Örn Bárður Jónsson
„Af heitum dreyra“
Prédikun í Neskirkju
27. október 2013 kl. 11
sem er 22. sd. e. trin, dánardagur sr. Hallgríms og einnig til minningar um siðbótina 31. okt.
Ræðuna geturðu lesið og hlýtt á hér fyrir neðan.
Friður Guðs sé með okkur.
Daglega lesum við í fjölmiðlum um glæpi, heyrum um þá í útvarpi og sjáum myndir af margvíslegu misferli á skjánum. Menn eru leiddir fyrir rétt og dæmdir, sumir sýknir saka, aðrir til sektar, skilorðs eða fangavistar. Margt er að í þjóðfélagi okkar. Rétti er víða hallað og farið er illa með fólk, ekki bara af glæpamönnum, heldur líka af kerfinu svokallaða. Við erum hvött til þess að leita hins góða en ekki hins illa í daglegu lífi og finna hamingjuna með þeim hætti. Sagt er að Guð sé með þeim sem þannig fara um lífsveginn á vondri tíð.
Þetta er dapurlegur inngangur að ræðu, skal ég játa, en hann er þó fátt annað en umorðun á lexíu dagsins sem lesin var fyrr í messunni og er úr spádómsbók Amosar sem er meðal merkilegri rita GT. Amos var spámaður í anda GT en slíkir menn voru í raun einskonar stjórnarandstaða síns tíma, þjóðfélagsrýnar og sverð réttlætisins gagnvart valdinu. Amos var uppi á 8. öld f.Kr. orð hans því mælt fyrir tæpum þrjúþúsund árum.
Kennimaður ritaði skýringar við bók Amosar spámanns og sagði m.a. í formála sínum:
„Skýringarnar eru einnig ætlaðar mörgum öðrum en guðfræðingun – öllum þeim yfirleitt, sem vilja brjóta rit þetta til mergjar og leita lífsspeki og trúarsanninda í Gamla testamentinu. Hugsanir Amosar og spádómar eiga vissulega enn erindi til vorra tíma. Vandamálin, sem hann er að fást við, eru einnig vandamál vor. Rödd hans þarf að heyrast einmitt nú: Það er ekki nóg, að trú vor sé aðeins til skrauts og hátíðarbrigða; hún þarf að gegnsýra allt líf vort, bæði einkalíf og félagslíf. Réttlæti verður að ríkja í þjóðmálunum, góðgirni og bróðurhugur. Nái trúin ekki yfir á svið þeirra með þeim hætti, þá er hún fals og blekking og hræsni. Sú verður ein lækning meinanna á þessari ógnaröld og öllum öldum, að trúin á Guð réttlætisins og hins góða nái að ummynda allt samlíf einstaklinga og þjóða í milli. Og þá fyrst mun marki náð, er allt mannkynið lifir eins og ein ætt, þar sem ekkert er olnbogabarnið. Hróp Amosar af heitum dreyra á jöfnuð og bræðralag á að vera oss boðskapur frá Guði um það, að láta allt misrétti hverfa með einstaklingum, stéttum og þjóðum og kærleikann skipta lífsgæðunum. Er þá rit hans vel lesið og vel skilið, ef það verður oss hverjum um sig og þjóðinni allri brýning til þess, „að láta réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk“. Með þeirri ósk læt ég þessar skýringar frá mér fara.
Reykjavík, í september 1942.
Ásmundur Guðmundson.“
Hver var Ásmundur, spyr unga fólkið líklega? Hann var biskup Íslands og kenndi við Guðfræðideild HÍ fyrir sinn biskupsdóm, var sagður umdeildur guðfræðingur en náði að sameina prestastéttina með gæsku sinni og góðum hug.
[Innskot um gamansöm orð séra Árna Þórarinssonar, um frænda sinn, Ásmund!]
Merkilegt hvað mannlífið hefur í raun lítið breyst á þrjú þúsund árum og jafnvel fimm eða tíu þúsund árum. Við þurfum væntanlega að fara hundruð þúsundir ára aftur í þróunarsögunni til að sjá manninn í annarri mynd en við þekkjum hann nú.
Þjóðfélagið er enn í mótun og stéttabaráttan enn við lýði. Fólk sækir rétt sinn og nýir málaflokkar koma upp á sjónarsviðið. Við erum farin að skyggnast meir og meir undir yfirborð óréttar og nýir hópar verða til og krefjast virðingar og lausnar frá einelti og fordómum.
