+Ragnhildur Jónsdóttir 1953-2023

Bálför frá Neskirkju föstudaginn 12. maí 2023 kl. 13

Minningarorðin, texti og hljóðupptaka hér fyrir neðan:

+Ragnhildur Jónsdóttir

1. lestur:

Ég hef augu mín til fjallanna – Sl. 121

2. lestur:

25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. 26 En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. 27 Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. 28 Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ Mt. 20.25-28

Minningarorðin

„Ég hef augu mín til fjallanna“.

Um aldir hefur fólk horft upp, ofar og hærra, horft í von til fjarskans og leitað svara, horft til þess sem er ofar öllu, hærra en allar hæðir, ofar fjöllunum yfir Ísafirði sem ramma inn Eyrina í Skutulsfirði, hærra en Alparnir, Kilimanjaro og Everest, hærra en allt.

Hvað er handan alls sem er?

Ragnhildur fæddist í Faðmi fjalla blárra og fjöllin urðu leikvöllur hennar alla ævi, Stórurðin og Seljalandsdalurinn, brekkur í Noregi og fleiri löndum. Snjór og fjöll, brekkur og brautir, urðu henni áskorun. Fátt gaf henni sterkari frelsistilfinningu og ánægju en að svífa niður hlíðar í púðursnjó í vetrarsól og koma í mark í maraþonhlaupi eða skíðagöngu.

Ragnhildur fæddist á Ísafirði 28. desember 1953.

Foreldrar hennar voru Jón Karl Sigurðsson (1932-2019) og Steingerður Gunnarsdóttir f. 1936 sem lifir dóttur sína og kveður hana hér í dag.

Árið 1953 var Eisenhower forseti Bandaríkjanna, Churchill stýrði Bretum, Ólafur Thors var forsætisráðherra hér á landi og Ásgeir Ásgeirsson forseti sem kom með Dóru sinni í opinbera heimsókn til Ísafjarðar meðan Ragnhildur var enn í móðurkviði.

Svo kom vetur og sólin hvarf en undir árslok skinu augu frumburðar ungu hjónanna sem skærar stjörnur á vetrarhimni.

Agga eins og hún var oftast kölluð var elst systkina sinna sem ólust upp við rætur Stórurðar, á Hlíðarveginum, á Ísafirði.

Þau eru:

Gunnar Þorsteinn f. 1955,

Sigurður Hjálmar f. 1959, d. 1996,

og

Þórdís f. 1966.

Bernskan var ljúf enda Ísafjörður ævintýraheimur fyrir börn. Æskuárin flugu burt með sínum merku prófum sem tekin voru í leikjum dagsins í samskiptum við Hlíðavergspúka og aðra sem bjuggu hærra í Hlíðinni eða neðar á Eyrinni. Líklega tókum við, sem hér kveðjum, mörg mikilvægustu prófgráður á leikskólaaldri, í sandkössum lífsins og klifurgrindum, sem aldrei fengu öryggisvottun enda orðið ekki til þá. Svo komu árin fram að tekt sem vísar til þess að vera tekinn til altaris í fysta sinn í fermingunni.

Í henni bjó ævintýraþrá og útrás eins og t.d. þegar hún og Veiga vinkona voru á 18. ári og fannst þær ættu ekki að búa lengur heima hjá mömmu og pabba. Þær gripu til sinna ráða, söfnuðu timbri og fluttu á sendibíl Jóns Karls upp á Dal, þar sem þær fundu skjólgóða laut og byggðu kofa sem þær gistu í með hléum í 2 ár. Bæjarstjórnin komst á snoðir um þessar byggingarframkvæmdir og mætti á staðinn undir forystu Guðmundar Sveinssonar og leit yfir bygginguna og gaf svo leyfi, kannski ekki með þinglýstum skjölum en í það minnsta með brosi á vör – sem svo var staðfest á fundi bæjarstjórnar!

Lífið var yndislegt þá og í reynd alla tíð og hennar beið ævintýri með háum og spengilegum Ísfirðingi, íþróttagarpi og skíðamanni, Ingvari Einarssyni (f. 1948).

Örlagaríkustu árin voru líklega fyrir okkur flest milli tektar og tvítugs. Hún var tæplega tuttugu og eins árs þegar hún, 16. nóvember 1974, gekk í hjónaband með Ingvari, á fæðingardegi skáldsins góða sem síðar varð að degi íslenskrar tungu, skáldsins sem orti ljóð og bað að heilsa stúlkunni sem var eins og engill með „húfu og rauðan skúf, í peysu.“ Agga vakti ávallt eftirtekt sökum fegurðar og reisnar.

