Eiríkur Ragnarsson 1945-2013

eirikurragnarssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Eiríkur Guðjón Ragnarsson

félagsráðgjafi

1945-2013

Útför (bálför) frá Neskirkju

þriðjudaginn 8. október 2013 kl. 11

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hana.

 

Friður Guð sé með okkur.

Í hugvekjubók sem Eiríkur átti og hafði á náttborði sínu stendur þetta skrifað á dánardegi hans, 3. október:

„Við getum ekki gefið öðrum það sem við höfum ekki. En hvað getum við gefið? Það sem hver og einn deilir með öðrum er hann sjálfur. Það sem við gefum erum við sjálf. Við gerum það með því að deila reynslu okkar, styrk og von. Hvort sem um er að ræða persónulega tjáningu eða félagslega, þá tölum við, tjáum kraftaverkin sem prógrammið okkar getur áorkað.

En þetta prógramm virkar aðeins í gegnum Æðri mátt, og aðeins fyrir Æðri mátt okkar getum við notið gleðinnar af því að miðla öðrum. Deili ég sjálfum mér heilshugar með félögum mínum?“

Svo kemur bæn í lokin:

„Drottinn, kom og sigra hina fjandsamlegu krafta í mér svo að ég megi færa öðrum þína dýrð.“ (Day by Day, Hazelden, 1974, s. 3. okt)

Lífið er glíma og stóra spurningin er: Hver er ég? Við hljótum að spyrja okkur þessarar spurningar oft og mörgum sinnum á lífsleiðinni. Hver er ég? Eitt svarið er: Ég er margir menn. Og af hverju er ég margir menn? Jú, vegna þess að ég tek stöðugum breytingum. Ég er ekki statískur, staðnaður, heldur sífelld verðandi. Og svo er það hitt að við höfum öll margar hliðar sem snúa að fólki með mismunandi hætti. Og loks er það hið innsta sem enginn þekkir nema kannski við sjálf að huta til og svo almættið sjálft sem allt sér og skilur. Við birtum okkur öðrum annars vegar meðvitað með tjáningu í orðum og gjörðum og hins vegar ómeðvitað á margan og mismunandi hátt.

Til er svonenfdur JOHARI-gluggi sem skiptir tjáningunni í fjögur svið: Opið, Hulið, Blint og Óþekkt. (Sjá mynd neðanmáls)

Hver er ég? Hvað sjá aðrir? Hvað sér Guð?

Eiríkur glímdi við sjálfan sig. Það gera allir. En glímutökin voru á köflum býsna töff í hans lífi.

Hann var vel gerður maður. Börnin hans minnast hans með mikilli þökk fyrir það hvað hann var þeim góður faðir og vildi þeim vel, var hvetjandi og uppörvandi. Þau muna stundirnar þegar hann sat hjá þeim á rúmstokknum og bað með þeim, talaði við þau um lífið. Hann hvatti þau ætíð til að vera sjálfstæð og sterk. Eiríkur var góðum gáfum gæddur og lífsreynsla hans, bæði létt og erfið, vann með honum í starfi sem félagsráðgjafi á sviði fíknar og á hvaða svið sem var. Þið munið bænina úr hugvekjubókinni:

„Drottinn, kom og sigra hina fjandsamlegu krafta í mér svo að ég megi færa öðrum þína dýrð.“

Við þráum öll að vera heil og finna hamingjuna í lífinu. Sú þrá og leit hefur fylgt mannkyni frá örófi alda. Sagan af Adam og Evu í aldingarðinum Eden er táknsaga um alla menn, karla og konur, fólk á öllum tímum. Við erum Adam og Eva. Við glímum við lífið og streðum við að lifa því á merkingarbæran hátt – en engu okkar tekst það fullkomlega. Við þráum að frelsast frá hinum neikvæðu hliðum þessa lífs en getum það ekki ein. En við getum það með Guði í Kristi sem sigraði og opnaði okkur leið út úr ríki myrkurs og inn í ljóssins heim. Lærisveinar Jesú spurðu hann eitt sinn:

„Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

Í þessari trú kveðjum við látinn ástvin, Eirík Guðjón Ragnarsson og felum hann Guði og elsku hans

Hann fæddist á Ísafirði 24. maí 1945. Foreldrar hans voru Laufey Maríasdóttir, fædd á Ísafirði 1914 – d. 2006 og Ragnar Ásgeirsson, héraðslæknir, f. 1911 – d. 1981.

Systkini Eiríks eru Alfreð Georg Alfreðsson   f. 05.07.1933 d. 18.07.1990, Ragnheiður Ása Ragnarsdóttir  f. 08.02.1938 d. xxxx, María Ragnarsdóttir f. 03.05.1943 og Þórir Sturla Ragnarsson f. 18.07.1952

Eiginkona Eiríks var Fríða Regína Höskuldsdóttir f. 09.03.1949 á Akureyri. Þau slitu samvistir árið 1994.

