Bogey Kristín Dagbjartsdóttir

BogeyÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Bogey Kristín Dagbjartsdóttir

1918-2014

Hraunbraut 22, Kópavogi

Útför (bálför) frá Kópavogskirkju föstudaginn 28. febrúar 2014 kl. 15

Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með okkur öllum.

Í hvaða samhengi lifum við Íslendingar? Hver er grundvöllur tilveru okkar, hvert er mark okkar og mið?

Ætla má að fyrstu menn sem stigu fæti á íslenska fold hafi verið kristnir munkar frá Írlandi. Í kjölfar þeirra komu norrænir og keltneskir menn, karlar og konur, sem í senn voru kristnir og ásatrúar. Segja má því að Ísland sé eina land veraldar þar sem kristin trú hefur verið til staðar allt frá komu fyrstu manna hingað. Ekkert annað land í heiminum á slíka sögu.

Kristinn trúararfur er eins og fljót sem streymt hefur í gengum menningu okkar í þúsund og ár og gott betur. Af þeirri elfi hafa margir bergt í aldanna rás. Bænir, sálmar og lofsöngvar, biblíutextar og helgisagnir voru fluttar á heimilum auk Íslendingasagna þegar fólk kom saman að loknum vinnudegi og naut menningar. Húslestrar voru útbreiddir og þannig lærði þjóðin það gildismat sem mótað hefur samfélag okkar allt til okkar daga.

Menningarfljótið mikla rann um bæinn í Hringsdal forðum daga og þar naut fólk hins hreina og tæra, lífgefandi vatns.

Bogey Kristín fæddist inn í hinn klassíska, kristna heim og naut alls hins góða sem trúararfurinn gefur þegar af honum er tekið í auðmýkt og lotningu fyrir hinum hæsta Guði, skapara alls sem er.

Árlega eru Passíusálmar lesnir í útvarpi og hefur svo verið í áratugi. Túlkun séra Hallgríms á trúnni, píslargöngu Krists og merkingu hennar fyrir daglegt líf okkar er einstakt listverk. Allir finna sjálfan sig sálmum skáldsins sem vann hug og hjörtu þjóðar sinnar eftir að hafa lifað við tortryggni, háð og spé, á sínum fyrstu árum í prestsskap. Engin bók hefur verð prentuð eins oft á Íslandi og Passíusálmarnir. Það er vegna þess að hver prentun, hvert upplag hvarf jöfnum höndum því bókin dýra var gjarnan lögð á brjóst látins ástvinar.

Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að drottins náð. (Pss 4.22)

Bogey fæddist í Hvestu í Ketildölum í Arnarfirði 1. október 1918. Það ár er skráð í annála og stendur uppúr fyrir margra hluta saki. Árið hófst með miklum frosthörkum. Katla gaus 12. október og viku síðar, 19. október, barst spænska veikin til landsins með skipum, sama dag og fullveldið var samþykkt, sem haldið var upp á 1. desember og er enn gert ár hvert. Bogey fæddist inn í ótryggan heim sem þó samdi um frið 11. nóvember. Öll öldin sem leið var þó mörkuð átökum víða um heim. Lífið er óvissuför.

Bogey var næst elst tólf barna Þórunnar Gíslu Bogadóttur frá Hringsdal sem er næsti dalur utan við Hvestu og Dagbjarts Elíassonar frá Uppsölum í Selárdal. Foreldrar Bogeyjar þekktust frá bernsku því þau ólust upp saman í Hringsdal. Dagbjartur kom þangað 10 ára eftir að faðir hans og elsti bróðir drukknuðu í mannskaðaveðri með bátnu Halli frá Selárdal 20. september 1900.

Hringsdalur er heillandi heimur. Bærinn hvílir undir háum hlíðum og hamrebeltum sem eru formfögur og tignarleg. Arnarfjörðurinn blasir við, gjöfull af gæðum og grimmur í senn. Á bakkanum, austanvert í dalsmynninu, fannst kuml árið 2006. Þar gæti landnámsmaðurinn sjálfur legið. Var Hringur lagður þar til hvílu í heiðnu kumli? Við vitum það ekki en í flæðarmálinu er Pétursvör sem vísar til postulans og kristinna áhrifa.