Foreldrar Ingvars voru Einar B. Ingvarsson (f. 26. júlí 1920, d. 17. maí 1993) og Herdís E. Jónsdóttir (f. 5. júní 1924, d. 4. janúar 2020).

Börn Ragnhildar og Ingvars eru:

1) Steingerður f. 1974, eiginmaður

Einar Sverrir Sigurðarson f. 1973.

Börn:

Daníel Freyr f. 1994,

Elísabet Líf f. 1999,

Ingvar Sverrir f. 2005 og

Halldór Sverrir f. 2013.

2) Einar Bergur f. 1983, eiginkona Kristrún Frostadóttir f. 1988.

Börn:

María Herdís f. 2019 og

Ragnhildur Steinunn f. 2023.

Dóttir Ingvars og Ásgerðar Halldórsdóttur (f. 1950) er Guðbjörg Kristín f. 1969, eiginmaður hennar er Karl Jóhann Jóhannsson f. 1967.

Börn:

Ásgerður Diljá f. 1997,

Karlotta Kara f. 2003 og

Ingibjörg Æsa f. 2012.

Ragnhildur ólst upp á Ísafirði. Að loknu grunnskólaprófi hóf hún nám við Kennaraskóla Íslands og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1974. Hún stundaði nám við HÍ einn vetur í tækniteiknun. Veturinn 1986-1987 fór hún síðan til Þýskalands og lauk þar alþjóðlegu námi í, „Photogrammetrie-Operateure“.

Ragnhildur og Ingvar hófu sambúð í Reykjavík árið 1973.

Eftir nám í HÍ starfaði hún sem tækniteiknari hjá skipasmíðastöðinni Stálvík í tæpt ár.

Sumarið 1975 fluttu þau síðan til Geilo í Noregi og bjuggu þar í 1 ár og stunduðu skíðaíþróttina af krafti, fluttu aftur heim til Íslands og hún hóf störf hjá Forverk h.f. við að teikna kort eftir loftmyndum. Þetta varð svo helsta viðfangsefni hennar, fyrst hjá Forverki og síðan í mörg ár hjá verkfræðistofunni Hnit og í framhaldi af því hjá Samsýn ehf. þar til hún hætti er hún varð 65 ára.

Ragnhildur var menntaður skíðakennari og skíðaþjálfari frá Noregi. Árið 1980 stofna þau hjónin ásamt Sigurði bróður Ragnhildar og Friðjóni bróður Ingvars, Skíðaskóla Sigurðar H. Jónssonar, sem starfaði af krafti í nokkur ár. Eftir að því ævintýri lauk héldu Agga og Ingvar áfram að kenna á skíðum í mörg ár. Voru með skíðakennaranámskeið í mörgum framhaldsskólum víða um land ásamt því að vera með námskeið fyrir verðandi íþróttakennara í greininni.

Aðaláhugamál Ragnhildar voru íþróttir og útivist. Hún tók þátt í mörgum marþonhlaupum víða, byrjaði í New York.

Hún tók þátt í Vasa skíðagöngunni tvisvar. Keppti oft á bernskuslóðum í Fossavatnsgöngunni. Gekk í fjölda ára á Hornströndum með góðum vinum. Hjólaði í mörg sumur langar ferðir með manni sínum í Ölpunum.

Ég spurði Ingvar og börn þeirra: Hver var hún Ragnhildur? Hvað einkenndi hana? Svörin létu ekki á sér standa. Hún var alltaf hrein og bein, aldrei að þykjast, kom til dyranna eins og hún var klædd, alltaf ánægð að sjá fólk sem hún hitti og meinti það innilega. Hún hringdi gjarnan í börnin og barnabörnin, spurði um hagi þeirra, námið og íþróttirnar af einlælgum áhuga. Hún stóð ætíð með sínu fólki, skammaðist aldrei en kenndi börnum sínum með óbeinum hætti, reglusemi, góðar venjur, að standa með sjálfum sér, gera það sem gera þarf strax og bera virðingu fyrir lífinu.

