Erla Þorvaldsdóttir 1931-2014

erlathorvaldsdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Erla Þorvaldsdóttir 

1931-2014

Útför (bálför) frá Háteigskirkju

17. mars 2014 kl. 13 – Jarðsett verður í Görðum á Álftanesi.

Friður Guð sé með ykkur.

Það er gott að syngja, það lyftir andanum og gleður okkur. Gleðin er gjöf Guðs og sá er ríkur sem á hana í hjarta sér. Gleðin hefur áhrif á samferðafólkið, hún kveikir von og bregður birtu á allt og alla. Í árdaga kristninnar þegar fylgjendur Jesú fóru um og boðuðu nýja von og trú þurftu þeir á uppörvun að halda því vegurinn var oft grýttur og torfær. Þá ritaði Páll postuli til trúsystkina sinna í Filippíborg í Grikklandi og sagði:

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4-5)

Og nú er Erla horfin, þessi glaðlynda kona með sitt bjarta bros. Síðustu árin voru henni mótdræg vegna áfalla sem skertu hreyfigetu en gleðin var ávallt til staðar.

Þau voru ung þegar þau kynntust, Erla og Bjarni. Þau hittust á Iðnskóladansæfingu. Hún heillaðist af þessum strák sem lék svo listilega á píanó í hljómsveit með Pétri rakara sem lék á trommur við þriðja mann sem þandi nikkuna. Hljómsveitastrákar heilluðu stúlkur ekki síður þá en nú. Þau hafa átt góða daga. Ég kynntist þeim í Frímúrarahúsinu þar sem þau bjuggu um 16 ára skeið og gegndu starfi húsvarða og einn vetur söng ég með Bjarna og öðrum bræðrum í Frímúrarakórnum. Þau voru vel liðin þar og Erla stundum kölluð „móðir hússins“. Þar er gjarnan sungið til kvenna í lífi bræðra, ljóð eftir Freystein Gunnarsson um móðurina, eiginkonuna og dótturina sem ég mun flétta inn í minningarorðin síðar.

Erla, fæddist að Vesturgötu 51b í Reykjavík 9. nóvember 1931. Hún lést á heimili sínu Hringbraut 50, Reykjavík 10. mars, 2014. Foreldrar hennar voru Þorvaldur R. Helgason, (f. 3. okt. 1893, d. 26. nóv 1974) og Kristín Súsanna Elíasdóttir (f.11. júlí 1896, d. 22. okt 1985). Dengsi faðir hennar var skósmiður og rak verkstæði sitt á Vesturgötunni og mamma var húsmóðir.

Veturbærinn var ævintýraheimur og Reykjavík óx og dafnaði á æskuárum Erlu þegar fólk flutti á mölina og bjó oft þröngt því húsnæðisskortur var mikill í borginni. Erla gekk í Miðbæjarskólann og tók þátt í skátastarfi, stundaði skíði og félagslíf af krafti, sótti starf KFUK með stelpunum og kvöldskóla KFUM&K um tíma. Hún var yngst systkinanna og það er sérstök forréttindastaða eins og alkunna er. Með Erlu er hópurinn allur horfinn.

Systkini Erlu voru Anna Svandís (f.1919), sem dó ung, Helgi (f. 1923), Birgir (f. 1925) og Elías (f.1927).

Þau ólust upp í Vesturbænum og voru strákarnir miklir KR-ingar og því var það djarft af Erlu að koma heim með strák af Bergþórugötunni sem auk þess var Valsari. En honum var vel tekið og þau gegnu í hjónaband 18. nóvember 1950, Erla og Bjarna Gíslason, málarameistari, (f 17. júlí 1929). Foreldrar hans voru Gísli Ingimundarson (f.1897, d. 5. maí 1976) og kona hans Helga Bjarnadóttir (f. 1905, d. 12. júní 1980). Bjarni er listrænn maður og ætlaði sér að læra prentiðn en ekki var auðvelt að komast að í þeirri grein. Honum bauðst að prófa að mála um nokurra mánaða skeið og festist við pensilinn enda góður fagmaður og vandvirkur. Margt húsið og heimilið hefur hann fegrað um ævina og kallað fram bros og gleði fólks eins og Erlu var svo tamt með sinni geislandi framkomu.

