Sæstrengur til Suðurnesja!

Íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd vilja ekki loftlínu í gegnum Vogana og rafstrengsmálin þ.a.l. í algjörum hnút því Landsnet vill ekki fara með hana í jörð. Innviðaráðherra tjáði sig í tíufréttum Sjónvarpsins 3. janúar 2023 og sagði brýnt að finna lausn í deilunni.

Ég legg til að höggvið verði á Gordíonshnútinn með því að leggja sæstreng til Suðurnesja.

Þar með verður landi ekki raskað í Hvassahrauni, á Strandaheiði og víðar. Um leið verður komist hjá því að taka áhættu vegna eldgosa og hraunrennslis sem kynni að skaða bæði loft- og jarðstrengi í bráð og lengd.

Kostnaður kann að verða meiri en sjónmengun verður forðað og miklu jarðraski líka.

Og svo lýkur þar með 20 ára deilu um málið.

Er þetta ekki lausnin?

Hugtakaruglingur

Í fréttum Rúv 15.2.2022 var rætt við sérfrótt fólk um mikla hækkun íbúðarverðs, einkum sérbýlis.

Í fréttinni var ítrekað rætt um sérbýli og fjölbýli og ég varð hálf ringlaður. Hvað er sérbýli og af hverju talaði enginn um einbýli? Og hvenær breytist fjöldi sérbýla í fjölbýli?

Og eru þá ekki allar íbúðir í fjölbýli sérbýli?

Ég fór í orðabók Árnastofnunar og þar sá ég það sem birtist á myndinni sem fylgir þessum þönkum.

Sérbýli er skv. orðabókinni íbúð sem er ætluð fyrir einstakling eða eina fjölskyldu. Hún er ekki bara það sama og einbýlishús, heldur er sérbýli mun víðtækar orð en einbýlishús og hið síðastnefnda hlýtur þá um leið að teljast sérbýli.

Því þykir mér bankafólk og vaxtavitringar, fréttamenn og álitsgjafar, sem tjá sig um þetta, ekki nota viðtekin hugtök á íslensku með réttum hætti.

Ef ég skil orðabókina rétt er sérbýli t.d. íbúð í blokk eða það sem einnig er kallað einbýli eða einbýlishús. Sérbýli hlýtur þá að vera t.d. raðhús eða parhús eða íbúð í fjölbýli, litlu eða stóru, t.d. hæð í þríbýli, íbúð í blokk og íbúð hvar sem er sé hún ætluð einum íbúa eða einni fjölskyldu.

Og þar með eru langflestar íbúðir á landinu sérbýli. Hér áður fyrr var talað um íbúðir, raðhús og einbýlishús en nú er e.t.v. farið að flækja þetta um of.

Hugtakaruglingur gefur til kynna að hugsunin sé óskýr. Tölum rétt og skilgreinum rétt.

Orðabókin er ekki að rugla neitt. Hún er með þetta á hreinu.

Máttur skáldskapar og menningar

Um Verbúðina. Hugleiðing um spillingu, sem gegnsýrir þjóðfélag okkar og hvernig menningin með skáldskapinn að vopni afhjúpar lygar og spillingu og birtir sannleikann eins og sólin skær á himni og vekur nýjar vonir um betri tíð.

Merkilegt hvernig menning og listir túlka veruleikann á annan hátt en allar aðrar greinar mannlegrar tjáningar. Þess vegna getum við ekki lifað án listar og menningar.

Lesa meira

Um kveðjustundir, menningu, trú og réttlæti

Örn Bárður Jónsson

Uppstigningardagur 21. maí 2020 prédikun við útvarpsmessu í Breiðholtskirkju kl. 11 sem átti að vera á Grund en var flutt vegna Covid-19.

Ræðan er hér ef þú vilt hlusta:

Hér er tengill á upptökuna af allri messunni. Ræðan hefst á mínútu 20:30:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/gudsthjonusta/24228/7hi3dn

Þessi þjónuðu við guðsþjónustuna þar sem saman komu um 50 manns sem er hámark þar til í næstu viku en þá mega 200 koma saman!
Séra Magnús Björn Björnsson þjónar fyrir altari.
Séra Örn Bárður Jónsson, fyrrverandi sóknarprestur predikar.
Lesarar: Kristín Kristjánsdóttir, djákni í Fella- og Hólakirkju, Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni Biskupsstofu og Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni, framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.
Organisti og stjórnandi: Örn Magnússon.
Kór Breiðholtskirkju syngur.

Hljóðupptöku finnur þú á vef RUV, Rás 1, 21. maí 2020 kl. 11 en getur lesið ræðuna hér fyrir neðan. Hún er auðvitað áhrifameiri með hljóði!

Komið þið sæl og blessuð.

Ég var spurður um það á þorranum, að mig minnir, hvort ég væri tilbúinn að prédika við þessa guðsþjónustu. Ég var hikandi í fyrstu, enda kominn á úreldingarlista eins og gamall ryðgaður togari, kominn á eftirlaun, en lét þó til leiðast. Ég hef varla prédikað á íslensku í 5 ár enda starfaði ég og prédikaði yfir norskum söfnuðum, skírði, fermdi, gifti og jarðsöng Norðmenn og varð að tala bæði nýnorsku og svonefnd bókmál. Og nú er ég hér í dag sem fyrrverandi sóknarprestur, einskonar ellismellur, en það orð er notað um gamalt lag sem kannski var einu sinni vinsælt.