Þeirra börn eru:

Ragnar Gunnar Eiríksson f. 12.06.1967 og hans börn eru Steinn Jóhann Ragnarsson f. 11.07.1998 með Önnu Guðnýju Laxdal, William Þór Ragnarsson f. 03.11.2004, Nóel Freyr Ragnarsson f. 10.08.2006 og Klara Sjöfn Ragnarsdóttir f. 18.02.2011 með Evu Sæland.

Steinn Jóhann Eiríksson f. 01.08.1974 d. 28.10.1974

Hulda Birna Eiríksdóttir f. 12.10.1975,  maki Guðjón Leifur Gunnarsson f. 28.06.1973 og þeirra börn eru Linda Regína Guðjónsdóttir f. 12.08.2001, Atli Björn Guðjónsson f. 16.05.2005, Laufey María Guðjónsdóttir f. 12.02.2007, Dagur Þór Guðjónsson f. 02.11.2008

Ragnheiður Eiríksdóttir f. 23.09.1978, maki Hallgrímur Óskarsson f. 14.05.1967 og þeirra börn eru Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir f. 01.05.2002, Hrafnhildur Birna Hallgrímsdóttir f. 29.04.2004 og Jóhannes Ragnar Hallgrímsson f. 20.03.2009.

Höskuldur Eiríksson f. 05.05.1981, maki Freyja Jónsdóttir f. 30.01.1980 og þeirra börn eru Ragnheiður Vala Höskuldsdóttir f.11.03.2005, Hildur Eva Höskuldsdóttir f. 28.02.2007 og Jóel Höskuldsson f. 17.12.2009.

Alfreð Jóhann Eiríksson f.07.07.1993.

Núverandi sambýliskona Eiríks er Erla Björg Sigurðardóttir, félagsráðgjafi MA, f. 01.01.1959 og hennar synir eru Daníel Þór Harðarsson f.20.03.1974 og Guðfinnur Ýmir Harðarsson f.29.01.1988.

Eiríkur ólst upp á Ísafirði og gekk í skóla þar uns hann fór í Samvinnuskólann og lauk þaðan prófi. Hann vann skrifstofustörf og lærði síðan félagsráðgjöf og kom víða við sem slíkur, bætti við sig menntun og reynslu og efldist á margan hátt.

Ungur varð hann fyrir slysi og brenndist. Ætla má að það óhapp hafi ekki aðeins sett mark á líkama hans heldur einnig sál. Ég man hann sem dreng á Ísafirði. Hann er 4 árum eldri en ég. Þessi hái og spengilegi strákur með brunaörið gekk reglulega fram hjá heimili mínu á leið sinni í og úr skóla. Mér þótti þá vera yfir honum einhver dulúð en brosið hans var hlýtt og fallegt og augun fríð.

Börn Eiríks tala um hvað hann var þeim hollur ráðgjafi og trúnaðarvinur. Hann gaf þeim jafnan forgang og þau máttu hringja í hann hvenær sem var – líka þegar hann var á fundum. Hann svaraði og gaf þeim tíma. Þeim þótti gott að tala við hann. Hann var þeim góður hlustandi. Hann hélt ætíð í barnið í sjálfum sér og naut þess að leika með börnunum og skreið þá um gólf með þeim. Hann hafði gaman af að gantast við þau. Þau minnast þess þegar hann las fyrir þau svonenfdar Elíasar-bækur og hló mest sjálfur þannig að rúmið hristist og skalf.

Eiríkur fór í meðferð oftar en einu sinni og svo var hann líka mörgum til stuðnings og hjálpar í þeim efnum og miðlaði af reynslu sinni. Han fór margar ferðir til BNA með fólk í meðferð og vann í meðferðargeiranum hér heima um árabil.

Hann hafði yndi af tónlist og lögin sem leikin eru hér í dag voru honum hjartfólgin. Lennon var í uppáhaldi enda maður mikilla andstæðna sem glímdi við lífið og lét sig dreyma um betri tíð í laginu Imagine. Þar boðar hann von á líkan hátt og kristin trú gerir. Vonin um betri heim er drifkraftur í lífi allra manna, vonin um ríki Guðs og himininn hans er æðsta von sem hægt er að hugsa sér.

[Innskot um Imagine er að finna á hljóðupptökunni].

Í lífinu skiptir miklu máli að vera heiðarlegur og sannur, sýna það sem Billy Joel söng svo fagurlega um: Honesty. Og svo er það boðskapur Bítlanna um ástina sem skiptir öllu og er allt sem við þörfnumst, All You Need Is Love. Eitt lag Bítlanna sem heitir, The End, endar á þessu spakmæli McCartneys: „The love you take is equal to the love you make.“ Þetta rímar við það sem ég kalla hagfræði himinsins sem gefur þeim stærstan arð sem mestan kærleika gefa.

Erla er í doktorsnámi í félagsráðgjöf í Þrándheimi og reyndist Eiríkur henni að hennar sögn hinn besti ráðgjafi í náminu, las yfir ritgerðir, ræddi úrlausnarmál, var krítískur á uppbyggjandi hátt og áhugasamur um framgang verkefnisins. Hún sagði við mig: „Maður gefst ekki upp ef maður hefur Eirík sér við hlið.“ Þau göntuðust með það að hann væri „assisterende doktorand“.