Og æskumannsins yndi,

það er við meyjar hlið.

Þá leikur allt í lyndi

og lífið brosir við.

Þá liggja í léttu rúmi

hin löngu og þungu spor,

við hvíslingar í húmi

og hjal um sól og vor.

Börn Erlu og Bjarna eru:
1. Helga Bjarnadóttir, hárgreiðslumeistari (f. 17. mars 1951, d. 24. júní 2009) [Innskot um andlát Helgu á hljóðupptökunni]. Ekkill hennar er Eggert Valur Þorkelsson.

Börn Helgu eru:
Sigríður Margrét Einarsdóttir, hárgreiðslumeistari (13. október 1972). Maki, Einar H. Rögnvaldsson, verkfræðingur. Börn: Fjölnir Þór Einarsson (f. 10. janúar 1996), Einar Örn Steinarsson (f. 25. ágúst 1999), Emilía Ósk Steinarsdóttir (17. febrúar 2003). Einar Geir Einarsson, bílasmiður (f. 20. september 1974). Maki María Ósk Einarsdóttir. Dóttir Einars Rebekka Lind Einarsdóttir (20. júní 2005). Bjarni Þór Einarsson, bílamálari (f. 20. september). Maki: Guðlaug Jóhannsdóttir, leikskólakennari. Börn þeirra: Aron Þór Bjarnason (f. 18. febrúar 2008) og Helga Bjarnadóttir (f. 22. nóvember 2010). Erla Rut Eggertsdóttir, nemi (f.17. júlí 1994), maki Þórir Már Davíðsson.
2. Þórir Bjarnason, bifreiðastjóri (f. 8. júni 1956). Maki Sigrún Gunnlaugsdóttir, matartæknir. Börn Þóris eru:
Ása Lára, nemi (f. 5. júlí 1978) gift Sigurði Hervinssyni, húsasmiði. Börn þeirra: Ólöf Erla (f. 10. desember 2004) og Gabríel Þór (f. 24. desember 2007). Erla Súsanna, kennari (f. 17. febrúar 1982). Maki Freyr Alexandersson, knattspyrnuþjálfari. Börn þeirra eru Alexandra Ósk (f. 17. september 2008) og Embla Marín (f. 7. september 2010). Fanney Ósk, söngkona (f. 25. október 1991), sonur Þórir Jökull (f. 26. mars 2013).
3. Anna Kristín Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur (f. 18. janúar 1964). Maki Carsten Fröslev, kennari. Sonur Önnu er Brynjar Árni Heimisson, tónlistarmaður (f. 29. júní 1986), sonur þeirra er Benjamín Fröslev (f. 9. maí 2006). Synir Carstens eru Mattias, Sebastian og Magnus Fröslev.

Börnin og barnabörnin minnast mömmu og ömmu með þakklæti og sakna faðmlags hennar. Hún var kelin við börnin og knúsaði þau oft og mikið og gaf þeim ómælt af faðmlögum og hlýju. Snerting og faðmlag, bros og hlýja er eitt það mikilvægasta sem börnum er hægt að gefa og síðast en ekki síst bænir og vers eins og Erla gaf þeim er hún beindi huga þeirra til Guðs og hins æðra og stærra samhengis tilverunnar. Á ensku gefur fólk hvert öðru „hug“ en enska orðið er komið úr norrænu og skylt orðini að hugga. Í dag munuð þið taka utan um hvert annað, hugga og styrkja, gráta og sakna með hvert öðru.

Að minnast góðrar móður

er mannsins æðsta dyggð

og andans kærsti óður

um ást og móðurtryggð.

Hjá hennar blíðum barmi

er barnsins hvíld og fró.