Lesa meira

Grænver – grænt í gegn!

Heyrst hefur að Rio Tinto hyggist loka álverinu í Straumsvík.

Ekki græt ég álver sem hættir stafsemi.

En hvað á þá að gera við þetta stóra ver, allar byggingarnar, sem eru gríðarlegt ílát?

Ég sé fyrir mér risavaxið fyrirtæki sem sér okkur fyrir grænmeti árið um kring. Hugsið ykkur þessi stóru hús sem breyta mætti í gróðurhús með því að skipta út bárujárni og setja í staðinn gler eða plast.

Ekki vantar raforkuna til að knýja grænverið og hugsið ykkur þegar túristarnir aka inn í höfuðborgina úr Keflavík og sjá græniðjuna gróa við veginn, knúna raforku úr fallvötnum og sólarorku.

Við þekkjum það vel að tómatarnir sem framleiddir eru hér á landi með þessari orku og hreinu vatni eru bragðmeiri en nokkrir aðrir sem vaxa í útlöndum. Sama má segja um kálið, salatið og allt. Ég fæ vatn í munninn! Ummmmm!

Hættum að selja orkuna á útsölu til auðhringja sem reka eiturspúandi stóriðju og snúum okkur að uppbyggingu innlendrar græniðju, iðju sem er græn í gegn.

Myndin er fengin að láni af Internetinu

Sviðakjammar ræða stóru málin

Nú fer tískuorð sem eldur í sinu í munni íslenskra sérfræðinga innan ólíkra fræðigreina. Orðið er „sviðsmynd“.

Ég heyrði það fyrst notað á dögunum í nýju samhengi af eldfjallafræðingi í viðtali í fjölmiðli. Hann sá fyrir sér aðstæður í framtíðinni og kallaði þær sviðsmynd eða sviðsmyndir ef miklar breytingar voru í spákortum.

Líklega er um að ræða þýðingu á enska orðasambandinu „worst-case scenario“ þegar búist er við verstu hugsanlegu aðstæðum. Orðið í umræddri merkingu er því mest notað í spámannatali þegar reynt er að ráða í framtíðina. Ætli við megum ekki kalla menn, sem hvað mest spá í sviðsmyndir af þessu tagi,  áhættustjórnendur. Flott orð það sem kemst varla fyrir á venjulegu nafnspjaldi í greiðslukortastærð.

Í hádegisfréttum RÚV, 25. mars, voru fluttar miklar sviðafréttir úr Seðlabankanum. Þar töluðu sviðatungur fjálglega um hugsanlegar aðstæður í framtíðinni, sviðsmyndir. Engar aðstæður, bara sviðsmyndir.

Stjórnmálamenn hafa líka tekið orðið upp í sig á liðnum vikum og nú tala þeir hver um annan þveran eins og sviðakjammar í stuði á sjálfum þorranum. 

Hingað til hefur dugað að tala um aðstæður eða verstu hugsanlegu aðstæður og það skilja allir og hafa skilið um aldir, jafnvel algjörir sviðakjammar.

Sviðsmynd vísar, eins og orðið ber með sér, til leikhúss þar sem leikmyndahönnuðir starfa. Þeir búa til sviðsmyndir.

„Veröldin öll er leikhús“, sagði enska stórskáldið Spjararskekill. Við erum víst öll í hlutverkum á ýmsum sviðum í henni veröld þar sem við tjáum okkur um margt og sumir nú á þessum síðustu og verstu tímum eins og sviðakjammar.

Af hjónabandi Kristínar og Fáfnis – Dæmisaga

Kristín gekk í það heilaga árið 1907.

Fáfnir átti nánast ekkert nema brækurnar sem hann stóð í, en hún var rík af fasteignum og jörðum, hlunnindum og ítökum, vítt og breytt um landið.

Hún lagði þetta allt inn í búið en fékk auðvitað greitt fyrir útgjöld vegna rekstur heimilisins.

Fáfnir tók að sér að hafa umsýslu með eignunum en freistaðist til að braska með þær, seldi sumar jarðir kunningjum og vinum fyrir lágt verð. Lesa meira

Í lausu lofti – hrunið er ekki búið!

Í lausu lofti - hrunið er ekki búið!

Reyndur hagfræðingur sagði við mig að hrunið væri ekki atburður sem bæri búinn heldur ferli sem enn stæði yfir. Hann vitnaði í teiknimyndir þegar menn hlaupa fram af bjargbrún og spóla í lausu lofti. Svo kemur skellurinn. Við erum nú í þessu lausa lofti, sagði hann. Skelfilegt ef rétt reynist!

Sama viðfangsefnið í 5000 ár!

DirkBezemerAfar merkilegt viðtal við hagfræðing sem nýtur mikillar virðingar sökum hæfileika sinna og innsæis.

Í Silfri Egils sunnudaginn 14. apríl 2013 var rætt við Dirk Bezemer á Skype. Hann talar afar skýrt mál og skilmerkilegt um efnahgasvanda Íslendinga. Viðtalið er á meðfylgjandi slóð og hefst á 38. mínútu og stendur í ca. 14. mínútur.

Silfur Egils – Dirk Bezemer