Erla og Eiríkur voru í félaginu SÁTT og menntuðu sig bæði í sáttamiðlun. Innanríkisráðuneytið hélt t.a.m. námskeið fyrir sýslumenn landsins um sáttamiðlun og þar kenndi Eiríkur og einnig víðar. Hann var góður í sáttamiðlun. Mannkostir hans nýttust vel á þeim vettvangi.

Þau áttu saman sumarhús í landi Spóastaða í Biskupsstungum sem heitir Esjulundur en Eiríkur nefndi gjarnan Erlulund.

Erla talaði um að henni hefði þótt hann rækta vel börnin sín með samtölum og samverustundum.

Eiríkur hafði lært mikið í mannlegum samskiptum í AA-samtökunum sem hann bar ætíð mikla virðingu fyrir. Þar deilir fólk reynslu sinni, styrk og vonum og leggur í púkkið til eflingar og frelsunar úr viðjum fíknar.

Og nú er þessu lokið hjá honum. Börnin spjalla ekki lengur við hann og leita ráða. Leitandi fólk í lífsglímu nýtur ekki lengur hlustandi og næmra eyrna hans og hollráða.

Jarðlífið er að baki. Glíman búin. Hann varð fyrir því að fá hjartastopp. Erla og svo sjúkraflutningamenn veittu honum fyrstu hjálp. En skaðinn varð því miður of stór og hann var í viku á sjúkrahúsi án þess að unnt væri að koma honum aftur til meðvitundar.

Í hugvekjubókinni hans er miði með rithönd Laufeyjar móður hans. Hann geymdi þennan miða. Á honum er upphafsvers ferðabænar séra Hallgríms Péturssonar:

Ég byrja reisu mín,
Jesús, í nafni þín,
höndin þín helg mig leiði,
úr hættu allri greiði.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru engla liði.

Og í hugvekjunni sem ég las í upphafi segir:

„Það sem við gefum erum við sjálf. Við gerum það með því að deila reynslu okkar, styrk og von.“

Eiríkur deildi með samferðafólki sínu reynslu, styrk og von – en líka vanmætti og ósigrum. Þannig er það nú með okkur öll. Við náum þessu aldrei alveg fremur en tákngervingar okkar, Adam og Eva, sem voru send til að vinna í sveita síns andlitis og neyta brauðs síns þar til þau hurfu aftur til jarðarinnar sem var uppruni þeirra. (1. Mós 3.19) „Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa“, segir á fyrstu síðum hinnar helgu bókar sem geymir merkustu táknsögur heimsins og grundvöll þeirrar hugmyndafræði sem mótað hefur menningu okkar heimshluta um aldir og árþúsund.

„Ég byrja reisu mín, Jesús, í nafni þín“, sagði séra Hallgrímur. Hin kristna vegferð hófst í heilagri skírn við munstrun á hið mikla skip sem kristnin er. Með sigurtákni krossins á enni og brjósti erum við send út á djúpið og þaðan inn í himininn. Á þeirri leið er Jesús um borð, góður andi hans er með okkur, elska hans og umburðarlyndi, fordómaleysi og friður.

Jesús mér fylgi í friði
með fögru engla liði.

Guð blessi minningu Eiríks Guðjóns Ragnarssonar og fylgi honum nú sem fyrr.

Guð blessi ykkur, ástvini hans. Megi góðvild og gæska Guðs fylgja ykkur á lífsveginum.

Amen.

Bálför, ekki hefðbundin líkfylgd. Jarðsett verður í Sóllandi.

Erfi í Safnaðarheimili Neskirkju.

Ræðan birt á ornbardur.com

Ég flyt ykkur sétstakar kveðjur:

kæra kveðju Auðar Gunnarsdóttur á Húsavík, fv. svilkonu Eiríks, sem þótti hann yndislegur og hlýr maður, góður vinur, sem henni þótti vænt um;

og frá systrum Erlu, Bryndísi og Lilju, sem eru staddar í Edinborg.

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.

– – –

Ritningarlestrar við athöfnina:

I. Korintubréf 13. kafli

Jóhannes 14.1-6

Johari-glugginn.

2 athugasemdir við “Eiríkur Ragnarsson 1945-2013

  1. Mér þótti afskaplega vænt um að rifja upp frábæra ræðu Arnar nú þegar um ár er liðið síðan pabbi féll frá. Þetta var yndisleg athöfn í alla staði og ég var algerlega dolfallinn af þakklæti fyrir alla sem komu og vottuðu virðingu sína. Listafólkið var dásamlegt og rosalega voru frænkur mínar sætar þegar þær sungu fyrir afa sinn. Ég mun eiga þessa notalegu stund aftur í huganum þegar ég heimsæki pabba.

  2. Ég kynntist Eiríki svolitið þegar hann kenndi hér við grunnskólann. Blessuð sé minning hans. Ræðan er framúrskarandi.

Færðu inn athugasemd við Kristinn Jens Sigurþórsson Hætta við svar

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.