Þar hverfa tár á hvarmi

og hjartað fyllist ró.
Erla vann sem ung kona í eldhúsi Landsspítalans. Einnig starfaði hún sem gangavörður í Garðaskóla um árabil. Hvernig var að vera nemandi í skólanum þar sem mamma var gangavörður, spurði ég og Anna Kristín svaraði að bragði: „Það var frábært því mamma var svo vinsæl af krökkunum.“ Í 16 ár starfaði hún í Frímúrarahúsinu í Reykjavík, við ýmis störf. Erla var mikil félagsvera og starfaði mikið í félagsmálum. Hún var hjálpsöm og greiðvikin. Hún var formaður kvenfélags Karlakórs Reykjavíkur í nokkur ár og var mikill drifkraftur á þeim vettvangi. Ferðalög voru henni mikils virði og ferðuðust þau Bjarni um allan heim saman. Þau voru í hinni frægu Baltikaferð með Karlakór Reykjavikur en sú sigling hefur ratað í annála. Þau fóru víða með kórnum og svo samam tvö og í hópum til margra landa, m.a. til Bandaríkjanna, Kanada, Kína og auðvitað oft til Danmerkur að heimsækja Önnu Kristínu og fjölskyldu. Þau fóru lík í sólina á Benidorm og Kanarí og sigldu með skemmtiferðaskipum um höfin blá.

Þau nutu margra góðra stunda, með fjölskyldu og vinum austur í Biskupstungum, í sumarbústaði sínum, Birkihóli. Erla hafði græna fingur eins og sagt er og naut þess að hugsa um gróður heima og í bústaðnum, klippti tré og runna, vann stíga og annað sem gerði staðinn svo fagran sem raun bar vitni en þau seldu bústaðinn eftir að Erla varð fyrir fyrra áfallinu.

Og aftur vitna ég í ljóðið um lífshlaupið:

En sporin liggja lengra,

sjálft lífið byrja þar.

Og þó oss finnist þrengra

og þyngra um gang en var,

þá vísar brosið blíða

á betri vonarlönd.

Og sá á styrk að stríða,

sem styður konuhönd.

Og nú styður Bjarna ekki lengur konuhönd hans blíð. Sjálfur hefur hann stutt Erlu í gegnum tíðina á sinn hátt og verið henni mikill styrkur hin síðari árin. Missir hans er mikill.

Seinustu ár Erlu, bjuggu þau Bjarni á dvalarheimilinu Grund (Litlu Grund) þar sem farið hefur afar vel um þau. Erla var listræn í sér og átti auvelt með að skapa sér og sínum fagurt heimili hvar sem þau bjuggu. Heimilisstörfin vann hún af trúmennsku, eldaði og bakaði af innlifun. „Við erum mikil kökufjölskylda“ heyrði ég soninn segja. Erla var mikill húmoristi og stundum ögn stríðin við Bjarna og börnin bara til að fá líf í umræðuna og bros á vanga.

Erla fékk blóðtappa í heila 1997, daginn sem Birgir bróðir hennar lést og lamaðist hægra megin og missti mál. Hún naut endurhæfingar á Grensásdeildinni og smátt og smátt gengu afleiðingar áfallsins til baka að miklu leyti en svo kom annað áfall síðar sem batt hana við hjólastól s.l. 5 ár.

Og sá sem lengi lifir,

fær líka að reyna flest.

Er dauft og dimmt er yfir,

sjá dóttur augun bezt.

Með henni er hægt um sporin,

þá hvergi byrgir ský,

en æskan endurborin

og ástin kveikt á ný.

Nú nýtur Bjarni stuðnings barna sinna og barnabarna því þau eru „æskan endurborin“.

Margs er að minnast og margs er að sakna.

Ég flyt ykkur kveðjur frá Hlíf Kristjánsdóttur Magnússon í Svíþjóð; Kjartani Kjartanssyni, málara, sem lærði hjá Bjarna og er í útlöndum og frá Svövu Andersen, æskuvinkonu Erlu, sem býr í Bandaríkjunum.

Hér kveður Erlu þakklátur hópur fólks.

Verum glöð yfir lífinu, yfir því að hafa fæðst og fengið að vera til og verum glöð yfir að hafa átt góða samferðakonu. Útför er sorgarathöfn en hún er líka þakkarhátíð þegar best lætur og auðvelt að þakka fyrir gott líf.

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“

„Guð er kærleikur“, segir í hinni helgu bók. Það skiptir öllu að vita það og trúa, því þar með er veröldin í sérstöku samhengi elsku, miskunnar og fyrirgefningar.

Við kveðjum Erlu Þorvaldsóttur með virðingu og þökk.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig.

Amen.

Tilkynna:

Bálför- engin líkfylgd.

Erfi í safnaðarheimili Háteigskirkju.

Ræðan birt á ornbardur.com

Postulleg blessun:

Guð vonarinnar . . . .

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.