Erkibiskupinn af Kantaraborg opnar sig

Örn Bárður Jónsson, þýddi grein úr The Times, sem birtist laugardaginn 8. apríl 2023, aðfangadag páska og las þýðingu sína inn á upptöku samdægurs, sem hægt er að hlust á hér fyrir neðan og tekur lesturinn 5 mínútur og 38 sekúndur.

Erkibiskupinn af Kantaraborg hefur sagt að það að taka lyf gegn þunglyndi hafi hjálpa sér að finnast hann „vera venjuleg manneskja“, og komið honum aftur „í stöðu Eyrnaslapa og úr annarri mun verri stöðu“. [Hér vitnar hann í sögurnar af Bangsímon].

Justyn Welby, erkibiskup af Kantaraborg,
sem ég hitti í Dómkirkjunni í Reykjavík
er hann kom til Íslands árið 2013.
Erkibiskupinn er æðsti maður hinnar Anglíkönsku kirkju (Church of England) og systurkirkna hennar víða um heim.

Erkibiskup Justin Welby hefur áður sagt frá því að hafa tekið lyf við þunglyndi og sagði messugestum í vikunni að lyfjanotkun hans leiki mikilvægt hlutverk í að stjórna líðan hans.

Í þriðja fyrirlestri sínum af þrem í Dómkirkjunni í Kantaraborg við upphaf kyrruviku [2023], ræddi hann þrjú þemu, bjartsýni, örvæntingu og von, og vitnaði í Eyrnaslapa, asnann dapra en geðþekka í sögunni Bangsímon eftir A.A. Milnes og útsýrði:

„Ég tek lyf við þunglyndi. Þau virka vel. Þau lyfta mér upp í stöðu Eyrnaslapa, úr enn verri stöðu. Eins og geðlæknirinn segir sem annast mig, er markmiðið ekki að ég leggist flatur, heldur að stilla mig nægjanlega af, þannig að mér líði eins og almennt gengur og gerist. Ég finn til depurðar þegar allt virðist dapurt og er hamingjusamur þegar allt virðist í lagi o.s.frv.“

Í fyrsta fyrirlestri sínum, sagði hann að persónur Milnesar gefi hjálplega leiðsögn við að skilja ólíka persónuleika – frá Tíguri, hinu síhoppandi og gjósandi tígrisdýri, til dapra asnans, Eyrnaslapa.

„Sum okkar eru Tígurar, sum Eyrnaslapar,“ sagði Welby sem er 67 ára. „Líklega eru sum okkar margar aðrar persónur í Bangsímonsögunum.“

„Rowan Williams [fv. erkibiskup af Kantaraborg] sagði eitt sinn við mig: „Eiginlega eru varla til þær mannlegu kringumstæður sem túlkunarfræði Bangsímons ná ekki að tala inn í.“ Aðeins Rowan gat sagt slíkt og verið í senn gamansamur og djúpur.““

Aðalpersónur sögunnar um Bangsímon.

Í öðrum fyrirlestri sínum, sagði Welby að „örvænting væri djúp, mannelg tilfinning“ og varaði við því að „samféleg án Guðs væri samfélag þar sem örvænting gæti reynst eina leiðin fram veginn“.

Hann hélt því fram að guðleysi fæli í sér „hugrakka heimspeki“, sem gæti á endanum reynst einskonar dýfa sem sumt fólk þurfi að reyna áður en það finni styrk í „einhverju handan“ þess sjálfs.

Erkibiskupinn sagði:

„Lífssýn án Guðs getur samt gert fólki mögulegt að reynast vel í kærleika, miskunn og réttlæti.

Þau geta eftir sem áður lifað í kærleika hvert með öðru. En slík heimspekileg sýn, því það að vera guðleysingi er hugrökk tegund heimspeki . . . gerir sjálfdæmið [autonomy] að átrúnaðargoði, og öll skurðgoð bregðast okkur.

Ekkert okkar er í raun sjálfráða [autonomous]. . . Við erum öll öðrum háð.“

Welby bætti við: „Það er einmitt á þeim stundum þegar við eru án allra valkosta að við vörpum okkur skilyrðislaust . . . á miskunn og náð Guðs. Og þá finnum við að valkostir eru til.“

Í bréfi sínu í vikunni ritaði Welby til æðstu leiðtoga annarra kirkjudeilda og sagði m.a.:

„Á yfirstandandi tímum . . . getur það reynst auðvelt að finna til tómleika vegna atburða og að líta stöðugt niður í svörð.

Yfirstandandi ár hefur verið ár mikillar þjáningar, sorgar, óvissu og ótta meðal fjölda fólks um heim allan. Í þessu landi hefur fjöldi fólks þurft að þrauka og þjást vegna dýrtíðar í daglegu lífi.