Heimili Þórunnar og Dagbjarts var menningarheimili þar sem handverk var í hávegum haft og án efa hefur jörðin og sjórinn gefið af sér dágóðan skilding því Þórunn sem var annáluð hannyrðakona fékk að fara í Kvennaskólann í Reykjavík og Dagbjartur lærði járnsmíði heima í Hringsdal. Kunnátta í handverki var trygging fyrir velgengni og þegar þéttbýli fór að myndast gafst þurrabúðarfólki þar sem þéttbýliskjarnar mynduðust tækifæri til að vinna fyrir kaupi, einkum eftir að vistarbandið var leyst með lögum undir lok 19. aldar.

Árið 1914 festi Dagbjartur kaup á bæ í Hvestudal og flutti þangað með móður sinni og móðursystur en þá voru þrjú heimili í dalnum. Það ár hófst fyrri heimsstyrjöldin á meginlandi Evrópu. Tveimur árum síðar gegnu þau í hjónaband, Þórunn og hann, og börnin urðu til eitt af öðru. Þau eru:

Lára sem er látin.

Bogey Kristín,

Halla, látin,

Guðrún Jóna, látin,

Guðmunda Jóhanna,

Kristín,

Elías Jón, látinn,

María,

Ragnhildur Hólmfríður, látin,

Þóra Rúna, látin,

Oddur Kristinn og

Gísli Einar.

Auk þess átti Dabjartur eina dóttur, Laufeyju, sem er látin.

Ætt Þórunnar má rekja í Hrappsey, sem var menningarstaður þar sem prentverk var unnið á 18. öld, en ætt Dagbjarts í Hergilsey þar sem Eggert Ólafsson bjó undir lok 18. aldar og í byrjun 19. aldar. Báðar eyjarnar eru í hinni miklu matarkistu, Breiðafirði, sem fóstrað hefur merkilegt mannlíf og menningu um aldir. Jarðgerð Hrappseyjar þykir sérstök fyrir að vera að hluta af bergtegundinni anorþósít, sem er svipað að gerð og tunglið.

Dagbjartur og Þórunn höfðu mótaðar skoðanir á mönnum og málefnum. Þau voru víðsýn og höfðu áhuga á sögu lands og þjóðar og velferð allra. Börnin voru örvuð til að lesa og hlusta á Íslendingasögurnar og annað gott í útvarpinu sem breytti öllu mannlífi með tilkomu sinni árið 1930.

Bogey átti gott bakland í ættum og erfðavísum. Hún var vel gerð manneskja, mótuð af menningu og sögu, verkviti og visku aldanna. Hún fór ung í húsmæðraskólann á Blönduósi en þá dró ský fyrir sólu. Móðir hennar veiktist og hafði verið send suður á Landsspítalann til meðferðar vegna magakrabba en vildi heim til að deyja.

Árið 1942 seldi fjölskyldan Hvestu og flutti á Bíldudal. Þar leigðu þau jörðina Litlu-Eyri en keyptu síðar húsið Sæbakka. Þar dó Þórunn 5. mars 1944, 50 ára að aldri og er hún jarðsett á Bíldudal.

Þá voru 5 barnanna heima. Bogga yfirgaf námið 1943 og hélt vestur til að annast heimilið. Hún var þá 25 ára. Það ár urðu Bílddælingar fyrir miklum áföllum. Þormóðsslysið, sem svo er nefnt, var sjóslys sem átti sér stað 17. febrúar 1943. Daginn áður hafði vélskipið Þormóður frá Bíldudal lagt upp frá Patreksfirði með sjö manna áhöfn og 24 farþega og stefndi til Reykjavíkur. Aðfaranótt 17. febrúar lenti skipið á svonefndri Garðskagaflös, löngu skeri sem liggur út af Garðskaga og fórst ásamt öllum um borð.

Lífið er og verður óvissuför.

Árið 1945 flutti Dabjartur með börn sín til Reykjavíkur og byggði þar myndarlegt hús að Skipasundi 66.