Hún sýndi væntumþykju sína í verki með fórnfýsi og í anda sinnar kynslóðar sem ólst upp við að vinna og vera öðrum til stuðnings, vera til þjónustu eins og nýkrýndur kóngur var ítrekað minntur á í krýningarmessunni í Westminster í liðinni viku að hann væri kallaður til að þjóna öllum.

Hún geislaði ætíð af vinsemd, hafði fagra nærveru, brosið var blítt og ekta. Hún var ekki yfirdrifin á neinn hátt, nema þá sem kappsfull íþróttakona, sem gaf sig alla í brekkum og á hlaupabrautum heimsins.

Hún var snillingur í höndunum, prjónaði kynstrin öll af fögrum hlutum, listræn í hugsun og með ríkt fegurðarskyn. Hana langaði ætíð að læra innanhússarkitektúr.

Hún var elst systkina sinna og þótti afar vænt um þau. Foreldrar og eftirlifandi systkini Ragnhildar bjuggu og búa í Noregi. Undanfarin 40 ár voru ferðalög til Noregs fastir liðir ár hvert hjá Öggu, Ingvari og börnum þeirra. Samverustundir með fjölskyldu sinni í Noregi, á skíðum að vetri, útivist og sjósund að sumrin, voru henni mjög kærar.

Ég vissi ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn að ung og glæsileg stúlka á fermingaraldri úr Sólgötunni ók mér á fyrsta ári um nágrennið í barnavagni árið 1950. Það var hún Steingerður, móðir Öggu.

Okkur hefur flestum verið ekið um í vögnum sem værum við konungborin. Já, við erum öll í rauninni konungborin. Hvað sagði ekki rauðklæddi drengurinn, Samuel Strachan, sem ávarpaði kónginn í kirkjunni við krýningu hans s.l. laugardag:

„Yðar hátign, sem börn Guðsríkisins [NB!] bjóðum við þig velkominn í nafni Konungs konunganna.“

Hvað merkir þetta ávarp? Hann var kominn í nafni Krists til að minna kónginn á hvaðan allt er komið, lífið sjálft og valdið sem hverju og einu okkar er fengið í hendur.

Lífið allt á sér einn uppruna, veröldin öll, þessi agnarlitla jörð og hinn ógnarstóri geimur, allt er það komið úr því undri sem vísindin kalla Miklahvell, en sem skáldið sem ritaði sköpunarsöguna á fyrstu síðu hinnar helgu bókar, orðaði það með því að segja:

Þá sagði Guð: „Verði ljós.“
Og það varð ljós.

Hann gat aðeins talað með orðfæri skáldskaparins sem er forsenda allra vísinda í heiminum, allt til þessa dags og hann hitti naglann svo sannarlega á höfuðið með sannleikanum um upphaf alls hins skapaða.

Ljósið er forsenda alls lífs og því fagna Ísfirðingar komu sólar hvert ár 25. janúar þegar sólin hefur náð niður í Sólgötuna sem er nú bara 100 metra löng. Ég fer reglulega í sund og mæli ferðir mínar í Sólgötum og hjóla eftir sama mælikvarða.

Lífið er langhlaup. Hún Agga hljóp margar Sólgötur um ævina. Hún hljóp maraþon í mörgum borgum, t.d. kvennahlaup í NY ásamt Kristrúnu tengdadóttur sinni. Hún hljóp Laugaveginn í hávaðaroki og rigningu og kom í markið með reisn.

Ragnhildur naut þess að hlaupa. Síðasta maraþonið hennar var í München, sem lauk með því að hlaupa tvo hringi á leikvanginum fræga. Á áhorfendapöllunum beið, Ingvar, aðal stuðningsmaður hennar og æðsti aðdáandi, með tár á vöngum þegar hún kom í mark, stoltur yfir lífsförunaut sínum.

Og nú er hún öll og við kveðjum hana eins og skáldið Jónas sem grét í fjarska það sem hann missti og saknaði

Hvernig getur svona lagað gerst hjá manneskju sem lifði heilbrigðu lífi alla tíð og steig ekki feilspor um ævina? Við höfum engin svör og stöndum spyrjandi frammi fyrir örlögum hennar sem við þekktum og kveðjum með sorg í hjarta.

Síðustu ár voru henni erfið þegar minnið fór þverrandi og öll færni skertist. Ingvar stóð sem klettur með henni í öllu og fjölkskyldan öll. Guðs blessun fylgi þeim sem gerðu allt sem í þeirra valdi var. Undir lokin gat hún ekki lengur verið heima og fékk inni á hjúkrunarheimili þar sem hún dvaldi í 6 vikur en svo hófst ótrúleg atburðarrás og flókin sem lauk með andláti hennar.