Víða um heim, þjást milljónir vegna stríðsátaka.“

Þegar við höldum páska, bætti hann við: „Er það vissulega hlutverk kristins fólks að halda áfram að minna stöðugt á dögun vonarinnar, hinn upprisna Jesú.


Welby: Antidepressants make me human.

The Times, Kay Burgess – Religious Correspondent

Tengill á greinina:

https://epaper.thetimes.co.uk/app/THETIM/editionguid/99d5b4bf-47d5-4497-94ef-bd6049889cc6?state=f7803531-6b49-4ecc-a80e-4029481b57da&userid=AAAA064860026

Handritin og hálendið

Áður en þessi dagur, 21. apríl 2021, hverfur í tímans haf, þegar við höfum fagnað því sem þjóð að við fengum handritin afhent fyrir 50 árum, langar mig að rifja upp grein er ég skrifaði fyrir tæpum 19 árum og birtist í Morgunblaðinu 22. október 2002 undir yfirskriftinni: „Handritin og hálendið“.

Þar velti ég fyrir mér verðmætum þeim sem fólgin eru í því sem þessi tvö hugtök vísa til. Þau orð eiga enn erindi við okkur þegar landið er boðið til sölu á einn eða annan hátt. Myndum við selja handritin hæstbjóðanda?

Greinina er hægt að lesa á bak við þennan tengil:

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/694353/

Má hefta tjáningarfrelsi, var rétt að loka á Trump?

Enurskoðuð grein að hluta til sem áður birtist í Kjarnanum 16. janúar 2021.

Tjáningarfresli ætti að vera öllum heilagt sem búa í lýðræðislegu þjóðfélagi og reyndar hvar sem er. Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins og farsæls lífs á jörðinni.

En eru einhver mörk á því hvað fólk getur sagt á opinberum vettvangi?

Vissulega er það mjög umdeilanlegt að samfélagsmiðlarnir Twitter og Facebook hafi sett hömlur á tjáningu Trumps forseta. Sumir hafa fagnað þeirri ákvörðun meðan aðrir harma hana.

Tjáningarfrelsi felur það í sér að mér er heimilt að tjá mig um hvað sem er og með þeim hætti sem ég kýs, en ég verð jafnframt að standa og falla með því sem ég segi hverju sinni. Að hefta mann sem er í senn vinsæll og líka afar óvinsæll, kosinn nýlega af 70 milljónum Bandaríkjamanna, þó ekki nægði til sigurs, er mjög alvarleg gjörð. Nú er ég enginn aðdáandi Trumps, finnst hann fyrirlitlegur á margan hátt, en hann á þó sinn rétt til tjáningar eins og ég og þú. Tilfinningar mínar eru eitt en skoðanir og rökhusun mega þó ekki lúta valdi þeirra. Hvað munu þær milljónir manna gera á næstu vikum og mánuðum sem telja að kosningunum hafi verið stolið af Trump?

Fengi að láni af Vefnum

Hver hefur vald til að þagga niður í öðrum? Enginn hefur í raun það vald, en samt er því valdi beitt.

Lesa meira

HINN „RÓTTÆKI“ JESÚS

HINN „RÓTTÆKI“ JESÚS

„Af sjónarhóli hinna vinnandi stétta horfir það svo við að Kristur hafi tekið sér bólfestu hjá kirkjunni og hinum borgaralegu öflum.“

Sá Jesús sem birtist í guðspjöllunum var hvorki íhaldssamur miðstéttarmaður né pólitískur róttæklingur. Han slóst hvorki í för með Saddúkeum né Selótum. Jesús ruddi braut fyrir annan skapandi valmöguleika. Hann gerði Guðs ríki að kjarna alls er hann gerði, og hafnaði þeim mannasetningum sem setja fram guðhræðslu, sem ekki frelsar fólk frá synd, vonleysi og félagslegri útskúfun. Eitt er algjörlega á hreinu: Jesús tilheyrir ekki kirkjunni fyrst og síðast, heldur heiminum, og vissulega ekki þeim sem hafa allt, heldur þeim sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu.“

TIL ÍHUGUNAR:

Jesús tilheyrir ekki hinni stofananlegu trúrækni, heldur þeim sem leita hans vegna þess að þeir þarfnast hans.

Hinn „róttæki“ Jesús
Mynd af Vefnum

Úr bókinni:

Charles Ringma

Grip dagen med Dietrich Bonhoeffer

Verbum 1992

Bæn 12. janúar

I Korintubréf 1,26-28

26 Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. 27 En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. 28 Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum.

Úr Biblíu 21. aldar (2007)

Dietrich Bonhoeffer var þýskur guðfræðingur sem Nazistar tóku af lífi rétt fyrir stríðslok. „Glæpur“ hans var að mótmæla og taka þátt í undirbúningi að tilræði við Hitler.

Upphafsorðin eru eftir Bonhoeffer, hugvekjan eftir Ringma

Þýðandi: Örn Bárður Jónsson 12. janúar 2021