Borgin Lviv í Úkraínu og kaldhæðni örlaganna

Greinin er eftir blaðakonuna, Maren Kvamme Hagen, og birtist á vef NRK (Norska ríkisútvarpsins) og er hér endursögð og lesin inn af Erni Bárði Jónssyni með leyfi höfundar og birt á vefsíðu hans ornbardur.com.

Borgin Lviv

Rússar réðust einmitt á þessa borg, sunnudaginn 13. mars 2022. Í grein á vef NRK, norska ríkisútvarpsins, er rætt hvers vegna borgin búi yfir vissri ógn fyrir rustann í Rússlandi.

Lesa meira

Með þöggun fölsum við söguna

Örn Bárður Jónsson spyr hvort við þurfum ekki að horfast í augum við menningu okkar og sögu og gangast við hvoru tveggja?

Þú getur lesið textann hér fyrir neðan eða hlustað á hlóðupptöku með höfundi – eða gert hvort tveggja, lesið og hlustað!

Hana dreymdi draum. Hún var bara stelpa með fána og blöðru og tók þátt í hátíð­ar­höldum 17. júní. Allir voru í góðu skapi, margir fánar blöktu, í sölu­básum feng­ust pylsur og sæl­gæti. Það var sung­ið, haldnar voru ræð­ur, en eng­inn sagði hvers vegna dag­ur­inn væri hald­inn hátíð­leg­ur, hvorki í ræðum né í fréttum Rúv, hvorki í útvarpi né sjón­varpi. Og draum­ur­inn hélt áfram og nú var allt í einu runn­inn upp annar dagur sem heitir Hall­oween. Stelpan var í svörtum bún­ingi með upp­mjóan svartan hatt og sveif á milli húsa þar sem sæt­indi voru í boði. Dásam­legt ævin­týri. En hún hafði ekki hug­mynd um hvað þessi dagur merkti eða hvaðan hann var kom­inn en hafði hug­boð um að þetta væri amer­ískur barna­dag­ur. En eng­inn gat svarað henni, eng­inn vissi merk­ingu þess­ara daga.

Lesa meira

Hjallur Kitta-ljúfs á Ísafirði

Eitt merkasta og eftirminnilegasta hús bernsku minnar á Ísafirði var Hjallur Kristjáns Gíslasonar (1887-1963) sem kallaður var Kitti ljúfur. Hann var ljúfmenni og eini fullorðni maðurinn í hverfinu sem gaf sig að okkur börnum svo nokkru næmi og var vinur okkar, talaði við okkur með sínum skemmtilega hætti, notaði sérkennilegt orðfæri og gaf fólki nöfn og gantaðist við alla. Þar með er ekki gert lítið úr öðru fólki í hverfinu sem var upp til hópa sómafólk og elskulegt og samskiptin við þau hin bestu, en Kristján skar sig úr.

Ég kom oft í heimsókn til hans í Hjallinn og fékk harðfiskstrengsli í laun ef ég gerði viðvik fyrir hann. Hann vildi ekki að ég berði fiskinn á stóra steininum með sleggjunni hans, heldur átti ég að borða hann óbarinn: „Það er svo gott fyrir tennurnar, ljúfurinn“ sagði hann.

Ég var nýfermdur þegar hann lést og hefði svo gjarnan viljað þekkja hann framundir tvítugt því þá hefði ég munað meir um hann og skilið hann betur.

Hann og Margrét Jóhanna Magnúsdóttir (1899-1979) bjuggu í Sólgötunni eins og mín fjölskylda og eignuðust 8 börn. Vinskapur var með móður minni og dætrum þeirra. Ég er skyldur Margréti í föðurætt mína.

Seinna varð ég svo prestur og varð þess heiðurs aðnjótandi að þjóna við útför fimm af börnum þeirra hjóna.

En hér kemur teikning af Hjallinum:

Hjallur Kitta ljúfs

Myndina teiknaði ég fríhendis í gær, sunnudaginn 6. mars 2022, eftir svart/hvítri ljósmynd Kristjáns Leóssonar. Tvíburasynir hans eru báðir á myndinni, Leó heitinn og Kristján Pétur, en hinn síðarnefndi komst einn inn á teikninguna. Að baki honum er óþekktur karl.