Bogga var æðrulaus og hógvær kona. Yfir henni var rósemd og öryggi en orðið æðruleysi merkir óttaleysi og er eftirsóknarveður eiginleiki á hvaða öld sem er.

Systkini hennar eiga henni þökk að gjalda fyrir umhyggju og fórnfýsi. Hún var þeim kær alla tíð og vinátta djúp með systkininum.

Bogga var hógvær, hljóðlát og prúð og tranaði sér ekki fram. Hún var jákvæð í afstöðu sinni til samferðafólksins og talaði vel um náungann. Hún var trúuð kona sem nærði sitt innra líf með lestri úr Biblíunni, sálmum og öðrum góðum ritum og svo hlýddi hún jafnan á messur í útvarpinu og lestur Passíusálma séra Hallgríms á föstunni.

Hún var glæsileg kona, fríð og fögur, yst sem innst.

Hún kynntist lífsförunauti sínum, Sigurði  Sigurðssyni, vélstjóra úr Vestmannaeyjum er hann leigði hjá systur Boggu í Sörlaskjóli 9 og ástin vitjaði þeirra beggja. Þau eignuðust tvö börn: Sigurð Kristin og Margréti Guðlaugu. Sigurður er kvæntur Erlu Möller. Börn þeirra eru: Óttarr Þór, Arnþrúður Dögg og Sigurður Krisinn. Sambýlismaður Margrétar er Þórir Steingrímsson og eiga þau soninn Sigurð.

Bogey og Sigurður byrjuðu sinn búskap í Skipasundi en byggðu sér síðar hús að Kambsvegi 10. Handtökin voru mörg og Sigurður löngum fjarri vegna sjómennsku sinnar en Bogey lét ekki sitt eftir liggja og tók til hendi og gekk í öll verk í byggingarvinnunni. Hún var dugleg kona og þrautseig. Þau áttu góða daga í hverfinu við Sundin blá sem nýtur skjóls af Esjunni. Þar var gott að ala upp börnin í barnmörgu hverfi með stórum skólum og kirkju sem þá var í byggingu og landsþekktir klerkar þjónuðu. Bogga vann utan heimilis árum saman og lengi í Fönn en áður en hún gifti sig vann hún um tíma á Hvítabandinu. Hún var fyrirmyndar húsmóðir. Matseld og húshald allt bar þess vott að þar fór fagurkeri og listræn manneskja höndum um allt. Hún var heimakær og ræktaði sambandið við systkini sín og fjölskyldur þeirra. Hún var náttúruunnandi sem hreifst af hvers kyns gróðri og skógi. Hún var mikil hannyrðakona sem saumaði margt um dagana og myndirnar hennar útsaumuðu og stólarnir bera vandvirkni hennar fagurt vitni. Hvert spor var vandað og hver þráður valinn af kostgæfni. Myndirnar bera lífi hennar vott í fegurð og friðsæld og munu áfram prýða heimili barna hennar.

Bogey og Sigurður fluttu í Espigerði á efri árum og þar dó Sigurður. Bogey var um tíma á Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir 16 árum en útskrifaði sig sjálf þaðan – þó ekki alveg eins og parið í kvikmyndinni Börn náttúrunnar! – og flutti inn á heimili Margrétar og Þóris. Þar hafði hún sitt herbergi og naut daganna. Þau byggðu við húsið fagra íbúð með bogadregnum glugga og útsýni yfir Fossvoginn, Nauthólsvíkina og vestur á Nes, algjöra maddömu svítu. Þar leið henni vel og naut einstakrar umhyggu Margrétar, Þóris og Sigurðar sonar þeirra. Hundurinn litli á heimilinu, Konstantín, var Boggu kær og hann henni. Hann lá oft á gólfinu í kyrrðinni í herberginu hennar. Eftir að hún dó hefur hann farið reglulega að dyrum herbergisins og krafsað í hurðina. Bogey naut heimahjúrkunar sem þakkað er fyrir.