Lífið er mótsagnarkennt og öfugsnúið oft á tíðum. Órétturinn er er til staðar og við erum samdauna óréttinum og samsek ef við gerum ekkert til að vinna gegn órétti í okkar samfélagi.
Deilur verða á milli manna. Ósætti skapast vegna mismunandi meininga. Hvernig á að taka á slíku? Eiga menn bara að þegja og vera þægir?
Jesús setur fram sáttaleið í guðspjalli dagsins. Nú á dögum er til lærdómsleið í sáttamiðlun sem bæði prestar, lögfræðingar og ýmsir aðrir fara í háskólum. Það er vel. Jesús setti fram tiltekinn strúktúr eða ferli í sáttamiðlun. Ef einhver syndgar gegn þér, þ.e.a.s. ofbýður þér á einn eða annan hátt skaltu ræða við hann einslega. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast skaltu taka með þér vitni og ræða við hann aftur. Þverskallist hann eftir það stig skaltu tala um ávirðingar hans á opinberum vettvangi og láti hann þau orð sem vind um eyru sér þjóta skaltu líta á hann sem tollheimtumann eða heiðingja, hann er þér þá sem hver annar ómerkingur. Hér er auðvitað átt við skoðanir en ekki manneskjuna sem slíka sé Ritningin lesin í samhengi. Þetta eru alvarleg orð og hér er ekki lagt til að maður taki svikum einstaklinga eða hópa á léttvægan hátt og kæruleysislegan. Nei, öðru nær. Hér er talað fyrir einurð og festu í samskiptum. Kristinn dómur er ekki aumingjaháttur og undanlátsemi eða meðvirkni.
Í liðinni viku hlýddi ég á erkibiskups boðskap og líkaði vel, öndvert við Jón Loftsson, Oddaverja, forðum daga.
Erkibiskupinn af Kantaraborg var hér á ferð en hann telst vera í vestrænni kristni næsti maður á eftir sjálfum páfanum. Hann er einkar hógvær maður með breiða reynslu. Hann er menntaður til starfa í fjármálageiranum og starfaði þar um árabil. Eftir að hafa endurnýjast í trú sinni í gengum svonefnda Náðargjafavakningu hóf hann guðfræðinám og vígðist til prests, varð svo biskup í Durham í eitt ár og hefur nýverið tekið við embætti erkibiskups af Kantaraborg sem er æðstur u.þ.b. 80 milljóna kristinna manna í heiminum. Hér á landi voru fáir sem áttuðu sig á hver þarna var á ferð og misstu því af kjarnyrtri ræðu hans sem að mestu snerist um þjóðfélagslegt réttlæti. Hann varaði kirkjuna við að verða bragðdauf og lagði ríka áherslu á að hún talaði ekki aðeins um þjóðfélagslegt réttlæti heldur láti til sín taka með beinum hætti, með mótmælum og aðgerðum til aðhalds valdi og misbeitingu valdhafa. Hann sagði að kirkjan ætti ekki að vera eins og Rotary-klúbbur með turnspíru. Hann sagðist að sjálfögðu ekkert hafa á móti Rotary eða öðrum góðum félagsskap en kirkjan væri ekki og ætti ekki að vera aðeins klúbbhús góðgerðarfélags með turni og krosstákni.
Já, heyrt hef ég erkibiskups boðskap og ráðinn er ég í að halda hann að öllu.
Við höfum verk að vinna og orð postulans í pistli dagsins eru þörf áminning í ölduróti daganna:
„Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk. Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.“
Ef við drögum saman lærdóm af ritningarlestrum dagsins eigum við að vera einörð og ákveðin en starfa samt í kærleika, elsku sem þorir og vogar, elsku sem slær ekki af í baráttu sinni fyrir réttlæti. Trúin á Guð á ekki að vera útþynnt, ekki upphafin helgislepja, heldur einörð afstaða til réttlætisins.
Þann 31. október n.k. verður hinn árlegi siðbótardagur haldinn hátíðlegar meðal mótmælendakirkna. Einarðrar baráttu Marteins Lúthers er minnst, hugrekkist hans og þreks við að standa á rétti sínum sem kaþólskur prestur og hálærður maður í guðfræði, standa gegn valdi eigin kirkju. Hann ögraði því valdi sem enginn þorði að ögra um aldir, spilltu valdi og lokuðu í eigin hugarheimi og vellystingum. Honum var gert að yfirgefa kaþólsku kirkjuna sem ekki vildi láta sér segjast.
