Dimmar rósir í Noregi

Dimmar rósir

Bók Ólafs Gunnarssonar, Dimmar rósir, kom út hjá JPV útgáfunni árið 2008. Ég las hana þá og líkaði vel. Í vetur kom hún út hjá Bokvennen í norskri þýðingu Kristjáns Breiðfjörð undir nafninu Mørke roser og ég las hana á ný og með enn meiri áhuga og gleði en fyrr. Fennt hafði yfir söguþráðinn í mínu minni en hann lifnaði allur við á góðri norsku.

Ég leyfi mér að fullyrða að Ólafur er einn allra besti núlifandi höfundur Íslendinga enda hefur hann hlotið æðstu bókmenntaverðlaun þjóðar sinnar. Hann hefur skrifað magnaðar bækur sem gjarnan fjalla um hin stóru stef tilverunnar og er óhræddur að taka fyrir tilvistarlegar spurningar sem fáum er gefið á jafn nærfærinn og frjóan hátt.

Í dimmum rósum fjallar Ólafur um líf ungs fólks á tímum mikilla sviptinga í menningarlífi landsins á árunum 1969 til 1971. Glaumbæjarkynslóðin leikur stórt hlutverk í bókinni, unnendur kádiljáka, heildsali, bifvélavirki og fleiri snillingar. Heimsfrægar hljómsveitir vitja landans, Kinks og Led Zeppelin. Á Íslandi finnast einnig frábærir tónlistarmenn sem eiga framtíðina fyrir sér og að minnsta kosti einn þeirra, Guðni trommari í Eik, hefur möguleika á að slá í gegn í útlöndum en örlögin setja strik í reikninginn.

Þetta er dramatísk saga af fjölskyldum og einstaklingum þar sem kærleikur og ást leika stórt hlutverk, frjálsar ástir og frygð, djúpar kenndir, vonir og þrár, svik, undirferli og misnotkun, barátta og brigsl.

Undir niðri snýst bókin um réttlætið, um hefnd og sæmd. Hvernig er hægt að rétta hlut saklauss fórnarlambs?

Bókin minnir um margt á bestu sögur sagnaarfsins okkar þar sem stórir atburðir eiga sér stað og margir koma við sögu. Fléttan er firna góð og endirinn afar dramatískur.

Ólafur er skáld sem skrifað hefur mörg dramatísk verk og þessi fellur að þeim flokki bókmennta. Höfundurinn telst ekki til þess hóps sem semja glæpasögur sem seljast í stórum upplögum. Tíðarandinn hallast mjög af glæpasögum en síður hefðbundnum skálverkum, en ef bókin Dimmar rósir hefði komið úr penna glæpasöguhöfundar og verið auglýst sem slík þá hefði hún án efa selst í margföldu upplagi. Hún slær að mínu mati út marga bestu krimmana sem litið hafa dagsins ljós á liðnum árum.

Þegar ég hitti Norðmenn og segi frá Mørke roser hæli ég bókinni á hvert reipi og útgáfa bókarinnar hér í Austurvegi gefur mér nú tilefni til að rifja upp frumútgáfu hennar og hvetja Íslendinga til að lesa þetta dramatíska verk sem svo sannarlega er gert af meistarans höndum.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.