Þær mæðgur, Bogey og Margrét, voru einkar nánar. Þær voru í senn vinkonur og sálufélagar. Sigurður bróðir Margrétar er henni og Þóri afar þakklátur fyrir þeirra elskusemi og alúð við móður þeirra systkina, árin sem hún bjó hjá þeim. Guð launi það allt.

Horfin er kona sem lifði tímana tvenna, ólst upp í fögrum dal undir hamrastáli. Hún lifði kreppuna, heimsstyrjöldina síðari, tæknibyltingar af ýmsu tagi, lífið í sveit og borg, sviptingar í stjórnmálum og alþjóðamálum. En lífið heima gekk sinn vana gang. Hún tók því hverju sinni sem að höndum bar, var iðin og fús til allra verka og axlaði byrðar lífsins af æðurleysi, yfirvegun og trúmennsku.

Hennar verður lengi saknað og minnst fyrir allt það góða sem í henni bjó.

Við kveðjum Bogeyju Kristínu með djúpri virðingu og þökk. Megi hún hvíla í friði í því samhengi sem hún vænti samkvæmt þeirri trú sem hún drakk í sig forðum daga þegar fjölskyldan kom saman á síðkvöldum og bergði af lind lífsins vatns. Nú er hún komin heim. Hringnum er lokað og hinn eilífi Hringsdalur blasir við.

„Og borgin þarf hvorki sólar við né tungls til að lýsa sér því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.“ (Op 21.23)

Lífið er óvissuferð en við erum aldrei ein. Sú von og trú birtist í bæn einsetumanns úr Arnarfirði, sem bjó á fæðingarbæ Dagjbarts föður Bogeyjar, með þessum orðum:

Þegar raunir þjaka mig,

þróttur andans dvínar,

þegar ég á aðeins þig,

einn með sorgir mínar,

gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi Drottinn lýstu mér

svo lífsins veg ég finni.

(Gísli á Uppsölum)

Spurt var í upphafi þessarar minningarorða:

Í hvaða samhengi lifum við Íslendingar? Hver er grundvöllur tilveru okkar, hvert er mark okkar og mið?

Við erum enn á lífsveginum og þurfum að rata heim. Til þess þurfum við handleiðslu hans sem sjálfur sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Svoddan aðgættu, sála mín,

sonur Guðs hrópar nú til þín

hvað þér til frelsis þéna kann.

Það er fullkomnað, segir hann.

Fullkomnað lögmál fyrir þig er,

fullkomnað gjald til lausnar þér,

fullkomnað allt hvað fyrir var spáð,

fullkomna skaltu eignast náð.

Herra Jesú, ég þakka þér,

þvílíka huggun gafstu mér.

Ófullkomleika allan minn

umbætti guðdómskraftur þinn.

Hjálpa þú mér svo hjartað mitt

hugsi jafnan um dæmið þitt

og haldist hér í heimi nú

við hreina samvisku og rétta trú.

Upp á þessi þín orðin traust

óhræddur dey ég kvíðalaust,

því sú frelsis fullkomnan þín

forlíkað hefur brotin mín.

(Pss 43.14-18)

Guð gefi okkur náð til þess að eiga samleið með honum sem hér er lýst í lífinu og þegar dauðinn vitjar okkar.

Hér kveður þakklátur hópur mæta konu. Guð gefi að við verðum einnig kvödd af þakklátu fólki í fyllingu tímans.

Blessuð sé minning Bogeyjar Kristínar Dagbjartsdóttur og Guð blessi þig. Amen.

Bálför – ekki hefðbundin líkfylgd.

Erfi að Hraunbraut 22.

Ræðan birt á vefnum.

Takið postullegri kveðju: Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Ritningartextar.

Sálmur 121

Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.

Matteus 5.1-10-13-16

Fjallræðan

1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.

[. . . ]

Salt og ljós

13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Sálmaskrá Bogey Kristín Dagbjartsdóttir

About ornbardur

Sóknarprestur, fv. fulltrúi í Stjórnlagaráði. Parish Minister Church of Iceland (Lutheran), former member of the Constitutive Council of Iceland. Now serving within The Church of Norway.
This entry was posted in Líkræður. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s