Siðbótin markaði upphaf nútímans á margan hátt. Hún lagði grunninn að nýjum tímum í trúmálum, menntun, vísindum, tónlist og fleiri sviðum. Lúther og siðbótarmennirnir voru kallaði protestantar, mótmælendur og Þjóðkirkjan býr að þeim arfi og er þ.a.l. mótmælendakirkja. En stendur hún undir nafni sem slík? Stundum, stundum ekki.
Í dag er einnig minnst annars manns sem er risi í okkar íslensku kristni og það er séra Hallgrímur Pétursson. Í dag er dánardagur hans en hann fæddist 1614 og lést 27. október 1674, sextugur að aldri. Hann orti margt bæði veraldlegt og andlegt m.a. þetta um dauðastríð sitt sem hann vænti að yrði ekki langvarandi. Sú var von fólks forðum þegar engin deyfilyf voru til nema brennivínið eitt og læknisfræði skemmra á veg komin en í dag.
Hafðu, Jesú, mig í minni,
mæðu og dauðans hrelling stytt.
Börn mín hjá þér forsjón finni,
frá þeim öllum vanda hritt.
Láttu standa á lífsbók þinni
líka þeirra nafn sem mitt.
(Ps 30.14)
Séra Hallgrímur var lífsreyndur maður sem mátti þola margt af samtíð sinni, órétt og háð, en á efri árum, sem betur fer, virðingu og þökk, í það minnsta sumra.. Orð hans um lífið og það að lifa, um hegðun hinna háu og það sem hin lágu máttu þola, bíta enn. Hann varaði hina lágu einnig við klækjum sálarlífsins og syndinni. Í þeim efnum boðaði hann samfyld hins þjáða Krists sem allt skilur og þekkir. Hann er lausnarinn eini og sanni sem gengur með okkur í gegnum lífið í öllum sínum litbrigðum og að lokum í gegnum dauðans dimma dal. Passíusálmarnir eru meistaraverk sem enn lifir og vers úr sálmi hans, sem oftast er prentaður með Passíusálmunum, Um dauðans óvissan tíma, eru enn sunginn yfir moldum flestra Íslendinga, Allt eins og blómstrið eina og Ég lifi í Jesú nafni.
Kristur tók sér ætíð stöðu með fólki sem var í erfiðum aðstæðum og talaði gegn spilltu valdi og hroka. Lúther gerði það sama. Séra Hallgrímur þekkti bæði fátækt og betri kjör, að vera þjónn og valdsmaður. Hann orti margt um mannlegt sálarlíf, bæði hárra og lágra. Hann varar bæði háa og lága við og minnir á að fyrir hinsta dómi eru allir jafnir og enginn munur á höfðingja og þjóni:
Minnstu að myrkra maktin þverr,
þá myrkur dauðans skalt kanna.
Í ystu myrkrum og enginn sér
aðgreining höfðingjanna.
(Ps 8.20)
Skáldið hvetur til þess að við gefum dramblátum andsvar en byggjum það á rökum:
Álitið stórt og höfðingshátt
hræðast skyldir þú ekki.
Sannleiksins gæta ætíð átt,
engin kjassmál þig blekki.
Ærugirnd ljót,
hofmóðug hót,
hlýðir síst yfirmönnum.
Dramblátum þar
þú gef andsvar,
þó byggt á rökum sönnum.
(Ps 18.5)
Guð er réttlæti og hann uppfyllir allt réttlæti í Jesú Kristi. Köllun okkar er að standa með réttinum. Við eigum allt undir Guði í þessu lífi og við tilbiðjum hann hvað best með því að sækjast eftir réttlæti fyrir náunga okkar og þar með fyrir okkur sjálf og veröld alla.
Guð hefur ekki brugðist trausti þeirra er á hann trúa. Hann fylgir okkur sem einstaklingum og þjóð á vegi réttlætis og elsku. Göngum glöð til verka með honum.
Dýrð . . .
– – –
Textar dagsins sem prédikað var út frá.
Very nice post. I simply stumbled upon your blog and wished
to mention that I have really loved browsing
your blog posts. After all I will be subscribing for your feed and I’m hoping you write once more soon!