Þessi fíngerða og fagra manneskja, með sinn stælta og þjálfaða líkama, varð að lúta í lægra haldi í atburðarrás sem erfitt er að skilja og sætta sig við. Minni og færni voru skert og enginn vissi framtíð hennar enda er sú tíð okkur ávallt hulin. Samkvæmt fornum fræðum skiptist tíminn og er kenndur við þrjár persónur í goðafræðinni. „Örlaganornirnar þrjár [. . .] Urður, Verðandi og Skuld. Urður er norn fortíðar og elst af þeim öllum. Nafn hennar merkir „það sem orðið er“. Verðandi, „hin líðandi stund“, er norn nútímans og Skuld, „það sem skal gerast“ (samstofna sögninni „að skulu“), [hún] er norn framtíðar.“ (Vísindavefurinn)

Framtíðin er eins og skylda eða skuld sem togar okkur áfram og stundum þangað sem við viljum ekki fara en verður samt að láta yfir okkur ganga.

Hvaða spil drógum við í happdrætti erfðavísanna, eða í lífshlaupinu? Við stöndum á hverju andartaki frammi fyrir vali og prófum á lífsveginum, verkefni eru lögð fyrir okkur og þrautir til að sigrast á og svo getum við ennfremur lent í aðstæðum sem við ráðum ekki við sjálf eins og samfélagið þekkir af fréttum um slys og hörmungar sem fólk lendir í. Heilbrigðiskerfið er undir miklu álagi. Mannekla og fjárskortur er þar til staðar á öllum stigum. Lífið er langhlaup með byltum og brotum.

Konungborið fólk í gylltum vögnum, börn í barnavögnum og kerrum. Við erum öll á einum og sama lífsvegi og einu samhengi, bæði undan brekkunni og líka þegar brautin reynist grýtt og brött.

Og hvert er samhengið? Við erum sömu ættar, eigum sama uppruna, erum börn eilífðarinnar, börn Guðs og njótum sömu þjónustu og kóngar og drottningar. Frammi fyrir altari Guðs og í dauðanum erum við jöfn.

Við krýningu nýs konungs Breta varð mér ljóst að hann var krýndur í messu, í guðsþjónustu og það sama á við um skírð börn og fermd, þau eru krýnd með sama hætti, og einnig hjón sem vinna heit sín við altarið og þau sem við kveðjum í kirkju í samhengi eilífðarinnar þar sem tárvot augu Krists, hins upprisna sigurvegara í lífshlaupinu stærsta, horfa í elsku og finna til með syrgjandi ástvinum. Við erum öll jöfn í augum hinnar hreinu elsku og réttlætis, frammi fyrir Kristi sem sagði: „Vertu trú/r allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“

Kórónan í þessu versi, sem haft hefur verið yfir fermingarbörnum um aldir, er á grísku stephanos eða stefán sem merkir sigursveigur, laufkóróna eins og lárviðarskáld voru krýnd með forðum og við þekkjum af myndum af styttum úr sögu Rómaveldis. Sigursveigur, lífsins kóróna!

Sálmaskáldið í Gamla testamentinu spurði:

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?“

…og svaraði sjálfu sér:

„Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.“

Við kveðjum Ragnhildi Jónsdóttur, með sorg í hjarta, en um leið í von og trú og í nafni Hans sem kom „til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

Guðs blessun fylgi Ragnhildi og minningu hennar og Guð blessi einnig þig og okkur öll sem enn erum á lífsveginum.

Og munum:

Lífið er langhlaup

– langhlaup með skini og skúrum!

Amen

Ein athugasemd við “+Ragnhildur Jónsdóttir 1953-2023

  1. Einstaklega falleg ræða eins og þér einum er lagið og gott að hlusta á hana. Kærar þakkir með kveðju frá Kristjönu

    P.s. Vildi gjarna fá þig sem prest næst þegar dauðsfall verður í fjsk. En engin veit hver fer næst. Vonandi eftir aldri samt, mamma er 93 ára í Seljahlíð og ég veit hún kann vel við þig.

    Sent frá Pósturhttps://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=550986 fyrir Windows

Færðu inn athugasemd við kristjana johannsdottir Hætta við svar

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.