Frá-faraldur í kvikmyndahúsum

Ég er áhugamaður um íslenska tungu og tjáningu og verð að viðurkenna að ég get stundum orðið dálítið smámunasamur þegar ég heyri ambögur í málinu og bókstaflegar þýðingar eins og t.d. þær sem eru orðnar að kæk hjá kvikmyndahúsum landsins eða þeim sem annast innflutning og/eða kynningu á myndum.

Þar á bæ eru allar myndir „frá“ einhverjum leikstjóra en ekki t.d. „eftir“ hann eða hana. Hvernig þætti þér að heyra kynningu á nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar og hún sögð „frá Friðriki Þór“? Eru myndirnar hans ekki „eftir hann“?

Þetta eilífðar „frá“-tal er auðvitað bein þýðing á orðinu „from“ á ensku. Viðvaningar sem fást við þýðingar kunna oft ekki það sem heitir „menningarleg yfirfærsla“ og merkir að tekið er tillit til menningar og staðbundins málfars við þýðingar og þá má alls ekki nota beina orðabókarþýðingu.

Þekkt er grínþýðingin á íslensku yfir á ensku á setningunni: „Hver á þessa bók?“ Í bókstaflegri, orðabókarþýðingu er hún svona: „Hot spring river this book?“

Kæru þýðendur kynningarefnis hjá kvikmyndahúsunum: Hættið nú að tala um að myndir komi „frá“ leikstjórum. Þær eru „í leikstjórn NN“ eða „eftir leikstjórann NN“ eða „úr hans/hennar smiðju“ eða „verk leikstjórans NN“ o.s.frv.

Ég er ekki „frá“ því að allt sé betra í þessu samhengi en orðið „frá“!

P.S. á vindblásnum morgni 14. feb. 2020 þegar mesta óveður í manna minnum gengur yfir landið kemur mér í hug ein snilldar þýðing. Um miðja liðna öld varð víðfræg kvikmynd gerð eftir bókinni Gone With the Wind. Hvernig skyldi titill bókar og myndar hafa verið þýddur? Horfin í rokið? Farin með vindinum? Fokin út í veður og vind? Nei, bókin á íslensku heitir Á hverfanda hveli. Þá kunni fólk íslensku og vísar titillinn vel til hverfulleika tímans og lífsins á snilldarlegan og skáldlega hátt.

Nýtt sveitarfélag, nýtt nafn

Sameining sveitarfélag leiðir oftar en ekki til að nýtt nafn er tekið upp á nýju félagi. Mér virðist umræða í tengslum við slíkar breytingar oft byggjast á misskilningi eða að sumt fólk misskilji hvað gerist við nafnabreytingu sveitarfélags. 

Nú stendur fyrir dyrum sameining sveitarfélaga á Austurlandi og komnar eru 62 tillögur að nýju nafni. En hvað merkir það að nýtt nafn verður tekið upp á nýju sveitarfélagi? 

Sveitarfélag er bara rekstrareining, fyrirtæki, sem heldur utan um fjárhag og rekstur sveitarfélags. 

Þegar sveitarfélagið Reykjanesbær var stofnað, hættu hvorki Keflavík né Njarðvík að vera til. Örnefni í landi haldast, en nýtt nafn rekstrarfélags er tekið upp. Fólk á Suðurnesjum heldur áfram að vera Keflvíkingar og Njarðvíkingar en tilheyrir nú sveitarfélaginu, fyrirtækinu, rekstrareiningunni, sem ber heitið Reykjanesbær.

Fyrir austan verða áfram til Seyðfirðingar o.s.frv., hvað svo sem nýja rekstrareiningin verður kölluð. 

Ég legg til nafnið Austurbyggð á nýja félagið.