Lesa meira

Hugtakaruglingur

Í fréttum Rúv 15.2.2022 var rætt við sérfrótt fólk um mikla hækkun íbúðarverðs, einkum sérbýlis.

Í fréttinni var ítrekað rætt um sérbýli og fjölbýli og ég varð hálf ringlaður. Hvað er sérbýli og af hverju talaði enginn um einbýli? Og hvenær breytist fjöldi sérbýla í fjölbýli?

Og eru þá ekki allar íbúðir í fjölbýli sérbýli?

Ég fór í orðabók Árnastofnunar og þar sá ég það sem birtist á myndinni sem fylgir þessum þönkum.

Sérbýli er skv. orðabókinni íbúð sem er ætluð fyrir einstakling eða eina fjölskyldu. Hún er ekki bara það sama og einbýlishús, heldur er sérbýli mun víðtækar orð en einbýlishús og hið síðastnefnda hlýtur þá um leið að teljast sérbýli.

Því þykir mér bankafólk og vaxtavitringar, fréttamenn og álitsgjafar, sem tjá sig um þetta, ekki nota viðtekin hugtök á íslensku með réttum hætti.

Ef ég skil orðabókina rétt er sérbýli t.d. íbúð í blokk eða það sem einnig er kallað einbýli eða einbýlishús. Sérbýli hlýtur þá að vera t.d. raðhús eða parhús eða íbúð í fjölbýli, litlu eða stóru, t.d. hæð í þríbýli, íbúð í blokk og íbúð hvar sem er sé hún ætluð einum íbúa eða einni fjölskyldu.

Og þar með eru langflestar íbúðir á landinu sérbýli. Hér áður fyrr var talað um íbúðir, raðhús og einbýlishús en nú er e.t.v. farið að flækja þetta um of.

Hugtakaruglingur gefur til kynna að hugsunin sé óskýr. Tölum rétt og skilgreinum rétt.

Orðabókin er ekki að rugla neitt. Hún er með þetta á hreinu.

Máttur skáldskapar og menningar

Um Verbúðina. Hugleiðing um spillingu, sem gegnsýrir þjóðfélag okkar og hvernig menningin með skáldskapinn að vopni afhjúpar lygar og spillingu og birtir sannleikann eins og sólin skær á himni og vekur nýjar vonir um betri tíð.

Merkilegt hvernig menning og listir túlka veruleikann á annan hátt en allar aðrar greinar mannlegrar tjáningar. Þess vegna getum við ekki lifað án listar og menningar.

Lesa meira

Viðtengingarháttur og tíðir

Í fréttinni á bak við tengilinn neðanmáls segir frá því að ætla megi að viðtengingarháttur sé að hverfa úr málinu. Í prófi sem lagt var fyrir ungmenni voru 2 valkostir, annar með viðtengingarhætti en hinn ekki. Börnin völdu flest síðari valkostinn

En einn augljós galli var á könnuninni. Fyrri setningin í báðum tilfellum er ekki með réttri tíð.

Spurt var:

  1. Það er grillveisla hjá Siggu um helgina. Ég vona að Jón verði þar.
  2. Það er grillveisla hjá Siggu um helgina. Ég vona að Jón verður þar.

Hefði ekki veri réttara að spyrja: Það verður grillveisla hjá Siggu um helgina?

Hvers vegna er sögnin höfði í nútíð um atburð sem mun eiga sér stað í framtíð?

Ég skal viðurkenna að stundum spyr ég einmitt á sama hátt, nota nútíð í stað framtíðar, en er þó að reyna að leiðrétta slíkt í tjáningu minni. Mikilvægt er að við ræktum með okkur blæbrigði tungumálsins, gefum tjáningu okkar gaum og æfum okkur í meferð orða í háttum og tíðum.

Ég mun sakna viðtenginarháttarins en ég hef um leið áhyggjur af því að þátíð og framtíð séu einnig í hættu. Allt of margt sem sagt er gerist í núinu, þátíð vantar oft í setningar og framtíðin ekki til lengur til í tjáningu allt of margra.

Hér er tengill á umrædda frétt sem sögð var á Stöð 2 – 29. janúar 2022:

https://www.visir.is/g/20222215039d/vid-tengingar-hattur-i-ut-rymingar-haettu

Að blóta

Heldur þykir mér þeim hafi skriplast á skötu almannatenglum Goða og Kjarnafæðis þar sem þeir hafa látið fúkyrðin ganga yfir þjóðina dögum saman í auglýsingum sínum um þorramat.

