kveðjum Maríönnu Elísu Franzdóttur og þökkum fyrir líf hennar og þjónustu við land og þjóð, elskusemi hennar og allt hið góða sem prýddi sál hennar.
Hin fagra, þýska kveðja, Auf wiedersehen, hljómar hér yfir henni, enda ber kveðjan í sér von um endurfundi og þannig rímar hún einmitt við upprisutrú kristninnar.
Blessuð sé minning Maríönnu Elísu Franzdóttur og Guð blessi þig sem hér kveður og leiði þig um lífsveginn í trú, von og kærleika.
Auf wiedersehen!
Amen.
You must be logged in to post a comment.