Myndin var fengin að láni á vefnum.

Blót er skv. orðabók Árnastofnunar: „1.trúarathöfn til heiðurs guðum í heiðnum sið“. Merking 2 er hins vegar útskýrð svo: „ljótt orðbragð, bölv“.

Fólk fagnaði þorra forðum daga og það var hvorki gert með bölvi né ragni heldur lotningu gagnvart goðum og guðum, náttúruöflum og hinu stóra samhengi alls sem er.

Auglýsendur og stórnendur fyrirtækja þurfa að vera næmir fyri menningu og sögu, siðum og venjum og gæta sín á nálægðarmörkum gagnvart fólki. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“, segir í ljóði Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar. Þeir eiga að vita að blót og bölv er tvennt ólíkt.

Svonefnd þorrablót urðu algeng á liðinni öld og endurvakin af veitingahúsi í Reykjavík, sem vinur minn og kollega, séra Halldór heitinn Gröndal, stýrði á sínum tíma, áður en hann lauk guðfræðiprófi og fór að deila út brauði og víni í kirkjunni. Veitingahúsið Naust var vinsælt og þótti eitt það fínasta í landinum um árabil.

Þorrablótin voru endurvakin um land allt. Ég man þegar afi minn fór með sitt trog á þorrablót eða þorragleði í Gúttó á Ísafirði uppúr miðri síðustu öld og naut þar þjóðlegra rétta, hlustaði á harmonikkuspil og fékk sér snúning. Þetta voru góðar og þjóðlegar skemmtanir en lausar við bölv og ragn, blótsyrði og djöfulgang, nema einn og einn gestur færi kannski framúr sjálfum sér og öðrum hófsamari í dálæti á snöfsum og yrði sér til skammar.

Nú hafa fyrrnefnd fyrirtæki orið sér til skammar og gengið fram af mörgum landanum.

Ég sendi báðum fyrirtækjunum tölvupóst og fékk svar um að þeir hafi „verið að leika sér með tungumálið“ en hafi nú ákveðið að eftirleiðis verði sett „bíp“ yfir bölvið, breitt verði yfir ósómann og skömmina. Það er kannski fyrsta skref í átt til iðrunar og eftirsjár sem leiðir til þess að sekir biðji fólk að fyrirgefa sér eins og bréfritarinn bað mig. Honum verður þar að ósk sinni hvað mig varðar.

En mér finnst fyrirtækin bæði tvö og fjölmiðlar einnig – og þar með Ríkisútvarpið – sem er allra landsamanna, þurfi að biðja þjóðina afsökunar á að hafa útvarpað blótsyrðum dögum saman með orðfæri andskotans yfir landsmenn, nú þegar sólin er blessunarlega loksins farin að lyfta sér í hænufetum upp himinhvolfið og við farin að vona fyrir endann á kófinu, ætlandi okkur að þreyja bæði þorrann og góuna.

Gleðilegan þorra!

Saga af sundi og hjólreiðum – og blautum manni að austanverðu

 

Mynd af jóladagatali fengin að láni af Vefnum!

Ég vara þig við því þetta er montfærsla á samfélagsmiðli.

Í dag hjólaði ég úr Miðbæ Reykjavíkur, vestur í Sundlaug Seltjarnarness. Synti þar skriðsund og gerði æfingar, fór í heitan nuddpott og gufubað, sem er reyndar annað en Sauna – Nota Bene!

Lesa meira

Handritin og hálendið

Áður en þessi dagur, 21. apríl 2021, hverfur í tímans haf, þegar við höfum fagnað því sem þjóð að við fengum handritin afhent fyrir 50 árum, langar mig að rifja upp grein er ég skrifaði fyrir tæpum 19 árum og birtist í Morgunblaðinu 22. október 2002 undir yfirskriftinni: „Handritin og hálendið“.

Þar velti ég fyrir mér verðmætum þeim sem fólgin eru í því sem þessi tvö hugtök vísa til. Þau orð eiga enn erindi við okkur þegar landið er boðið til sölu á einn eða annan hátt. Myndum við selja handritin hæstbjóðanda?

Greinina er hægt að lesa á bak við þennan tengil:

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/694353/